Sarpur fyrir apríl, 2017

Ólíkt mörgum skoðanasystkinum að flestu leyti þá finnst mér fráleitt að ríkið sé að eiga og reka banka.. eins og svo marga aðra þætti í atvinnurekstri sem engin sérstök ástæða er til að séu á hendi ríkissjóðs.

Ef hugmyndin er að ríkið reki banka, þá þarf bara einn banka og búið.. en ég er engan veginn sannfærður um að það skili góðu bankakerfi.

Ef ríkið vill sækja tekjur í starfsemi banka, þá er eðlilegast að gera það gegnum skattkerfið (og þá á ég við „skattkerfi“ í víðum skilningi).

Ef ríkissjóður á svo aftur að ábyrgjast starfsemi banka að einhverju leyti þá er auðvitað sjálfsagt að ríkið setji stífar reglur um þá starfsemi og sinni nákvæmu eftirliti.. sem viðkomandi bankar greiða fyrir. Þær reglur geta verið víðtækar og þess vegna mjög takmarkandi og/eða hamlandi.. en þær þurfa að vera almennar og þær þurfa að vera skýrar. Sama gildir um hverjir mega eiga og reka banka, almennar reglur, skýrar og gilda jafnt fyrir alla.

Að þessum reglum settum, þá ætti í sjálfu sér hver sem vill að fá að eiga og reka banka – að því gefnu að sá aðili gangist undir reglur og uppfylli almennar kröfur um eigendur (ef einhverjar eru) og kröfur um eignarhlut (ef einhverjar eru).

Og ef ríkið ætlar að selja banka, þá ætti það einfaldlega að vera sá sem býður hæst sem fær að kaupa – í gagnsæu og opnu ferli. Enda uppfylli kaupandi almennu reglurnar sem settar eru fyrirfram og sé tilbúinn að gangast undir lög og reglur við rekstur. (Ekki misskilja, ekkert réttlætir að kaupendur svíki, ljúgi og/eða blekki í þeim viðskiptum).

Neytendum er svo frjálst að velja sér viðskiptabanka. Ef eigendur einhvers bankans eru vandamál.. þá er bara að skipta við annan. Ef fólk vill „samfélagsbanka“ [ég er ekki alveg viss hvað það táknar nákvæmlega] þá er bara að koma honum þannig bankann á fætur.

Fyrir minn smekk þá skipta þjónusta og kjör mestu máli.. hver á bankann og nýtur hagnaðar (þegar vel gengur) er minna mál. Ég væri, til að mynda, ekki til í að versla við banka sem svínaði illa á mér bara vegna þess að mér líkaði betur við eigendur hans.. jafnvel ekki þó að eigandinn sé ríkissjóður.