Blikasigur

Posted: júní 10, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:

Það var öruggur sigur í Kópavoginum áðan, en ekkert sérstaklega skemmtilegur leikur þegar Víkingur Ólafsvík kom í heimsókn, 2-0 fyrir Blikum.

Fyrsta markið kom þegar ég var rétt á leiðinni inn á völlinn, sá hvorki brotið né markið, en leikurinn var vægast daufur fram undir lok fyrri hálfleiks. Ég held að það hafi ekki komið skot í áttina á marki fyrr en þrjár, fjórar mínútur voru í leikhléið… þá komu reyndar nokkrar (frekar slakar) tilraunir.

Það kom svo sem ekkert á óvart að Víkingar börðust vel.. svo vel að ég áttaði mig ekki á að Blikar væru einum fleiri fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleikinn. Það kom hins vegar aðeins á óvart að þarna eru margir ágætis leikmenn og liðið ætti að geta halað inn eitthvað af stigum í sumar. Á hinn bóginn fannst mér kappið full mikið á köflum, mikið af brotum og sum óþarflega hættuleg, hefðu hæglega getað kostað meiðsli.

Blikar voru engan veginn nógu beittir fram á við. Of mikið um misheppnaðar sendingar, óþarflega erfiðar langar sendingar, ónotuð tækifæri á sendingum og ekki síst allt of margar rangstöður. Um tíma hvarflaði að mér að þeir kynnu ekki almennilega við að nýta sér yfirburðina og klára leikinn.

En svo við tökum ekkert af öflugu liði.. mjög vel skipulagt og allir leikmenn vinna varnarvinnuna. Ég held að Víkingar hafi ekki einu sinni fengið hálf færi allan leikinn, auðvitað alltaf erfitt að spila einum færri, en það þarf samt að hafa fyrir hlutunum og klára „verkefnið“, þetta gerðu Blikar vel og ég hef enn trú á góðu sumri.

Lokað er á athugasemdir.