Sarpur fyrir febrúar, 2018

Slappur „Guð“

Posted: febrúar 24, 2018 in Trúarbrögð, Umræða

Í kjölfar morðanna í Bandaríkjunum í síðustu viku keppast heittrúaðir kristnir við að birta gamla klisju og nemanda sem spyr guðinn hvers vegna hann hafi ekki komið nemendum til bjargar og guðinn svarar að hann hafi því miður verið útilokaður frá skólum.

Ég veit svo sem alveg að þetta er ómerkilegur áróður og þeir sem dreifa þessu vita alveg betur.

En skoðum aðeins.

„Guðinn“ er almáttugur, en samt getur hann ekki blandað sér í atburði innan veggja skóla vegna þess að ekki má tilbiðja hann þar.

Er „Guðinn“ svo aumur að það eitt að ekki megi tilbiðja hann í skólum þá getur hann ekki aðstoðað þá sem á hann trúa?

„Guðinn“ er ekki bannaður frá heimilum, en einhver dæmi eru nú um ofbeldisverk innan veggja heimilanna.

„Guðinn“ er nú svo ekki einu sinni ekki bannaður í kirkjum í Bandaríkjunum, en samt hefur verið níðst á börnum þar í gegnum tíðina, áratugum ef ekki öldum saman. Og jafnvel eru nú dæmi um skotárásir í kirkjum.

Er þetta virkilega guðinn ykkar?? Ég held / vona ekki. Ég held að þetta sé vanhugsað og frekar ómerkilegt áróðursbragð.

Þannig að svona hafið í huga áður en þið setjið þetta næst inn á Facebook eða blogg eða aðra samfélagsmiðla… þeir sem lesa þetta hugsa ekki, „já, kannski væri nú rétt að leyfa trúboð í skólum“, flestir hugsa „mikið skelfilega er þetta aumkunarverður útúrsnúningur og svakalega er þetta máttlaus og lélegur guð sem þið trúið á – ekki vil ég tilheyra svona trúarbrögðum“.

Þröngsýnn

Posted: febrúar 17, 2018 in Umræða
Efnisorð:

Ég játa að ég er þröngsýnn – og skammast mín ekkert fyrir.

Ég hafna hvers kyns hugmyndum og skoðunum sem byggðar eru á fáfræði, rökleysum, stangast á við þekktar staðreyndir, ganga gegn mannréttindum, hanga á langsóttum getgátum og vangaveltum og/eða hafa það eitt sér til stuðnings að byggja á hefð eða sögu.

Ég geri kröfur um upplýsingar, þekkingu, staðreyndir og rök.

Ég hef nefnilega aldrei skilið þetta tal um „víðsýni“, að taka hlutum með „opnum huga“ og reyna að hafa skilning og þolinmæði á hvers kyns vitleysu. Það er til dæmis gott að muna að opinn hugur á það til að fyllast af rusli.

Hvaðan kemur þessi hugsun að „víðsýni“ sé eftirsóknarverð og „þröngsýni“ sé slæm?

Eina víðsýnin sem á við er að vera tilbúinn til að endurskoða afstöðu þegar nýjar upplýsingar koma fram.

Styð Skúla Helgason

Posted: febrúar 4, 2018 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ef svo ólíklega skyldi vilja til að það fari eitthvað á milli mála þá styð ég Skúla Helgason í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Smá bakgrunnur… ég finn mig hvergi á einhverjum pólitískum áttavitum, „vinstra“ fólk kallar mig „hægri“ sinnaðan og öfugt.

Að grunni til vil ég afskipti ríkisins í lágmarki og tel verkefni að öðru jöfnu betur komin í hendur einkaaðilum… það vantar auðvitað mikið á að umhverfið sé í lagi til að þetta virki nægilega vel en það er önnur umræða.

Hins vegar eru ákveðin atriði sem þarf að tryggja að séu í lagi, menntun, heilbrigðiskerfið skipta þar mestu máli. Ekki bara vegna þess að ég vil búa í þjóðfélagi sem leggur áherslu á menntun og heilsu – sem er alveg nægilega góð ástæða – heldur er einfaldlega mjög þjóðhagslega hagkvæmt að hafa þessi atriði í forgangi … svona fyrir þá sem þurfa að reikna alla hluti til enda á „hagfræðinótum“.

Hægri / vinstri skiptir mig engu… ég styð fólk sem leggur áherslu á það sem skiptir máli og kemur hlutunum í verk.

Þess vegna styð ég Skúla Helgason.