Archive for the ‘Minningar’ Category

Hjörtur Howser

Posted: apríl 26, 2023 in Minningar, Tónlist

Góður félagi, Hjörtur Howser er látinn.

Við kynntumst í Hljóðrita 1982 þegar við Fræbbblar vorum að taka upp aðra stóru plötu okkar, plötu sem fékk allt of mörg nöfn en kannski aðallega „Poppþéttar melódíur í rokkréttu samhengi“. Siggi Bjóla var upptökumaður en Hjörtur var að vinna þarna á sama tíma og hljóp stundum í skarðið. Þrátt fyrir ólíkan uppruna og bakgrunn í tónlist fékk hann strax áhuga á því sem við vorum að gera og það leið ekki á löngu þar til hann var farinn að koma með hugmyndir, spilaði á hljómborð í nokkrum lögum og fékk Bjössa Thor, félaga sinn, til að koma og spila á gítar í nokkrum lögum.

Ég veit að þetta var ekki sjálfgefið, þeir sögðu okkur seinna að þeir hefðu nú ekki beinlínis kunnað að meta hvernig við Fræbbblar komum inn í íslenskt tónlistarlíf – með talsverðum bægslagangi, takmarkaðri kunnáttu og ekkert merkilegri tónlist (að því er þeim fannst þá).

En það breyttist fljótt, Hjörtur var fljótur að átta sig á því hvað við vildum gera og kunni að meta, eigum við að segja, „óvenjulega og óhefðbundna nálgun“ okkar.

Eitt augnablik rifjast upp. Fljótlega settum við sérstakt stef í eitt lagið, „Ronnie and the Punks“, Steini spilaði þetta á hljómborð, Hjörtur var að taka upp og eitthvað varð hann skrýtinn á svipinn án þess að segja mikið. Ég forvitnaðist aðeins og það kom í ljós að honum fannst tóna- hljómasamsetningin sérstök, sagði eitthvað á þá leið að þetta mætti í jazzi en ekki í poppi eða rokki. Ég sagði að okkur væri alveg sama hvað mætti og hvað mætti ekki, okkur fyndist þetta mjög flott. Kannski var þetta augnablikið þegar við kveiktum á því að við ættum kannski meiri samleið í tónlist en við höfðum áttað okkur á í fyrstu.

Ekki spillti hvað Hjörtur var lifandi og skemmtilegur og það leið ekki á löngu þar til við vorum farnir að hittast utan stúdíótíma. Orkan, áhuginn, drifkrafturinn og hugmyndaauðgin voru alveg einstök. Og hann var tilbúinn að hrífast af og verða hugfanginn af ólíkum tónlistarstefnum og ólíkri nálgun – allt á sama tíma.

Þegar við kynntum plötuna var einhvern veginn sjálfgefið að hann spilaði með okkur á nokkrum hljómleikum. Hann fór svo í hljómleikaferð til Rússlands um haustið með einhvers konar popplandsliði Bo og félaga. Við Fræbbblar hættum svo tímabundið fljótlega.

Leiðir okkar lágu ekki oft saman eftir þetta, en þegar við hittumst var alltaf eins og við hefðum „hist í gær“.

Við unnum saman, með Halla Reynis heitnum, að því að setja upp afmælistónleika fyrir Hörð Torfa í tengslum við sextugsafmæli Harðar í Borgarleikhúsinu – og í framhaldinu útgáfu plötu af þeim tónleikum. Aftur var sami krafturinn, sami áhuginn og sömu kröfur um að gera þetta vel til staðar. Hjörtur flutti eitt lagið eftirminnilega einn og var spurður fyrir hljómleikana hvort einfalt píanó myndi ekki sleppa. Nei, hann vildi gera þetta almennilega, sagði að hljómurinn í alvöru hljóðfæri væri „dýrari“.

Fyrir nokkrum árum kom hópur sem hóf sinn feril í tónlist í kringum 1980 að hittast og spila lögin sem við hlustuðum á í upphafi. Hjörtur tók að sjálfsögðu þátt í þessu með okkur, enda nokkur Stranglers lög á dagskránni.

Og þegar ég hélt upp á 60 ára afmælið mitt þar sem við Fræbbblar spiluðum nokkur lög var Hjörtur mættur í Þúsund ár. Afmælisgjöfin sérstök og skemmtileg, innrömmuð nótnaútskrift af laginu „Þúsund ár“, sem er enn uppi á vegg í skrifstofunni hjá mér.

Einhvern veginn vel við hæfi, ég held að Hjörtur hafi gert meira á sínum tíma en margur hefði náð á þúsund árum.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Halldór Ingi

Posted: júní 11, 2021 in Minningar, Tónlist

Við fengum þær sorgarfréttir um síðustu helgi að gamall félagi, Halldór Ingi Andrésson væri látinn.

Það kunna margir sögu hans betur, en það rifjuðust upp nokkrar góðar minningar.

Hann hafði reyndar skapað sér nafn sem „alvöru“ tónlistargagnrýnandi áður en leiðir okkar lágu saman.

En ég áttaði mig á hversu alvarlega hann tók hlutverkið og hversu áhugasamur hann var þegar hann skrifaði plötudóm um fyrstu plötu okkar Fræbbbla. Það kom ekki bara skemmtilega á óvart hversu jákvæður hann var heldur var skemmtileg nýbreytni að hann tók þessari frumraun okkar af fullkomnu fordómaleysi, fann jákvæðar hliðar og kveikti á tengingum sem fæstir voru að eltast við að skilja. Hann hafði sem sagt hlustað, skilið og sett í samhengi.

Við kynntumst betur og þegar hann var útgáfustjóri Fálkans og sá um útgáfu á annarri stóru plötu okkar. Það var svo sem ekki gefið að taka þá áhættu að gefa út aðra plötu, því sú fyrsta hafði nú ekki selst mikið, þrátt fyrir að vekja nokkra athygli. En hann lagði sig ekki bara allan fram um að við fengjum allt sem til þurfti til að gera góða plötu, hann var alltaf til í að hlusta og gefa góð ráð – en aldrei að taka fram fyrir hendurnar á okkur.

Útkoman fékk nú ekki sömu athygli og er sennilega flestum gleymd, en það var staðið vel að öllu og hún seldist betur en nokkur önnur plata okkar.

Seinna, þegar hann fór að selja plötur, var alltaf ómetanlegt að kíkja við – þó það væri nú óneitanlega allt of sjaldan. En Halldór Ingi var hafsjór af fróðleik um tónlist og það var alltaf gaman að hitta á hann og spjalla.

Önnur seinni tími minning var þegar við hittumst á hljómleikum í Listasafninu, ætli við höfum ekki talað um tónlistarheima og geima megnið af hljómleikunum.

Samúðarkveðjur frá okkur Iðunni til fjölskyldu og vina.

Sylvía

Posted: desember 30, 2019 in Fjölskylda, Minningar
Efnisorð:

Útför tengdamömmu, Sylvíu Briem, fer fram í dag.

Ætli það segi ekki meira en margt um hversu jákvæð hún var að mér var tekið opnum örmum í fjölskyldunni þegar við Iðunn byrjuðum saman.. og Iðunn aðeins sextán ára. Og þegar við Iðunn tilkynntum að við ættum von á okkar fyrsta barni, þá var dregið fram freyðivín og skálað.

Ég veit að Sylvíu fylgdu ferskir vindar inn í fjölskylduna þegar hún fluttist heim, enda bjó hún við meiri fjölbreytni en almennt þekktist á þessum árum, til dæmis í New York, Stokkhólmi, Bonn og Genf. Opin og jákvæð, glaðlynd og fordómalaus eru svona fyrstu lýsingarorðin sem koma upp í hugann. Sylvía var einfaldlega alltaf til í góðar stundir og oftar en ekki tók hún þátt í „partýinu“ með börnunum og vinum þeirra.

Hún tók þátt í gleðigöngunni og fagnaði fjölbreytileika lífsins löngu áður en sá fjölbreytileiki varð eðlilegur hluti af fjölskyldunni. Hún mætti oftar en ekki á hljómleika okkar Fræbbbla, fékk okkur til að spila í sextugsafmælinu sínu og þrátt fyrir veikindin var hún mætt á afmælishljómleika síðasta vetur.

Við Iðunn áttum sama brúðkaupsdag og Magnús og Sylvía og við héldum veglega upp á daginn saman ef við mögulega gátum, þeas. ef við vorum ekki í sitt hvoru landinu.

Við áttum líka fleiri hefðir saman, til að mynda var fastur liður að vera saman á gamlárskvöld og við áttum mörg ógleymanleg kvöld með þeim.

Við fórum nokkrum sinnum saman í frí, til Þýskalands og Englands að heimsækja ættingja, í hefðbundið sólarlandafrí til Mallorca, í siglingu um Miðjarðarhafið og við Iðunn fórum margar ferðir til Spánar og vorum með þeim í íbúðinni í Benalmadena á Spáni.

Kannski eru samt bestu minningarnar þessar einföldu, sitja með þeim úti á svölum með ost á bakka og rauðvín í glasi í hádeginu.

Spánn, Sylvía 2008 028-1

[PS. ég held að ég geti ekki hugsað mér lengur að senda minningargreinar í hefðbundna minningargreina-fjölmiðla, ég get einfaldlega ekki tengt mig við sorpið sem birtist þar]

Steinar

Posted: desember 3, 2019 in Minningar
Efnisorð:

Við mættum í jarðarför Steinars Sigurðssonar félaga okkar, sem lést nýlega.

Hljómsveitir okkar Steinars deildu æfingahúsnæði fyrir nokkuð löngu og við Helga, konan hans, vorum saman í skóla allt frá barnaskóla til stúdentsprófs.

En það var ekki fyrr en Iðunn byrjaði að vinna með Helgu sem við kynntumst þeim að einhverju ráði.

Þó við værum ólíkir kom fljótt í ljós að við áttum margt sameiginlegt. Að sjálfsögðu tónlistin, en matur – bæði eldamennska og heimsóknir á veitingahús – góð vín og svo ferðir til skemmtilegra staða.

En Steinar tók þetta allt af miklu meiri „festu“, fimmtudagsafmælisgjöfin til hans var að fá að vinna eitt kvöld í eldhúsinu hjá Friðriki V.

Við fórum, í stærri hóp, til Madrid og þar fann Steinar veitingastað í kjallara ekki langt frá miðborginni, staður sem hvergi var sýnilegur sem veitingahús. Í þetta skiptið vorum við ekkert sérstaklega heppin – ég held að Steinar hafi afskrifað staðinn þegar honum fannst þjónninn ekki bera sig nægilega fagmannlega að við að brýna hníf við borðið.

Við fréttum hvort af öðru í Amsterdam og þá var ekki annað í boði en að kíkja á veitinga sem þau þekktu.

Hans verður sárt saknað og skyndilegt fráfall hastarleg áminning að láta ekki of langt líða á milli þess að hitta góða og skemmtilega vini.

Halli Reynis

Posted: september 27, 2019 in Minningar
Efnisorð:

Við Halli Reynis kynntumst í gegnum tónlistina fyrir um tveimur áratugum og vináttan snerist í fyrstu að mestu um tónlistina. Muni ég rétt spiluðum við fyrst saman í afmæli Ellerts, þáverandi bassaleikara Fræbbblanna.

Halli hafði forgöngu um að við Fræbbblarnir spiluðum í Kaupmannahöfn í Huset. Við Fræbbblar gáfum svo út lagið hans „Fölar rósir,“ sem hann söng með okkur. Honum fannst við spila lagið frekar hratt á fyrsta rennsli á sameiginlegri æfingu og ætlaði að stinga upp á að við prófuðum aðeins rólegri gír. En áður en hann komst að var ég búinn að segja við hann „flott lag, virkar vel… en við þurfum reyndar að spila það talsvert hraðar!“. Sem við gerðum.

https://open.spotify.com/track/5ttxVUcUbbTAHbd6Bu357R?si=zSMdZL4WTuq3XSHEAaVcQw

Við unnum saman að afmælistónleikum Harðar Torfa, ásamt Hirti Howser og það var gaman að kynnast Halla í þeim gír, þeas. að koma hlutunum í verk, áhugasamur og drífandi.

En ágæt kynni í gegnum tónlistina þróuðust fljótt í annað og meira. Við hjónin fórum að hittast reglulega yfir góðum mat, fórum nokkrum sinnum saman í frí og fjölskyldurnar kynntust í framhaldinu, Halli hjálpaði syni okkar, Guðjóni, við upptökur, sat og glamraði á gítar með Viktori og hvatti áfram – og Sölvi kom með okkur og foreldrum sínum til Spánar í eftirminnilegt sumarfrí – svo eitthvað sé nefnt.

Á ensku er víst talað um að klæðast hjartanu utan á erminni, að koma til dyranna eins og maður er klæddur nær því ekki alveg, en Halli var fullur orku, gefandi, áhugasamur um allt sem hann tók sér fyrir hendur, einlægur og heiðarlegur – húmorinn alltaf til staðar og hann var óhræddur við að segja það sem honum fannst. Allt sem hann tók sér fyrir hendur, hvort sem það tengdist tónlistinni, námi, vinnu eða áhugamálum var tekið með trompi, óbilandur kraftur og áhugi – og það vantaði ekki áhugamálin.

Halli hafði í rauninni allt, góða fjölskyldu, einstaka eiginkonu og hæfileikaríka syni sem hann var stoltur af. Hann var frábær laga- og textahöfundur, kennari sem kveikti tónlistaráhuga hjá nemendum með óvenjulegri og lifandi nálgun – og hann var einstaklega skemmtilegur sögumaður – bæði með og án tónlistar.

Erfiður sjúkdómur kom í veg fyrir að hann yrði lengur með okkur, hans verður sárt saknað, en við eigum allar minningarnar um allar góðu stundirnar og öll frábæru lögin.

 

Benalmadena - 267 b

PS. sambærilega grein birtist væntanlega í Morgunblaðinu…