Sarpur fyrir janúar, 2019

Guð1 fær hugmynd

Posted: janúar 14, 2019 in Umræða

Guð1: „Ég er að spá í að skapa smá alheim, svona eitthvert svakalegt víravirki, stjörnur, sólir, tungl, eina ‘jörð’ með ‘lífi’, margar tegundir, eina í minni mynd og svo aðrar sem hún getur étið“

Guð2: „Til hvers? Hefurðu það ekki fínt?“

Guð1: „Mér finnst tilveran bara eitthvað svo innantóm, það er enginn sem dáist að mér og tilbiður mig“

Guð2: „Hvaða máli skiptir það, ertu ekki guðleg vera? Er þetta ekki óþarfa hégómi?“

Guð1: „Hefurðu aldrei hugsað hvað það væri frábært að hafa fullt af litlum verum í þinni mynd sem tilbiðja þig?“

Guð2: „Nei, get nú ekki sagt það, mér finnst tilhugsunin hálf kjánaleg“

Guð1: „Og svo hef ég einn útvalinn hóp sem verður minn hópur“

Guð2: „Á þá bara þessi hópur að tilbiðja þig?“

Guð1: „Nei, nei, auðvitað eiga allir að tilbiðja mig. Líka þeir sem aldrei hafa heyrt um mig“

Guð2: „Svafstu illa í nótt?“

Guð1: „Þú veist að við þurfum ekki að sofa og það er enginn munur á degi og nóttu… En ég er að spá í að drífa í þessu, held að þetta verði frábært“

Guð2: „En hvers virði er að skapa lífverur sem tilbiðja þig ef þær hafa ekkert val?“

Guð1: „Nokkuð til í því, kannski ég gefi þeim kost á að velja að tilbiðja mig eða ekki, þá væri stórkostlegt að upplifa tilbeiðsluna“

Guð2: „Já, kannski, en ef verurnar kjósa að tilbiðja ekki?“

Guð1: „Þú meinar það… já, þá sendi ég sendi hverjar hamfarir og plágur á eftir annarri, drep og refsa grimmilega“.

Guð2: „OK, það gæti verið fjör. En ef það dugar ekki?“

Guð1: „Þá fer ég til þeirra, læt fæða mig sem einn þeirra, læt þá drepa mig til að geta fyrirgefið þeim og rís svo upp frá dauðum“

Guð2: „Þú veist að það er ekki hægt að drepa okkur. Og ef það er ekki hægt að drepa okkur hvernig getum við þá risið upp? Og hvers vegna að standa í öllu svona veseni, er ekki einfaldara að fyrirgefa þeim bara rétt si sona?“

Guð1: „Jú, en mér leiðist“

Það dúkkar enn upp sú bábilja að þáverandi forseti hafi „bjargað þjóðinni“ í IceSave deilunni. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki fengið nóg af umræðunni á sínum tíma, en það er kannski aldrei of seint að læra af reynslunni.

Fyrir það fyrsta, eins og Indriði H. Þorláksson í grein hér hefur sýnt fram á þá var sennilega dýrari leið að hafna samningi þegar allt kom til alls… það má vissulega velta fyrir sér nokkrum atriðum hjá Indriða, hugsanlegum vöxtum og gengisþróun, sem auðvitað var ekki þekkt fyrir fram – en ekkert af þeim vangaveltum breytir svo miklu að við höfum séð fram á „gjaldþrot“, „óviðráðanlega greiðslubyrði“ og hvað þetta var kallað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki spurning um skoðun, þetta er bara spurning um að vera læs á tölur. Aftur, jú, það var ekki vitað nákvæmlega hvernig uppgjörið myndi ganga, en það snerist ekki um þá stærðargráðu sem haldið var fram í umræðunni á sínum tíma.

Hitt sjónarmiðið – og það sem mig langar að velta fyrir mér hér – var að við ættum ekki að bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna – nokkuð sem mig minnir að þáverandi Seðlabankastjóri hafi orðað fyrstur. Kannski kom sú skilgreining úr hörðustu átt því sami Seðlabankastjóri fullyrti, í óspurðum fréttum, snemma árs 2008 að jafnvel þó bankarnir færu á hausinn þá gæti íslenska ríkið auðveldlega staðið undir skuldbindingum þeirra.

En að bera ekki ábyrgð á skuldum annarra.

Ég er einfaldlega ekki sammála þeirri nálgun í þessu tilfelli. Bankarnir störfuðu undir eftirliti íslenskra stofnana og bæði þær stofnanir og íslensk stjórnvöld afþökkuðu boð um að koma þessum skuldum í skjól erlendis.

Getum við sagt, „tja, mér kemur þetta ekkert við, þetta eru ekki mínar skuldir“? Eftir að hafa ítrekað kosið viðkomandi til valda?

Það er kannski fín nálgun að gera ráð fyrir að við berum einmitt ábyrgð á þeim ríkisstjórnum sem við kjósum til valda, getuleysinu og vanhæfni þeirra sem skipaðir eru í lykilstöður af viðkomandi stjórnvöldum. Og hugsum aðeins áður en við kjósum.

Einhver leiðigjarnasta klisjan sem ég heyri yfir hátíðirnar er að við Íslendingar séum kristin þjóð. Ég fæ aldrei nein svör af neinu viti þegar ég spyr hvað þetta tákni og hvernig fólk fái þetta út.

Þátttakan í trúarlegum athöfnum er að mestu bundin við tyllidaga, ég veit ekki nákvæmlega hversu margir mæta til messu utan hátíðisdaga og fjöldskylduviðburða, en þeir eru ekki margir.

Meirihluti landsmanna er vissulega enn skráður í þjóðkirkjuna, en lang flestir við fæðingu að þeim forspurðum og þetta hlutfall fer hratt niður á við.

Aftur hef ég ekki nákvæmar tölur en ég efast um að meira en 5% geti farið með trúarjátninguna og ég efast um (eða vona að minnsta kosti) að margir þeirrra taki innihald hennar bókstaflega.

Vissulega má halda því fram að flestir gera sér far um að breyta rétt og forðast að breyta rangt. Og það er líka rétt að mikið af því má sækja í boðskap kristninnar. En kristnin sækir nefnilega þær hugmyndir til annarra og hefur þar fyrir utan, svona í aldanna rás, lagað sig að hugmyndum um hvað sé rétt og hvað sér rangt.. sem er gott, en kannski full mikið að eigna trúnni þær hugmyndir. Og ekki gleyma að það þarf líka oft á tíðum að skauta fram hjá miður jákvæðum boðskap biblíunnar og margra talsmanna kirkjunnar.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða, þó ósanngjarnt sé að einhverju leyti, að benda á að þeir sem gaspra hvað hæst um mikilvægi trúarinnar fylgja nú kannski hvað síst boðskap hennar, til að mynda, um náungakærleik þegar kemur að því að, svo ég nefni nú nærtækt dæmi, aðstoða fólk í neyð. Ég er ekki að nefna þetta til að yfirfæra þessar skoðanir yfir á alla kristna heldur til að benda á að kannski er of mikil áhersla á trúna og það að berja sér of mikið á brjóst sem trúuðum einstaklingi og hafa hvað hæst um hversu kristin við séum… ekki endilega neitt sérstaklega jákvætt.