Bank, bank

Posted: janúar 20, 2019 in Umræða

Það er auðvitað ekki annað hægt en að hafa skoðanir á bönkunum þessa dagana.

Ég sé engin sérstök rök fyrir því að ríkið sé að eiga og reka banka, frekar en að ég sé engin sérstök rök fyrir því að ríkið eigi yfirhöfuð að vera að standa í atvinnustarfsemi á samkeppnismarkaði.

Hvað þá að ríkið standi í rekstri tveggja banka á sama markaði, það er í rauninni alveg galið.

Jú, bankastarfsemi er talsvert frábrugðin annarri starfsemi, en ég sé ekkert sem kallar á ríkisrekstur.

Bankar í einkarekstri fóru vissulega illa með okkur í hruninu, en það segir (mér amk.) frekar að það sé nauðsynlegt að hafa strangar reglur og gott eftirlit með starfsemi banka.

Salan á bönkunum til einkaðila var vissulega misheppnuð, hvort sem kenna má um aulagangi / getuleysi eða hvort vísvitandi var verið að koma þeim til valinna einstaklinga. Það segir ekki að það sé ekki hægt að standa vel að því að selja bankana.

Bankarnir skila talsvert miklum arði í ríkissjóð, það er ekki endilega til marks um að ekki megi selja bankana, það getur alveg eins verið til marks um að það eigi að setja háan verðmiða á þá.

Svo eru hugmyndir um að nota tækifærið og stofna „samfélagsbanka“.

Fyrir það fyrsta, er „samfélagsbanki“ ekki að mestu leyti sama hugmynd og „sparisjóður“, svona eins og lagt var upp með á sínum tíma? (verð samt að hafa þann fyrirvara að mögulega er ég ekki nægilega vel að mér í sögunni) Erum við ekki með sparisjóði? Eru þeir að standa sig betur?

Ef samfélagsbanki er svona góð hugmynd, hvers vegna eru þeir sem tala stöðugt fyrir henni ekki einfaldlega löngu búnir að koma henni í framkvæmd? Það er frekar marklítið að tala fyrir hugmynd en þora ekki að framkvæma.

Með þeim fyrirvara að umræðan um samfélagsbanka er svolítið út og suður þá, heyrist mér að helstu vonir bundnar við lægri vexti. Fyrir það fyrsta, jú, en þá lækkar væntanlega hagnaður og arður sem fer í ríkissjóð. Það er ekki bæði hægt að nota þau rök að ríkið eigi að halda bönkunum vegna þess að þeir skili svo miklu í ríkissjóð og að það eigi að breyta þeim í samfélagsbanka sem skili litlum arði.

Hér rifjast upp þegar fyrrverandi þingmaður hélt báðum rökunum fram á sínum tíma, nánast í sömu setningu og þegar bent var á mótsögnina var svarið eftir smá umhugsun svona einhver útgáfa af „það sprettur og sprettur“.

Og ef hugmyndin með samfélagsbanka er að lækka vexti – sem væri klárlega mun betri kjarabót en öll þvælan um verðtrygginguna – þarf einhvern samfélagsbanka til? Er ekki einfaldast fyrir núverandi banka í eigu ríkisins að lækka vexti? Jú, skilar minni hagnaði í ríkissjóð, en það er ekki bæði hægt að halda og sleppa þó margir tali þannig.

Lokað er á athugasemdir.