Skuldaleiðrétting á mannamáli

Posted: nóvember 12, 2014 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það er kannski einfaldast að átta sig á svokallaðri „skuldaleiðréttingu“ með því að skoða þetta í samhengi við sex manna fjölskyldu, foreldrar, tveir synir og tvær dætur. Gefum okkur að móðirin sé hálfgerður einræðisherra af gamla skólanum og faðirinn sjái að mestu um innkaup heimilisins

Gefum okkur að yngri sonurinn hafi náð að safna nokkru fé. Sá lánar eldri syninum peninga til að kaupa litla íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hann hafði reyndar sjálfur ætlað að kaupa sér lítið hús úti á landi en ákvað að gera bróður sínum greiða og bíða með sín kaup.

Þeir semja um að ef verðlag hækkar þá fái sá yngri greitt til baka í jafnverðmætum peningum þannig að han geti keypt húsið sitt þegar hann fær lánið endurgreitt. Báðir vita þeir af sögunni að verðbólga getur hæglega farið upp og fram úr launum.

Eftir tvö ár lækkar íbúðin verulega í verði á sama tíma og verðbólgan fer upp og launin ná ekki að halda í við verðbólguna. Þeim eldri finnst hann hafa farið illa út úr viðskiptunum, forsendur fyrir láninu hafi brostið, jafnvel þó að hann hafi vitað fullvel að verðbólgan gæti farið af stað. Hann heldur þó áfram að greiða lánið til baka. Og þremur árum seinna hefur íbúðin hækkað í verði og er jafnvel meira virði en endurgreiðsla lánsins með verðbótum.

Eldri systirin átti einnig nokkuð fé aflögu. Sú yngri fékk lánað hjá henni og fór í nám. Hún kláraði námið en á meðan hækkaði verðlag verulega og kjör hennar voru talsvert lakari en hún hafði gert ráð fyrir. Hún kláraði þó námið og greiðir systur sinni til baka, verðtryggt.

Nú fær fjölskyldumóðirin stórkostlega hugmynd og ákveður að setja heimsmet. Hún segir að eldri sonurinn hafi orðið fyrir forsendubresti og öll fjölskyldan eigi að leggja í púkk og bæta honum skaðann. Yngri systirin er ekki sátt, finnst hún hlunnfarin því enginn bæti henni forsendubrestinn hennar. Hin systkinin eru heldur ekki sátt og segja elsta soninn hafa vitað að hverju hann gekk og þar fyrir utan eigi hann verðmæta eign. Faðirinn er jafnvel hálf fúll, enginn er að bæta honum upp forsendubrestinn af hækkandi verðlagi umfram laun og hann hafi þurft að reka heimilið á sama tíma.

Móðirin er sem fyrr segir einvaldur af gamla skólanum og ákveður að allir borgi elsta syninum bætur.

En hún er auðvitað til í að ræða málið – svona eftir á.

Þau hittast, móðirin kveður sér hljóðs í upphafi og er að rifna af stolti yfir því hvað hún hafi staðið sig vel. En þegar aðrir fjölskyldumeðlimir ætla að taka til máls þá man hún allt í einu eftir mikilvægum fundi úti í bæ og hleypur út.

Lokað er á athugasemdir.