Sarpur fyrir apríl, 2016

Ég fékk athugasemd á Facebook við færslu um páfaummæli forsetans áður en hann varð forseti. Í athugasemdinni var vísað til gamals dægurlags, „á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint“.. reyndar ekki páfar, forsetar eða drottningar – enda ekki fallið vel að laglínunni (þetta var jú fyrir tíma rappsins) og jafnrétti ekki ofarlega í hugsa textasmiðsins.. og ekki veit ég hvað aukadelluorðið „hreint“ er að gera þarna. En það er önnur saga.

Og svarið við hvað á að gera við forsetaembættið blasti allt í einu við. Auðvitað eigum við bara að skipta þessu á milli okkar. Starfsskyldur eru litlar, engar skilgreindar kröfur, frekar lítið að gera og mögulega verða leiðindin til þess að fólk fer að telja sér trú um að þetta sé nú samt merkilegt.. og svo að það sjálft sé nú ómissandi. Forseti sefur aldrei, það þarf ekki handhafa forsetavalds með tilheyrandi akstri til og frá Keflavík.

Andy Warhol sagði víst (eða er amk. eignað) að í framtíðinni verði allir frægir í fimmtán mínútur.

Og skoðum nú eitt merkilegt.

Miðum við árslok 2015, þá voru Íslendingar 332.529 í árslok 2015. Í stjórnarskránni er krafa um að forseti þurfi að vera 35 ára og við skulum hlífa fólki sem komið er fram yfir sjötugt. Íslendingar á aldrinum 35-70 ára voru  141.903 í árslok 2015. Þá eru kröfur um óflekkað mannorð og kannski þurfa einhverjir að geta sagt sig frá þessu vegna heilsuleysis. Gerum ráð fyrir 230 manns nái ekki vegna mannorðsins. Svo hafa ekki allir líkamlega eða andlega heilsu og gefum okkur að 1% þurfi að biðjast undan vegna þess. Þá eru 140.256 sem þurfa að skipta starfinu á milli sín á kjörtímabilinu.

Kjörtímabil forseta er fjögur ár eða 1.461 dagur (eitt hlaupár inn á tímabilið). Í hverjum degi eru 24 klukkustundir og í hverri klukkustund 60 mínútur sem gera 1.440 mínútur í sólarhringnum. Þannig er kjörtímabilið  2.103.840 mínútur.

Skiptum þessu á milli 140.256 einstaklinga.

Og merkilegt nokk.. þetta gerir nákvæmlega 15 mínútur á mann!

Skilaboð frá æðri máttarvöldum? Dásamleg sönnun um framhaldslíf? Andy Warhol með yfirnáttúrlega hæfileika? Nei, nei, nei.. en kýrskýrt að þetta er lausnin.

Ætla samt ekki að flýja land…

Posted: apríl 18, 2016 in Umræða

 

Ég er farinn að halda að þessi endalausa forsetatíð sé skipulagt samsæri með það eitt að markmiði að reyna að hrekja mig úr landi.

En þetta embætti er samt þannig að þó einhver sitji sem fastast í trássi við gefnar yfirlýsingar og þó mér hugnist engan veginn sú tilhugsun að hafa þaulsætinn forseta sem telur sig einan geta sinnt þessu starfi og þó mér mislíki verulega hvernig embættinu hefur verið sinnt.. þá verður bara að hafa það.

Þetta embætti er einfaldlega ekki nægilega merkilegt, það breytir sáralitlu hver situr þarna og áhrifin eru nánast engin.

Ég hef haldið þetta út í tuttugu ár og ætla að halda áfram..

Ég velti í síðustu færslu upp vandamálum við svokallað „flokksræði“ og hversu andstætt það er í rauninni allri hugsun um lýðræði.

Annað sem mér hefur þótt varhugavert í stjórnmálum – og er auðvitað nátengt flokksræðinu – er einhvers konar foringjavæðing sem birtist helst í sauðarlegri högun fylgismanna viðkomandi leiðtoga. „Fylgjum foringjanum“, „eltum leiðtogann“, „verjum okkar mann“ er orðin algeng nálgun þeirra sem taka þátt í stjórnmálum. Sjálfstæð hugsun, eigin skoðanir, gagnrýni og efasemdir eru víðsfjarri. Enda skipar foringinn ráðherra og enginn fær ráðherrastól sem ekki hlýðir. Þetta er svo sem ekki alveg nýtt, en nýr angi af þessari vitleysu er persónudýrkun á leiðtoganum.

Þetta hefur heldur betur komið þingmönnum í koll síðustu vikur.. þeir sem hafa haft sig helst í frammi við að styðja sinn mann og atast í öllum sem hafa vogað sér að spyrja málefnalegra spurninga – þeir eru nú allt í einu á fullu við að moka yfir og tafsa sig framhjá fyrri afstöðu, og reyna þannig að ná til baka einhverri virðingu.

Hefði nú ekki verið nær að hugsa aðeins?

Flokks(glap)ræðið

Posted: apríl 11, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Kannski er einmitt núna góður tímapunktur fyrir þingmenn – og aðra stjórnmálamenn – að staldra aðeins við.

Það sem kallað hefur verið „flokksræði“ er ekkert endilega jákvætt fyrirbæri, stangast í rauninni algerlega á við stjórnarskrána og brenglar að mínu viti hugmyndina um lýðræði all verulega í verstu tilfellunum.

Einfalt dæmi má taka ef við gefum okkur að nokkrir þingmenn hafi náð þingsæti eftir prófkjör þar sem þeir kynntu afdráttarlausa afstöðu í mikilvægu máli (vilja segja „já“) sem aftur gekk þvert á skoðun annarra þingmanna flokksins (sem vilja segja „nei“). Gefum okkur tveggja flokka kerfi, að flokkurinn hafi meirihluta og sé í stjórn. Gefum okkur líka að flokkurinn sem er í stjórnarandstöðu hafi sömu skoðun og þessir fáu þingmenn (og vilji segja „já“). Þannig vill meirihluti þingmanna segja „já“ en stjórnarflokkurinn beitir „flokksaga“ og allir þingmenn hans greiða atkvæði með „nei“. Þannig endurspeglar atkvæðagreiðslan hvorki vilja þjóðar né vilja þings og mikilvægt mál með gott fylgi er fellt.

Hvernig getur þetta verið jákvætt? Hvernig samrýmist þetta hugmyndum um lýðræði?

Hvers vegna ég held áfram…

Posted: apríl 10, 2016 in Umræða

Ég var spurður hvers vegna ég sé enn að mótmæla, hvort markmiðunum hefði ekki verið náð, forsætisráðherra hafi sagt af sér og boðað hafi verið til kosninga.

Eflaust eru mismunandi ástæður fyrir að fólk mætir að mótmæla, ég hef jafnvel séð fólk með „nató“ skilti og einhverjir virðast mæta til þess eins að vera sóðar.

Þannig að kannski er rétt að ég skýri aðeins hvað þarf til, amk. fyrir mitt leyti.

Það er ekki nóg að halda sömu ríkisstjórn með einni útskiptingu. Það þarf að koma til utanþingsstjórn, mögulega þjóðstjórn, í allra, allra versta falli stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokks (ekki Framsóknar), þeir eiga alveg ágæta einstaklinga á þingi.

Ég hefði viljað sjá kosningar í vor, en gott og vel, það sleppur í haust, en það dugar ekki að segjast ætla að stefna að kosningum, það þarf að ákveða þær.

SDG þarf að segja af sér þingmennsku og reyna að sækja umboð aftur í nýjum kosningum. Sama gildir um þá þingmenn sem tóku þátt í að níða niður fréttastofu RÚV – gott og vel, kannski alvöru einlæg afsökunarbeiðni myndi nægja í þeirra tilfelli..

Ég sé ekki að Bjarni komist hjá því að segja af sér.. Ég virði hann reyndar fyrir að hafa nálgast þessa umræðu á allt annan hátt en fyrrverandi forsætisráðherra, hann hefur svarað, verið málefnalegur, sleppt því að ráðast á spyrjendur, verið laus við yfirlæti og hroka (ja, svona að mestu, ég veit ekki enn hvað hljóp í hann í stiganum), hvað þá sjálfumgleðina sem einkenndi félaga hans og hann hefur alveg látið vera að detta í samsærisgírinn. Hans mál virðist líka talsvert minna en mál SDG.

En það eru samt atriði þarna sem nægja til að traustið er farið. Hann hefði átt að greina frá félaginu við hagsmunaskráningu, hvort sem hann skildi eða misskildi orðalag reglnanna þannig að það væri ekki tæknilega nauðsynlegt. Og hann átti að greina frá því fyrir kosningar að hann ætti verulegra hagsmuna að gæta í erlendu félagi. Kannski á hann nóg af peningum og gjaldeyrishagnaður eða tap var hugsanlega ekki stórmál fyrir honum. Og ég ætla honum svo sem engan veginn að hafa verið að hugsa um eigin hag. En kjósendur eiga einfaldlega rétt á að vita um mögulega hagsmunaárekstra fyrir kosningar. Hvað sem lög og reglur segja.

Ég er svo sennilega ósammála mörgum öðrum mótmælendum að því leytinu til að Ólöf Nordal þarf ekki nauðsynlega að segja af sér mín vegna..

Betri forseta, takk..

Posted: apríl 7, 2016 in Umræða

Ég væri alveg til í að fólk (þar með talið forsetinn sjálfur) hætti að mæra forsetann vegna þess hvernig hann tók á ósk forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

Látum vera að ekki er staðfest að forsætisráðherra hafi farið fram á eitt eða neitt, amk. ef marka má orð SDG (og já, ég geri mér grein fyrir ískaldri kaldhæðninni).

Hitt er að forsetinn átti auðvitað engan annan kost í stöðunni, þetta var svokallað „ekki-vandamál“ („no-brainer“ upp á enska tungu). Ég er sannfærður um að (nánast) hver sem er af núverandi frambjóðendum hefði afgreitt málið á sama hátt – nema kannski sleppt því að hrósa sjálfum sér.

Aðalatriðið er samt að SDG var forsætisráðherra í umboði ÓRG, sem valdi hann til að mynda ríkisstjórn á sínum tíma. Fyrir mér er augljóst að ÓRG sýndi verulegan skort á dómgreind með því vali og styrkir þá skoðun mína að við þurfum betri forseta.

 

Talsmenn stjórnarinnar hafa beinlínis „þrá-staglast“ á því að það séu svo brýn og mikilvæg verkefni sem stjórnin þurfi að klára að ekki sé verjandi að efna til kosninga fyrr en þeim sé lokið.

Fyrir það fyrsta, þá eru engar sérstakar líkur til að stjórn sem ekki hefur komið ákveðnum hlutum í verk á þremur árum nái allt í einu að klára þau á fáum vikum eða mánuðum.

Þá er ekki ósennilegt að ef þessu verkefni eru svona mikilvæg og áríðandi að það mætti leysa þau þrátt fyrir kosningar.

Eitthvað hafa stjórnarandstæðingar meira að segja dregið í efa að stjórnin þurfi yfir höfuð að koma að þessum verkefnum.

En aðallega, ef þetta eru svona brýn og góð verkefni, er þá ekki miklu betra að sækja sér umboð til að klára þau til kjósenda.. fyrir en ekki eftir?

 

Nú hef ég nýlega (einhverra hluta vegna) verið að velta fyrir mér aflandsfélögum, (sennilega) í kjölfar frétta af nokkurs konar hjarðhegðun fólks sem finnst víst erfitt að eiga peninga, amk. hér á landi.

Ég er auðvitað enginn hagfræðingur, en hver er það svo sem? En ég velti gjarnan fyrir mér hvernig hlutirnir líta út frá einu heimili eða litlu þorpi.

Ein saga hentar ágætlega til að heimfæra á lítið þorp. Einn þorpsbúinn sótti arf frá föður sínum, nokkuð miklar eignir sem voru til komnar eftir áratuga vinnu föðursins við að byggja upp fyrirtæki í þorpinu. Þorpsbúar höfðu tekið fyrirtækinu vel, enda lagði fyrirtækið áherslu á góða vöru og fyrsta flokks þjónustu og fyrirtækið blómstraði. Þorpsbúinn sótti sem sagt arfinn og ákvað að geyma peningana sína í öðru þorpi og leyfa þorpsbúum þar að njóta þeirra. Maki þorpsbúans virðist hafa verið (það sem kallað var) „eilífðarstúdent“ á þessum tíma og ekkert hafa haft til málanna að leggja.

En þetta er bara eitt lítið dæmi, þetta var orðin einhvers konar hjarðhegðun þeirra sem áttu peninga og önnur verðmæti sem höfðu verið sköpuð í þorpinu, í mörgum tilfellum með því að nýta sameiginlegar auðlindir þorpsbúa.

Þessir peningar voru flutt í önnur þorp og íbúum þeirra leyft að njóta, eigendunum virist finnast erfitt að eiga peninga í þorpinu. „Hvers vegna er það erfitt?“ – var spurt, en engin svör.

Í mörgum tilfellum voru miklir fjármunir geymdir í þorpum sem veittu svokölluð skattaskjól, en eigendurnir fullyrtu að þeir væru ekkert að leita eftir skattaskjóli og hefðu greitt sína skatta af eignunum. „Hvers vegna eruð þið þá að flytja peningana í skattaskjól ef þið eruð ekki að nýta ykkur að þetta er skattaskjól?“ – var spurt, en engin nothæf svör. Einhverjir gáfu þær skýringar að það gætu verið aðrar ástæður og aftur var spurt „Já, já, gott og vel, hverjar?“ – en engin svör.

Svo voru þeir sem fullyrtu að þorpið væri langbest, gjaldmiðillinn þeirra væri sterkastur, þar væri mestur uppgangur væri þar og bestu tækifærin. „Já, hvers vegna geymið þið þá ekki peningana ykkar hér og ávaxtið með sterkum gjaldmiðli og í hagkerfi í miklum uppgangi?“ – var spurt, en engin svör.

Margir sögðu að einhver bankamaðurinn hefði ráðlagt þeim að geyma peningana annars staðar. „Já, já, og hver rök voru fyrir ráðleggingu bankamannanna?“ – var spurt, en engin svör. „Voru þetta bara ráðleggingar út í bláinn sem þið fóruð hugsunarlaust eftir?“ – var spurt, en engin svör.

Bankamaðurinn reið reyndar á sama tíma um önnur héruð og þorp og lofaði íbúum þeirra gulli, grænum skógum og óhóflegum vöxtum ef þeir kæmu með peninga og leggðu inn í banka þorpsins. „Hvers vegna eruð þið þá að ráðleggja íbúum þorpsins að geyma og ávaxta peningana sína annars staðar?“ – var spurt, en engin svör.

Svo hrundi banki þorpsins og allir þorpsbúar þurftu að taka skellinn. Eftir það hófst uppbygging og allir þorpsbúar þurftu að leggja sitt að mörkum.

Hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir að bankinn færi á hausinn ef hjarðfólkið hefði geymt peningana sína og ávaxtað í þorpinu? Við vitum það auðvitað ekki, vegna þess að við vitum ekki hversu miklir peningar þetta voru.. en kannski er ekki ólíklegt að það hefði að minnsta kosti mildað áfallið verulega.

Hefðu peningarnir nýst vel við að byggja upp eftir hrun? Já, ég ætla að leyfa mér að fullyrða það.

Gott og vel, ég veit fullvel að það er nokkurn veginn hundrað prósent löglegt að geyma peninga í öðrum þorpum.

Siðlaust? Ég ætla ekki að alhæfa en mér finnst það að minnsta kosti orka tvímælist þegar um er að ræða eignir sem verða til í þorpinu.

Og.. ef einhver býður sig fram til hreppstjóra eða annarra forystustarfa í þorpinu á þeim forsendum að hann hafi tröllatrú á efnahagslífi og gjaldmiðli þorpsins, þá vil ég vita fyrir víst að hann hafi sýnt það í verki og sé ekki háður efnahag annarra þorpa.. og gildir einu hvort sú tenging er skráð á annan eða báða aðila í hjónabandi þar sem eignir eru sameiginlegar.

Og ég vil líka vita þegar einhver býður sig fram til þess að semja við önnur þorp og íbúa þeirra hvort viðkomandi á einhverra hagsmuna að gæta í öðrum þorpum. Það má vel vera að viðkomandi ætli sér ekki að láta þá hagsmuni hafa áhrif. Það gæti vel verið að ég treysti viðkomandi eftir að hafa fengið þessar upplýsingar. En á ég vil fá að vita og ég vil fá að meta.

Mér finnst nefnilega bæði siðlaust og óheiðarlegt að bjóða sig fram til starfa án þess að gera grein fyrir þessu og sé bara eina mögulega skýringu á því að halda þessu leyndu.

Þannig finnst mér að um leið og viðkomandi er gripinn í bólinu og í ljós kemur að hann hafi leynt upplýsingum fyrir kosningar, þá er kosning hans til starfa orðin marklaus í mínum huga.