Umræðuhefðin [í boði húsnæðistillagna]

Posted: ágúst 18, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Það er gjarnan frekar hallærislegt að fylgjast með stjórnmálaumræðunni..

Nú síðast hef ég fylgst með umræðunni um tillögur stjórnarinnar um aðstoð fyrir þá sem eru að kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti.

Svo langt sem ég sé þá koma þær til með að nýtast einhverjum ágætlega, öðrum ekki, við borgum öll brúsann og húsnæðisverð hækkar. Þetta eru engar töfralausnir, en ég veit ekki til að það séu til neinar töfralausnir – og þetta er talsvert skárra en ég óttaðist, amk. í ljósi síðustu kosningaloforða.

Gott og vel.

Það sem truflar mig er hvernig umræðan fer af gömlum vana í við-á-móti-ykkur farveginn.

Ég fæ verulegan kjánahroll þegar [sumir] stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar fara hástemmdum efsta stigs lýsingarorðum um tillögurnar og mér finnst líka vandræðalegt að fylgjast með gagnrýninni [frá sumum, svo ég sé nú ekki að alhæfa].

Hvernig væri að taka þetta efnislega, hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir, hvaða aðrar leiðir koma til greina og hverjir eru kostir og gallar þeirra?

Kannski er þetta afleiðing af því að ríkisstjórnin virðist loka sig af og kemur svo fullmótað frumvarp með tilheyrandi látum og lófaklappi [ég veit að þetta gildir um fleiri ríkisstjórnir og er ekki sér einkenni á þessari ríkisstjórn]. Kannski hefði verið hugmynd að taka umræðu eins og: „Við erum að velta fyrir okkur hugmyndum á þessum nótum, hvað finnst ykkur?“ – „Hafið þið aðrar hugmyndir?“ – „Hvaða atriði eruð þið sátt við?“ – „Hvað gæti farið betur?“ – „Er eitthvað sem má betur fara?“

Lokað er á athugasemdir.