Nú hef ég ekki gert upp við mig hvað ég ætla að kjósa í komandi alþingiskosningum, enda ótímabært, það er ekki ljóst hvaða valkosti ég hef. Mörg ný framboð eru álitlegur kostur, en ég hef svo sem margt við flest þeirra að athuga.
En það er augljóst að fráleitt ákvæði í kosningalögum gerir þeim erfitt fyrir, þeas. 5% reglan við úthlutun jöfnunarsæta. Ekki bara vegna þess að reglan getur hæglega komið í veg fyrir að fleiri en eitt framboð hljóti verðskulduð þingsæti heldur líka vegna þess að einmitt sú staðreynd fælir væntanlega kjósendur frá.
Auðvitað er einhver og jafnvel talsverður munur á stefnumálum margra þessara framboð. Í sumum tilfellum meiri en svo að hægt sé að sameinast um framboð. Í öðrum tilfellum er ágreiningur sennilega talsvert minni en innan margra eldri stjórnmálaflokkanna.
Þess vegna er það ákveðinn dómgreindarskortur af þessum framboðum að fara ekki sameiginlega í framboð. Og ég á erfitt með að kjósa fólk ef dómgreindin er úti á túni.
Ég stilli því fulltrúum þessara framboða „upp við vegg“, náið saman um framboð og ég skoða alvarlega að kjósa ykkur eða mitt atkvæði fer annað.
Og mér er slétt sama um hvort ykkur finnst þetta óþægilegt eða ekki.