Bréf frá Pírötum til…

Posted: ágúst 13, 2016 in Umræða

Ég hef tekið þátt í umræðunni um höfundarréttarmál við pírata úr alls kyns partýum.. umræðan er afskaplega leiðinleg, fer í hringi, ég heyri sömu „mótrökin“ aftur og aftur þó ég sé búinn að samþykkja þau en bendi á að þau nái einfaldlega ekki nógu langt.

Píratar hafa nefnilega rétt fyrir sér að mörgu leyti þegar kemur að höfundarréttarmálum – það er erfitt að koma í veg fyrir dreifingu án óásættanlegs eftirlits og nýtt umhverfi skapar heldur betur tækifæri fyrir suma.

En það er líka skelfilegt að heyra einstaka „Pírata“ tala á köflum og hugarfar þeirra er beinlínis til þess fallið að við horfum fram á fátæklegra menningarefni í framtíðinni.

Ég efast ekkert um á áhugann og viljann til að gera vel en mikið af umræðunni er nánast gagnslaus.

Þannig að mér dettur í hug að Píratar skrifi bréf til tveggja ímyndaðra [ekki svo mjög samt] einstaklinga.

„Simmi“ semur mikið af eðal rokklögum, hann er hins vegar lítillega fatlaður og á ekki gott með að spila sitt efni sjálfur – er reyndar ekkert sérstaklega góður flytjandi ef út í það er farið – lögin hans hljóma einfaldlega miklu betur í flutningi annarra. Það nennir enginn að gefa þessi lög út, þeim er einfaldlega dreift ólöglega og hvorki flytjandi né höfundur fá mikið fyrir sinn snúð. Tekjur af tónlistarveitum duga fyrir kaffinu, en ekki með því.

„Sammi“ hefur gert vandaða og vinsæla sjónvarpsþætti fyrir framleiðslufyrirtæki sem er í eigu þekkts athafnamanns. Ætlunin var að gera fleiri seríur, en þrátt fyrir að þættirnir væru í boði fyrir lítinn pening var þeim dreift óleyfilega í slíku magni að litlar sem engar tekjur höfðust upp í kostnað. Framleiðandinn hætti við að framleiða fleiri þætti og „Sammi“ missti vinnuna.

Skrifið þeim félögum bréf og segið þeim hvað þið viljið gera til að þeir geta lifað af að búa til eftirsóknarvert efni.

  • Þið getið auðvitað sagt þeim að „éta það sem úti frýs“, þeir verði bara að sætta sig við breytt umhverfi og fara að gera eitthvað annað. En hafið þá í huga einsleitnina í tónlist og sjónvarpsþáttagerð sem fylgir því að útiloka þá félaga.
  • Það er fín hugmynd að stytta tímann sem efni er varið eftir dauða höfundar, en það hjálpar þeim félögum nú ekki mikið.
  • Það er líka lítils virði fyrir „Samma“ að heyra að framleiðandinn sé nú moldríkur og það sé allt í lagi að stela frá honum.
  • Munið að það er lítil hjálp í almennu orðalagi um að skoða hlutina og stefna að einhverju, leita leiða, skoða og taka mið af…
  • Fyrir alla muni, ekki byrja á samsærisröflinu um ritskoðun, það er vitlausara en að rukka Sighvat um húsaleigu.

En ef þið hafið raunverulegan áhuga á að Simmi og Sammi geti unnið áfram að sinni sköpun, skrifið þeim ímyndað bréf og þá er stefna ykkar komin.

Lokað er á athugasemdir.