Ég heyri mjög oft talað um að maðurinn sé einfaldlega þannig úr garði gerður að hann hafi þörf fyrir trú. Þetta heyrðist nýlega einmitt endurtekið í útvarpsþætti á RÚV.
Nú hef ég ekki þörf fyrir trú og þá gefur auga leið að annað hvort er fullyrðingin röng eða þá að ég er ekki maður. Ég gef mér að seinni skýringin sé ekki rétt og þá stendur eftir að fullyrðingin um að þessi þörf fyrir trú sé „innbyggð“ í okkur er röng.
Þvert á móti þá finnst mér mjög mikilvægt að skoða staðreyndir, rök og mótrök og nota bestu fáanlegu upplýsingar til að komast að niðurstöðu. Því trú, amk. í merkingu trúarbragða, felur í sér að hafa eitthvað fyrir satt án þess að nokkrar sannanir, staðreyndir eða staðfestar upplýsingar séu fyrir hendi.
Þess vegna hef ég einmitt mikla þörf fyrir trúleysi, mér finnst það miklu skynsamlegra.