„Erum við betur sett með trúleysið, trúarkenningar annarra landa (sem ég ber mikla virðingu fyrir), þau lönd búa ekki við sama velferðarkerfið og við, sömu menntun og það er ekki tilviljun.“
Mikið skelfilega er þetta hvimleið rökleysa. Og ruglingsleg setning ef út í það er farið.
Jú, „við“ búum við betra velferðarkerfi og menntun en margar aðrar þjóðir, fráleitt að halda að það sé einsleitt, en skoðum samt betur.
Já, við erum betur sett með trúleysið vegna þess að vísindi hafa verið grundvöllurinn a1ð þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Vísindin eru bein andstaða trúarinnar, nálgun vísindanna er að gagnrýna, rannsaka og hafa það fyrir satt sem hægt er að sýna fram á.. Trúarbrögðin hafa hluti fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á, enda byggja þau á „trú“ og getgátum en ekki staðreyndum eða þekkingu. Þannig er sú fáfræði sem hörðustu talsmenn trúarinnar tala fyrir, hvort sem um er að ræða sköpunakenningu eða aðra vitleysu, beinlínis hamlandi fyrir framþróun.
Auðvitað eru flestir talsmenn kirkjunnar hér á Íslandi farnir að tala í undanbrögðum þegar kemur að sköpunarkenningunni, sem betur fer.. en víða í heiminum er kristnin beinlínis fjötur um fót þegar kemur að vísindum og framþróun.
Sama gildir um mannréttindi. Forsvarsmenn trúarbragðanna, þar með talið kristninnar – og þar með talið á Íslandi – hafa barist gegn sjálfsögðum mannréttindum í gegnum tíðina, hvort sem við horfum til samkynhneigðra eða annarra.
Vissulega hafa sjónarmið kirkjunnar, amk. ef við horfum við Norður Evrópu, mildast síðustu árin, þó enn finnist „risaeðlur“ í forystusveit hennar.
En það er einmitt kjarni málsins. Trúin er að aðlaga sig að þróun, talsmenn kirkjunnar eru að draga í land með mestu vitleysuna og bakka út úr mestu fordómunum. Ekki vegna frumkvæðis kirkjunnar, heldur vegna þess að hún er, sem betur fer, „í aftursætinu“ og hefur að mörgu leyti haft rænu á að aðlaga sig þróun – sem er gott í sjálfu sér, en ekki reyna að halda því fram að velferðin sé henni að þakka.
Þar sem velferðarkerfið er kannski að jafnaði hvað mest og menntun og mannréttindi að einhverju leyti lengra komin (án þess að ég vilji taka undir alhæfingar prestins) þar eru trúarbrögðin búin að draga sig í hlé, þar snúast trúarbrögðin að mestu athafnaþjónustu, tyllidagamessur og svo aðstoð við þá sem lenda í erfiðleikum.
Þannig að svarið er afdráttarlaust „já, við erum betur komin með trúleysið“.