Stjórnarskráin í hjólbörum

Posted: október 23, 2019 in Umræða
Efnisorð:

Þegar ég var miklu yngri voru gjarnan sagðir brandarar um vinnu vistmanna á heimili ekki svo langt þar sem við áttum heima í Kópavoginum, flestir snerust brandarnir um sand, holur og hjólbörur.. án þess að ég ætli að fara nánar út í þá hér.

En mér varð hugsað til þeirra um helgina þegar ég datt inn í umræður um stjórnarskrána.

Því burtséð frá því hversu illa er staðið að umræðum um breytingar á stjórnarskrá, lítil sem engin kynning, stuttur fyrirvari, stuttur tími til umræðu og mikilvæg atriði skilin útundan… þá er ég ekki að skilja hver tilgangurinn er með þessu.

Hver eru rökin fyrir því að hunsa samþykkta stjórnarskrá og fara aftur af stað með sambærilegt en mun takmarkaðra og lítt hugsað ferli?

Ég hef enn engin rök séð fyrir því að niðurstaða atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána sé hunsuð.

Hvað ef þessi vinna skilar sambærilegum niðurstöðum og ný samþykkt stjórnarskrá? Vegna takmarkana á þessari vinnu verður hún nú seint nákvæmlega eins – en hún gæti verið samhljóma í mörgum atriðum. Má þá ekki gefa sér að niðurstöður þessarar vinnu verði hunsaðar, nákvæmlega eins og niðurstöður sem fengust úr fyrri vinnu?

Og ef þessi vinna skilar annars konar niðurstöðu? Með hvaða rökum ætti sú niðurstaða að vera rétthærri en vinnan við samþykkta stjórnarskrá?

Þetta minnir orðið óþægilega á brandarana sem ég var að vísa til hér í upphafi.

Lokað er á athugasemdir.