Ferðamenn í barnaafmælum

Posted: apríl 8, 2015 in Spjall
Efnisorð:

Þegar synirnir voru yngri hafði skapast sú hefð, eða vani, að barnaafmæli væru frekar einföld en flestum skólafélögunum var boðið. Yfirleitt einföld veisla (ja, kannski allur gangur á því) og hvert barn gaf svona 500 til 1.000 krónur (ég man ekki upphæðina nákvæmlega).

Eitt skiptið gat einn sonurinn ekki mætt – ekki man ég hvers vegna – en afmælisbarnið spurði hvort hann ætlaði ekki samt að borga.

Það er varla hlustandi á fréttatíma eða umræðuþætti þessa dagana án þess að verið sé í öðru orðinu að tala um hversu mikilvægt sé að sinna ferðamönnum vel og hversu miklum tekjum þeir geti skilað í þjóðarbúið. En á sama tíma er stöðugt verið að spyrja hvort það sé ekki allt of mikið af ferðamönnum. Það er nánast hallærislegt hversu oft og mikið er staglast á þessari sömu spurningu.

Kannski endum við eins og barnið sem ég sagði frá hér að ofan, biðjum ferðamennina að vera heima, en spyrjum hvort þeir ætli ekki samt að borga.

Lokað er á athugasemdir.