Posts Tagged ‘Skuldaleiðrétting’

Hvernig bregðast þeir við sem fengu styrk úr sameiginlegum sjóðum nú þegar hlutirnir eru heldur betur að snúast við?

Svokölluð skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar er afskapleg misráðin aðgerð.. ég ætla ekki að tíunda hvers vegna. Vissulega var erfitt hjá mörgum þegar verðbólga rauk upp og lánskjaravísitala hækkaði langt umfram laun.. hjá þeim sem höfðu tekið lán fyrir fasteignakaupum, hjá þeim sem höfðu tekið lán fyrir öðru, hjá þeim sem voru með námslán og svo mætti lengi telja. Sumir þeirra fengu stuðning af almennafé í nýlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Langt frá því allir. Og allt of margir fengu stuðning sem þurftu nákvæmlega ekkert á honum að halda, lánin þeirra komin í takt við laun og eignirnar jafnvel verðmeiri en áður.

Gott og vel. Nei, reyndar ekki. En búið og gert.

Verðbólga rauk upp, sem hefði mátt gera ráð fyrir, launin voru talsvert á eftir um tíma.

Nú er verðbólga með því minnsta sem mælst hefur í langan tíma. Laun hækka umfram verðbólgu. Það eru jafnvel dæmi um lækkun vísitölu.

En er ekki augljóst að þeir sem þáðu almannafé til að styðja við bakið á þeim þegar lánin hækkuðu umfram laun.. þeir hljóta með sömu rökum að vera tilbúnir að greiða meira til samfélagsins þegar launin hækka um fram lánin.

Svona ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir.

Það er kannski einfaldast að átta sig á svokallaðri „skuldaleiðréttingu“ með því að skoða þetta í samhengi við sex manna fjölskyldu, foreldrar, tveir synir og tvær dætur. Gefum okkur að móðirin sé hálfgerður einræðisherra af gamla skólanum og faðirinn sjái að mestu um innkaup heimilisins

Gefum okkur að yngri sonurinn hafi náð að safna nokkru fé. Sá lánar eldri syninum peninga til að kaupa litla íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hann hafði reyndar sjálfur ætlað að kaupa sér lítið hús úti á landi en ákvað að gera bróður sínum greiða og bíða með sín kaup.

Þeir semja um að ef verðlag hækkar þá fái sá yngri greitt til baka í jafnverðmætum peningum þannig að han geti keypt húsið sitt þegar hann fær lánið endurgreitt. Báðir vita þeir af sögunni að verðbólga getur hæglega farið upp og fram úr launum.

Eftir tvö ár lækkar íbúðin verulega í verði á sama tíma og verðbólgan fer upp og launin ná ekki að halda í við verðbólguna. Þeim eldri finnst hann hafa farið illa út úr viðskiptunum, forsendur fyrir láninu hafi brostið, jafnvel þó að hann hafi vitað fullvel að verðbólgan gæti farið af stað. Hann heldur þó áfram að greiða lánið til baka. Og þremur árum seinna hefur íbúðin hækkað í verði og er jafnvel meira virði en endurgreiðsla lánsins með verðbótum.

Eldri systirin átti einnig nokkuð fé aflögu. Sú yngri fékk lánað hjá henni og fór í nám. Hún kláraði námið en á meðan hækkaði verðlag verulega og kjör hennar voru talsvert lakari en hún hafði gert ráð fyrir. Hún kláraði þó námið og greiðir systur sinni til baka, verðtryggt.

Nú fær fjölskyldumóðirin stórkostlega hugmynd og ákveður að setja heimsmet. Hún segir að eldri sonurinn hafi orðið fyrir forsendubresti og öll fjölskyldan eigi að leggja í púkk og bæta honum skaðann. Yngri systirin er ekki sátt, finnst hún hlunnfarin því enginn bæti henni forsendubrestinn hennar. Hin systkinin eru heldur ekki sátt og segja elsta soninn hafa vitað að hverju hann gekk og þar fyrir utan eigi hann verðmæta eign. Faðirinn er jafnvel hálf fúll, enginn er að bæta honum upp forsendubrestinn af hækkandi verðlagi umfram laun og hann hafi þurft að reka heimilið á sama tíma.

Móðirin er sem fyrr segir einvaldur af gamla skólanum og ákveður að allir borgi elsta syninum bætur.

En hún er auðvitað til í að ræða málið – svona eftir á.

Þau hittast, móðirin kveður sér hljóðs í upphafi og er að rifna af stolti yfir því hvað hún hafi staðið sig vel. En þegar aðrir fjölskyldumeðlimir ætla að taka til máls þá man hún allt í einu eftir mikilvægum fundi úti í bæ og hleypur út.

Þessi spurning hefur nú dúkkað upp annars staðar, en oftar en ekki sem hluti af stærra samhengi. Og hvort sem er, svörin virðast ekki á lausu.

Þannig að mig langar til að spyrja þá sem tala fyrir svokölluðu skuldaleiðréttingarfrumvarpi stjórnarinnar.

Hvaða forsendur hafa brostið hjá þeim sem fá leiðréttingu á skuldum samkvæmt frumvarpinu? Þá á ég auðvitað við forsendur sem eingöngu hafa brostið hjá þeim sem frumvarpið nær til. Og ég á líka auðvitað eingöngu við þá sem ekki hafa fengið aðrar leiðréttingar, svo sem hækkað verð á húsnæði.

Svarið mætti gjarnan vera rökstutt og því mættu fylgja tilvísanir í gögn, bæði til stuðnings því að forsendubrestur hafi orðið hjá þessum hópi og sérstaklega til stuðnings því að aðrir hafi ekki orðið fyrir sama bresti.

Þá væri vel þegið að svarið væri laust við að uppnefna mig og/eða gera mér upp annarlegar hvatir. Mér þykir þetta nefnilega nokkuð forvitnilegt.

Í gamla daga var talað um að fara Krýsuvíkurleiðina þegar farin var óþarflega löng leið að settu marki.

Skuldaleiðréttingarleiðin sem kynnt var á laugardaginn er vissulega skárri en við var að óttast eftir galgopaleg kosningaloforðin.

Ég hef heldur ekki áttað mig á hvers vegna þeir sem skulda húsnæðislán eiga frekar kröfu á leiðréttingu á kjörum en þeir sem búa við verri kjör vegna forsendubrests af öðrum ástæðum.

Þá finnst mér undarlegt, ef það er í lagi að setja skatt á þrotabúin – sem einhver hefði kannski látið kanna áður en farið var að berja sér á brjóst – hvers vegna tækifærið er ekki notað til að skattleggja enn frekar. Og nota peningana í almennar aðgerðir sem nýtast öllum, þess vegna beint í heilbrigðiskerfið, svo eitthvað sé nefnt.

Plástrakerfið sem kynnt var um helgina með tilheyrandi flækjum, undantekningum og takmarkaðri gagnsemi minnir á gamla sögu, „af hverju takið þið bílinn ekki bara úr handbremsu“..

Það væri nefnilega miklu meira gagn að því fyrir alla, ekki bara þá sem skulda verðtryggð húsnæðislán, að ná niður verðbólgu, jafnvel verðhjöðnun. Þá þarf engar sértækar aðgerðir eða plástra.

PS. nei, ég er ekki málpípa þrotabúanna.

PPS. nei, ég er ekki einu sinni talsmaður stjórnarandstöðunnar (nema kannski að því marki að ég þarf alltaf að vera á móti)

PPPS. nei ég er ekki að ljúga.