Sarpur fyrir febrúar, 2017

Eftirspurn, framboð og áfengi

Posted: febrúar 28, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef aðeins  dottið í að ræða hvort framboð í formi útsölustaða auki áfengisneyslu. Eins og mér sé ekki sama.. hef aðallega verið að láta óvarlegar túlkanir á gögnum fara í skapið á mér. Ég átti ágætt spjall á Facebook þar sem mikilvægt atriði kom fram.

Það er víst eitthvað til sem kallast framboð og eftirspurn.

Það er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að eftirspurn eftir hvers kyns neysluvörum, þar með talið áfengi, aukist þegar efnahagur batnar. Þá er ekki fráleitt að ímynda sér að aukinn straumur ferðamanna, bæði jafnt og þétt og síðan sprengja síðustu ára hafi talsverð áhrif á eftirspurn eftir áfengi. Ferðamenn eru jú í fríi og það er ekki langsótt að gera ráð fyrir að fólk drekki meira í fríi en að öðru jöfnu. Og ferðamenn eru neytendur en telja ekki með í íbúafjölda og skekkja þannig neyslutölur á einstakling.

Og eins og fram kom í áðurnefndu spjalli þá hefur útsölustöðum áfengis fjölgað meira í takt við þessa tvo þætti í formi fleiri veitingastaða en fjölgun vínbúða og breytingar á vöruúrvali.

Það eru sem sagt allar líkur á að það sé aukin eftirspurn sem kallar á fleiri útsölustaði, ekki fleiri útsölustaðir sem búa til eftirspurn.

Ég skal játa að ég hef ekki skoðað tölurnar í smáatriðum… ég er um það bil að verða búinn að fá nóg af þessari umræðu og nenni eiginlega ekki að eyða meiri tíma í þetta í bili. En við fyrstu sýn virðist þetta nokkuð gefið og ég er nokkuð viss um að þetta er að minnsta kosti mun líklegri skýring en það eitt að gera breytingar á tegund útsölustaða.

Mér sýnist deginum ljósara að betri efnahagur og fleiri neytendur auka eftirspurn sem eykur fjölda útsölustaða.. það er eftirspurnin sem skýrir meiri neyslu, ekki fjöldi útsölustaða… aðgerðir löggjafans breyta sennilega litlu sem engu um þetta.

Og umdeilt frumvarp breytir bara nákvæmlega ekki neinu um þetta!

Kirkjujarðir, upplýsingar

Posted: febrúar 28, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég sendi fjármálaráðherra opna fyrirspurn um verðmæti, tekjur og gjöld þeirra jarða sem ríkið á að hafa tekið yfir við kirkjujarðasamninginn svonefnda.

Ég hef engin svör fengið, enda skilst mér að það liggi nú engan veginn á lausu hvaða jarðir þetta eru.

Hitt er að eftir að ég skrifaði grein fyrir nokkru í Fréttablaðið fékk ég símtal frá einstaklingi sem þekkti til (amk.) og var með ansi fróðlegar upplýsingar um jarðirnar.

Ég var á hlaupum, náði ekki að klára símtalið almennilega en setti símanúmer og nafn í tengiliðalistann minn – fljótlega var skipt um þjón, það komu einhverjar villur í flutningi, ég þurfti að sækja afrit og í stuttu máli, þá finn ég ekki þessar upplýsingar.

Þannig að ef viðkomandi les þetta þá má hann endilega hafa samband!

Fyrir daga bjórsins voru andstæðingar þess að leyfa hann þess fullvissir að það að leyfa bjór myndi einfaldlega bætast við aðra neyslu, aukið aðgengi myndi þýða meiri neyslu áfengis og við sætum uppi með enn verri drykkju með tilheyrandi vandamálum.

En skoðum tölur.

Seldir alkóhóllítrar á mann voru 3,14 árið 1980 og hafði aukist í 3,39 árið 1988. Samt var ekki búið að gera neina verulega breytingu, hvað þá að leyfa bjór.

En, vissulega jókst heildarneysla áfengis árið 1989, árið sem bjórinn var leyfður, neyslan fór í 4,13 alkóhóllítra á mann.. við fáum seint að vita hversu mikið af þessari breytingu má rekja til minnkandi heimabruggs og/eða smygls.

En, svo ber við að 1993 er neyslan orðin minni en fyrir tíma bjórsins eða 3,34 alkóhóllítrar á mann. Og aftur er rétt að hafa í huga að við vitum ekkert um brugg eða smygl fyrir tíma bjórsins. Ekki var búið að banna bjórinn aftur og ekki var búið að takmarka aðgengi að áfengi (mér vitanlega) á annan hátt.

Áfengisneysla jókst svo nokkuð þétt til 2007 þegar alkóhóllítrar á mann voru komnir í 5,95. Ekki var verið að leyfa bjórinn aftur á þessum tíma, ekki var verið að leyfa aðrar tegundir.. neyslan jókst nú bara samt, og það talsvert.

Tölurnar Hagstofunnar ná reyndar bara til 2007, það skemmtilega ártal tvö-þúsund-og-sjö. Svo minnkar neyslan aftur.. hér vantar reyndar nákvæmar tölur en í skýrslu Landlæknis er greinilegur samdráttur eftir 2007. Ekki var bjór bannaður og ekki fækkaði útsölustöðum.

Getur hugsast að það séu fleiri þættir en aðgengi sem hafa áhrif á heildarneyslu áfengis? Getur jafnvel verið að almennt efnahagsástand hafi talsverð áhrif? Verð? Fjöldi ferðamanna? Fræðsla? Breytt menning?

Er mögulegt að neysla áfengis sé einfaldlega flóknari en þeir sem hafa hæst í umræðunni vilja láta? Getur verið að aðgengi, heildarneysla, skaðsemi, unglingadrykkja haldist bara alls ekkert í hendur eftir allt saman?

Er mögulegt að þetta sé bara flökkusaga, sem haldið er við með því að að endurtaka stöðugt möntru sem á ekki við rök að styðjast..

Bjórhátíðin á Kex

Posted: febrúar 26, 2017 in Umræða
Efnisorð:, ,

Við duttum inn á bjórhátíðina á Kex um helgina, við misstum af fimmtudeginum en náðum „góðum degi“ bæði á föstudag og laugardag.

Úrvalið af undarlegum og stórskemmtilegum bjórum var hreint út sagt frábært, ef eitthvað var þá hefði mátt vera eitthvað meira af „venjulegum“ bjórum, en þeir eru svo sem í boði allt árið.

Auðvitað voru ekki allir bjórarnir góðir, fyrr mætti nú vera, sumir meira að segja nánast ódrekkandi.. en mikið rosalega finnst mér samt gaman að smakka og ég dáist að hugmyndafluginu.

Ég gleymi örugglega einhverjum og biðst afsökunar, bókhaldið var bara ekki alltaf í lagi.. en svo ég nefni nokkur dæmi af handahófi og ekki í neinni sérstakri röð þá man ég helst eftir Notorious frá Barnyard, tveir frá Ölvisholti (Barley?), cognac keimur af bjór frá Borg, nokkrir kaffi, vanillu, súkkulaði skotnir „porterar“, jafnvel með ís,BB (held ég, myndin heppnaðist ekki) frá Vestmannaeyjum… og já, er að gleyma nokkuð mörgum.

En takk fyrir frábæra hátíð, Kexbjorhatid-februar-fostudagur-3.. ekki hefði mig órað fyrir að upplifa svona stemmingu í Reykjavík þegar ég var að syngja um Bjór fyrir tæpum 35 árum. Og án þess að ég vilji vanþakka áhuga erlendra framleiðanda – sem koma hingað án þess að eiga í rauninni nokkra möguleika á að selja mikið hérna – þá fannst okkur nokkuð rauður þráður að íslensku bjórarnir voru jafnan betri. Frábær þróun á ekki lengri tíma.

Og, jú, ekki spilltu hamborgararnir á efri hæðinni stemmingunni.

 

Ég á auðvitað að hafa vit á að þegja um þetta áfengisfrumvarp.. en síðan hvenær hef ég haft vit á að þegja?

Í öllu falli þá er ég alveg búinn að fá upp í kok á þessu lýðheilsutali þegar kemur að minni háttar breytingum á sölu áfengis.

Það er ekki þverfótað fyrir tilvísunum í hvað lýðheilsufræðingum finnst og jafnvel þó bent sé á að gögnin sem þeir leggja til grundvallar standist ekki skoðun, þá er einfaldlega haldið áfram að endurtaka fullyrðingarnar aftur og aftur.

Ef fólk hefur virkilega trú á að lýðheilsurök komi þessu frumvarpi eitthvað við, þá ætti þetta sama fólk að eyða jafn mikilli, eða reyndar meiri, orku í að krefjast þess að allt áfengi væri bannað. Sama fólk ætti þá með sömu rökum að krefjast þess að tóbak, sykur, sælgæti, unnar kjötvörur yrði eingöngu selt í ríkisreknum verslunum. Nei, hvernig læt ég, auðvitað á að banna þetta alfarið, það eru mjög sterk lýðheilsurök fyrir því.

En fólki vefst allt í einu tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar á að teygja rökin lengra og yfir á eitthvað sem þeim hentar ekki sjálfum. Lýðheilsurökin virðast nefnilega bara telja „þegar það hentar mér“..

Og ég hef ekkert sérstaklega mikla samúð með svona málflutningi.

„Annarlegar hvatir“ heilkennið

Posted: febrúar 25, 2017 in Umræða

Ég er ekki frá því að ákveðinn ósiður / dónaskapur í umræðunni sé að ágerast.

Það er eins og fólk geti ekki með nokkru móti skilið að einhver sé þeim ósammála og það að einhver hafi aðra skoðun geti ekki átt aðra skýringu en annarlegar hvatir.

Kannski má rekja þetta til einstaklings sem var forsætisráðherra fyrir ekki svo löngu síðan. Það var ekki að sjá að viðkomandi hefði nokkurn skilning á því að einhver gæti mögulega verið ósammála honum vegna þess að sá viðkomandi væri að meta upplýsingar, gögn á annan hátt en hann eða að viðkomandi gæti metið sem svo að önnur sjónarmið myndu vega þyngra.

Hann hafði bara rétt fyrir sér. Punktur. Ef einhver vogaði sér að viðra aðra skoðun þá var viðkomandi annað hvort að misskilja hans eina rétta sjónarmið – eða stjórnaðist af annarlegum hvötum. Það var bara útilokað að eitthvert annað sjónarmið hefði eitthvert vægi.

Kannski á ég bara svona skrýtna vini á samfélagsmiðlunum, en mér finnst þetta fara vaxandi.

Ég vona amk. að ég sé ekki að falla í þessa gildru, en fyrir alla muni hnippið í mig ef svo fer..

Siðferði eða lög

Posted: febrúar 25, 2017 in Umræða

Ég átti spjall í gær við mann sem hélt því fram, hafi ég skilið rétt, að ekkert væri siðferðislega rangt nema það væri ólöglegt – lögin enduspegluðu siðferðið.

[svo því sé haldið til haga þá hafði viðkomandi samband og segir mig ekki hafa skilið hann rétt, hann hafi ekki haldið þessu fram, en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég heyri þetta og auðvitað aukaatriði í þessari færslu, hér er ég eingöngu að fjalla um þessar hugmynd, hvaðan sem hún kemur]

Það er í sjálfu sér margt við þessa fullyrðingu að athuga. Vonandi þarf ég ekki að fjölyrða um það. Ég vona að minnsta kosti að ég nái að haga mér þannig að ég geri það sem mér finnst siðferðilega rétt án tillits til hvort einhver nákvæmur lagabókstafur nái til þess eða ekki.

Hitt er að með þessari afstöðu erum við komin í ákveðna sjálfheldu.

Ef ekkert er siðferðilega rangt nema það sé ólöglegt.. þá náum við aldrei að setja neitt nýtt í lög! Því ef mér finnst að það eigi að setja í lög að banna ákveðna hegðun vegna þess að hún sé siðferðilega röng – þá segir sig sjálft að hún er ekki siðferðilega röng vegna þess að hún er ekki bönnuð með lögum. Og ef hún er ekki siðferðilega röng þá er auðvitað ekki rétt að setja nein lög um hana.

Ég legg (reyndar ekki, en samt) til að blýantar verði settir í sama flokk og sígarettur.

Það er auðvitað skelfilega ljótt að sjá til fólks sem er að naga þetta fyrirbæri – þetta bölvaður ósiður og fólk getur einfaldlega vanið sig af að þurfa að vera með eitthvað í kjaftinum allan daginn.

Þá er ekki endanlega sannað að það geti ekki verið mengun af þessu sem er skaðleg öðrum, þarna er jú „blý“ sem er stórhættulegt eins og allir vita.

Vegatollar??

Posted: febrúar 13, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég verð að játa að ég næ ekki þessari umræðu um vegatolla.

Burtséð frá því hvort skattar sem lagðir eru á bifreiða- eigendur og notendur standa undir rekstri vegakerfisins.

Og burtséð frá því hvort bílar eru of stór hluti samgöngukerfisins eða ekki.

Þá fæ ég ekki betur séð en að þessi aðferð við að sækja tekjur sé alveg einstaklega óhagkvæm. Það koma auðvitað einhverjar leiðir til greina og ég veit ekki nákvæmlega hvernig hugmyndin er að framkvæma þetta – en líkast til þarf að setja upp hlið, ráða fólk í vinnu, koma upp kerfi, gefa út kort og/eða setja upp eftirlitskerfi – og er þá fátt eitt nefnt.

Þannig virðist þessu fylgja talsverður óþarfa kostnaður – vera einfaldlega hrein og klár sóun á mannafla, efni, peningum..

Þeir greiða væntanlega mest sem aka mest, sem gildir líka um bensíngjaldið. Ég hef amk. ekki séð neina greiningu á því að þetta gjald leggist á ökumenn í öðrum hlutföllum, hvað þá réttlætingu fyrir því að leggja gjöld á ökumenn þannig að ákveðinn hluti þeirra greiði hærri gjöld en aðrir.

Sums staðar eru vegatollar notaðir til að stýra umferð, en þá eingöngu þar sem fólk hefur einhverja valkosti. Ég hef ekki heyrt neitt um að þessi gjöld eigi að nota í þeim tilgangi, hvað þá hvernig sú stýring er hugsuð og hvert hugmyndin er að beina fólki.

Þannig að ef hugmyndin er einfaldlega að leggja meiri álögur á bifreiðaeigendur / ökumenn þá er auðvitað mun einfaldara að hækka gjöld á eldsneyti.

En þá rifjast einmitt upp.. erum við ekki einmitt nú þegar að borga himinhá gjöld af eldsneyti til að standa undir vegakerfinu?

Er þetta ekki bókstaflega arfavitlaus hugmynd? [svo ég spyrji nú, enn einu sinni, eins og bjáni]

† setti viðbætur við upphaflega færslu 15.2.2017 13:47

Aldurinn og áfengið

Posted: febrúar 10, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Nei, kannski ekki aldurinn í sjálfu sér, heldur frekar tímabilið sem „við vorum ung“.. fyrirsögnin hljómaði bara betur svona.

Ég velti fyrir mér einum rauðum þræði í umræðunni um sölu áfengis í verslunum. Þetta virðist nefnilega ekki skiptast eftir stjórnmálaflokkum og/eða -skoðunum, heldur fyrst og fremst eftir aldri.

Jú, jú, það heyrast alveg rökleysur þar sem verið er að stimpla fólk með frösum og klisjum og reyna að tengja við stjórnmálaflokka og stefnur, en það virðist fyrst og fremst koma frá þeim eru að skilgreina skoðanir annarra.

Getur verið að skýringin liggi frekar í því að hér áður fyrr, td. þegar ég var ungur, var áfengi fyrst og fremst vímuefni og með neyslu þess var verið að sækja eftir ákveðnum áhrifum, frekar en að þetta þættu endilega eitthvað sérstaklega spennandi drykkir. Tvöfaldur vodki í kók með matnum var alveg þekkt pöntun á veitingastöðum. Sólarlandaferðir snerust fyrst og fremst (hjá mörgum) um að komast í ódýrt áfengi. Það að fá sér einn drykk og láta þar staðar numið var ekki algengt. Ég ætla ekki að alhæfa út frá eigin reynslu, en ég man mjög vel eftir ákveðinni skemmtistaðamenningu sem var engan veginn bundin við minn vinahóp. Enda lá í menningunni að áfengi væri einhvers konar helgigripur sem þyrfti að meðhöndla sérstaklega. Bjór var til að mynda ekki leyfður fyrr en 1989, á meðan sterk vín voru í lagi.. sem sýnir nú kannski best „skynsemina“ þegar kom að áfengi.

Að sama skapi virðist ungt fólk í dag umgangast áfengi á allt annan hátt en fyrri kynslóðir. Það að leyfa bjórinn hjálpaði eflaust mikið til, ungt fólk fær sér 1-2 bjóra með mat, sjónvarpsglápi, tölvuleikjum, spilum, yfir spjalli.. án þess að tilgangurinn sé sá einn að komast í vímu. Líkast til hefur líka hjálpað til að það er mun ódýrara og einfaldara að ferðast, jafnvel búa erlendis, og kynnast þannig annarri menningu.

Fyrir þeim er það (heyrist mér) ótrúlega afdalamennska að það þurfi sérstakar ríkisreknar einokunarverslanir til að selja áfengi.

Gott og vel, auðvitað má finna fullt af undantekningum. Það þekktist alveg fólk sem kunni að meta áfengi hér áður fyrr án þess sækjast eftir því að komast í vímu. Og auðvitað er fullt af undantekningum um ungt fólk sem misnotar áfengi. En almennt séð, þá sýnist mér ákveðin viðhorfsbreyting vera sláandi milli kynslóða. Við eigum enn eitthvað í land, þetta er þróun og þetta snýst um viðhorf og þetta snýst um menningu. Ég held að fyrsta skrefið sé að hætta að umgangast áfengi eins og einhvers konar „helgigripi“. Og ég efast um að þessi móðursýkiskenndi [hvaðan kemur annars þessi þýðing „móðursýki“? muna að skoða seinna] tónn í umræðunni síðustu daga hjálpi til.

Svo langt sem ég sé, þá er opnunartími og fjöldi útsölustaða engin hindrun fyrir þá sem eru í vandræðum með áfengisneyslu og ætla sér að ná í áfengi, þetta eru fyrst og fremst óþarfa óþægindi fyrir aðra. Ég á líka mjög bágt með að trúa því að það skipti sköpum fyrir einhvern hvort áfengi er inni í matvöruverslun eða blasir við í næstu búð þegar komið er út. Verð virðist hafa áhrif á heildarneyslu, en ég hef ekki séð það stöðva þá sem eru í vandræðum með neysluna, það sitja einfaldlega aðrir hlutir á hakanum.

Eftir stendur að ég hef fulla trú á að við gerum best með því að bæta menningu og neysluvenjur með upplýsingum, fræðslu og aðstoð – til lengri tíma hef ég trú á að það fækki vandamálum vegna misnotkunar – ekki bara vegna neyslu áfengis. Á sama hátt hef ég ekki trú á að ríkisrekin stýring og það að setja óþarfa takmarkanir á alla (þó það sé) í vel meintri trú á að hjálpa fáum skili okkur í rauninni nokkru.