Ég fæ reglulega og allt of oft áskoranir um að fara fram á að samþykkt svokallaðs þriðja orkupakka verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Nú er ég að öllu jöfnu yfirleitt frekar hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum, amk. um stærri og stefnumótandi mál þar sem mismunandi rök, vægi þeirra og áherslur ráða afstöðu.
Í þessu tilfelli snýst álitamálið um hvort það felist eitthvert framsal sjálfstæðis í samþykkt pakkans.
Ef svo er ekki þá er engin þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er engin þörf á að hafna þessu frekar en reglugerðum um raftæki, stærð matardiska á veitingahúsum eða öðrum ómerkilegum reglugerðum sem fyrst og fremst snúa að því að tryggja rétt neytenda.
Ef eitthvert nýtt valdaframsal felst í samþykktinni, nú þá er heldur engin ástæða fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta málefni, heldur um aðildina að EES – nokkuð sem er allt annað mál.
Þannig að þeir sem eru að tala fyrir því að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eru í rauninni að biðja um að kosið verið um hvort ástæða sé til að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það væri ekki verið að greiða atkvæði um innihald pakkans og þau lög og reglugerðir sem honum fylgja, heldur væri verið að greiða atkvæði um túlkun á því hvað ákveðnir texta þýða.
Málatilbúnaður andstæðinga pakkans virðist að mestu ganga út á misskilning eða vísvitandi útúrsnúning á því hvað ákveðinn texti þýðir í raun. Það er því engin ástæða til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem hægt er að afgreiða með því að fletta upp í orðabók og lesa!
Þar til viðbótar, þá væri nægilegt að staðfesta samþykkta stjórnarskrá og þá þyrfti ekki einu sinni að ræða málið frekar.