Barði Valdimarsson lést síðasta sunnudag í Kaupmannahöfn.
Við áttum langa, en kannski eitthvað slitrótta, samleið gegnum lífið, vissum hvor af öðrum í barna- og gagnfræðaskóla – en kynntumst ekki almennilega fyrr en í menntaskóla MK.
Ósætti Barða við yfirvöld skólans urðu til að við stofnuðum Fræbbblana, ásamt fleiri vinum. Hann hætti svo nánast strax enda ekki mikinn áhuga á tónlistinni, amk. ekki á þessum tíma.
Við héldum lengi vel góðu sambandi, hann og Anna Sigga voru meðal okkar bestu vina þegar börnin voru ung – hef ekki tölu á kvöldunum sem við kíktum til þeirra (jafnvel með Alexöndru í burðarrúmi) að spila bridds.
Eftir að Barði flutti út í lok síðustu aldar slitnaði sambandið en við fórum að hittast aftur upp úr áramótum. Þá var Tina komin til sögunnar – og seinna Duna. Ég man að eitt af fyrstu skiptunum sem við hittumst á þessari öld sagði Iðunn eftir gott matarboð, “ég var búinn að gleyma hvað hann Barði er skemmtilegur”
Við reyndum að hittast reglulega, þó það væri ekki oft, en héldum ágætu sambandi í gegnum samfélagsmiðla og síma.
Síðustu árin var Barði orðinn mjög veikur, hvert áfallið af öðru kom en hann hristi þau jafn harðan af sér, þurfti auðvitað að standa undir viðurnefninu sem hann gaf sjálfum sér, “Barði harði”. Ég ætla ekki að rekja sjúkdómssöguna, það eru mörg ár síðan hann átti að eiga lítið eftir, en alltaf komst hann aftur á ról. Á endanum varð annað Covid tilfellið það sem hann réði ekki við. Þegar við heyrðumst síðast, núna í desember, virtist hann bjartsýnn á að ná þokkalegri heilsu og við vorum að tala um að finna tíma til að hittast.
Innilegar samúðarkveðjur frá okkur til fjölskyldunnar.