Barði Valdimarsson

Posted: janúar 9, 2026 in Minningar
Efnisorð:

Barði Valdimarsson lést síðasta sunnudag í Kaupmannahöfn.

Við áttum langa, en kannski eitthvað slitrótta, samleið gegnum lífið, vissum hvor af öðrum í barna- og gagnfræðaskóla – en kynntumst ekki almennilega fyrr en í menntaskóla MK.

Ósætti Barða við yfirvöld skólans urðu til að við stofnuðum Fræbbblana, ásamt fleiri vinum. Hann hætti svo nánast strax enda ekki mikinn áhuga á tónlistinni, amk. ekki á þessum tíma.

Við héldum lengi vel góðu sambandi, hann og Anna Sigga voru meðal okkar bestu vina þegar börnin voru ung – hef ekki tölu á kvöldunum sem við kíktum til þeirra (jafnvel með Alexöndru í burðarrúmi) að spila bridds.

Eftir að Barði flutti út í lok síðustu aldar slitnaði sambandið en við fórum að hittast aftur upp úr áramótum. Þá var Tina komin til sögunnar – og seinna Duna. Ég man að eitt af fyrstu skiptunum sem við hittumst á þessari öld sagði Iðunn eftir gott matarboð, “ég var búinn að gleyma hvað hann Barði er skemmtilegur”

Við reyndum að hittast reglulega, þó það væri ekki oft, en héldum ágætu sambandi í gegnum samfélagsmiðla og síma.

Síðustu árin var Barði orðinn mjög veikur, hvert áfallið af öðru kom en hann hristi þau jafn harðan af sér, þurfti auðvitað að standa undir viðurnefninu sem hann gaf sjálfum sér, “Barði harði”. Ég ætla ekki að rekja sjúkdómssöguna, það eru mörg ár síðan hann átti að eiga lítið eftir, en alltaf komst hann aftur á ról. Á endanum varð annað Covid tilfellið það sem hann réði ekki við. Þegar við heyrðumst síðast, núna í desember, virtist hann bjartsýnn á að ná þokkalegri heilsu og við vorum að tala um að finna tíma til að hittast.

Innilegar samúðarkveðjur frá okkur til fjölskyldunnar.

Fréttirnar á morgnana

Posted: janúar 8, 2026 in Samfélag
Efnisorð:, ,

Af gömlum vana byrja ég flesta morgna á að kíkja á fréttir.. og skal játa að ég er alltaf jafn undrandi á að ekki sé búið að skjót’ann. Eða hann hafi amk. hrokkið upp af af sjálfsdáðum.

Ekki misskilja. Alls ekki misskilja. Ég er alls ekki, engan veginn og aldrei að vonast eftir þessu.

Fyrir það fyrsta þá finnst mér ekki til fyrirmyndar að óska einhverjum dauðdaga, jafnvel verstu illmenni mannkynssögunnar eiga fjölskyldu og sumar hverjir jafnvel einhverja eiga vini.. Og ekki mæli ég ofbeldi bót í pólitískum tilgangi, það er sjaldnast rétta leiðin.

En aðallega þá finnst mér skipta verulegu máli að hann og hans hyski fái makleg málagjöld og dúsi sem lengst á bak við lás og slá. Þjóðir læra mest af því að taka á svona illþýði og úrhrökum sem tuddast til valda af festu og með lögum þar sem virkt og sanngjarnt réttarkerfi klárar málin.

Og svo óttast ég verulega að ef hann endar sem “fórnarlamb” þá verði allt eins líklegt að eftir tvö þúsund ár eða svo verði öflugur trúarsöfnuður, klofinn í mörg hundruð deildir, jafnvel ríkisrekinn sem tilbiðji þetta viðundur. Það er jú nægilega stór hópur sem trúir öllu í blindni sem frá honum kemur og afneitar allri gagnrýni, öllum óþægilegum staðreyndum og sér ekki í gegnum einföldustu og augljósustu lygar. Táknið yrði væntanlega riffill eða hríðskotabyssa.. nú eða derhúfa.

Og ekkert HM í fótbolta á næsta ári

Posted: desember 5, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Upp á síðkastið hef ég verið að (reyna að) minnka fótbolta áhorf og tíma sem ég tek í að fylgjast með fréttum og umræðu. Það gengur kannski ekkert sérstaklega vel en mjakast.

Ekki hafði ég hugsað mér að fylgja mikið með HM karla í fótbolta á næsta ári, sérstaklega ekki leikjum sem spilaðir verða í Ríkjasambandi Ameríku – og eftir að íslenska liðið missti af þátttöku varð þetta nú enn minna spursmál.

Ég lét mig hafa það að horfa á HM 2022 í Katar með “óbragð í augum og eyrum”. Mér fannst vesaldómur stjórnenda FIFA ekki mega eyðileggja þessa hátíð, einhverjar leifar voru enn af þeirri hugmynd – sem var staglast á þegar ég var yngri – að fótboltinn væri utan við pólitík. Og að þarna hefðu verið gerð gróf mistök sem erfitt hefði verið að bakka út úr – og yrðu í það minnsta ekki endurtekin. Ég var að reyna sýna lit og forðast að styrkja helstu stuðningsaðila mótsins, en komst fljótt að því að ég keypti aldrei neitt frá þeim hvort sem var!

Í öllu falli, FIFA beit heldur betur höfuðið af skömminni og ég hef ekki geð í mér að horfa á þetta.

Leiðir skilja við Pírata

Posted: nóvember 29, 2025 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:,

Þá á ég ekki lengur samleið með Pírötum..

Þetta hefur reyndar verið sérstakt samband, hreyfingin varð til í einfeldningslegri og beinlínis hættulegri baráttu gegn höfundarrétti – ég reifst talsvert við marga liðsmenn á sínum tíma.

En þrátt fyrir nafnið þá fjaraði þetta út – eftir stóð barátta fyrir heiðarlegum stjórnmálum, gagnsæi, mannréttindum og nýrri stjórnarskrá. Allt hlutir sem mér fundust mjög mikilvægir. Ekki spillti hversu öflugir einstaklingar voru í starfi og framboði fyrir Pírata (best að nefna engin nöfn, ég myndi gleyma einhverjum sem ætti skilið að ég nefndi).

En í dag var Alexöndru Briem hafnað í formannskjöri. Ekki ætla ég að láta eins og það skipti ekki máli að Alexandra er dóttir mín en það er ekki aðalatriðið.

Það sem ég get ekki sætt  mig við er að Alexandra hefur verið ótrúlega dugleg að vinna að stefnu flokksins, óþreytandi að starfa innan félagsins, sívinnandi fyrir kosningar að styðja frambjóðendur – hvort sem hún var sjálf í framboði eða ekki.

Og Alexandra hefur unnið mjög vel í borgarstjórn Reykjavíkur síðustu kjörtímabil, ekki auðvelt starf og auðvitað ekki hægt að gera svo öllum líki – en ég held að ég geti fullyrt að hún hafi verið vel liðin af samherjum, andstæðingum og samstarfsfólki.

Píratar eru í vandræðum, eftir slaka kosningu fyrir ári síðan.

Ég held að dagar Pírata séu taldir ef þetta er hugarfarið, vanþakklæti og vantraust eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann.

Mögulega væru Píratar ekki í vandræðum ef þeir sem töldu rétt að taka þátt í að kjósa formann hefðu verið virkir í starfi flokksins.

Eru þjóðir til?

Posted: nóvember 27, 2025 in Samfélag, Umræða
Efnisorð:,

Mér var fyrir löngu bent á þá ágætu reglu að spyrja ekki spurningar ef svarið skipti ekki máli.

Ég sé að það er að spretta upp einhver kynþáttahyggja og henni tengd “rasismi” sem snýr að mikilvægi þess að vera Íslendingur og vernda íslensku þjóðina fyrir “utanaðkomandi” áhrifum.

Það vefst hins vegar yfirleitt fyrir þessum talsmönnum að skilgreina hvað það er að vera Íslendingur, oftast sýnist mér skilgreiningin miða við það sem hentar hverjum og einum!

Grunnurinn virðist vera á að fólk þarf að geta rakið ættir sínar í báða leggi, sem lengst aftur í tímann, helst til þeirra sem námu hér land. Hversu langt aftur þarf að fara virðist takmarkast við stöðu hvers og eins..

Nú veit ég ekki hversu mikil blöndun hefur verið hér, Írar, erlendir sjómenn, þrælar sem voru sóttir, fólk sem settist hér að á síðustu öld, fólk sem fæddist erlendis – svo eitthvað sé nefnt.

En ef skilgreiningin er að vera beinir afkomendur norskra landnema, eru þeir þá ekki Norðmenn frekar en Íslendingar?

Og Íslendingar þá ekki til?

Og ef við færum þá skilgreiningu yfir aftur á Norðmenn þá eru þeir heldur ekki til. Né nokkur önnur þjóð ef út í það er farið.

Fótbolti, kominn tími á frí?

Posted: október 29, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Kannski er kominn tími til að taka hlé frá því að horfa á og fylgjast með fótbolta.

Auðvitað skiptir fótbolti ekki miklu svona fyrir gang heimsmála en mér hefur nú samt fundist gaman að horfa á góðan fótbolta – ekki síst síðustu árin þegar Blikar hafa (ekki bara konurnar) náð frábærum árangri og spilað skemmtilegan fótbolta.

Það hefur nú reyndar ekki verið gefandi að fylgjast með “mínum mönnum” á Englandi, þeas. Derby County, en nálgun Arsene Wenger hjá Arsenal heillaði mig og ég fór svona að halda með þeim í efstu deild. Enda mikið af stuðningsmönnum þeirra í fjölskyldunni.

En það eru nokkur atriði sem hafa verið að drepa áhugann.

Fyrir það fyrsta þá er ég algerlega búinn að fá nóg af “molbúahættinum” í dómgæslu hér á landi og að dómarar séu ekki fyrir löngu komnir með nauðsynlega lágmarksaðstoð. Þetta er svolítið eins og að horfa á bíl á sumardekkjum fastan í snjóskafli.

Ekki hjálpa síðustu atburðir hjá Blikum þar sem mér hefur fundist furðulega staðið að þjálfaramálum og ekki til marks um þá langtíma framtíðar sýn á hvernig á að þróa liðið áfram og vanda val þjálfara..

Annars staðar hefur hegðun Arsenal dregið verulega úr áhuga mínum á félaginu, auðvitað þegar allt stefnir í gott tímabil.

En ég er svo furðulegur þegar kemur að fótbolta, að það skiptir mig miklu meira máli að hafa umhverfið í lagi, að liðin spili góðan og skemmtilegan fótbolta. Árangur talinn í titlum er minna atriði. Gott og vel, ekki ætla ég að reyna að segja að titlar og árangur í Evrópu skipti engu máli, en það er meira virði sem afleiðing af því að spila vel – frekar en að tuddast í gegnum einhverja sigra með Melavallar spark-og-spretta bolta og fá hvað eftir annað vafasamar ákvarðanir dómara eftir að hafa hamast í dómurum með hallærislegum leiksýningum.

Fótbolti og þjálfarar

Posted: september 20, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Það hefur eitthvað borið á hugmyndum um að skipta um þjálfara hjá meistaraflokki karla í fótbolta hjá mínu félagi, Breiðablik.

Þetta er furðuleg umræða og lyktar af einhverju allt öðru en framtíðarsýn fyrir félagið.

Ef við þekkjum sögu fótboltans þá eru þau félög sem hafa náð ítrekuðum árangri til lengri tíma ekki þau félög sem eru stöðugt í örvæntingu að skipta um þjálfara.. jú, jú, það eru til undantekningar, en ekki margar.

Blekkingin liggur í því að það að skipta um þjálfara getur stundum kallað á að leikmenn þurfi að sanna sig fyrir nýjum þjálfara og það vinnast kannski 2-3 leikir áður en dottið er í sama farið og jafnvel verra far.

Enn líklegri blekking er aðhvarf að meðaltali, lið sem hefur verið að ná árangri sem er undir væntingum í nokkrum leikjum er líklegt til að safna stigum í næstu leikjum. Ég man ágætt dæmi þegar ég var í stjórn og formaður meistaraflokksráðs, það hafði gengið illa og háværar kröfur voru uppi um að reka þjálfarann, mikið áreiti. Við ákváðum að láta þjálfarann klára tímabilið, næstu tveir leikir, gegn, þáverandi stórveldum, unnust báðir.. ef við hefðum skipt um þjálfara hefði þjálfaraskiptunum eflaust verið þakkað.

Auðvitað getur komið upp sú staða að það sé kominn tími á þjálfaraskipti, en skýringar fyrir þeim liggja oftar en ekki í sérstökum aðstæðum, sem alls ekki eru sýnilegar utan félagsins og hafa lítið með skammstímasjónarmið að gera.

Í öllu falli, núverandi þjálfari hefur náð ótrúlega góðum árangri, Íslandsmeistaratitill á fyrsta keppnistímabili og þátttaka í Sambandsdeildinni á því næsta.

Ég kann ekki skýringar á slöku gengi í síðustu leikjum, mig grunar að þær séu margar og fráleitt að kenna þjálfaranum einum um.

Það er svo auðvitað aukaatriði, en enginn af þessum spekingum hefur svo mikið sem komið með óljósa hugmynd um hver ætti að taka við.

Kannski hugmynd fyrir stuðningsmenn félagsins að láta frekar heyra í sér á öðrum vettvangi.

Hvar eru allir…?

Posted: september 20, 2025 in Samfélag
Efnisorð:

Nú er ég ekki mikið fyrir samsæriskenningar, tek þeim yfirleitt með nokkuð miklum fyrirvara og er gjarnan leiðinlegi gaurinn sem vill staðfestar upplýsingar, staðreyndir og gef ekki mikið fyrir ábúðarfulla þuli að röfla samhengislaust með dramatískri tónlist og myndskreytingum á JútJúb, hvað þá grautarlegar samfélagsmiðla færslur.

En svo eru vangaveltur um að pakkið sem situr að völdum í appelsínu gula húsinu vestanhafs hafi fórnað einum af sínum til að fá tylliástæðu til að ráðast gegn pólitískum andstæðingum með ofbeldi og mannréttindabrotum.

Nú gildir sama um þessar kenningar og aðrar, ég þarf miklu meira af staðfestum upplýsingum áður en ég geri ráð fyrir að þetta sé rétt.

En ef ég ætti að raða samsæriskenningum síðustu áratuga eftir “líklegheitum” þá færi þessi nú ofarlega, jafnvel efst, á listann.

Það hefur auðvitað sýnt sig margsinnis að þetta lið er hamslaust í valdagræðgi og ófyrirleitið þegar kemur að meðulum til að ná markmiðum sínum.

Þau hafa áður ítrekað leitað í smiðju þeirra sem kveiktu í síðustu heimsstyrjöldum og alveg eins líklegt að fleiri fyrirmyndir séu sóttar þangað.

Jafnvel þegar staðfest er að gerandinn er “einn af þeim” heldur stefnan ótrauð áfram við að ráðast gegn mannréttindum, lífi og limum pólitískra andstæðinga.

Auðvitað má setja spurningu við hvers vegna þau véluðu ekki einn úr röðum andstæðinga sinna til að taka að sér verkið.

Svarið er samt kannski augljóst

  • það er mun auðveldara að finna “gikkglaðan” einstakling í umhverfi harðlínumanna hægra megin
  • það má líka vera að þetta sé enn eitt dæmið um getuleysi og vanhæfni
  • en líklegasta skýringin er að þeim sé einfaldlega skítsama, enda margsinnis komist upp með að ljúga hvaða þvælu sem er – stuðningsmennirnir kokgleypa hvaða dómsdagsrugl og rökleysu sem er án þess að hugsa hálfa hugsun.

Nú er fjarri mér að gera lítið úr áhyggjum margr af því að við stöndum okkur ekki nægilega vel í að sinna börnum, öldruðum og sjúklingum. Það má örugglega gera betur.

Reyndar virðast áhyggjurnar aðallega snúast um þá sem hafa búið hér lengi og eiga helst ættir sínar að rekja að lágmarki einhverjar aldir hér á landi.

Og einhverra hluta vegna virðast margir tengja þetta við að það fari svo miklir peningar í að aðstoða flóttafólk og innflytjendur að það sé bókstaflega ekkert eftir fyrir aðra.

Ég er hins vegar orðinn nægilega gamall til að muna að við hefðum mátt gera miklu betur í allri ummönnun, löngu fyrir tíma flóttafólks og innflytjenda – og ekki var ríkissjóður tómur þá frekar en nú.

Það sem verra er, mér sýnist útlendingahatur og fordómar vera dulbúið sem umhyggja fyrir “innlendingum”.

Gott og vel, ég skal taka þetta fólk trúanlegt þegar það eyðir jafn mikilli orku, púðri og peningum í sjálfboðaliðastarf, gjafir og safnanir fyrir fólkið sem það notar sem skjöld í umræðunni.

Myndskreytingar frétta

Posted: júlí 24, 2025 in Umræða
Efnisorð:,

Ég geri mér grein fyrir nauðsyn þess að fjalla vel um athafnir og orð ónefnds fávita sem situr að völdum hér ekki langt frá og hvers nafn ég tek mér hvorki í munn né set "á blað".

Mér finnst eðlilegt og um að gera að gera vel grein fyrir núverandi atburðarás þar sem allar líkur
eru á að ferill viðkomandi sé að kafna í eigin ælu. Smjörklípudjöfulgangurinn við að reyna að beina athyglinni í einhverjar aðrar áttir er hlægilegur og virkar ekki.

En kæru vinir og félagar og samstarfsfélagar á fréttamiðlum – væruð þið til í að sleppa því að skreyta fréttir með myndum og myndbrotum af kvikindinu? Ég bara get ekki lengur horft á smettið á þessum dæmda glæpamanni, sem ég fæ ekki betur séð en bíði dóms fyrir kynferðisbrot og jafnvel barnaníðs (ætla ekki að fullyrða, ég geri meiri kröfur um sannanir en stuðningsmenn hans).

Ég hef amk. ákveðið að taka mér viku frí frá hverjum þeim fréttamiðli sem sýnir mér andlitið á þessu úrþvætti.