Fullveldisafsalsgrýlan

Posted: mars 21, 2014 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, , ,

Það eru rök með og á móti aðild að ESB… hversu sterk þau vega á endanum ræðst auðvitað af því hvað kemur út úr aðildarviðræðunum, að því gefnu að það gefist nú ráðrúm til að klára þær.

Ég játa að fyrir nokkrum árum hafði ég talsverðar efasemdir um aðild að ESB, amk. efnahagslegar, en hef alltaf séð sterka Evrópu sem mikilvægt mótspil gegn öðrum stórveldum – og okkar lítilvæga lóð ætti ágætlega heima þarna.

En ég hef fylgst nokkuð með umræðunni um ESB aðildina og satt að segja þá eru fylgjendur aðilar að vinna þá umræðu – og það talsvert afgerandi. Þeir hafa verið málefnalegri, hafa svarað fullyrðingum andstæðinganna málefnalegar og bent á atriði sem skipta máli og standast skoðun.

Nei, nei, þetta er ekkert svart og hvítt, auðvitað eru til málefnalegir andstæðingar ESB og auðvitað er hægt að finna dæmi um ómálefnalegan stuðning. En á heildina litið hef ég hallast meira og meira að því að við eigum heima í ESB.. ég tek einfaldlega mark á rökum þeirra sem eru fylgjandi, þeir hafa staðið sig betur.

Eitt það sem mér finnst hjákátlegast við fullyrðingar andstæðinga ESB er þegar þeir spila á einhverja tilfinningasemi og tala um fullveldisafsal.

Þetta er auðvitað tóm tjara. Aðild að ESB felur ekki í sér fullveldisafsal á meðan við höfum fullt vald yfir þeirri ákvörðun að segja okkur úr sambandinu ef og þegar okkur sýnist. Þetta er svona einfalt.

Það að samþykkja samninga og gangast undir að hlýta ákveðnum reglum sambandsins felur ekki í sér fullveldisafsal frekar en aðrir alþjóða samningingar. Ekki frekar en aðild okkar að Sameinuðu Þjóðunum, Mannréttindadómstólnum, Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna svo eitthvað sé nefnt. Og ekki frekar en aðila að EES.. sem mér sýnist að margir andstæðingar ESB hafi verið hlynntir, en tali nú um fullveldisafsal í öðru hverju orði þegar ESB er annars vegar.

Og við værum ekki að afsala okkur fullveldi frekar en Bretar, Danir, Þjóðverjar, Hollendingar eða aðrar þjóðir ESB. Eða ætlar einhver að halda því fram að þetta séu ekki fullvalda ríki? Ef svo er, þá er skýringin á hugtakinu „fullveldi“ að minnsta kosti fullkomlega marklaust.

Nei, kæru ESB andstæðingar… gerið mér greiða og hættið að spila á þessa tilfinningasemi. Þetta er beinlínis hallærislegt.

Komið frekar með alvöru rök og málefnalega umræðu. Þá skal ég hlusta.

Athugasemdir
  1. Þetta hef ég dregið fram í hvert sinn sem ESB andstæðingar belgja út þjóðernisbrjóstið og blása dátt. En mér hefur ekki fundist að þeir sem ég hef bent á þetta séu þeirrar skoðunar að ég hafi rétt fyrir mér. Og mér hefur fundist það stafa af því að skoðun þeirra er ekki á rökum byggð.