Við Halli Reynis kynntumst í gegnum tónlistina fyrir um tveimur áratugum og vináttan snerist í fyrstu að mestu um tónlistina. Muni ég rétt spiluðum við fyrst saman í afmæli Ellerts, þáverandi bassaleikara Fræbbblanna.
Halli hafði forgöngu um að við Fræbbblarnir spiluðum í Kaupmannahöfn í Huset. Við Fræbbblar gáfum svo út lagið hans „Fölar rósir,“ sem hann söng með okkur. Honum fannst við spila lagið frekar hratt á fyrsta rennsli á sameiginlegri æfingu og ætlaði að stinga upp á að við prófuðum aðeins rólegri gír. En áður en hann komst að var ég búinn að segja við hann „flott lag, virkar vel… en við þurfum reyndar að spila það talsvert hraðar!“. Sem við gerðum.
https://open.spotify.com/track/5ttxVUcUbbTAHbd6Bu357R?si=zSMdZL4WTuq3XSHEAaVcQw
Við unnum saman að afmælistónleikum Harðar Torfa, ásamt Hirti Howser og það var gaman að kynnast Halla í þeim gír, þeas. að koma hlutunum í verk, áhugasamur og drífandi.
En ágæt kynni í gegnum tónlistina þróuðust fljótt í annað og meira. Við hjónin fórum að hittast reglulega yfir góðum mat, fórum nokkrum sinnum saman í frí og fjölskyldurnar kynntust í framhaldinu, Halli hjálpaði syni okkar, Guðjóni, við upptökur, sat og glamraði á gítar með Viktori og hvatti áfram – og Sölvi kom með okkur og foreldrum sínum til Spánar í eftirminnilegt sumarfrí – svo eitthvað sé nefnt.
Á ensku er víst talað um að klæðast hjartanu utan á erminni, að koma til dyranna eins og maður er klæddur nær því ekki alveg, en Halli var fullur orku, gefandi, áhugasamur um allt sem hann tók sér fyrir hendur, einlægur og heiðarlegur – húmorinn alltaf til staðar og hann var óhræddur við að segja það sem honum fannst. Allt sem hann tók sér fyrir hendur, hvort sem það tengdist tónlistinni, námi, vinnu eða áhugamálum var tekið með trompi, óbilandur kraftur og áhugi – og það vantaði ekki áhugamálin.
Halli hafði í rauninni allt, góða fjölskyldu, einstaka eiginkonu og hæfileikaríka syni sem hann var stoltur af. Hann var frábær laga- og textahöfundur, kennari sem kveikti tónlistaráhuga hjá nemendum með óvenjulegri og lifandi nálgun – og hann var einstaklega skemmtilegur sögumaður – bæði með og án tónlistar.
Erfiður sjúkdómur kom í veg fyrir að hann yrði lengur með okkur, hans verður sárt saknað, en við eigum allar minningarnar um allar góðu stundirnar og öll frábæru lögin.
PS. sambærilega grein birtist væntanlega í Morgunblaðinu…