Einhver leiðigjarnasta klisjan sem ég heyri yfir hátíðirnar er að við Íslendingar séum kristin þjóð. Ég fæ aldrei nein svör af neinu viti þegar ég spyr hvað þetta tákni og hvernig fólk fái þetta út.
Þátttakan í trúarlegum athöfnum er að mestu bundin við tyllidaga, ég veit ekki nákvæmlega hversu margir mæta til messu utan hátíðisdaga og fjöldskylduviðburða, en þeir eru ekki margir.
Meirihluti landsmanna er vissulega enn skráður í þjóðkirkjuna, en lang flestir við fæðingu að þeim forspurðum og þetta hlutfall fer hratt niður á við.
Aftur hef ég ekki nákvæmar tölur en ég efast um að meira en 5% geti farið með trúarjátninguna og ég efast um (eða vona að minnsta kosti) að margir þeirrra taki innihald hennar bókstaflega.
Vissulega má halda því fram að flestir gera sér far um að breyta rétt og forðast að breyta rangt. Og það er líka rétt að mikið af því má sækja í boðskap kristninnar. En kristnin sækir nefnilega þær hugmyndir til annarra og hefur þar fyrir utan, svona í aldanna rás, lagað sig að hugmyndum um hvað sé rétt og hvað sér rangt.. sem er gott, en kannski full mikið að eigna trúnni þær hugmyndir. Og ekki gleyma að það þarf líka oft á tíðum að skauta fram hjá miður jákvæðum boðskap biblíunnar og margra talsmanna kirkjunnar.
Að lokum get ég ekki látið hjá líða, þó ósanngjarnt sé að einhverju leyti, að benda á að þeir sem gaspra hvað hæst um mikilvægi trúarinnar fylgja nú kannski hvað síst boðskap hennar, til að mynda, um náungakærleik þegar kemur að því að, svo ég nefni nú nærtækt dæmi, aðstoða fólk í neyð. Ég er ekki að nefna þetta til að yfirfæra þessar skoðanir yfir á alla kristna heldur til að benda á að kannski er of mikil áhersla á trúna og það að berja sér of mikið á brjóst sem trúuðum einstaklingi og hafa hvað hæst um hversu kristin við séum… ekki endilega neitt sérstaklega jákvætt.