Sarpur fyrir nóvember, 2021

Við bókuðum okkur með góðum hóp fyrir nokkru á villibráðarhlaðborð hjá Silla kokk, sem átti að vera í gær.

En í ljósi þess að faraldurinn var kominn á flug var þetta slegið af en okkur boðið að sækja matinn. Það hentaði reyndar ekki öllum en við þáðum að sækja matinn og nokkrir gesta komu til okkar Iðunnar – ekki margir, öll bólusett, allir í sýnatöku og allir fóru varlega.

Fyrir það fyrsta, þvílíkur matur! Ég greip fyrsta forréttinn og hugsaði með mér, alltaf jafn heppinn, byrja á besta réttinum. En þeir sem á eftir komu voru einfaldlega hver öðrum betri. Fyrsta flokks hráefni, hugmyndarík matreiðsla og framsetningin til fyrirmyndar. Ég er enn, daginn eftir, að „kjamsa“ á sumum réttunum í huganum. Eini gallinn kannski við vorum ekki alltaf klár á hvað var hvað.. en skipti svo sem ekki öllu – matur getur, alveg eins og landslag [hvað svo sem skáldið sagði á sínum tíma] verið mikils virði þó nafnið sé ekki á hreinu.

En ekki síst vil ég þakka Silla og hans fólki fyrir að bregðast við af ábyrgð og finna lausn. Við stýrum ekki alltaf aðstæðum en við stýrum því hvernig við bregðumst við.