Sarpur fyrir júní, 2013

Mér dettur í hug í kjölfar skammstafanasvars ónefnds stjórnmálamanns hvort ekki sé rétt að veita verðlaun fyrir ómálefnalegasta svar ársins.

Væri ekki kjörið að safna þessu saman frá júní til maí á hverju ári og veita sigurvegaranum vegleg verðlaun.

Til greina koma ummæli íslenskra stjórnmálamanna sem koma að engu leyti málefnalega inn á það sem er til umræðu.

Er ekki kjörið að kalla þetta S.K.A.M.M. – S.T.Ö.F.U.N.I.N.? Þetta gæti staðið fyrir „Stórkostlega Kauðalega Aulahrollskveikjandi Merkingarlaus Málefnatóm Sauðsháttar Tóm Öfug Fátækleg Ummæli Nokkurar Innlendrar Nöldurskjóðu“.

Tilnefningar sendar hingað…

Ómálefnaleg umræða, útúrsnúningar og undanbrögð hafa því miður allt of oft einkennt stjórnmálaumræðuna.

Í gær heyrði ég haft eftir stjórnmálamanni að hann gerði ekkert með efnislegar athugasemdir stofnana vegna þess að heiti þeirra eru skammstöfuð.

Ég náði ekki hver þetta var, né hvert tilefnið var né hvaða mál var til umræðu. Enda skiptir það engu máli.

En er þetta ekki botninn á umræðu taktík? Og má þó benda á ansi mörg tilsvör sem veita harða samkeppni.

Ég skrifaði undir kröfu um óbreytt veiðigjald.

Ekki svo að skilja að mér finnist þetta besta lausnin, langt frá því..

En mér finnst fráleitt að fella þetta niður án þess að koma með nothæfa lausn.

Og ég hef enn ekki séð nein rök fyrir að ekki sé hægt að innheimta þetta… og þó þau rök væru fyrir hendi, þá væru réttu viðbrögðin auðvitað að gera nauðsynlegar lagfæringar í stað þess að fella niður.

Ég hef heldur ekki séð nein rök fyrir að þetta stangist á við stjórnarskrá, en ef þau rök eru til, þá staðfesta þau auðvitað hversu handónýt núverandi stjórnarskrá er.

Best væri að koma með nothæfa lausn. Á meðan er fráleitt að fara til baka í algjörlega ónothæft kerfi.

Blikasigur

Posted: júní 10, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:

Það var öruggur sigur í Kópavoginum áðan, en ekkert sérstaklega skemmtilegur leikur þegar Víkingur Ólafsvík kom í heimsókn, 2-0 fyrir Blikum.

Fyrsta markið kom þegar ég var rétt á leiðinni inn á völlinn, sá hvorki brotið né markið, en leikurinn var vægast daufur fram undir lok fyrri hálfleiks. Ég held að það hafi ekki komið skot í áttina á marki fyrr en þrjár, fjórar mínútur voru í leikhléið… þá komu reyndar nokkrar (frekar slakar) tilraunir.

Það kom svo sem ekkert á óvart að Víkingar börðust vel.. svo vel að ég áttaði mig ekki á að Blikar væru einum fleiri fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleikinn. Það kom hins vegar aðeins á óvart að þarna eru margir ágætis leikmenn og liðið ætti að geta halað inn eitthvað af stigum í sumar. Á hinn bóginn fannst mér kappið full mikið á köflum, mikið af brotum og sum óþarflega hættuleg, hefðu hæglega getað kostað meiðsli.

Blikar voru engan veginn nógu beittir fram á við. Of mikið um misheppnaðar sendingar, óþarflega erfiðar langar sendingar, ónotuð tækifæri á sendingum og ekki síst allt of margar rangstöður. Um tíma hvarflaði að mér að þeir kynnu ekki almennilega við að nýta sér yfirburðina og klára leikinn.

En svo við tökum ekkert af öflugu liði.. mjög vel skipulagt og allir leikmenn vinna varnarvinnuna. Ég held að Víkingar hafi ekki einu sinni fengið hálf færi allan leikinn, auðvitað alltaf erfitt að spila einum færri, en það þarf samt að hafa fyrir hlutunum og klára „verkefnið“, þetta gerðu Blikar vel og ég hef enn trú á góðu sumri.

Rökleysan um reglur og undantekningar

Posted: júní 10, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Ég heyri alltaf nokkrum sinnum heyrt þennan gamla frasa að eitthvað sé undantekningin sem sanni regluna.

Þetta stenst auðvitað ekki skoðun. Undantekningar frá reglum – væntanlega er átt við að einhver regla sé á að eitthvað gerist – sannar engan veginn viðkomandi reglu. Þvert á móti grafa allar undantekningar undan því að um reglu sé að ræða. Því fleiri sem undantekningarnar eru þeim mun ólíklegra er nefnilega að um einhverja reglu sé að ræða.

Enda hvað með tvær undantekningar? Sanna þær „regluna“ enn frekar? Eða þrjár? Hvenær eru undantekningarnar orðnar nægilega margar til að sýna fram á að ekki sé um reglu að ræða?

Nú er það auðvitað ekki þannig að ein undantekning afsanni alltaf eitthvert mynstur eða líkur á að eitthvað gerist. En undantekning sannar aldrei eða sýnir fram á einhverja reglu. Þvert á móti er rétt að skoða allar undantekningar sem vísbendingu um að ekki séu um að ræða reglubundið fyrirbæri.

Frumleg skilgreining á hártogunum

Posted: júní 9, 2013 in Trú
Efnisorð:, ,

Skoðun birti ágæta samantekt á rangfærslum biskups í ræðu hennar fyrir setningu Alþingis, sbr. http://skodun.is/2013/06/07/thrjar-athugasemdir-vid-predikun-biskups/.

Meðal annars var bent á það að sú fullyrðing biskups þess efnis að kirkjan þjóni öllum standist ekki skoðun. Bæði er það skýrt tekið fram í samþykktum kirkjunnar að hún þjóni ekki fólki sem stendur utan hennar. Það hefur reynt nokkrum sinnum á þetta á síðustu mánuðum og niðurstaðan er alveg kýrskýr. Kirkjan þjónar ekki þeim sem standa utan hennar.

Í grein á trúmál.is er kallað hártogun í nafnlausri grein að benda á að þetta er ekki rétt.

Hvernig má þetta vera hártogun. Biskup setur fram fullyrðingu sem er sannanlega röng.

Þetta er jafn galið og að ef ég héldi því fram að Íslenska landsliðið í fótbolta hefði unnið Slóvena á Laugardalsvelli síðasta föstudag. Þegar mér væri bent á að leikurinn hefði farið 4-2 fyrir Slóvena myndi ég snúa upp á mig og kalla þetta hártogun með þjósti.

Það má líka rifja upp að í umræðum fyrir kosningar um stjórnarskrá var biskupi bent á þetta og kom hún af fjöllum og kannaðist ekki við þetta. En athygli hennar var vakin á þessu þarna og því vísvitandi rangfærsla að halda þessu stöðugt fram. Það er ekki fallegt að skrökva, held að það sé meira að segja nefnt í boðorðum kirkjunnar.

Í dag minnumst við þess að tvö ár eru liðin frá því forseti Íslands steig það gæfuspor að senda Alþingi heim og tók að sér að sjá um löggjöf sjálfur.

Þær efasemdar- og gagnrýnisraddir sem heyrðust sumarið 2015 hafa nú þagnað. Forsetanum hefur farist löggjöf einstaklega vel úr hendi og ríkisstjórnin sem hann hefur stýrt frá sama tíma hefur náð ótrúlegum árangri. Þá hafa landsmenn glaðst yfir þeirri miklu hrifningu sem einkavinir forsetans í Evrópu hafa lýst á störfum hans.

Ekki má gleyma hversu vel þær litlu breytingar sem forseti gerði á stjórnarskránni, í góðri sátt við sjálfan sig, hafa virkað.

Gríðarlegar breytingar hafa einnig orðið í allri fjölmiðlun eftir að forsetinn tók að sér umsjón þeirra, og gildir þetta jafnt um prentmiðla, ljósvakamiðla og vefmiðla – rifrildi, þras og hvers kyns gagnrýni er nú óþekkt – sátt og samlyndi einkennir nú þjóðlífið.

Við hér á vefsíðu Íslands hvetjum forseta vorn til að stíga skrefið til fulls og taka að sér embætti biskups.

Mér hefur lengi þótt tímabært að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni. Hún er ruglingsleg, mótsagnakennd og tekur ekki á mikilvægum atriðum – hefur verið gagnslaus þegar kemur að skilgreiningu á hlutverkum, völdum og ábyrgð ráðamanna.

Helstu svörin sem ég hef fengið er að það sé allt í lagi að hún sé ruglingsleg, takmörkuð og óskýr… við höfum hefðir til að styðjast við.

Fyrir nokkrum árum braut núverandi forseti þá hefð að forseti nýtti sér ekki þann möguleika að neita að skrifa undir lög. Sami einstaklingur hafði reyndar áður talið að hefðarinnar vegna væri þetta vald ekki hjá forseta lengur.

Aftur braut forsetinn blað í gær þegar hann fór að segja þingmönnum fyrir verkum í stórpólitískum málum. Bæði þegar kom að aðild að Evrópusambandinu. Og ekki síður þegar kom að endurskrift stjórnarskrárinnar.

Um leið og forsetinn fór að segja sína skoðun á stjórnarskrá, og það við setningu þingsins.. undirstrikaði hann hversu losaralega gamla stjórnarskráin er, hversu gagnslausar hefðirnar eru og hversu mikilvægt er að fá nothæfa stjórnarskrá.

Talandi um sjálfsmark…

Evrópusambandið skelfur..

Posted: júní 6, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ef marka má forsetann þá er enn ein krísan yfirvofandi hjá Evrópusambandinu. Þetta mögulega áfall felst í þeirri ógn ef svo færi að Ísland skyldi nú hafna aðild að sambandinu. Út frá þessum ótta reiknar hann svo út að Evrópusambandið hafi ekki áhuga á að klára viðræðurnar.

Ekki svo að skilja að ég efist um að Evrópusambandið hafi tilbúna neyðaráætlun til að bregðast við þessu hugsanlega krísuástandi sem gæti skapast Ísland skyldi hafna aðild. Ég er svona einhvern veginn meira að efast um að sambandið myndi líta á þetta sem eitthvert sérstakt áfall. Kannski meira í þá áttina að þeim sé nokkurn veginn sléttsama, kannski einhver pirringur að þjóð sé að sækja um aðild án þess að hugur fylgi máli. En að höfnun smáþjóðar vegi yfirleitt eitthvað á móti ákvörðunum þeirra sem hafa sóst eftir og þegið aðild breytir auðvitað sáralitlu – svona kannski líkara því að missa af þúsundkalli eftir að hafa grætt milljónir… eða þannig.

En svo er alltaf hinn möguleikinn.

Sem er að ekkert sé að marka kallinn.

Þessi belgingur að við séum svo stórmerkileg að það yrði öðrum þjóðum áfall ef við skyldum hafna því að leika með minnir nefnilega illa á ýmis vandræðaleg kjánahrolls ummæli fyrir nokkrum árum um hversu merkilegir við Íslendingar séum.