Þegar ég var að byrja að fylgjast með fréttum og stjórnmálum var svokallað „kalt stríð“ milli stórveldanna. Heimurinn var einfaldur (ja, svona til þess að gera) og ég tók afstöðu með vesturlöndum – ekki vegna þess að þar væri allt fullkomið og jafnvel þó nóg væri af dæmum um ógeðfelld atriði, heldur vegna þess að ástandið það var skömminni skárra. Og þar var þó reynt að halda uppi og þróa hugmyndir um mannréttindi og lýðræði.
Á endanum varð kommúnismi austantjaldsríkjanna, undir forystu Sovétríkjanna, gjaldþrota – bæði efnahagslega og hugmyndalega – og við tóku breyttir tímar, „vestrið“ hafði unnið kalda stríðið!
Það tók nokkurn tíma fyrir fyrrverandi austantjaldsríki að koma undir sig fótunum og þau fóru ólíkar leiðir. Rússar eru orðnir að stórveldi, lítt geðslegra en gömlu Sovétríkin, þrátt fyrir að engin sérstök hugmyndafræði ráði ríkjum.
Ekki nóg með það, heldur virðist nokkuð ljóst að Rússar hafa komið útsendara til valda í „höfuðstöðvum“ vesturlanda og virðast hafa algjörlega í vasanum. Það má deila um hvort viðkomkandi sé vísvitandi að ganga erinda Rússa, eða sé einfaldlega svona hrikalega heimskur, en það „bíttar ekki öllu“ eins og skáldið sagði. Evrópa er vissulega að reyna að „standa í lappirnar“, en eftir stendur að austurblokkin er að standa uppi sem sigurvegari kalda stríðsins, eftir að hafa „hrakist út í horn“ fundu þeir aðrar og einfaldari leiðir til að ná hreðjatökum á fyrrum andstæðingum.
Kannski er þetta eðli sögunnar, allt breytist, stórveldi liðast sundur og ný fæðast.
Það sem mér er fyrirmunað að skilja er að hörðustu baráttumenn „vestursins“ hér heima á árum áður eru allt í einu farnir að styðja og bera blak af Rússum og valdabrölti þeirra vestanhafs.