Sarpur fyrir ágúst, 2016

Það er gjarnan frekar hallærislegt að fylgjast með stjórnmálaumræðunni..

Nú síðast hef ég fylgst með umræðunni um tillögur stjórnarinnar um aðstoð fyrir þá sem eru að kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti.

Svo langt sem ég sé þá koma þær til með að nýtast einhverjum ágætlega, öðrum ekki, við borgum öll brúsann og húsnæðisverð hækkar. Þetta eru engar töfralausnir, en ég veit ekki til að það séu til neinar töfralausnir – og þetta er talsvert skárra en ég óttaðist, amk. í ljósi síðustu kosningaloforða.

Gott og vel.

Það sem truflar mig er hvernig umræðan fer af gömlum vana í við-á-móti-ykkur farveginn.

Ég fæ verulegan kjánahroll þegar [sumir] stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar fara hástemmdum efsta stigs lýsingarorðum um tillögurnar og mér finnst líka vandræðalegt að fylgjast með gagnrýninni [frá sumum, svo ég sé nú ekki að alhæfa].

Hvernig væri að taka þetta efnislega, hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir, hvaða aðrar leiðir koma til greina og hverjir eru kostir og gallar þeirra?

Kannski er þetta afleiðing af því að ríkisstjórnin virðist loka sig af og kemur svo fullmótað frumvarp með tilheyrandi látum og lófaklappi [ég veit að þetta gildir um fleiri ríkisstjórnir og er ekki sér einkenni á þessari ríkisstjórn]. Kannski hefði verið hugmynd að taka umræðu eins og: „Við erum að velta fyrir okkur hugmyndum á þessum nótum, hvað finnst ykkur?“ – „Hafið þið aðrar hugmyndir?“ – „Hvaða atriði eruð þið sátt við?“ – „Hvað gæti farið betur?“ – „Er eitthvað sem má betur fara?“

Bréf frá Pírötum til…

Posted: ágúst 13, 2016 in Umræða

Ég hef tekið þátt í umræðunni um höfundarréttarmál við pírata úr alls kyns partýum.. umræðan er afskaplega leiðinleg, fer í hringi, ég heyri sömu „mótrökin“ aftur og aftur þó ég sé búinn að samþykkja þau en bendi á að þau nái einfaldlega ekki nógu langt.

Píratar hafa nefnilega rétt fyrir sér að mörgu leyti þegar kemur að höfundarréttarmálum – það er erfitt að koma í veg fyrir dreifingu án óásættanlegs eftirlits og nýtt umhverfi skapar heldur betur tækifæri fyrir suma.

En það er líka skelfilegt að heyra einstaka „Pírata“ tala á köflum og hugarfar þeirra er beinlínis til þess fallið að við horfum fram á fátæklegra menningarefni í framtíðinni.

Ég efast ekkert um á áhugann og viljann til að gera vel en mikið af umræðunni er nánast gagnslaus.

Þannig að mér dettur í hug að Píratar skrifi bréf til tveggja ímyndaðra [ekki svo mjög samt] einstaklinga.

„Simmi“ semur mikið af eðal rokklögum, hann er hins vegar lítillega fatlaður og á ekki gott með að spila sitt efni sjálfur – er reyndar ekkert sérstaklega góður flytjandi ef út í það er farið – lögin hans hljóma einfaldlega miklu betur í flutningi annarra. Það nennir enginn að gefa þessi lög út, þeim er einfaldlega dreift ólöglega og hvorki flytjandi né höfundur fá mikið fyrir sinn snúð. Tekjur af tónlistarveitum duga fyrir kaffinu, en ekki með því.

„Sammi“ hefur gert vandaða og vinsæla sjónvarpsþætti fyrir framleiðslufyrirtæki sem er í eigu þekkts athafnamanns. Ætlunin var að gera fleiri seríur, en þrátt fyrir að þættirnir væru í boði fyrir lítinn pening var þeim dreift óleyfilega í slíku magni að litlar sem engar tekjur höfðust upp í kostnað. Framleiðandinn hætti við að framleiða fleiri þætti og „Sammi“ missti vinnuna.

Skrifið þeim félögum bréf og segið þeim hvað þið viljið gera til að þeir geta lifað af að búa til eftirsóknarvert efni.

  • Þið getið auðvitað sagt þeim að „éta það sem úti frýs“, þeir verði bara að sætta sig við breytt umhverfi og fara að gera eitthvað annað. En hafið þá í huga einsleitnina í tónlist og sjónvarpsþáttagerð sem fylgir því að útiloka þá félaga.
  • Það er fín hugmynd að stytta tímann sem efni er varið eftir dauða höfundar, en það hjálpar þeim félögum nú ekki mikið.
  • Það er líka lítils virði fyrir „Samma“ að heyra að framleiðandinn sé nú moldríkur og það sé allt í lagi að stela frá honum.
  • Munið að það er lítil hjálp í almennu orðalagi um að skoða hlutina og stefna að einhverju, leita leiða, skoða og taka mið af…
  • Fyrir alla muni, ekki byrja á samsærisröflinu um ritskoðun, það er vitlausara en að rukka Sighvat um húsaleigu.

En ef þið hafið raunverulegan áhuga á að Simmi og Sammi geti unnið áfram að sinni sköpun, skrifið þeim ímyndað bréf og þá er stefna ykkar komin.

Fullt af fólki heldur að það að „afnema“ verðtryggingu leysi bókstaflega öll heimsins vandamál, „lækni“ skalla, komi á friði í mið-austur-löndum og losi okkur við Trump.

Það hefur lengi verið sagt [réttilega] að lottó, happdrætti, getraunaseðlar séu skattur á fólk sem kann ekki að reikna. [ég kaupi oft lottómiða, getraunaseðla og happdrætti – styrki gott málefni og hef gaman af að fylgjast með úrslitum – en ég geri mér engar vonir um að vinna].

Á sama hátt er ákveðin kvöð á fólk sem kann ekki að reikna þegar kemur að þjóðfélagsumræðu að halda að það bjargi einhverju að „afnema“ verðtrygginguna.

Alls kyns undarlegar kenningar hafa komið fram, fólk gengur meira svo langt að kalla þær „staðreyndir“. Það hjálpar ekki að kenningarnar eru þvers og kruss – mótsagnakenndar og ganga einfaldlega ekki upp.

Fyrir ekki svo löngu fékk maður mikla athygli í helstu fjölmiðlum, í boði hagsmunasamtaka heimila.. sem kunni ekki muninn á margföldun og samlagningu.

Þegar búið var að hrekja flestar bábiljurnar komu einhverjar kenningar um að verðtrygging væri verðbólguhvetjandi. Skoðum þetta aðeins.

Gefum okkur þrjá einstaklinga – Anna, Bjarni og Dísa – sem öll eru með þúsund kórónur í árslaun árið 1. Anna kaupir sér íbúð fyrir 5 þúsund kórónur og tekur verðtryggt lán fyrir öllum herlegheitunum. Anna borgar eitthvað nálægt 300 kórónum á ári af íbúðinni, lifir til þess að gera sparlega, neysla er að öðru leyti 650 kórónur og hún á 50 kórónur eftir. Og Anna notar einmitt þessar 50 kórónur til að kaupa flug og hótel í jólaferð.

Bjarni er á svipuðum nótum, neyslan er svipuð – en hann tók lán með breytilegum vöxtum fyrir sinni íbúð og fór með Önnu í sömu jólaferð.

Dísa lætur sér aftur nægja að leiga fyrir 200 kórónur á ári, en lifir eitthvað hærra, neyslan hjá henni er 750 kórónur og á einmitt líka 50 kórónur eftir til að fara með Önnu og Bjarna um jólin.

Ef verðbólgan er engin þá er verðtryggingin engin, breytilegu vextirnir eru óbreyttir og ef launin standa í stað þá eru þeir í sömu stöðu árið 10.

Ef verðlag hefur hækkað um 50% á fyrstu tíu árunum og laun hafa hækkað í takt – þá eru þau með 1.500 kórónur í laun, Anna borgar 450 kórónur af láninun á íbúðinni, sem hún getur núna selt fyrir 7.500 kórónur, Dísa borgar 300 kórónur í leigu. Og vegna þess að Bjarni tók lán með breytilegum vöxtum þá borgar hann einmitt 450 kórónur líka. Vegna verðbólgunnar er neysla Önnu og Bjarna komin í 975 kórónur og neysla Dísu er komin 1.125 krónur. Ferðin þeirra hefur líka hækkað um 50% og kostar núna 75 kórónur. Og ótrúlegt en satt, þau eiga einmitt 75 kórónur eftir í jólaferð.

Verðtrygging er sem sagt ekkert vandamál.

Stundum er misgengi launa og verðlags og jafnvel íbúðaverðs vandamál.

Gefum okkur að launin þeirra hafi bara hækkað upp í 1.450 kórónur á ári. Verðtrygging hækkar lán Önnu umfram greiðslugetu og hún á bara 25 kórónur eftir. Breytilegu vextirnir á láni Bjarna hækka í takt við verðbólguna, og hann á bara 25 kórónur eftir, sennilega eitthvað minna því breytilegu vextirnir eiga það til að hækka meira en því sem verðbólgu nemur. En, Dísa, sem ekki er með neitt verðtryggt lán á nefnilega samt bara 25 kórónur eftir.

Vegna þess að verðtrygging er heldur ekki vandamálið.. heldur misræmi verðlags og launa. Og það gildir jafnt fyrir þá sem eru með verðtryggð lán, þá sem borga breytilega vexti og þá sem eru ekki með nein lán.

PS. jú, fastir vextir eru möguleiki, en ekki í boði í efnahagsumhverfi með svona verðbólgu nema þá fáránlega háir.

 

Ég þarf að fara að ákveða hverjum ég greiði atkvæði í prófkjöri Pírata á Stór-Kópavogssvæðinu.

Það er ákveðið „lúxusvandamál“ að mér líst mjög vel á mjög marga frambjóðendur og á eiginlega frekar erfitt með að gera upp á milli.

En nokkur atriði telja mikið fyrir mér og ég er ekki alveg klár á afstöðu allra frambjóðenda til þeirra.

Þannig að mig langar til að setja fram nokkrar spurningar um nokkur atriði sem skipta mig máli.

  1. Ertu fylgjandi því stjórnarskrá stjórnlagaráðs verði samþykkt á næsta þingi?
  2. Ertu fylgjandi því að afnema verðtryggingu?
  3. Ertu fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?
  4. Finnst þér siðferðilega rétt að deila og sækja efni (svo sem tónlist, sjónvarpsþætti, hugbúnað, bíómyndir) í óþökk þeirra sem eiga höfundarrétt þegar hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð og sækja efnið á einfaldan og löglegan hátt? [ég er ekki að spyrja um hvort ykkur finnist að höfundar eigi að bjóða efnið aðgengilegt frítt, ég er ekki að spyrja um hvort / hvernig ætti að framfylgja einhverju hugsanlegu eftirliti og ég er ekki að spyrja um skoðanir á refsingum við brotum] – en þið megið sjálf ákveða hvað er „sanngjarnt verð“ og „einfaldur háttur“

Frídagar, endurskoða??

Posted: ágúst 2, 2016 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Næsta átta og hálfan mánuðinn er einn almennur frídagur.

Annar í jólum, 26. desember, er eini frídagurinn þar til svokallaður Skírdagur dettur inn 13. apríl 2017.

Er ekki löngu kominn tími til að endurskoða þetta frídaga kerfi?

Það er auðvelt að stilla frídögum ársins upp þannig að þeir verði að jafnaði jafn margir á hverju ári og þeir eru með núverandi kerfi. En í stað þess að sum árin sé nánast enginn frídagur og önnur endalausir frídagar, þá má jafna þetta á frekar einfaldan hátt.

Ég setti fram hugmynd í grein á Eyjunni fyrir nokkru, sem er vert að rifja upp.

  • síðasti virki dagur hvers árs verður frídagur – heill, ekki hálfur
  • síðasti virki dagur fyrir 25. desember, oftast 24. desember – líka heill frídagur
  • fyrstu tveir virkir dagar eftir 24. desember
  • fyrsti virki dagur hvers árs
  • síðasti föstudagur fyrir 16. júní (vegna 17. júní)
  • fyrsti mánudagur í maí (í stað 1. maí)
  • fyrsti mánudagur í ágúst (óbreyttur frídagur verslunarmanna)
  • fyrsti mánudagur í júní (nýr frídagur, td. sjómanna)
  • löng páskahelgi óbreytt, en mætti gjarnan festa við fyrstu helgi í apríl
  • uppstigningardagur dettur út
  • annar í hvítasunnu dettur út
  • sumardagurinn fyrsti dettur út