Sarpur fyrir ágúst, 2019

Eru staðreyndir öfgar?

Posted: ágúst 27, 2019 in Umræða

Ég átti ágætis spjall við vin minn nýlega þar sem við fórum um víðan völl. Einhverra hluta vegna staðnæmdumst við umræður núverandi forseta Bandaríkja Norður Ameríku.

Mér fannst hann fara full frjálslega með staðreyndir og fullyrðingar, þurfti meðal annars að leiðrétta þann misskilning að forsetinn hafi verið kosinn af meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði. Vitneskjuna hafði hann greinilega nánast eingöngu úr íslensku dagblaði, sem má muna fífil sinn fegurri og virtist nánast ekkert vita annað en það sem þar hafði komið fram.. „ja, ég veit ekkert um það“ var gjarnan viðkvæðið þegar ég benti á mótrök og vel þekktar upplýsingar.

Og þegar ég benti á að forsetinn væri í viðskiptastríði, sem félaga mínum þótti jákvætt, án þess að forsetinn þekkti grunn hugtök eins og „viðskiptahalla“, þá væri kannski að búast við miklum árangri.

Þegar ég benti aftur á að forsetinn færi með rangt mál þetta sex til sjö sinnum á dag að jafnaði þá bar hann því við að þetta væri öfgaskoðanir sem hann hefði engan áhuga á.

Forsetinn hefur ítrekað farið rangt með tölur, oftar en ekki þegar hann hefur vísað í gögn, sagst hafa verið einhvers staðar sem hann var sannanlega ekki og farið rangt með staðreyndir. Þarna er eingöngu verið að tala um atriði sem hægt er að sanna afdráttarlaust og allar ýkjur og marklaus samanburður og ósannanlegar fullyrðingar látnar liggja á milli hluta.

Sem sagt, sannanlegar lygar, það er staðreynd að í mjög mörgum tilfellum lýgur forsetinn blákalt um mikilvæg atriði.

Hvernig í dauðanum geta það verið öfgar að hafa það sem sannanlega er rétt?

Að minnsta kosti, ef það eru „öfgar“ taka mark á staðreyndum, þá verð ég að teljast öfgamaður 🙂