„Annarlegar hvatir“ heilkennið

Posted: febrúar 25, 2017 in Umræða

Ég er ekki frá því að ákveðinn ósiður / dónaskapur í umræðunni sé að ágerast.

Það er eins og fólk geti ekki með nokkru móti skilið að einhver sé þeim ósammála og það að einhver hafi aðra skoðun geti ekki átt aðra skýringu en annarlegar hvatir.

Kannski má rekja þetta til einstaklings sem var forsætisráðherra fyrir ekki svo löngu síðan. Það var ekki að sjá að viðkomandi hefði nokkurn skilning á því að einhver gæti mögulega verið ósammála honum vegna þess að sá viðkomandi væri að meta upplýsingar, gögn á annan hátt en hann eða að viðkomandi gæti metið sem svo að önnur sjónarmið myndu vega þyngra.

Hann hafði bara rétt fyrir sér. Punktur. Ef einhver vogaði sér að viðra aðra skoðun þá var viðkomandi annað hvort að misskilja hans eina rétta sjónarmið – eða stjórnaðist af annarlegum hvötum. Það var bara útilokað að eitthvert annað sjónarmið hefði eitthvert vægi.

Kannski á ég bara svona skrýtna vini á samfélagsmiðlunum, en mér finnst þetta fara vaxandi.

Ég vona amk. að ég sé ekki að falla í þessa gildru, en fyrir alla muni hnippið í mig ef svo fer..

Lokað er á athugasemdir.