má hver sem er ekki hafa ömurlega illa ígrundaða skoðun sem felur í sér fordóma?

Posted: september 26, 2016 in Stjórnmál, Umræða

Kannski er vinahópurinn á Facebook undarlega samsettur, en ég á enga (held ég) vini sem eru talsmenn fordóma gagnvart innflytjendum, hælisleitendum eða fólki sem leitar itl okkar í sárri neyð.

En ég sé óþægilega marga vísa í ummæli sem ganga eiginlega frekar mikið fram af mér. Og þessi ummæli eru gjarnan afsökun með „ég má nú hafa skoðun“ og „hvað, má ekki ræða málið?“…

Fyrir það fyrsta þá er það nú einfaldlega alls ekki í lagi að halda fram skoðunum sem fela í sér kynþáttafordóma.

Þá er frekar kaldhæðnislegt að sjá þá sem telja sig hafa fullan rétt til að lýsa skoðun sinni og ræða málið – þó þær skoðanir og sú umræða feli í sér kynþáttafordóma – hafa nákvæmlega ekkert umburðarlyndi fyrir því að aðrir séu þeim ósammála og hella sér gjarnan yfir hvern þann sem viðrar aðra skoðanir með fúkyrðaflaumi og persónulegu skítkasti.

Verst af öllu er samt að flestir byggja sína skoðun á fullyrðingum sem standast enga skoðun, ýmist hreinum og klárum rangfærslum, nú eða fáfræði, vanþekkingu og hreinræktuðu bulli af einhverjum vefsíðum.

Ég gæti hugsanlega haft samúð með viðkomandi ef viðbrögðin væru að skipta um skoðun þegar bent er á að forsendurnar standist einfaldlega ekki skoðun. En einhverra hluta vegna virðist fólk byrja að mála sig út í horn.. og frekar en að bregðast við með því að viðurkenna að það hljóp á sig.. þá hefst einhver moka-sig-nú-enn-dýpra í holuna.

Þannig að..

  1. nei, það er ekki í lagi að halda fram skoðunum sem byggja á kynþáttafordómum
  2. ef þið krefjist þess samt að fá halda fram þessum skoðunum í nafni tjáningarfrelsis, hættið þá að minnsta kosti að amast yfir því að aðrir séu ósammála ykkur
  3. þegar ykkur er bent á að það sem þið nefnið til stuðnings ykkar skoðunum stenst sannanlega ekki, hafið þá smá sjálfsvirðingu og skiptið um skoðun

 

Lokað er á athugasemdir.