Að hunsa þvætting – en svara kannski samt

Posted: september 29, 2019 in Stjórnmál, Umræða

Mér sýnast strax komin merki um að einhver íslensku stjórnmálaflokkanna ætli sér að læra af árangri nýlega kjörins forseta og nýskipaðs forsætisráðherra sem beittu óhefðbundnum aðferðum við að ná kjöri.

Flestir fjölmiðlar birta reglulega fréttir um að einhver tilvonandi frambjóðandinn hafi lýst yfir umdeilanlegri skoðun. Oftar en ekki er þetta einhver dómsdags þvættingur, stangast á við staðreyndir, spilar á tilfinningar, jafnvel ótta, gerir lítið úr ákveðnum hópum – þjóðrembingur og kynþáttafordómar eru heldur ekki fjarri.

Ef þessu er ekki svarað gera margir ráð fyrir að það sé nú eitthvað til í því sem viðkomandi er að halda fram.

Ef svarað er með því að setja athugasemdir við fréttirnar á vefmiðlum og/eða þeim dreift með athugasemdum og tenglum – þá er vakin athygli á viðkomandi og tilgangnum að einhverju leyti náð.

Ég kann engar töfralausnir, en (og vonandi tekst mér að halda mig við)

  • ég ætla ekki að smella á fréttir á vefsíðum með dómsdags þvættingi
  • ég set ekki inn athugasemdir við hvers kyns rugl á vefmiðlun
  • ég afþakka prentmiðla sem dreifa þvælu og rangfærslum
  • ég slekk á útvarpi eða sjónvarpi þegar fréttamenn hleypa fólki sem bullar gagnrýnislaust í viðtöl
  • ég loka á Facebook vini sem dreifa rangfærslum, skætingi og glórulausum fullyrðingum [af-vina sjaldnast, læt nægja að hætta að fá færslur]
  • ég hendi tölvupóstum sem ég fæ með greinum með botnlausu og samhengislausu rugli

Ég svara hins vegar öðru hverju mestu þvælunni, en á mínum forsendum – í bloggfærslu á minni eigin síðu, á Facebook, með Twitter tísti – en án tilvísunar í viðkomandi bullara eða frétta um bullið.

Mín hegðun breytir kannski ekki miklu. En ef fleiri taka þetta upp þá kannski hætta vefmiðlar að birta sorp, ljósvakamiðlar hætta að veita viðtöl og prentmiðlar hætta að dreifa þvættingnum.

Þessir miðlar lifa jú á því að við lesum og hlustum og horfum.

PS. og svo það sé á hreinu… ég hef ekkert á móti undarlegum skoðunum og / eða öðrum sjónarmiðum – ég er að tala um markvissan áróður sem byggir á rangfærslum, rökleysum, tilfinningaklámi, kynþáttafordómum, fáfræði, þjóðrembu og stangast á við þekktar staðreyndir.

Lokað er á athugasemdir.