Archive for the ‘Trú’ Category

Einhver leiðigjarnasta klisjan sem ég heyri yfir hátíðirnar er að við Íslendingar séum kristin þjóð. Ég fæ aldrei nein svör af neinu viti þegar ég spyr hvað þetta tákni og hvernig fólk fái þetta út.

Þátttakan í trúarlegum athöfnum er að mestu bundin við tyllidaga, ég veit ekki nákvæmlega hversu margir mæta til messu utan hátíðisdaga og fjöldskylduviðburða, en þeir eru ekki margir.

Meirihluti landsmanna er vissulega enn skráður í þjóðkirkjuna, en lang flestir við fæðingu að þeim forspurðum og þetta hlutfall fer hratt niður á við.

Aftur hef ég ekki nákvæmar tölur en ég efast um að meira en 5% geti farið með trúarjátninguna og ég efast um (eða vona að minnsta kosti) að margir þeirrra taki innihald hennar bókstaflega.

Vissulega má halda því fram að flestir gera sér far um að breyta rétt og forðast að breyta rangt. Og það er líka rétt að mikið af því má sækja í boðskap kristninnar. En kristnin sækir nefnilega þær hugmyndir til annarra og hefur þar fyrir utan, svona í aldanna rás, lagað sig að hugmyndum um hvað sé rétt og hvað sér rangt.. sem er gott, en kannski full mikið að eigna trúnni þær hugmyndir. Og ekki gleyma að það þarf líka oft á tíðum að skauta fram hjá miður jákvæðum boðskap biblíunnar og margra talsmanna kirkjunnar.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða, þó ósanngjarnt sé að einhverju leyti, að benda á að þeir sem gaspra hvað hæst um mikilvægi trúarinnar fylgja nú kannski hvað síst boðskap hennar, til að mynda, um náungakærleik þegar kemur að því að, svo ég nefni nú nærtækt dæmi, aðstoða fólk í neyð. Ég er ekki að nefna þetta til að yfirfæra þessar skoðanir yfir á alla kristna heldur til að benda á að kannski er of mikil áhersla á trúna og það að berja sér of mikið á brjóst sem trúuðum einstaklingi og hafa hvað hæst um hversu kristin við séum… ekki endilega neitt sérstaklega jákvætt.

Já, trúleysið er betra

Posted: nóvember 19, 2018 in Trú, Trúarbrögð, Umræða
Prestur ríkiskirkjunnar spurði í messu fyrir nokkru og birti eftirfarandi spurningu:

„Erum við betur sett með trúleysið, trúarkenningar annarra landa (sem ég ber mikla virðingu fyrir), þau lönd búa ekki við sama velferðarkerfið og við, sömu menntun og það er ekki tilviljun.“

Mikið skelfilega er þetta hvimleið rökleysa. Og ruglingsleg setning ef út í það er farið.

Jú, „við“ búum við betra velferðarkerfi og menntun en margar aðrar þjóðir, fráleitt að halda að það sé einsleitt, en skoðum samt betur.

Já, við erum betur sett með trúleysið vegna þess að vísindi hafa verið grundvöllurinn a1ð þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Vísindin eru bein andstaða trúarinnar, nálgun vísindanna er að gagnrýna, rannsaka og hafa það fyrir satt sem hægt er að sýna fram á.. Trúarbrögðin hafa hluti fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á, enda byggja þau á „trú“ og getgátum en ekki staðreyndum eða þekkingu. Þannig er sú fáfræði sem hörðustu talsmenn trúarinnar tala fyrir, hvort sem um er að ræða sköpunakenningu eða aðra vitleysu, beinlínis hamlandi fyrir framþróun.

Auðvitað eru flestir talsmenn kirkjunnar hér á Íslandi farnir að tala í undanbrögðum þegar kemur að sköpunarkenningunni, sem betur fer.. en víða í heiminum er kristnin beinlínis fjötur um fót þegar kemur að vísindum og framþróun.

Sama gildir um mannréttindi. Forsvarsmenn trúarbragðanna, þar með talið kristninnar – og þar með talið á Íslandi – hafa barist gegn sjálfsögðum mannréttindum í gegnum tíðina, hvort sem við horfum til samkynhneigðra eða annarra.

Vissulega hafa sjónarmið kirkjunnar, amk. ef við horfum við Norður Evrópu, mildast síðustu árin, þó enn finnist „risaeðlur“ í forystusveit hennar.

En það er einmitt kjarni málsins. Trúin er að aðlaga sig að þróun, talsmenn kirkjunnar eru að draga í land með mestu vitleysuna og bakka út úr mestu fordómunum. Ekki vegna frumkvæðis kirkjunnar, heldur vegna þess að hún er, sem betur fer, „í aftursætinu“ og hefur að mörgu leyti haft rænu á að aðlaga sig þróun – sem er gott í sjálfu sér, en ekki reyna að halda því fram að velferðin sé henni að þakka.

Þar sem velferðarkerfið er kannski að jafnaði hvað mest og menntun og mannréttindi að einhverju leyti lengra komin (án þess að ég vilji taka undir alhæfingar prestins) þar eru trúarbrögðin búin að draga sig í hlé, þar snúast trúarbrögðin að mestu athafnaþjónustu, tyllidagamessur og svo aðstoð við þá sem lenda í erfiðleikum.

Þannig að svarið er afdráttarlaust „já, við erum betur komin með trúleysið“.

 

[Gefum okkur að trúfélög væru óháð ríkinu og rekin eins og hver önnur áhugafélög… svona samtal væri eiginlega algjörlega út úr kú]

Ég var að velta fyrir mér hvort það væri ekki fín hugmynd að taka eitthvert áhugafélag um yfirnáttúrulegar verur og láta ríkissjóð um reksturinn, kannski skella nokkrum milljörðum í þetta á ári.. ráða starfsfólk á fantagóðum launum, nokkuð margföldum launum sjúkraliða, lögreglumanna, sálfræðinga o.s.frv… og láta þá fá jarðir til að búa á og leyfa þeim að hirða hlunnindin.

Nei, er það ekki algjör óþarfi? Getur fólk ekki sinnt þessum áhugamálum bara á eigin forsendum… á þetta að hafa eitthvert hlutverk?

Já, já, þau myndu sjá um alls kyns tímamótaathafnir, nafn, manndómsvígslur, hjónavígslur.

OK, og gera þetta ókeypis?

Nei, nei, þeir sem nota þjónustuna greiða auðvitað vel fyrir.

Svona eins og fólk gerir hvort sem er?

Já, já… og svo kannski sjá um að aðstoða fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.

Eins og sálfræðingar?

Já, nákvæmlega.

Og eru þeir þá menntaðir sem sálfræðingar?

Nei, ekki beint, en mæta kannski í einn kúrs.

Nú, skil ég ekki, er ekki betra að til þess menntaðir sérfræðingar sjái um svona? 

En þetta eru svo krúttleg félög, þau trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af yfirnáttúrulegri veru sem fylgist með okkur og grípi inn í aðstæður hjá okkur ef við biðjum nægilega vel.

Eru einhverjar upplýsingar staðreyndir sem styðja þessar hugmyndir?

Nei, nei, þá þyrfti ekki að byggja á að trúa þessu…

Og hvað, viltu að ríkið reki öll félög sem trúa á yfirnáttúrulegar verur?

Nei, auðvitað ekki, við veljum bara eitt. Það má nota þetta í siðferðilegum tilgangi. Þetta sem ég er með í huga trúir því að yfirnáttúruleg vera hafi skapað heiminn, bara svona rétt si svona á nokkrum dögum fyrir ekki svo löngu síðan og að engin þróun hafi átt sér stað. Veran var víst mjög refsiglöð framan af fann allt í einu upp á því að barna konu með sjálfri sér fyrir tvö þúsund árum, látið drepa sig og rísa svo upp frá dauðum svo hún gæti fyrirgefið fólk það sem það gerði rangt.

OK, ekki veit ég hvað þetta fólk hefur verið að reykja, en þú nefndir siðferðilegan tilgang, kannski það sé einhver flötur.. 

Já, já, meðlimirnir hafa mjög skýrar reglur um öll siðferðileg mál sem eru vel skilgreind í einni bók.

Gott og vel, og eitthvað sem má fara eftir?

Nei, ekki beint, sumir telja sig reyndar taka öllu bókstaflega, en það er svolítið snúið því reglurnar eru talsvert mótsagnakenndar… og þeir sem segjast taka öllu bókstaflega taka nú eiginlega bara því sem þeim sjálfum hentar hverju sinni. Hins vegar er mun geðfelldari hópur sem notar sögurnar og reglurnar sem dæmisögur til að gefa skýr siðferðileg skilaboð.

Já, það er eitthvað, en hvernig er hægt að vita hvernig á að túlka sögurnar?

Jú, það er nú bara miðað við hvað samfélaginu finnst siðferðilega rétt hverju sinni.

En nú er ég alveg að týna þræðinum, hvers vegna þurfum við þá bækurnar og dæmisögurnar? Ef við notum hvort sem er bara það sem þykir rétt?

Hvaða smámunasemi er þetta, eigum við ekki að gera þetta?

Æi, veistu, ég sé bara enga ástæðu til…

„Ástæða“, hvað er það?

Ég fór að velta þessu fyrir mér í framhaldi af fréttum um að minnsta kosti einn prestur ætli í framboð til forseta Íslands.

Auðvitað er ekkert tæknilega séð sem kemur í veg fyrir þetta, en er þetta góð hugmynd?

Nú er rétt að taka fram að ég þekki viðkomandi einstakling ekkert en hann fær hin bestu meðmæli, fínn og vandaður maður og hefur, að mér er sagt, sýnt fulla tillitssemi í samskiptum við fólk sem ekki er kristið og forðast að troða siðum upp á þá sem ekki vilja. Sem sagt eins góður prestur og þeir gerast – og mættu aðrir taka hann sér til fyrirmyndar.

En ég kemst ekki fram hjá þessu með trúna.

Þó ekki væri annað en trúarjátningin.

Í henni eru að minnsta kosti tvær fullyrðingar sem stangast á við náttúrulögmálin.

Þannig að annað hvort trúa prestar því að náttúrulögmálin hafi verið brotin fyrir tvö þúsund árum eða svo. Eða þeir fara reglulega með yfirlýsingu sem þeir taka ekki trúanlega.

Ekki segja mér að þetta sé myndlíking eða dæmisaga.. þetta er skýr og klár yfirlýsing.

Og ekki segja mér að yfirlýsingar séu marklausar, það gengur ekki almennilega upp fyrir forseta.

 

 

Kannski er ég farinn að endurtaka mig, en svona í ljósi nýjustu frétta – um þyngdarbylgjur – rifjast upp hversu galið það er í ljósi þekktra upplýsinga að trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af guði gyðinga fyrir fáum þúsundum ára.

Það eru auðvitað sárafáir hér á landi og í Evrópu sem beinlínis hafa þetta fyrir satt. En í fjölmennu ríki vestan hafs er þetta til að mynda nokkuð útbreidd skoðun.

Það væru nokkuð augljós viðbrögð að þegar búið er að afsanna án nokkurs vafa þann grundvöll sem ákveðinn trúarbrögð byggja tilvíst sína á – þá væri sjálfgefið að segja einfaldlega, „jæja, þetta var nú barasta hreinn og klár misskilningur, þeim var kannski vorkunn að halda þetta á sínum tíma, en nú vitum við betur og leggjum þetta til hliðar“. Þannig bregst að minnsta kosti sæmilega skynsamur einstaklingur við því þegar í ljós kemur að skoðanir hans / hennar standast ekki skoðun.

En einhverra hluta vegna ríghalda talsmenn trúarbragðanna í að þetta sé nú samt allt satt og rétt, þrátt fyrir allt. Kannski er of mikið undir. Kannski er búið að fjárfesta of mikið, bæði bókstaflega og fyrir mannorðið.

Á flóttanum undan staðreyndum og upplýsingum þá er gripið til að segja að megnið af vitleysunni sé nú bara líkingamál, allt saman myndlíkingar sem beri nú (allt í einu) ekki að taka bókstaflega. Enginn getur reyndar svarað fyrir hvað þetta líkingamál stendur og/eða hvað það er sem myndlíkingarnar vísa til. Ég veit ekki til að nokkur hafi getað svarað því hvað það er sem „meyfæðing“ vísar til sem myndlíking.

En ef allt sem stendur í bókinni er orðið líkingamál, eða amk. smám saman að verða líkingamál (því flóttinn frá textanum virðist hraðari með hverjum deginum), hvert er þá innihaldið? Er þá ekki guðinn sjálfur myndlíking? Eru trúarbrögðin (sum) þá bara safn myndlíkinga?

Mikið rosalega getur málflutningur talsmanna ríkiskirkjunnar farið í taugarnar á mér.

Annars ágætur prestur, Davíð Þór Jónsson, er að fárast yfir harðri gagnrýni og spyr hvort kirkjan eigi að bjóða hinn vangann – sem er nú reyndar það sem hún sjálf boðar, svo kaldhæðnislegt sem það er.

Ríkiskirkjan rekur grimmt markaðsstarf, kostað af almannafé, þar sem ítrekað er haldið fram rangfærslum, blekkingum og jafnvel hreinum ósannindum í áróðrinum.

Örfáir einstaklingar eiga það til að benda á rökleysur og rangfærslur – í sínum frítíma – án þess að talsmenn kirkjunnar hafi nokkur svör, þeas. -önnur en að kveinka sér undan umræðunni.

Þannig að ef þið lítið á málefnalega gagnrýni sem löðrung, já, þá megið þið alveg bjóða hinn vangann.

En byrjið kannski á að fylgja öðrum boðskap ykkar í verki, þetta boðorð, þarna, þið munið, sem hefur eitthvað með ljúgvitni að gera.. Eða er það kannski bara orðið líkingamál eins og allt annað hjá ykkur?

Kannski rifja upp eitthvað með bjálka og flísar..

Það er kannski óþarfi að vera að tíunda niðurstöður úr könnuninni sem Maskína gerði fyrir Siðmennt. En, jú, jú.. hún er nokkuð merkileg og um að gera að ræða málin.

Ef marka má niðurstöður könnunarinnar þá er um fjórðungur þjóðarinnar kristinnar trúar en trúir ekki á neitt.

Líklegasta skýringin er auðvitað að fólk telji sig finna siðferðisleg gildi í kennisetningum trúarinnar og/eða kunni að meta athafnir, siði og venjur trúfélaganna.

Það er hins vegar mikill misskilningur að ekki sé hægt að finna góð siðferðileg viðmið án trúarinnar.. þvert á móti þá geta þau sem ganga út frá grundvöllum trúarsetninga verið mjög skaðleg eins og sést best á viðhorfi margra kristinna til samkynhneigðra.

Svo er auðvitað engin þörf á að tengja viðburði við yfirnáttúrlegar verur.. Siðmennt hefur til að mynda sýnt fram á í verki að athafnir geta verið ógleymanlegar og vel heppnaðar þó ekki sé verið að skreyta þær með bábiljum fyrri alda.

Það hefur oft verið sagt að stysta leið kristinna að trúleysi sé að lesa biblíuna.

Fyrir um það bil tveimur áratugum ákvað kirkjan að hefja sérstakt átak í skólum landsins, prestar voru sendir í skólana á skólatíma og oftar en ekki farið með börnin í messu í kirkju.

Þetta hefur, eðlilega, verið mikið gagnrýnt og ekki fyrir löngu setti Reykjavíkurborg skýrar reglur um aðgang utanaðkomandi aðila í menntastofnanir – nokkuð sem kostað hefur rifrildi og ritdeilur nánast fyrir hver einustu jól.

En nýleg könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt sýnir að ekki eitt einasta barn undir 25 ára aldri trúir á guð kristinna. Þau eru kannski sátt við siði og athafnir – og þau eru sammála mörgu í siðferðisboðskap kristinna – sem að mestu er eldri en kristnin og hefur lítið með hana að gera.

En þetta er einmitt sú kynslóð sem sat undir markaðsátaki kirkjunnar.

Kannski ættum við trúlaus frekar að hvetja kirkjuna til að mæta í skólana, fulltrúar hennar eru að ná miklu betri árangri en við…

Það er óneitanlega verulega skondið að fylgjast með umræðunni í kjölfar skoðanakönnunar sem Siðmennt lét gera um trúarskoðanir og fleira.

Það hefur aðeins verið gagnrýnt að ekki hafi verið boðið upp á guð-stýrði-miklahvelli sem valkost.

Það er í meira lagi skondið að sjá fólk reyna að grauta þessum hugmyndum saman. Kenning biblíunnar um hvernig og uþb. hvenær guð á að hafa skapað heiminn er nokkuð skýr. Og hún hefur klárlega verið afsönnuð.

Tilgáta vísindanna um miklahvell er sennilega besta (ja, skársta) nálgun sem við höfum. Mögulega koma aðrar og betri kenningar síðar, en það verður á forsendum vísindanna.

Það er með ólíkindum að fullorðið og – að því virðist, að öðru leyti – nokkuð greint fólk skuli ekki einfaldlega getað kyngt þessu og samþykkt að texti biblíunnar sé hreint og klárt bull.

Þess í stað er farið að fjasa um að biblían sé nú bara líkingamál og hangið á því eins og hundur á roði að það megi nú bara alveg gefa sér að það sé eitthvað að marka þennan texta. Texta sem ekkert sérstaklega vel upplýstir einstaklingar skrifuðu fyrir nokkur þúsund árum í einhverri tilraun til að geta sér til um upphaf alheimsins.

Og úr verður einhvers konar grautarhyggja sem gengur gegn einfaldri skynsemi, þekktum staðreyndum og augljósum rökum. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá er þetta sama fólk að setja sig á háan hest í umræðunni, þykist vera eitthvað „andlega“ merkilegra en við hin..

 

 

„Túlkunar“hefðin

Posted: janúar 9, 2016 in Trú, Trúarbrögð, Umræða

Ég sé að starfsmaður ríkisins er að kveinka sér undan því að of margir vilji kasta einhverri túlkunarhefð.

Eins og svo oft áður þegar þessi stétt er að reka áróður fyrir að vera áfram á ríkisspenanum þá er talað niður til allra sem voga sér að hafa aðra skoðun en þeir og skoðanir þeirra uppnefndar.

Það er eitt og annað við þetta að athuga.. og þetta helst.

Þetta er engin þúsund ára „túlkunarhefð“, þar til nýlega var þessu haldið fram sem staðreyndum og „túlkun“ kom hvergi við sögu. Og reyndar er mjög margir sem gera það enn. En á flóttanum frá upplýsingum og raunverulegum staðreyndum síðustu áratuga er allt í einu farið að tala um túlkun og jafnvel líkingamál. Þessi túlkun er í besta falli nokkurra áratuga gömul.

En það sem verra er þessi túlkun hefur verið og er enn notuð til að níðast á og brjóta mannréttindi á fólki. Skemmst er að minna fordóma gagnvart samkynhneigðum sem enn eru mjög áberandi í skjóli þessarar túlkunar.

Svo er líka allt í lagi að hafa í huga að þessi úrelta túlkun á kenningum sem klárlega standast enga skoðun er einfaldlega fullkomlega óþörf.

Í rauninni eru það því allt of fáir sem vilja kasta þessu út í hafsauga.