Sarpur fyrir mars, 2014

Útúrsnúningar ehf.

Posted: mars 28, 2014 in Uncategorized

Segið svo að ríkisstjórnin komi ekki hjólum atvinnulífsins í gang.. Ég var einmitt að fá alveg stórkostlega hugmynd að fyrirtæki eftir að lesa pistil Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Ég ætla að stofna „Útúrsnúninga ehf.“. Kannski „Orðhengilsháttur ehf.“ væri betra. Nú eða eitthvað loðnara.

En hugmyndin er frábær. Ég ætla að aðstoða fólk við að snúa sig út úr gefnum loforðum og yfirlýsingum.

Tökum dæmi.

Vinur minn (nú, eða ekki vinur) fer til gamals frænda sem er þokkalega vel settur, ber sig aumlega og segir:

„Veistu frændi, mig bráðvantar bíl.. strætó gengur bara eiginlega ekki á vinnutíma hjá mér og þetta eru langar ferðir sem kosta mig stórfé í leigubíla“

„Geturðu lánað mér 300 þúsund?“.

„Ég ætti að geta borgað þér til baka eftir nokkra mánuði“

Frændinn lánar peningana en vinurinn fer á allsherjar fyllirí (í víðasta skilningi) og eyðir peningunum í allt annað en bíl.

Frændi verður saltvondur, húðskammar vininn og heimtar peningana til baka.

Og að öllu jöfnu verður vinurinn niðurlútur, reynir að finna peninga, selur jafnvel eitthvað sem hann á og reynir að borga til baka.

Hér koma „Útúrsnúingar ehf.“ til sögu. Eftir smá ráðleggingar stendur vinurinn keikur fyrir framan frænda og segir:

„Ég sagði aldrei að ég ætlaði að nota lánið til að kaupa mér bíl.“

„Ég sagði að ég ætti að geta borgað til baka, en ég sagðist aldrei ætla að gera það“

„Þetta eru bara ‘beinar lygar’ og ‘rakalaus spuni’ hjá þér frændi.“

Þarna spörum við vininum 300.000 (jafnvel auk vaxta), hann borgar mér svona kannski 50.000 fyrir ráðgjöfina. Og allir græða. Og allir sáttir.

Nema auðvitað frændi gamli.

Björn fattar ekki…

Posted: mars 24, 2014 in Uncategorized
Efnisorð:,

Björn Bjarnason spyr í pistli á laugardaginn á bjorn.is hvort einhver hafi spurt þá sem mæta á samstöðufundina á Austurvelli hvers vegna þeir mæti og í hvaða tilgangi þeir komi á fundinn.

Það er eiginlega með ólíkindum að einföld krafa fundarmanna hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá Birni.

Eitt eiga þeir sem mæta nefnilega sameiginlegt. Þeir vilja að fólk vill fá að kjósa. Eins og lofað var fyrir kosningar.

Það vill fá að taka sjálft afstöðu, meðal annars til þeirra atriða sem Björn nefnir í pistli sínum.

Og nefnilega margra annarra sem Björn nefnir ekki.

Því ef það er svona deginum ljósara að við eigum að slíta aðildarviðræðum, hvers vegna var þá verið að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar?

Þetta er nú ekki flókið.

PS. Nei, ég er ekki „á móti“ Birni og mér líkar engan veginn illa við hann. Hann gerði margt gott sem ráðherra, ég bara skil ekki þennan pistil.

Að rugla með tölur..

Posted: mars 24, 2014 in Uncategorized

Ég heyrði frétt um meinta ofnotkun símahlerana hér á landi í sjónvarpsfréttum RÚV. Misnotkun á hlerunum er auðvitað alvarlegt mál, ef rétt er, en gleymum því aðeins hvert tilefni fréttarinnar er og skoðum aðeins framsetninguna og upplýsingarnar sem komu fram í fréttinni.

Í fréttinni kom fram að lágt hlutfall þess að óskum sé hafnað bendi til þess að eitthvað mikið sé að. Það getur vissulega gert það, en til þess að draga svona ályktun – eða gefa í skyn – án þess að kynna önnur sjónarmið þarf að hafa í huga að það geta verið góðar og gildar ástæður.

Mögulega eru óskir einfaldlega færri og betur unnar hér en annars staðar. Ég veit það ekki því engar upplýsingar voru í fréttinni um hlutföll annars staðar. Þá gæti skipt máli hvort hægt er að sýna fram á að óskir hafi verið samþykktar án þess að tilefni væri til eða góðar og gildar ástæður. Það kom ekkert fram um þetta.

Þá hefði hjálpað til að meta gildi fréttarinnar ef einhverjar upplýsingar hefðu verið til dæmis um óskir á hverja þúsund íbúa. Þannig hefði mátt meta hvort beiðnir séu algengari, sjaldgæfari eða svipaðar og annars staðar.

Ég veit sem sagt ekki. Vegna þess að það voru engar upplýsingar í fréttinni, það voru engar marktækar tölur.

PS. En fyrir alla muni, hlífið mér við athugasemdum tilefnið – þeas. hlerarnir – þessi athugasemd mín snýr að ófullkominni framsetningu og skorti á upplýsingum.

Það eru rök með og á móti aðild að ESB… hversu sterk þau vega á endanum ræðst auðvitað af því hvað kemur út úr aðildarviðræðunum, að því gefnu að það gefist nú ráðrúm til að klára þær.

Ég játa að fyrir nokkrum árum hafði ég talsverðar efasemdir um aðild að ESB, amk. efnahagslegar, en hef alltaf séð sterka Evrópu sem mikilvægt mótspil gegn öðrum stórveldum – og okkar lítilvæga lóð ætti ágætlega heima þarna.

En ég hef fylgst nokkuð með umræðunni um ESB aðildina og satt að segja þá eru fylgjendur aðilar að vinna þá umræðu – og það talsvert afgerandi. Þeir hafa verið málefnalegri, hafa svarað fullyrðingum andstæðinganna málefnalegar og bent á atriði sem skipta máli og standast skoðun.

Nei, nei, þetta er ekkert svart og hvítt, auðvitað eru til málefnalegir andstæðingar ESB og auðvitað er hægt að finna dæmi um ómálefnalegan stuðning. En á heildina litið hef ég hallast meira og meira að því að við eigum heima í ESB.. ég tek einfaldlega mark á rökum þeirra sem eru fylgjandi, þeir hafa staðið sig betur.

Eitt það sem mér finnst hjákátlegast við fullyrðingar andstæðinga ESB er þegar þeir spila á einhverja tilfinningasemi og tala um fullveldisafsal.

Þetta er auðvitað tóm tjara. Aðild að ESB felur ekki í sér fullveldisafsal á meðan við höfum fullt vald yfir þeirri ákvörðun að segja okkur úr sambandinu ef og þegar okkur sýnist. Þetta er svona einfalt.

Það að samþykkja samninga og gangast undir að hlýta ákveðnum reglum sambandsins felur ekki í sér fullveldisafsal frekar en aðrir alþjóða samningingar. Ekki frekar en aðild okkar að Sameinuðu Þjóðunum, Mannréttindadómstólnum, Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna svo eitthvað sé nefnt. Og ekki frekar en aðila að EES.. sem mér sýnist að margir andstæðingar ESB hafi verið hlynntir, en tali nú um fullveldisafsal í öðru hverju orði þegar ESB er annars vegar.

Og við værum ekki að afsala okkur fullveldi frekar en Bretar, Danir, Þjóðverjar, Hollendingar eða aðrar þjóðir ESB. Eða ætlar einhver að halda því fram að þetta séu ekki fullvalda ríki? Ef svo er, þá er skýringin á hugtakinu „fullveldi“ að minnsta kosti fullkomlega marklaust.

Nei, kæru ESB andstæðingar… gerið mér greiða og hættið að spila á þessa tilfinningasemi. Þetta er beinlínis hallærislegt.

Komið frekar með alvöru rök og málefnalega umræðu. Þá skal ég hlusta.

Það er vanmetinn kostur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða betri rök koma fram. Þetta er sérstaklega mikill kostur þegar stjórnendur og stjórnmálamenn eru annars vegar. Það er einfaldlega ekkert að því að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða betri rök koma fram.

Það er svo aftur á móti jafn mikill ókostur að vera að skipta um skoðun þegar ekkert hefur breyst.

Það er ekki svo langt síðan núverandi forystumenn stjórnarflokkanna voru hlynntir Evrópuaðild, Evru og / eða þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Nú eru þeir allir á móti, en það er engin leið að skilja hvers vegna. Það hefur ekkert breyst. Það hafa engar upplýsingar komið fram sem breyta nokkru. Og það hafa engin rök verið færð sem réttlæta breytta skoðun.

Samt eru þeir allir (flestir) búnir að skipta um skoðun.

Kannski er bara einfaldast að doka aðeins við. Kannski verða þeir allir búnir að skipta um skoðun aftur – svona kannski eftir ár eða svo.