Sarpur fyrir janúar, 2019

Þá virðast veggjöldin vera á leiðinni.

Fyrir það fyrsta þá er þetta grundvallarmisskilningur, misskilningur sem byggir á því að gott samgöngukerfi sé eingöngu fyrir þá sem keyra um á bíl.

Auðvitað kemur gott samgöngukerfi öllum til góða.

Og það þarf ekki að benda á kostnaðinn sem lélegt kerfi hefur í för með sér fyrir okkur öll.

Ekki bætir úr skák að fyrirhuguð gjöld leggjast ekki í nokkru samræma á þá sem nota vegakerfið, ef við gefum okkur að þeir sem nota vegakerfið mest eigi að greiða fyrir uppbyggingu þess – sem eins og áður segir, gengur ekki upp.

Þá er eiginlega fráleitt að fara í skattheimtu sem kostar talsvert í framkvæmd og étur þannig hluta af gjöldunum, þetta er einfaldlega glórulaus sóun á peningum.

Að lokum treysti ég ekki þessum skattpíningarkóngum fyrir horn, reynslan hefur margsinnis sýnt að sérstök gjöld, ætluð til afmarkaðra verkefna, renna fljótlega í hvaða önnur verkefni sem sem þykir vinsælt að hafa í forgangi hverju sinni.

Bank, bank

Posted: janúar 20, 2019 in Umræða

Það er auðvitað ekki annað hægt en að hafa skoðanir á bönkunum þessa dagana.

Ég sé engin sérstök rök fyrir því að ríkið sé að eiga og reka banka, frekar en að ég sé engin sérstök rök fyrir því að ríkið eigi yfirhöfuð að vera að standa í atvinnustarfsemi á samkeppnismarkaði.

Hvað þá að ríkið standi í rekstri tveggja banka á sama markaði, það er í rauninni alveg galið.

Jú, bankastarfsemi er talsvert frábrugðin annarri starfsemi, en ég sé ekkert sem kallar á ríkisrekstur.

Bankar í einkarekstri fóru vissulega illa með okkur í hruninu, en það segir (mér amk.) frekar að það sé nauðsynlegt að hafa strangar reglur og gott eftirlit með starfsemi banka.

Salan á bönkunum til einkaðila var vissulega misheppnuð, hvort sem kenna má um aulagangi / getuleysi eða hvort vísvitandi var verið að koma þeim til valinna einstaklinga. Það segir ekki að það sé ekki hægt að standa vel að því að selja bankana.

Bankarnir skila talsvert miklum arði í ríkissjóð, það er ekki endilega til marks um að ekki megi selja bankana, það getur alveg eins verið til marks um að það eigi að setja háan verðmiða á þá.

Svo eru hugmyndir um að nota tækifærið og stofna „samfélagsbanka“.

Fyrir það fyrsta, er „samfélagsbanki“ ekki að mestu leyti sama hugmynd og „sparisjóður“, svona eins og lagt var upp með á sínum tíma? (verð samt að hafa þann fyrirvara að mögulega er ég ekki nægilega vel að mér í sögunni) Erum við ekki með sparisjóði? Eru þeir að standa sig betur?

Ef samfélagsbanki er svona góð hugmynd, hvers vegna eru þeir sem tala stöðugt fyrir henni ekki einfaldlega löngu búnir að koma henni í framkvæmd? Það er frekar marklítið að tala fyrir hugmynd en þora ekki að framkvæma.

Með þeim fyrirvara að umræðan um samfélagsbanka er svolítið út og suður þá, heyrist mér að helstu vonir bundnar við lægri vexti. Fyrir það fyrsta, jú, en þá lækkar væntanlega hagnaður og arður sem fer í ríkissjóð. Það er ekki bæði hægt að nota þau rök að ríkið eigi að halda bönkunum vegna þess að þeir skili svo miklu í ríkissjóð og að það eigi að breyta þeim í samfélagsbanka sem skili litlum arði.

Hér rifjast upp þegar fyrrverandi þingmaður hélt báðum rökunum fram á sínum tíma, nánast í sömu setningu og þegar bent var á mótsögnina var svarið eftir smá umhugsun svona einhver útgáfa af „það sprettur og sprettur“.

Og ef hugmyndin með samfélagsbanka er að lækka vexti – sem væri klárlega mun betri kjarabót en öll þvælan um verðtrygginguna – þarf einhvern samfélagsbanka til? Er ekki einfaldast fyrir núverandi banka í eigu ríkisins að lækka vexti? Jú, skilar minni hagnaði í ríkissjóð, en það er ekki bæði hægt að halda og sleppa þó margir tali þannig.

Kalda stríðið á hvolfi

Posted: janúar 18, 2019 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Þegar ég var að byrja að fylgjast með fréttum og stjórnmálum var svokallað „kalt stríð“ milli stórveldanna. Heimurinn var einfaldur (ja, svona til þess að gera) og ég tók afstöðu með vesturlöndum – ekki vegna þess að þar væri allt fullkomið og jafnvel þó nóg væri af dæmum um ógeðfelld atriði, heldur vegna þess að ástandið það var skömminni skárra. Og þar var þó reynt að halda uppi og þróa hugmyndir um mannréttindi og lýðræði.

Á endanum varð kommúnismi austantjaldsríkjanna, undir forystu Sovétríkjanna, gjaldþrota – bæði efnahagslega og hugmyndalega – og við tóku breyttir tímar, „vestrið“ hafði unnið kalda stríðið!

Það tók nokkurn tíma fyrir fyrrverandi austantjaldsríki að koma undir sig fótunum og þau fóru ólíkar leiðir. Rússar eru orðnir að stórveldi, lítt geðslegra en gömlu Sovétríkin, þrátt fyrir að engin sérstök hugmyndafræði ráði ríkjum.

Ekki nóg með það, heldur virðist nokkuð ljóst að Rússar hafa komið útsendara til valda í „höfuðstöðvum“ vesturlanda og virðast hafa algjörlega í vasanum. Það má deila um hvort viðkomkandi sé vísvitandi að ganga erinda Rússa, eða sé einfaldlega svona hrikalega heimskur, en það „bíttar ekki öllu“ eins og skáldið sagði. Evrópa er vissulega að reyna að „standa í lappirnar“, en eftir stendur að austurblokkin er að standa uppi sem sigurvegari kalda stríðsins, eftir að hafa „hrakist út í horn“ fundu þeir aðrar og einfaldari leiðir til að ná hreðjatökum á fyrrum andstæðingum.

Kannski er þetta eðli sögunnar, allt breytist, stórveldi liðast sundur og ný fæðast.

Það sem mér er fyrirmunað að skilja er að hörðustu baráttumenn „vestursins“ hér heima á árum áður eru allt í einu farnir að styðja og bera blak af Rússum og valdabrölti þeirra vestanhafs.

 

Guð1 fær hugmynd

Posted: janúar 14, 2019 in Umræða

Guð1: „Ég er að spá í að skapa smá alheim, svona eitthvert svakalegt víravirki, stjörnur, sólir, tungl, eina ‘jörð’ með ‘lífi’, margar tegundir, eina í minni mynd og svo aðrar sem hún getur étið“

Guð2: „Til hvers? Hefurðu það ekki fínt?“

Guð1: „Mér finnst tilveran bara eitthvað svo innantóm, það er enginn sem dáist að mér og tilbiður mig“

Guð2: „Hvaða máli skiptir það, ertu ekki guðleg vera? Er þetta ekki óþarfa hégómi?“

Guð1: „Hefurðu aldrei hugsað hvað það væri frábært að hafa fullt af litlum verum í þinni mynd sem tilbiðja þig?“

Guð2: „Nei, get nú ekki sagt það, mér finnst tilhugsunin hálf kjánaleg“

Guð1: „Og svo hef ég einn útvalinn hóp sem verður minn hópur“

Guð2: „Á þá bara þessi hópur að tilbiðja þig?“

Guð1: „Nei, nei, auðvitað eiga allir að tilbiðja mig. Líka þeir sem aldrei hafa heyrt um mig“

Guð2: „Svafstu illa í nótt?“

Guð1: „Þú veist að við þurfum ekki að sofa og það er enginn munur á degi og nóttu… En ég er að spá í að drífa í þessu, held að þetta verði frábært“

Guð2: „En hvers virði er að skapa lífverur sem tilbiðja þig ef þær hafa ekkert val?“

Guð1: „Nokkuð til í því, kannski ég gefi þeim kost á að velja að tilbiðja mig eða ekki, þá væri stórkostlegt að upplifa tilbeiðsluna“

Guð2: „Já, kannski, en ef verurnar kjósa að tilbiðja ekki?“

Guð1: „Þú meinar það… já, þá sendi ég sendi hverjar hamfarir og plágur á eftir annarri, drep og refsa grimmilega“.

Guð2: „OK, það gæti verið fjör. En ef það dugar ekki?“

Guð1: „Þá fer ég til þeirra, læt fæða mig sem einn þeirra, læt þá drepa mig til að geta fyrirgefið þeim og rís svo upp frá dauðum“

Guð2: „Þú veist að það er ekki hægt að drepa okkur. Og ef það er ekki hægt að drepa okkur hvernig getum við þá risið upp? Og hvers vegna að standa í öllu svona veseni, er ekki einfaldara að fyrirgefa þeim bara rétt si sona?“

Guð1: „Jú, en mér leiðist“

Uppeldið..

Posted: janúar 13, 2019 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

„Gallinn við þessa kynslóð sem setti okkur á hausinn, ryksugaði fyrirtækin og fjármálakerfið og flutti peningana í einkareikninga á Tortóla er að þetta er kynslóðin sem var alin upp eftir að foreldrar hættu að rassskella börnin sín“ sagði vinkona mín á fjórða bjór um daginn.

Sennilega var þetta nú ekki meint bókstaflega og ekki ætla ég að fara að mæla með að foreldrar fari að beita börnin sín ofbeldi.

En ég fór að hugsa…

Kannski er eitthvað til í þessu, svona á einhverju sviði, því þetta er mögulega sú kynslóð sem er alin upp við að vera alltaf hrósað í hástert fyrir minnstu hreyfingu og aldrei mátti gera athugasemdir við eitt né neitt, hversu hálfvitalega sem þau höguðu sér.

Skýrustu dæmin, eða að minnsta kosti þau mest áberandi, eru kannski úr íslenskum stjórnmálum.

Það virðist æ algengara einstaklingar geti ekki unnið úr gagnrýni eða því að einhver sé þeim ósammála. Það er eins að heilinn ráði ekki við nýja upplifun á fullorðinssaldri. Eina mögulega skýringin sem þeim dettur í hug þegar einhver er þeim ósammála er að viðkomandi hljóti að vera að misskilja eða sé þátttakandi í herferð illa innrættra einstaklinga.

Ekki misskilja mig, ég er ekki að tala fyrir að foreldrar taki upp harkalegar refsingar. En kannski er mögulega, hugsanlega, ekki alveg fráleit hugmynd að þora að segja eitthvað við börnin þegar þau haga sér eins og hálfvitar!

Eftir að hafa verið „umlukinn“ samsæriskenningum síðasta áratuginn eða svo fór ég að velta fyrir mér hvort þetta ætti sér aðrar skýringar en ástríða fyrir að leita sannleikans.

Upphafið tengdist auðvitað ellefta-september. Myndin (eða safnið) „Confronting The Evidence“ var undarlegur grautur af kenningum, blekkingum, órökstuddum fullyrðingum, hreinum og klárum fölsunum, getgátum, skorti á menntun og bókstaflega fráleitum hugmyndum. Ég sat meira að segja nokkrum sinnum undir þessu (ekki mitt val) og oftast heyrði ég reyndar bara hljóðið – sem varð kannski til að blekkingarnar og fúskið voru enn augljósari – og var eiginlega kjaftstopp að verða vitni að því að skynsamasta fólk virtist kokgleypa þennan þvætting gagnrýnislaust. Þetta var bara byrjunin og hver kenningin varðandi ellefta-september tók við af annarri, eins og hafin væri einhver keppni þar sem sigurvegarinn yrði sá sem kæmi með langsóttustu/vitlausustu kenningarnar. Margir trúðu þeim öllum eins og nýju neti og skipti þá engu máli þó þær væru mótsagnakenndar og stönguðust illilega hver á við aðra.

Nú er rétt að taka skýrt fram að ég hafna engu varðandi ellefta-september, fæstar kenninganna um hvað gerðist standast einfaldlega skoðun –  ég hafna því einfaldlega að viðkomandi kenningar sýni fram á eitthvað.

Svo tók við hver samsæriskenningin af annarri. CIA yfirtók heila fólks og fór að fylgjast með, gott ef ekki stýra því hvað fólk gerði.. Hlýnun jarðar var ekki raunveruleg og er bara eitt stórt samsæri. Eitthvað (sem ég man ekki hvernig var) sneri að rákum sem sjást á himni þegar flugvélar fljúga yfir. Olympíuleikarnir voru nefndir til sögunnar, ég náði aldrei hvernig, enda hættur að hlusta.

Jörðin er flöt! Þyngdaraflið er samsæri! Það þurrkar upp sólina að nota sólarorku! Súkkulaði er (æ, ég nennti ekki að lesa).

Svo kom smá hlé, en ekki langt. Pizzagate dúkkaði upp og var tekið opnum örmum. Það var bókstaflega enginn sía eftir til að kveikja á hversu fáránlegar samsetningarnar voru, hversu lítil stoð var að því sem sett var fram til að hrapa að þeim ályktunum sem voru dregnar.. og hversu augljóslega verið var að beinlínis falsa upplýsingar. Þetta var svo „stjarnfræðilega“ vitlaust að ellefta-september kenningarnar voru nánast orðnar „gáfulegar“ í samanburðinum.

Jafnvel staðfestar sannanir fyrir því að ákveðin kenning væri fullkominn tilbúningur úr lausu lofti nægir ekki til. Haldið er áfram að klifa á bullinu og alltaf eru einhverjir ófærir um að vinna úr upplýsingum, efast og leita sér upplýsinga.

Þetta virðist vera orðin stór og arðbær atvinnugrein, að búa til samsæri. Fólk fær „fylgjendur“ og fer að græða á fyrirlestrum og jafnvel bóksölu.

Og þessi atvinnugrein nærist á einhverju sem er varla annað en fíkn auðtrúa einstaklinga í hvers kyns samsæri. Mögulega er þetta af sama grunni og áhuginn á óvæntum úrslitum og óvæntum enda, kannski spilar þetta á svipaðar taugar og spilafíkn, eða einfaldlega fíknina í eitthvað óvænt – eins og vefmiðlar spila til að mynda stöðugt á… „þú verður alveg rosalega hissa ef þú lest þessa frétt eða horfir á þetta videó“.

Það er nefnilega nóg af fólki sem getur ekki unnið úr upplýsingum, oftast ómenntað og hefur aldrei lært að vega og meta gögn, upplýsingar og/eða heimildir, skilur einfaldlega ekki hugtökin.

Vefsíður þar sem einhver fullyrðir eitthvað út í bláinn, fullkomlega órökstuddar fullyrðingar um að setningar merki eitthvað allt annað en þær merkja, YouTube myndbrot þar sem alvöruþrunginn (eða æstur) þulur fullyrðir eitthvað undir dramatískri tónlist, segir jafnvel að eitthvað sjáist á mynd sem hvergi sést, „Photoshoppaðar“ myndir, YouTube myndir með óstaðfestan uppruna, tilbúnar fréttir… allt þetta eru góðar og gildar heimildir – það er að segja ef þær styðja einhverja spennandi niðurstöðu.

Marg staðfestar upplýsingar og vottaðar staðreyndir sem sýna fram á hið gagnstæða eru svo ýmist „falskar“ en aðallega (auðvitað) hluti af samsærinu. Lítil atriði verða aðalatriði, eiga sér kannski fimm-sex mögulegar og eðlilegar skýringar, en það er (auðvitað) ákveðið að engin þeirri gangi upp (allt í einu haga allir sér fullkomlega skynsamleg og gera engin mistök)… og eftir stendur eina skýringin sem styður samsærið. Svo er auðvitað fyllt í eyðurnar með getgátum og fantasíum þar sem ekkert stöðvar hugmyndaflugið… síst af öllu þekking.

Það dúkkar enn upp sú bábilja að þáverandi forseti hafi „bjargað þjóðinni“ í IceSave deilunni. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki fengið nóg af umræðunni á sínum tíma, en það er kannski aldrei of seint að læra af reynslunni.

Fyrir það fyrsta, eins og Indriði H. Þorláksson í grein hér hefur sýnt fram á þá var sennilega dýrari leið að hafna samningi þegar allt kom til alls… það má vissulega velta fyrir sér nokkrum atriðum hjá Indriða, hugsanlegum vöxtum og gengisþróun, sem auðvitað var ekki þekkt fyrir fram – en ekkert af þeim vangaveltum breytir svo miklu að við höfum séð fram á „gjaldþrot“, „óviðráðanlega greiðslubyrði“ og hvað þetta var kallað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki spurning um skoðun, þetta er bara spurning um að vera læs á tölur. Aftur, jú, það var ekki vitað nákvæmlega hvernig uppgjörið myndi ganga, en það snerist ekki um þá stærðargráðu sem haldið var fram í umræðunni á sínum tíma.

Hitt sjónarmiðið – og það sem mig langar að velta fyrir mér hér – var að við ættum ekki að bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna – nokkuð sem mig minnir að þáverandi Seðlabankastjóri hafi orðað fyrstur. Kannski kom sú skilgreining úr hörðustu átt því sami Seðlabankastjóri fullyrti, í óspurðum fréttum, snemma árs 2008 að jafnvel þó bankarnir færu á hausinn þá gæti íslenska ríkið auðveldlega staðið undir skuldbindingum þeirra.

En að bera ekki ábyrgð á skuldum annarra.

Ég er einfaldlega ekki sammála þeirri nálgun í þessu tilfelli. Bankarnir störfuðu undir eftirliti íslenskra stofnana og bæði þær stofnanir og íslensk stjórnvöld afþökkuðu boð um að koma þessum skuldum í skjól erlendis.

Getum við sagt, „tja, mér kemur þetta ekkert við, þetta eru ekki mínar skuldir“? Eftir að hafa ítrekað kosið viðkomandi til valda?

Það er kannski fín nálgun að gera ráð fyrir að við berum einmitt ábyrgð á þeim ríkisstjórnum sem við kjósum til valda, getuleysinu og vanhæfni þeirra sem skipaðir eru í lykilstöður af viðkomandi stjórnvöldum. Og hugsum aðeins áður en við kjósum.

Einhver leiðigjarnasta klisjan sem ég heyri yfir hátíðirnar er að við Íslendingar séum kristin þjóð. Ég fæ aldrei nein svör af neinu viti þegar ég spyr hvað þetta tákni og hvernig fólk fái þetta út.

Þátttakan í trúarlegum athöfnum er að mestu bundin við tyllidaga, ég veit ekki nákvæmlega hversu margir mæta til messu utan hátíðisdaga og fjöldskylduviðburða, en þeir eru ekki margir.

Meirihluti landsmanna er vissulega enn skráður í þjóðkirkjuna, en lang flestir við fæðingu að þeim forspurðum og þetta hlutfall fer hratt niður á við.

Aftur hef ég ekki nákvæmar tölur en ég efast um að meira en 5% geti farið með trúarjátninguna og ég efast um (eða vona að minnsta kosti) að margir þeirrra taki innihald hennar bókstaflega.

Vissulega má halda því fram að flestir gera sér far um að breyta rétt og forðast að breyta rangt. Og það er líka rétt að mikið af því má sækja í boðskap kristninnar. En kristnin sækir nefnilega þær hugmyndir til annarra og hefur þar fyrir utan, svona í aldanna rás, lagað sig að hugmyndum um hvað sé rétt og hvað sér rangt.. sem er gott, en kannski full mikið að eigna trúnni þær hugmyndir. Og ekki gleyma að það þarf líka oft á tíðum að skauta fram hjá miður jákvæðum boðskap biblíunnar og margra talsmanna kirkjunnar.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða, þó ósanngjarnt sé að einhverju leyti, að benda á að þeir sem gaspra hvað hæst um mikilvægi trúarinnar fylgja nú kannski hvað síst boðskap hennar, til að mynda, um náungakærleik þegar kemur að því að, svo ég nefni nú nærtækt dæmi, aðstoða fólk í neyð. Ég er ekki að nefna þetta til að yfirfæra þessar skoðanir yfir á alla kristna heldur til að benda á að kannski er of mikil áhersla á trúna og það að berja sér of mikið á brjóst sem trúuðum einstaklingi og hafa hvað hæst um hversu kristin við séum… ekki endilega neitt sérstaklega jákvætt.