Sarpur fyrir nóvember, 2014

Hvernig bregðast þeir við sem fengu styrk úr sameiginlegum sjóðum nú þegar hlutirnir eru heldur betur að snúast við?

Svokölluð skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar er afskapleg misráðin aðgerð.. ég ætla ekki að tíunda hvers vegna. Vissulega var erfitt hjá mörgum þegar verðbólga rauk upp og lánskjaravísitala hækkaði langt umfram laun.. hjá þeim sem höfðu tekið lán fyrir fasteignakaupum, hjá þeim sem höfðu tekið lán fyrir öðru, hjá þeim sem voru með námslán og svo mætti lengi telja. Sumir þeirra fengu stuðning af almennafé í nýlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Langt frá því allir. Og allt of margir fengu stuðning sem þurftu nákvæmlega ekkert á honum að halda, lánin þeirra komin í takt við laun og eignirnar jafnvel verðmeiri en áður.

Gott og vel. Nei, reyndar ekki. En búið og gert.

Verðbólga rauk upp, sem hefði mátt gera ráð fyrir, launin voru talsvert á eftir um tíma.

Nú er verðbólga með því minnsta sem mælst hefur í langan tíma. Laun hækka umfram verðbólgu. Það eru jafnvel dæmi um lækkun vísitölu.

En er ekki augljóst að þeir sem þáðu almannafé til að styðja við bakið á þeim þegar lánin hækkuðu umfram laun.. þeir hljóta með sömu rökum að vera tilbúnir að greiða meira til samfélagsins þegar launin hækka um fram lánin.

Svona ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir.

Það er kannski einfaldast að átta sig á svokallaðri „skuldaleiðréttingu“ með því að skoða þetta í samhengi við sex manna fjölskyldu, foreldrar, tveir synir og tvær dætur. Gefum okkur að móðirin sé hálfgerður einræðisherra af gamla skólanum og faðirinn sjái að mestu um innkaup heimilisins

Gefum okkur að yngri sonurinn hafi náð að safna nokkru fé. Sá lánar eldri syninum peninga til að kaupa litla íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hann hafði reyndar sjálfur ætlað að kaupa sér lítið hús úti á landi en ákvað að gera bróður sínum greiða og bíða með sín kaup.

Þeir semja um að ef verðlag hækkar þá fái sá yngri greitt til baka í jafnverðmætum peningum þannig að han geti keypt húsið sitt þegar hann fær lánið endurgreitt. Báðir vita þeir af sögunni að verðbólga getur hæglega farið upp og fram úr launum.

Eftir tvö ár lækkar íbúðin verulega í verði á sama tíma og verðbólgan fer upp og launin ná ekki að halda í við verðbólguna. Þeim eldri finnst hann hafa farið illa út úr viðskiptunum, forsendur fyrir láninu hafi brostið, jafnvel þó að hann hafi vitað fullvel að verðbólgan gæti farið af stað. Hann heldur þó áfram að greiða lánið til baka. Og þremur árum seinna hefur íbúðin hækkað í verði og er jafnvel meira virði en endurgreiðsla lánsins með verðbótum.

Eldri systirin átti einnig nokkuð fé aflögu. Sú yngri fékk lánað hjá henni og fór í nám. Hún kláraði námið en á meðan hækkaði verðlag verulega og kjör hennar voru talsvert lakari en hún hafði gert ráð fyrir. Hún kláraði þó námið og greiðir systur sinni til baka, verðtryggt.

Nú fær fjölskyldumóðirin stórkostlega hugmynd og ákveður að setja heimsmet. Hún segir að eldri sonurinn hafi orðið fyrir forsendubresti og öll fjölskyldan eigi að leggja í púkk og bæta honum skaðann. Yngri systirin er ekki sátt, finnst hún hlunnfarin því enginn bæti henni forsendubrestinn hennar. Hin systkinin eru heldur ekki sátt og segja elsta soninn hafa vitað að hverju hann gekk og þar fyrir utan eigi hann verðmæta eign. Faðirinn er jafnvel hálf fúll, enginn er að bæta honum upp forsendubrestinn af hækkandi verðlagi umfram laun og hann hafi þurft að reka heimilið á sama tíma.

Móðirin er sem fyrr segir einvaldur af gamla skólanum og ákveður að allir borgi elsta syninum bætur.

En hún er auðvitað til í að ræða málið – svona eftir á.

Þau hittast, móðirin kveður sér hljóðs í upphafi og er að rifna af stolti yfir því hvað hún hafi staðið sig vel. En þegar aðrir fjölskyldumeðlimir ætla að taka til máls þá man hún allt í einu eftir mikilvægum fundi úti í bæ og hleypur út.

Stærsta vandamál kjósenda við hverjar kosningar er ekki endilega að velja þá stefnu sem þeim líkar, heldur að fá einhverja vissu fyrir því að sá sem býður sig fram með ákveðna stefnu koma í raun og veru til með að standa við gefin fyrirheit.

Jú, það er rétt, kjósendur geta haft áhrif á stjórnarmyndun á fjögurra ára fresti. En það er hægt að valda ómældum skaða á fjórum árum. Og við tekur í raun sama óvissa.

Nýtt dæmi er auðvitað í fersku minni, svo við veljum eitt, algjörlega af handahófi…

„Við ætlum að sækja 800 milljarða til ljótu-kallanna í útlöndum og greiða niður skuldir heimilanna“.

Svo er farið að rukka um efndir, en þá verður við örlítið breyttan tón.. geðvonsku jafnvel:

  • Já, en sjáiði til, við, sko, hérna… við sögðum aldrei beint út að við ætluðum að nota ljótu-kalla-peningana til að greiða niður skuldir heimilanna.
  • Víst sækjum við 800 milljarða.. en, tja, jú á svona fjörutíu árum – en vertu ekki með neinn orðhengilshátt, við sögðum ekkert um hvenær þetta yrði gert.
  • Hvaða útúrnúningar eru þetta? Erum við ekki að fara einhvern tímann bráðum að greiða eitthvað smávegis niður af skuldum heimilanna? Við sögðum aldrei allar skuldir. Og við sögðum aldrei skuldir allra heimila. Skoðaðu bara hverju við lofuðum og reyndu að finna eitthvað sem ekki stenst!
  • Jú, reyndar, ef út í það er farið, þá þurfið þið að vísu að greiða sjálf fyrir niðurgreiðsluna með eigin sparnaði að mestu leyti.. en þið fáið þó niðurgreiðsluna sem við lofuðum.
  • Jú, jú, það má vel vera að niðurgreiðslan komi úr ríkissjóði, en verið ekkert að velta vöngum yfir því hvernig ríkissjóður fær þennan pening.

Það er auðvitað til auðveld lausn við þessu – eins og svo mörgu öðru.

Setjum einfaldega eftirfarandi reglur.

  1. Hvert framboð þarf að setja fram að minnsta kosti 10 kosningaloforð. Kannski ætti að vera eitthvert hámark líka.
  2. Hvert loforð þarf að snúast um raunverulega framkvæmd eða breytingar – eða óbreytt ástand -ekki „við ætlum að skipa nefnd til að skoða“l
  3. Hvert loforð þarf að vera mælanlegt.
  4. Hvert loforð þarf að hafa tímasetningu.

Samsteypustjórnir mega einungis byggja málefnasamning sinn á gefnum kosningaloforðum.

Framboðum er óheimilt að taka þátt í ríkisstjórn nema að minnsta kosti 60% kosningaloforða þeirra séu hluti af stefnuskrá stjórnarinnar. Enda á flokkur ekkert erindi í stjórn ef hann nær ekki að minnsta kosti fleiri en færri atriðum. Mögulega mætti gera undantekningar þannig að gera má málamiðlanir ef tvö loforð ólíkra flokka snúast um sama mál, en hafa aðra tímasetningu eða ganga mislangt. Sú málamiðlun mætti aldrei vera utan marka beggja framboða.

Ef eitt loforð stenst ekki skoðun þá lækkka laun stjórnarþingmanna og ráðherra strax um 25%.

Þegar og ef næsta loforð bregst fara launin niður í 50%.

Falli þriðja loforðið þá skal stjórnin segja af sér og boða skal til kosninga.

Einhverjar undantekningar??

Já, mögulega ef alvarlegur og augljós forsendubrestur verður þá mætti efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um undanþágu.

Eru ekki allar líkur á að svona fyrirkomulag myndi skila okkur betri stjórn?

En svo væri þetta bara fyrsta skrefið í áttina að betri umgjörð.

Við Fræbbblar eigum lag á nýrri safnplötu, Snarl 4 – Skært lúðrar hljóma.

Kominn tími til að við Fræbbblar eigum lag á Snarli og eiginlega bara nokkuð skemmtileg samsetning hjá Doktor Gunna.

En ítarlegri upplýsingar má finna hjá Dr. Gunna.