Sarpur fyrir mars, 2013

Vegguppstilling

Posted: mars 31, 2013 in Stjórnmál, Umræða

Nú hef ég ekki gert upp við mig hvað ég ætla að kjósa í komandi alþingiskosningum, enda ótímabært, það er ekki ljóst hvaða valkosti ég hef. Mörg ný framboð eru álitlegur kostur, en ég hef svo sem margt við flest þeirra að athuga.

En það er augljóst að fráleitt ákvæði í kosningalögum gerir þeim erfitt fyrir, þeas. 5% reglan við úthlutun jöfnunarsæta. Ekki bara vegna þess að reglan getur hæglega komið í veg fyrir að fleiri en eitt framboð hljóti verðskulduð þingsæti heldur líka vegna þess að einmitt sú staðreynd fælir væntanlega kjósendur frá.

Auðvitað er einhver og jafnvel talsverður munur á stefnumálum margra þessara framboð. Í sumum tilfellum meiri en svo að hægt sé að sameinast um framboð. Í öðrum tilfellum er ágreiningur sennilega talsvert minni en innan margra eldri stjórnmálaflokkanna.

Þess vegna er það ákveðinn dómgreindarskortur af þessum framboðum að fara ekki sameiginlega í framboð. Og ég á erfitt með að kjósa fólk ef dómgreindin er úti á túni.

Ég stilli því fulltrúum þessara framboða „upp við vegg“, náið saman um framboð og ég skoða alvarlega að kjósa ykkur eða mitt atkvæði fer annað.

Og mér er slétt sama um hvort ykkur finnst þetta óþægilegt eða ekki.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að ein samtök bjóði fram marga lista í komandi alþingiskosningum.

Þá eru fordæmi fyrir því að ólíkir lista geti haft hvert sinn listabókstaf. Þetta gerðist 1967 þegar Hannibal Valdimarsson bauð fram utan flokka í Reykjavík undir með listabókstafinn I en atkvæðin töldust með atkvæðum Alþýðubandalagsins, sem bauð fram undir listabókstafnum G.

Nú eru kosningalögin ekki skýr og nánast virðist ákvörðunin háð geðþótta kjörstjórna. En með fordæmi til staðar þá mætti ætla að það þyrfti skýr lagaákvæði til að neita sameiginlegri stjórnmálahreyfingu að bjóða fram nokkra lista og fá þau talin sem atkvæði einnar hreyfingar á landsvísu.

Þannig má komast hjá undarlegri 5% reglu við úthlutun jöfnunarsæta og nýta atkvæðin þegar jöfnunarsætum er úthlutað.

 

Ótrúleg heimska

Posted: mars 30, 2013 in Stjórnmál, Umræða

Ég heyrði ansi góða, merkilega, jafnvel lærdómsríka sögu af kjósanda í gær.

Kjósandinn sagðist ætla að kjósa Framsóknarflokkinn. Aðspurður hvers vegna, svaraði hann því til að flokkurinn lofaði mestu. Hann var þá spurður hvort hann tryði því virkilega að Framsóknarflokkurinn gæti – eða yfirleitt ætlaði – að standa við loforðin.

Svarið var, nei, nei, en það svíkja hvort sem er allir flokkar kosningaloforðin.

Er þetta ekki alveg ótrúleg heimska? Að ætla að kjósa þann sem lofar mestu þrátt fyrir að hafa enga trú á að staðið verði við loforðin. Er þetta ekki í rauninni ákvörðun um að kjósa þann sem viðkomandi gefur sér að komi til með að svíkja mest? Að ákveða að kjósa þann sem kjósandinn telur mestu svikarana og óheiðarlegasta?

PS. Ég er ekki að leggja dóm á hvort Framsóknarflokkurinn er líklegri eða ólíklegri en aðrir til að svíkja sín loforð. Aðeins að bölsótast yfir rökum kjósanda fyrir valinu.

Þörfin fyrir trúleysi

Posted: mars 30, 2013 in Trú, Umræða

Ég heyri mjög oft talað um að maðurinn sé einfaldlega þannig úr garði gerður að hann hafi þörf fyrir trú. Þetta heyrðist nýlega einmitt endurtekið í útvarpsþætti á RÚV.

Nú hef ég ekki þörf fyrir trú og þá gefur auga leið að annað hvort er fullyrðingin röng eða þá að ég er ekki maður. Ég gef mér að seinni skýringin sé ekki rétt og þá stendur eftir að fullyrðingin um að þessi þörf fyrir trú sé „innbyggð“ í okkur er röng.

Þvert á móti þá finnst mér mjög mikilvægt að skoða staðreyndir, rök og mótrök og nota bestu fáanlegu upplýsingar til að komast að niðurstöðu. Því trú, amk. í merkingu trúarbragða, felur í sér að hafa eitthvað fyrir satt án þess að nokkrar sannanir, staðreyndir eða staðfestar upplýsingar séu fyrir hendi.

Þess vegna hef ég einmitt mikla þörf fyrir trúleysi, mér finnst það miklu skynsamlegra.

Það er ekki eins sjálfgefið að ég kjósi ekki Sjálfstæðisflokkinn og margir myndu ætla. Að vissu leyti get ég tekið undir margar þeirra grunn hugmynda sem flokkurinn lagði upp með í upphafi.

Og ég styð hugmyndir hans um skattalækkanir.

En…

Fyrir það fyrsta þá stóð flokkurinn gegn samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Og virtist í rauninni ráða ferðinni, telja það sitt hlutverk að hafa vit fyrir þjóðinni.

Þá hefur flokkurinn lýst afdráttarlausum stuðningi við ríkiskirkjuna, sem að mínu viti gengur þvert á grunn hugsjónir flokksins. Ekki bæta tilraunir til að troða trúarbrögðum inn í stefnu flokksins úr skák, þó það hafi í sjálfu sér ekki tekist.

Þá hefur flokkurinn stutt núverandi kvótakerfi sem að mínu viti gengur einnig þvert á grunn hugmyndir sem lagðar voru til grundvallar flokknum.

Ég hef heldur ekki séð neitt frá flokknum um hvað hefði betur mátt gera fyrir hrun, ekkert um hvernig sala bankanna var í hreinni mótsögn við frjálsa samkeppni og ekkert um hvaða lærdóm má draga af hruninu. Helst er verið að setja hrunið í gæsalappir og láta eins og það hafi aldrei orðið.

Ég kenni ekki flokknum eða einstökum forystumönnum einum um hrunið, það kom margt til og aðstæður voru án fordæmis. En það er einfaldlega ekki boðlegt að geta ekki horfst í augu við að það hefði margt mátt fara betur og ég ætlast til ákveðins heiðarleika og jafnvel auðmýktar, til dæmis að geta sagt hvað yrði gert öðru vísi í dag.

Ég er ekki eindreginn Evrópusinni, mér fannst ótímabært að hefja viðræður, en mér finnst fráleitt að hætta í miðju kafi. Það virðist einhvers konar „forpokun“ gegn Evrópu hafa verið samþykkt á síðasta landsfundi, sem ekki hefur gengið að breiða yfir.

Og mér finnst satt best að segja undarlegt að sjá hvernig flokkurinn hefur snúið frá stefnu Bjarna Benediktssonar (eldri), sem ég hafði alltaf talsvert mikið álit á, og sem hann lýsti eftirminnilega í ræðu 1969.

Björt framtíð leit þokkaleg út til að byrja með og þarna er fullt af alveg ágætis fólki – en það gildir auðvitað um fleiri.

Ruglingsleg afstaða í stjórnarskrármálinu framan af var ekki til að auka álit mitt á flokknum.

Þátttakan í að drepa stjórnarskrármálið vegur mjög þungt, er nánast úrslitaatriði.

Stuðningur við ríkiskirkjuna er svo annað þungt lóð á vogarskálarnar.

Og… svona almennt séð finnst mér stefnan frekar þunn og óljós, almennt spjall sem ber svo sem vott um góðan vilja, en lítið um hvernig á að láta þennan góða vilja verða að veruleika. Það er kannski ekki sanngjarnt að hengja sig í stöku ummæli en einn frambjóðandi sagði (að mér skilst) að í menntamálum væri stefnan einföld, þau vilji meira gott og minna vesen. Sem hefði auðvitað getað verið skemmtilegur inngangur, en er frekar verðlaus þegar ekkert meira kemur. Og síðasti dropinn er svo þessi að kynningaraðferð, þeas. að flagga fræga og fína fólkinu, ekki alveg að virka fyrir mig.

Kannski er ég ekki að meta þetta rétt, en eftir stendur stjórnarskrármálið og ríkiskirkjan, nægja til að afþakka atkvæði mitt.

Þetta er reyndar frekar einfalt. Ég er hvorki „vinstri“ maður né „grænn“ – að minnsta kosti ekki í þeim skilningi sem þessi flokkur virðist leggja í hugtökin.

Nú er erfitt að henda reiður á hvað hugtakið „vinstri“ þýðir en, sem sagt, ef ég lít til þeirrar merkingar sem flokkurinn virðist leggja í það þá er ég þeim fullkomlega ósammála. Ég vil sem minnst ríkisafskipti og sem minnsta aðkomu ríkisins að atvinnulífinu.

Þá eru hugmyndir um ritskoðanir, netlögreglu og internet eftirlit fullkomlega fráleitar. Á sama hátt og takmarkanir eða bann á klámi, fjárhættuspilum, sykurneyslu og yfirlett hvers kyns forsjárhyggja. Þetta er grundvallaratriði, ég vil ekki sjá þetta.

Þá virðast margir forystumanna ekki taka upplýsingum eða rökum, nokkuð sem ég set sem grundvallarskilyrði fyrir að styðja fólk til setu á Alþingi. Það hefur til að mynda ítrekað verið bent á hvers vegna ritskoðun á „klámi“ (fyrir utan allt annað) er (nánast) óframkvæmanleg. Ég segi „nánast“ í sviga því auðvitað er allt hægt, en með þvílíkum fórnarkostnaði að það næði ekki nokkurri átt.

Þegar ég segist ekki vera „grænn“ þá á ég við að ég styð ekki hugmyndir um endalaust bönn og að aldrei megi hrófla við einu eða neinu – nema þegar kemur að kjördæmapoti. Ég er ekki á móti stóriðju, þó ég vilji hafa fjölbreyttari flóru, og ég er ekki á móti virkjunum þó ég vilji standa öðru vísi og betur að málum.

Stuðningur flokksins við ríkiskirkjuna er svo auðvitað óskiljanlegur með öllu.

Þátttaka flokksins í að svæfa stjórnarskrármálið vegur auðvitað þungt, en þarf ekki til.

En svo allrar sanngirni sé gætt, þá mega flestir forsvarsmenn hreyfingarinnar eiga að þeir tala skýrt og eru sjálfum sér (oftast) samkvæmir.

Þá má Steingrímur J eiga það að hann fékk gríðarlega erfitt verkefni í hendurnar og leysti af mikilli samviskusemi út frá þeim aðferðum sem hann hafði trú á. Ég vil sem sagt að það komi fram að mér finnst gagnrýnin að mörgu leyti ómakleg. En það nægir mér ekki til að kjósa flokkinn. Og ég er flokksmönnum ósammála í grundvallaratriðum.

Ég hef aðeins verið að hugsa hvaða framboð ég kem til með að kjósa í þingkosningunum í vor.

Ég ætla að henda stuttum hugleiðingum um hvern flokk hér á næstunni. Það er tiltölulega auðvelt að afgreiða marga. Best að byrja á Framsóknarflokknum, hann er víst stærstur samkvæmt síðustu skoðanakönnun.

Nú fyrir það fyrsta þá hefur flokkurinn staðið í vegi fyrir því að ný stjórnarskrá verði samþykkt á Alþingi, þrátt fyrir gefin kosningaloforð um annað.

Þá hefur flokkurinn lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við ríkiskirkjuna.

Ekki má gleyma aðkomu flokksins að hruninu, sölu banka og sofandahætti í aðdraganda þess. Vissulega hefur flestum þingmönnum verið skipt út, en ég á enn eftir að sjá eitthvað sem líkist afsökunarbeiðni, hvað var gert rangt og hvernig flokkurinn myndi haga sér öðru vísi í dag.

Ekki bætir úr skák að stefna flokksins er bæði ruglingsleg og barnaleg – ef ekki beinlínis hættuleg þegar kemur að því að ætla að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa einhliða.

Þá er talið um afnám verðtryggingar annað hvort hrein og klár vanþekking eða ómerkilegt lýðskrum.

Svo hef ég eitthvað lengra minni en margir aðrir, ég man td. enn eftir ferðalagi forsvarsmanna flokksins til Noregs að „redda láni“ fyrir Íslendinga.

Það er að vísu einn frambjóðandi sem ég hef talsvert álit á, Frosti Sigurjónsson. Frosti er málefnalegur, rökfastur og heiðarlegur í sinni baráttu. Þar strandar þó á því að ég er honum oftar en ekki ósammála. Hann er reyndar, að því er virðist, í nokkuð sérstakri stöðu því hann virðist lítinn hljómgrunn fá innan flokksins. Frosti er þar fyrir utan ekki í mínu kjördæmi. Willum er þarna líka í öðru sæti í Suðvestur kjördæmi, þekki hann ekki að öðru en góðu en veit ekki í sjálfu sér hvað hann stendur fyrir, og átti svo sem ekki von á að hann ætti möguleika..

Á hinn bóginn er Framsóknarflokkurinn að bjóða fram Vigdísi Hauksdóttur. Ég nenni ekki að týna til þvæluna sem hún hefur sent frá sér, en að mínu vit á hún ekkert erindi á þing.

Kannabis í lækningaskyni

Posted: mars 24, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég lengi talað fyrir lögleiðingu kannabisefna. Ekki fyrir mig, ég hef aldrei notað nein svona efni – og ég meina aldrei, ekki einu sinni þegar ég var á kafi í tónlistarheiminum. Finnst þetta meira að segja hálf aumt og fólk frekar leiðinlegt sem reykir.

En burtséð frá því.

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja hvers vegna ekki er leyft að nota þetta í lækningaskyni, td. til að lina þjáningar krabbameinssjúklinga?

Læknum er treyst til að ávísa sterkum verkjalyfjum til að lina þjáningar sjúklinga. Hvers vegna ekki kannabis ef það hjálpar fárveikum einstaklingum? Hver er mögulegur skaðinn?

Jafnvel í ríki þar sem stjórnvöld eru í stríði gegn hvers kyns fíkniefnum, þeas. í Bandaríkjunum, er þetta leyft í mörgum ríkjum.

Hvers konar mannvonska er þetta eiginlega að neita sjúklingum um aðstoð?

Má leggja niður tekjuskatt?

Posted: mars 23, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Það varð óneitanlega smá hvellur í vikunni í umræðu um skattatilfæringar hjá nokkrum fyrirtækjum.

Erlendis hefur þetta verið umræða almennt um aðferðir stórfyrirtækja til að flytja hagnað á milli landa þannig að hann sé sem minnst skattlagður – Starbucks og Google hafa verið tekin sem dæmi.

Hér varð þetta strax að „álfyrirtækjagrýlu“. Jú eitt álfyrirtæki hafði ekki borgað tekjuskatt á meðan uppbygging var í gangi en greiðir nú þokkalegar upphæðir í tekjuskatt.

Annað hefur greitt tekjuskatt árum ef ekki áratugum saman. En það var enginn að nefna þetta. Enda ekkert fréttnæmt.

Auðvitað eru góð og gild rök fyrir að þjóðfélag þar sem hagnaður myndast njóti þess að einhverju, eða miklu, leyti. En það verða að vera almennar reglur sem gilda um alla, ekki bara veiðileyfi á eina tegund fyrirtækja.

Svo er önnur hugmynd og önnur umræða – en kannski tímabær.

Er ekki kominn tími til að leggja tekjuskattinn niður? Muni ég rétt nefndi Gylfi Þ. Gíslason þessa hugmynd fyrir um 30 árum.

Ég hef alltaf hallast að einföldu gagnsæu skattkerfi. Flókið kerfi með mörgum póstum (skattstofnum) og fjölmörgum undantekningum er bæði dýrt í rekstri og býður upp á misnotkun og undanskot.

Er það alvitlaus hugmynd að leggja af tekjuskatt, eignaskatt, erfðafjárskatt og láta neysluskatta nægja?

PS. OK, ég er sjálfur ekki 100% sannfærður, en mér finnst vel þess virði að taka þessa umræðu