Foringjavæðingin, hvernig væri nú að hugsa frekar aðeins..

Posted: apríl 12, 2016 in Stjórnmál, Umræða

Ég velti í síðustu færslu upp vandamálum við svokallað „flokksræði“ og hversu andstætt það er í rauninni allri hugsun um lýðræði.

Annað sem mér hefur þótt varhugavert í stjórnmálum – og er auðvitað nátengt flokksræðinu – er einhvers konar foringjavæðing sem birtist helst í sauðarlegri högun fylgismanna viðkomandi leiðtoga. „Fylgjum foringjanum“, „eltum leiðtogann“, „verjum okkar mann“ er orðin algeng nálgun þeirra sem taka þátt í stjórnmálum. Sjálfstæð hugsun, eigin skoðanir, gagnrýni og efasemdir eru víðsfjarri. Enda skipar foringinn ráðherra og enginn fær ráðherrastól sem ekki hlýðir. Þetta er svo sem ekki alveg nýtt, en nýr angi af þessari vitleysu er persónudýrkun á leiðtoganum.

Þetta hefur heldur betur komið þingmönnum í koll síðustu vikur.. þeir sem hafa haft sig helst í frammi við að styðja sinn mann og atast í öllum sem hafa vogað sér að spyrja málefnalegra spurninga – þeir eru nú allt í einu á fullu við að moka yfir og tafsa sig framhjá fyrri afstöðu, og reyna þannig að ná til baka einhverri virðingu.

Hefði nú ekki verið nær að hugsa aðeins?

Lokað er á athugasemdir.