Sarpur fyrir apríl, 2015

Ég hef lengi verið talsmaður beins lýðræðis og þess að nýta möguleika tækninnar til að yfirvinna þær takmarkanir sem fyrr á öldum kölluðu á fulltrúa lýðræði.

En ég hef aðeins verið að fá bakþanka.. Reynslan hefur ekkert verið sérstaklega góð, fólk virðist kjósa út frá eigin veski (sem þarf ekki alltaf að vera slæmt) en aðallega út frá fáfræði og vanþekkingu.. þeas. án þess að kynna sér rök með og á móti. Sama gildir auðvitað um marga þingmenn í kerfi fulltrúa lýðræðisins. Og það sem verra er.. sumir þingmanna virðast kjósa gegn betri vitund vegna þess að flokkslínan segir svo.

En hvað er þá til ráða?

Hvaða aðferðir eru heppilegastar til að taka farsælar ákvarðanir?

Og hverjar þeirra eru viðráðanlegar í tíma, vinnuframlagi og kostnaði?

Er alvitlaus hugmynd að þeir sem vilja kynna sér hvert og eitt mál, þekki vel rökin með og á móti, fái einir að greiða atkvæði? Það má deila um hvort það nægi að þekkja aðalatriði málsins eða hvort það á að gera kröfu um að þekkja rökin til hlítar. Best væri sennilega að vægi atkvæða ráðist af þekkingu.

Þannig sé krafa að til að hafa áhrif á ákvörðun þurfi viðkomandi að hafa kynnt sér málið.

Þá mætti hafa áhrif á vægi atkvæða að geta sýnt fram á hæfileika til að hugsa rökrétt.

Svona fyrirkomulag þarf alls ekki að vera dýrara í framkvæmd en núverandi kerfi.

Og það á alls ekki að vera auðveldar að svindla eða misnota svona kerfi en mögulegt er í núverandi fyrirkomulagi.

Kallar þetta á mikla vinna hjá öllum? Nei, varla, svona fyrirkomulag kallar á eðlilegan áhuga og til lengri tíma, verkaskiptingu eftir áhuga og þekkingu.

Hvað með algengustu rökin gegn beinu lýðræði? Sem ganga út á að samþykkja hömlulaust útgjöld og/eða brjóta á mannréttindum.

Fyrir það fyrsta þá ætti krafan um þekkingu að koma í veg fyrir svoleiðis vitleysu.

En þar fyrir utan væri kjörið að hafa nothæfa stjórnarskrá.. Þar væri ákveðinn rammi sem kæmi í veg fyrir að hægt sé að samþykkja lög sem brjóta mannréttindi. Þar mætti líka vera krafa um að samþykkt útgjalda verði að fylgja hvernig tekjur koma á móti.

Er þetta ekki bara frábær hugmynd??

Að öskra til að hafa rétt fyrir sér

Posted: apríl 18, 2015 in Trú
Efnisorð:

Það er frekar hvimleið nálgun þeirra sem hefur ekki tök á að rökræða málefnalega að halda að með því að öskra og/eða endurtaka rangfærslur nægilega oft þá leiði það sjálfkrafa til þess að hafa rétt fyrir sér.

Svona virkaði umræðan um trúboð í skólum fyrir síðustu jól á mig – ég ákvað að doka aðeins við með að birta þessa samantek, stilla fram í tímann (ég verð væntanlega búinn að gleyma þegar þar að kemur).

Ég vil að börn fræðist um trúarbrögð, sögu og hefðir á forsendum skólans sem menntastofnunar.

ÞÚ VILT BARA BANNA ALLA FRÆÐSLU UM TRÚMÁL!!!

ÞÚ VILT BARA BANNA BÖRNUM AÐ FARA Í KIRKJU!!!

ÞÚ VILT AÐ BÖRNIN ÞEGI ALLA DAGA Í SKÓLANUM!!!

ÞÚ VILT BANNA AÐ NEFNA JESÚ Á NAFN Í SKÓLANUM!!!

ÞÚ ERT Á MÓTI JÓLUNUM!!!

Ég held að sjálfsögðu upp á jólin þó ég sé trúlaus, enda jólin miklu eldri en kristnin.

ÞÚ ERT Í STRÍÐI VIÐ JÓLIN!!!

ÞÚ ERT BARA FÝLUPÚKI UM JÓLIN!!!

Það eru allt of mörg dæmi um trúboð presta sem hafa fengið skólabörn í heimsókn – þeir kalla trúlausu börnin í hópnum jafnvel heimskingja.

ÞAÐ GERIR BÖRNUM BARA GOTT AÐ FARA Í KIRKJU!!!

HELDURÐU AÐ PRESTURINN STUNDI TRÚBOÐ Í KIRKJUNNI?!?!

ÉG FÓR EINU SINNI Í KIRKJU OG ÞAÐ GERÐI MÉR EKKERT ILLT!!!

Kirkjan er til þess að gera nýlega farin að sækjast í að fá aðgang að skólabörnum á skólatíma

ÞAÐ ER GÖMUL HEFÐ AÐ BÖRNIN FARI Í KIRKJU Í SKÓLANUM!!!

VIÐ ERUM KRISTIN ÞJÓÐ!!!

Jæja, það þýðir víst lítið að ræða þetta.

Nokkuð að frétta af fjölskyldunni?

ÞÚ VILT BANNA ALLA FRÆÐSLU UM TRÚMÁL!!!

ÞÚ ERT Í STRÍÐI VIÐ JÓLIN!!!

VIÐ ERUM KRISTIN ÞJÓÐ!!!

Hrægammar velkomnir…

Posted: apríl 14, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég get ekki gert að því að rifja upp…

Fyrir hrun fóru íslensku bankarnir fóru eins og stormsveipur út í hinn stóra heim og lofuðu gulli og grænum skógum (lesist „himinháum vöxtum“) þeim sem vildu fjárfesta og leggja inn á reikninga hjá þeim.

Ég ætla ekki að alhæfa, eflaust voru mismunandi forsendur, mismunandi vel staðið að kynningu og eflaust stóðu margir starfsmanna bankanna í góðri trú.. mögulega hefði meira að segja farið betur ef bara hefði verið farið örlítið hægar í sakirnar á köflum.. þeas. mér finnst óþarfi að fullyrða að öll viðskipti hafi verið glannaskapur.

Allir voru boðnir velkomnir, ekki litið niður á þessa væntanlegu viðskiptavini, hvað þá að talað væri um að berja á þeim. Aldrei heyrði ég talað um hrægamma á þessum tíma og fylgdist ég nú þokkalega vel með.

Og ég veit vel að þetta var tiltölulega fámennur hópur hér á landi sem stóð að þessum viðskiptum.. en þetta voru íslensk fyrirtæki rekin eftir íslenskum lögum.

En núna eftir hrun er sjálfsagt að úthúða þessum fjárfestum, kalla þá hrægamma og tala um að „berja á þeim“, réttur þeirra enginn… peningarnir eru farnir (eða búið að koma þeim í skjól), við getum ekki borgað og þetta eru bara „ljótir kallar“ sem sjálfsagt er að éti það sem úti frýs.

Ekki misskilja, ég hef enga sérstaka samúð með þeim sem hafa atvinnu af að fjárfesta og höfðu ekki fyrir að kanna betur í hverju þeir voru að fjárfesta.

En það truflar mig samt verulega að við komum fram eins og siðlausir tuddar. Við erum svolítið eins og einstaklingur sem fær lán, eyðir í snatri í alls kyns vitleysu og óþarfa.. neitar svo að borga og hótar öllu illu þegar reynt er að rukka.

Nýlega sagði vinur minn við mig að líf mitt væri eins og tóm tunna vegna þess að ég tryði ekki á guð.

Þetta er auðvitað fráleitt.. þvert á móti þarf ég ekki á einhverjum óskilgreindum, tilbúnum yfirnáttúrulegum verum til að líf mitt hafi gildi. Það er bara nokkuð fínt eins og það er – gott og gilt sjálfs sín vegna.

Mér hefur hins vegar þótt það æði nöturleg tilhugsun að geta ekki lifað góðu lífi nema hengja sig í tilbúnar verur og mögulegt framhaldslíf. Þetta hlýtur að vera skelfilegt.

Kannski minnir þetta að einhverju leyti á konuna sem keypti happdrættismiða til að vinna stóra vinninginn og byrjaði strax að skipuleggja líf sitt miðað við að vera búin að fá vinninginn. Hún ætti að vita að líkurnar eru afar litlar og hún ætti að vita að hennar bíður líklega framtíð án happdrættisvinningsins. Það er frekar ömurleg tilhugsun að þurfa að lifa lífinu treystandi á happdrættisvinning þar sem líkurnar eru hverfandi. Þó er kannski sá munurinn á konunni og þeim sem byggja líf sitt á trúnni að það er jú stundum einn sem vinnur í happdrættinu.

Má bæta Facebook notkun?

Posted: apríl 13, 2015 in Spjall

Ég held að (því miður) séu ekki miklar líkur til að Tsú eða Google+ leysi Facebook af hólmi.

Það virðast fáir detta inn á Tsú – og ég fór sjálfur strax í baklás, eftir að hafa skráð mig og fengið nokkrum mínútum seinna tölvupóst þar sem átti að fara að selja mér eitthvað.

Google+ hefur sína kosti, en aftur virðist flokkun efnis langt á eftir Facebook.

Ég er svo sem enginn sérstakur Facebook aðdáandi, reyni að eyða ekki of miklum tíma í að þvælast þar og takmarka talsvert hvað ég nota.

Það er margt jákvætt við Facebook, til dæmis

  • er gaman að sjá öðru hverju fréttir af vinum, kunningjum, gömlum skólafélögum og ekki-nánustu fjölskyldu
  • hefur skilaboðakerfið reynst ágætlega í hópsamræðum
  • er vel þegið að fá að vita af viðburðum sem annars gætu farið fram hjá mér

En ég held að Facebook væri enn betra ef..

  • fólk hætti að skipta um mynd (profile picture) í fréttaskyni, það er miklu einfaldara að setja inn nýja stöðu
  • fólk sleppti frekar tilgangslausum athugasemdum eins og að bjóða góðan daginn eða annað álíka
  • fólki hætti að benda á YouTube myndskeið með einhverjum skoðunum – ef þær eru áhugaverðar, komið þeim frá ykkur í texta, YouTube myndskeiðin eru (að fenginni reynslu) oftar en ekki:
    • tímasóun, það er verið að segja hluti í löngu máli sem tæki örstutta stund að lesa
    • blekkingaleikur, það eru alls kyns tæknibrellur notaðar til að gera texta sennilegan sem getur ekki staðið einn og sér
    • drepleiðinleg með útúrdúrum og löngum „hugleiðingar“ myndskeiðum
  • þessi þú-verður-rosalega-hissa myndskeið hverfa, fyrir það fyrsta, þá hefur reynslan kennt mér að ég verð sjaldnast rosalega hissa, og ef þetta er áhugavert þá er miklu einfaldara að segja það beint út sem skiptir máli
  • myndskreyttir textar verði sjaldgæfari, texti verður ekkert betri eða verri við að vera settur upp með bakgrunni og áberandi leturgerð (kannski, jú, stundum verri)
  • fólk hætti að skipa mér fyrir, það fer amk. talsvert í taugarnar á mér þegar fólk setur inn einhverja hugleiðingu og bætir svo við „ræðið!“ eins og kennari að tala niður til nemenda.. það er í boði að ræða allar stöðu uppfærslur og óþarfi að vera með svona frekjutakta
  • auglýsingar fyrirtækja og tilheyrandi leikir detti út, ég hef akkúrat engan áhuga á að sjá þetta, þar sem hægt er ná í vinning ef fólki lætur sér líka vel við eitthvert fyrirtækið
  • fréttir af forsíðum helstu netmiðla hverfi, þetta er algjör óþarfi, þeir sem hafa á annað borð áhuga sjá þetta strax
  • fólk næði aðeins að hemja sig í stað þess að drita inn athugasemdum um allt og ekkert, ég hef tekið af „fylgi“ af fólki sem var svo duglegt að setja inn athugasemdir að ég sá orðið ekkert annað, það einokaði nánast Facebook yfirlitið mitt
  • þeir sem ætla ekki að mæta á viðburði hætti að segjast ætla að mæta, eflaust vill viðkomandi vera jákvæður, en þetta einfaldlega ruglar þá sem eru að skipuleggja
  • það væri hægt að loka á allar leikjabeiðnir

Nýtt trúarbragð

Posted: apríl 12, 2015 in Spjall, Trúarbrögð
Efnisorð:,

Ég er að velta fyrir mér að stofna nýja trúarhreyfingu.

Kenningin er að eftir dauðann þá upplifir hver einstaklingur allt sitt líf til hins óendanlega. Með öfugum formerkjum. Þeir sem koma vel fram við náungann fá sömu framkomu um alla eilífð – hlýju, ást, kærleika og allt það besta sem þeir hafa sýnt öðrum. En að sama skapi fá þeir sem koma illa fram við aðra að upplifa það á sjálfum sér óendanlega oft. Sá sem beitir ofbeldi og gengur í skrokk á öðrum upplifir stöðugt að það er verið að ganga í skrokk á honum, sá sem drepur upplifir að vera drepinn endalaust.

Nú eru engar sérstakar sannanir fyrir því að þetta verði svona. En það sama gildir auðvitað um öll (önnur) trúarbrögð.

Og ef við getum sannfært fólk um þetta þá er þetta öruggasta, einfaldasta og besta leiðin til að fá fólk til að tileinka sér betri hegðun – þeas. þeim sem ekki nægir heilbrigð skynsemi. Þetta er miklu betra en núverandi trúarbrögð því það eru enginn hvattur til að ráðast gegn öðrum og drepa „villutrúarmenn“.

Dýfur, lyf og annað svindl

Posted: apríl 9, 2015 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Ég hef gaman af að horfa á góðan fótbolta. Eyði reyndar allt of miklum tíma í að horfa á leiðinlegan fótbolta, eftir að fótboltarásum fjölgaði á heimilinu, en það er önnur saga.

Einhvern veginn finnst mér sem dýfur leikmanna séu í sögulegu hámarki.. kannski er bara verið að grípa fleiri með betri tækni, en þetta er óþolandi og allt, allt of mikið.

Og það sem verra er, margir „spekingar“ tala um að þetta sé nú bara allt í lagi.. mikið undir og leikmenn eigi að gera það sem þeir geti fyrir sitt lið.

Kjaftæði.

Hættið að segja leikmönnum og áhorfendum að þetta sé í lagi. Þetta er svindl. Alveg á sama hátt og að taka ólögleg lyf, fela ás uppi í erminni, stytta sér leið og þar fram eftir götum..

En þar til ekki er tekið á þessu á sama hátt og öðru svindli – og á meðan svona hegðun er afsökuð í bak og fyrir þá breytist auðvitað ekkert.

Er ekki hreinlegast að taka á þessu eins og hverju öðru svindli, svo sem lyfjanotkun? Leikmaður sem sannanlega dýfir sér í leik fái þannig eins til þriggja ára leikmann.

Ferðamenn í barnaafmælum

Posted: apríl 8, 2015 in Spjall
Efnisorð:

Þegar synirnir voru yngri hafði skapast sú hefð, eða vani, að barnaafmæli væru frekar einföld en flestum skólafélögunum var boðið. Yfirleitt einföld veisla (ja, kannski allur gangur á því) og hvert barn gaf svona 500 til 1.000 krónur (ég man ekki upphæðina nákvæmlega).

Eitt skiptið gat einn sonurinn ekki mætt – ekki man ég hvers vegna – en afmælisbarnið spurði hvort hann ætlaði ekki samt að borga.

Það er varla hlustandi á fréttatíma eða umræðuþætti þessa dagana án þess að verið sé í öðru orðinu að tala um hversu mikilvægt sé að sinna ferðamönnum vel og hversu miklum tekjum þeir geti skilað í þjóðarbúið. En á sama tíma er stöðugt verið að spyrja hvort það sé ekki allt of mikið af ferðamönnum. Það er nánast hallærislegt hversu oft og mikið er staglast á þessari sömu spurningu.

Kannski endum við eins og barnið sem ég sagði frá hér að ofan, biðjum ferðamennina að vera heima, en spyrjum hvort þeir ætli ekki samt að borga.

Vínbúðirnar hafa um nokkuð langt skeið birt til þess að gera langar auglýsingar með (að þeim finnst væntanlega) skondnum tilraunum unglinga til að fá að kaupa áfengi án skilríkja. Það eru nokkrar útgáfur í gangi og ég er nokkuð viss um að þær hafa kostað sitt í framleiðslu. Þá er heldur ekki ókeypis að birta sjónvarpsauglýsingar þetta oft.

Ég efast um að þetta sé raunverulega stórt vandamál, þeas. að krakkar komi með fáránlegar afsakanir.. og svarið er (gef ég mér) auðvitað „nei“ og málið er leyst.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi auglýsingaherferð stendur ekki undir sér – það er að segja, hún skilar örugglega ekki þeim tekjum eða sparar þann kostnað í rekstri vínbúðanna að hægt sé að réttlæta þetta. Jafnvel þó skilríkjalausir einstaklingar séu margir, þá ætti að vera mun ódýrara og einfaldara að koma afdráttarlausum skilaboðum til væntanlegra kaupenda.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Jú, vegna þess að þetta er dæmi um niðurgreiddan rekstur ríkisins á verslun sem ríkisvaldið þarf ekkert að standa í að sinna. Á endanum koma þessir peningar úr ríkissjóði (eða það fer minna í hann) og við borgum brúsann.

PS. jú, ef bæði framleiðsla og birtingar hafa fengist gefins þá er sjálfsagt að éta þessar fullyrðingar ofan í mig.. eða ef hægt er að sýna fram á betri rekstur í kjölfarið..

Ég sá frétt um að dauðadæmdum fanga hafi loksins verið sleppt eftir nokkra áratugi í fangelsi. Það er ekki í frekari frásögur færandi.

En ein athugasemdin við fréttina vakti athygli mína, en þar bar einhver það saman við beint lýðræði að hafa kviðdóm og taldi þetta sanna, eða amk. dæmi um, hversu vont beint lýðræði geti verið.

Fyrir það fyrsta þá er ansi margt ólíkt með beinu lýðræði og kviðdómi, kviðdómendur eru valdir af handahófi, beint lýðræði gerir ráð fyrir að allir áhugasamir geti tekið þátt.

En aðallega þá er það enginn trygging fyrir betri niðurstöðu þó færri sjái um að dæma, þó þeir séu löglærðir, næg eru dæmin um alvarleg afglöð dómarar – hvort sem er í Bandaríkjunum (þaðan sem fréttin er) þar sem dómarar eru gjarnan kosnir – eða hér á landi þar sem þeir eru skipaðir.

Fyrir utan nú rökleysuna að taka eitt tiltekið dæmi og ætla sér að alhæfa út frá því.

Hitt er svo þessi mótsögn fulltrúalýðræðisins, að fólk geti ekki haft nægilegt vit fyrir sjálfu sér í einstaka málum en geti samt haft nægilegt vit til að kjósa sér fulltrúa – út frá fyrirheitum um þessi sömu mál.

Það er rétt, að það eru til dæmi um að almenningur hafi látið blekkjast til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum og tekið þannig ákvarðanir sem hafa ekki reynst gæfulegar.

En það eru ekki síður dæmi um að fólk hafa kosið sér fulltrúa sem hafa blekkt kjósendur til að greiða sér atkvæði – og setið þannig uppi sem svipaðan kött úr keyptum sekknum.