Sarpur fyrir apríl, 2014

Það er kannski ekki rétt að alhæfa um þekkingarleit forfeðra okkar. Og ekki ætla ég að gera lítið úr því að í flestum heimshornum hafi þekkingar verið leitað eftir bestu samvisku.. að minnsta kosti virðist að öðru hverju hafi þetta verið reynt.

En nú einverjum árþúsundum seinna vitum við eitt og annað sem forfeðurnir vissu ekki. Aðferðir vísindanna hafa í raun skilað ótrúlegum framförum. Í dag þekkjum við til að mynda rafmagn, pensilín, vitum að jörðin er ekki flöt og ekki fer á milli mála að þyngdaraflið er raunverulegt.

Þannig höfum við í ljósi betri þekkingar skipt út hugmyndum forfeðranna, ekki af vanvirðingu við þeirra tilraunir til að afla þekkingar, heldur af því að við vitum einfaldlega betur og höfum meiri upplýsingar en þeir gátu mögulega sótt.

En svo er stór hópur sem þrátt fyrir allt heldur í hugmyndir forfeðranna þegar kemur að því hvernig heimurinn varð til, hefur enn fyrir satt að meyfæðingar séu mögulegar og telur satt og rétt að einn eða fleiri einstaklingar hafi risið upp frá dauðum eftir nokkra daga í gröfinni. Allt þetta á að hafa verið í einhverju undarlegu „plotti“ yfirnáttúrulegrar veru sem engar upplýsingar finnast um að sé yfirleitt til. Og allt þetta byggir á „fabúleringum“ forfeðra með nánast enga þekkingu á heiminum og sögusögnum sem gengu á milli manna í fleiri mannsaldra án þess að nokkuð væri fært til bókar.

Er ekki kominn tími til að pakka þessum hugmyndum niður og setja þar sem þær eiga heima?

Ég hef aðeins tekið þátt í umræðunni um hvort það hafi verið réttlætanlegt af Akureyrarbæ að segja Snorra kannski-í-Betel upp – aðallega í framhaldi af spurningum Evu Hauksdóttur.

Ég er enn á því að það eigi að skoða hvert tilfelli fyrir sig og að ekki sé hægt að bjóða börnum upp á að þurfa að sitja tíma í kennslu hjá einstakingi sem boðar áróður gegn fólk eftir kynhneigð.

En…

Kannski er önnur nálgun betri en að segja svona fólki upp.

Væri ekki betra ráð þegar svona mál koma upp að taka frá eina viku gegn fordómum, hatursáróðri og kjaftæði? Í þessu tilfelli mætti taka heilan dag í að skýra fyrir nemendum að kynhneigð sé ekki tilefni fordóma.

Með þessu stæði viðkomandi kennari uppi sem tvöfaldur í roðinu, illa upplýstur kjáni sem enginn þarf að taka alvarlega.

Í stað þess að vera píslarvottur og fá sem slíkur athygli og samúð.

Ég skal játa að ég get haft nokkuð margar skoðanir (!) á því hvernig á að bregðast við „vondum“ skoðunum.

Mál Snorra einu-sinni-Betel hefur vakið upp nokkrar erfiðar spurningar.

Það má segja að það gangi ekki upp að opinberar stofnanir brjóti lög. En mögulega eru ófullkomin lög samt vandamálið í þessu tilfelli.

Og það má segja að ekki sé verjandi að segja upp manni sem ekki hefur gerst brotlegur í starfi. Kannski eru kröfur til starfsins ekki nægilega skýrar.

Ég hef ekki mikla trú á því að banna skoðanir, hversu vondar eða vitlausar sem þær eru – oftast er betra að svara málefnalega og með upplýstri umræðu.

Og svo því sé haldið til haga þá gef ég ekkert fyrir að hatursáróður sé eitthvað skárri eða réttlætanlegri þó hann styðjist við trúarrit.

En hatursáróður gegn fólki vegna kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, háralitar – og í rauninni hvers kyns eiginleika – er oft ekkert skárri en ofbeldi. Og nóg er af dæmum þar sem svona kjaftæði leiðir einmitt til ofbeldis.

Það má vel vera að það sé erfitt að draga skýrar línur. En það þýðir ekki að það megi ekki reyna. Og það þýðir heldur ekki að við eigum að sætta okkur við hvað sem er.

Í þessu tilfelli er mitt svar einfaldlega „nei“, þeir sem stunda ofbeldi og/eða hatursáróður eiga ekki að vinna við uppeldisstörf. Það skiptir engu máli hversu vel þeir sinna starfinu.

Eva Hauksdóttir spurði nýlega í pistli Já, en hvað með börnin hvar mörkin ættu að vera og taldi sig ekki fá skýr eða heiðarleg svör í næsta pistli, Og auðvitað getur enginn svarað heiðarlega.

Eva er skemmtilegur pistlahöfundur, oft er ég henni sammála og oft ósammála, eins og gengur. Þessir tveir pistlar eru ágætir til umhugsunar, en falla í rauninni á „slippery slope“ rökvillunni. Það er allt í lagi að taka afstöðu til hvers máls fyrir sig.

Eva nefnir nokkur dæmi í upphaflegum pistli. Ég skal svara eins heiðarlega og ég get. Ég birti svörin í þeirri röð sem Eva setur spurningarnar fram.

– ekki hægt að svara, hér vantar einfaldlega betra dæmi, einstaklingur sem gerir lítið úr fötluðum eða langveikum börnum á ekki að sinna uppeldisstörfum en mögulega er viðkomandi að tala fyrir því að tilvonandi mæður eigi að hafa valkost, það þýðir ekki sjálfkrafa að verið sé að gera lítið úr fötluðum eða langveikum

– já, einstaklingur sem talar eitthvað óljóst um hvað ungar mæður gætu mögulega gert er ekki að gera lítið úr öllum ungum mæðrum

– já, einstaklingur sem telur slæðunotkun merki um kúgun er einfaldlega að benda á að tiltekið atriði hefur verið notað sem kúgunartæki og er ekki að fordæma múslima í heild, einungis tiltekna hegðun einstakra múslima

– ekki hægt að svara, fer eftir því hvernig viðkomandi einstaklingur hefur sett sína skoðun fram, hér þarf einfaldlega betra dæmi

– nei, ekki einstaklingur sem styður kúgun eftir kynþætti eða trúarbrögðum

– já, viðkomandi er einungis að lýsa skoðun á ákveðinni aðgerð, ekki að beina áróðri gegn öllum gyðingum, sem margir hverjir eru mótfallnir þessari stefnu

– já, það segir sig sjálft að Framsóknarflokkurinn er stórhættulegur

Ég hélt að hlutverk stjórnmálaflokka væri, svona að einhverju leyti, að halda uppi umræðu og hafa skoðanir – jafnvel koma svo hlutum í verk.

Nú sé ég að fyrrum ráðamaður hjá stórum stjórnmálaflokki kvartar yfir því að skoðanir trufli andrúmsloftið innan flokksins og að það sé þess vegna ekki nægilega gott.

Þetta skýrir kannski hvers vegna ég hef aldrei átt heima í stjórnmálaflokki.

Svona getur maður verið vitlaus.

Þessi spurning hefur nú dúkkað upp annars staðar, en oftar en ekki sem hluti af stærra samhengi. Og hvort sem er, svörin virðast ekki á lausu.

Þannig að mig langar til að spyrja þá sem tala fyrir svokölluðu skuldaleiðréttingarfrumvarpi stjórnarinnar.

Hvaða forsendur hafa brostið hjá þeim sem fá leiðréttingu á skuldum samkvæmt frumvarpinu? Þá á ég auðvitað við forsendur sem eingöngu hafa brostið hjá þeim sem frumvarpið nær til. Og ég á líka auðvitað eingöngu við þá sem ekki hafa fengið aðrar leiðréttingar, svo sem hækkað verð á húsnæði.

Svarið mætti gjarnan vera rökstutt og því mættu fylgja tilvísanir í gögn, bæði til stuðnings því að forsendubrestur hafi orðið hjá þessum hópi og sérstaklega til stuðnings því að aðrir hafi ekki orðið fyrir sama bresti.

Þá væri vel þegið að svarið væri laust við að uppnefna mig og/eða gera mér upp annarlegar hvatir. Mér þykir þetta nefnilega nokkuð forvitnilegt.

Það var stundum atriði í spurningaleikjum, aðallega í „gamla daga“, að fá leynigest. Þá var einhver fenginn til að fela sig á bak við tjald og svara spurningum. Keppendur spreyttu sig á að þekkja gestinn með því að spyrja spurninga og það eitt skipti máli *hvað* gesturinn sagði.

Er þetta ekki kjörið fyrirkomulag á Alþingi?

Með þessu fyrirkomulagi leggja þingmenn fram fyrirspurnir án þess að nokkur viti hver er að tala. Þá er ekki hægt að svara með hefðbundnu skítkasti eins og „þessi þingmaður er nú alltaf svona og svona…“. Það er einfaldlega ekki hægt að vera með persónulegar pillur ef viðkomandi veit ekki hver er að tala. Það er ekki einu sinni hægt að hrauna yfir „stjórnarandstöðu“ eða „stjórn“… því sá sem spyr gæti allt eins verið „samherji“.

Sama gildir um frumvörp, er ekki einfaldast að þingmenn leggi þau fram nafnlaust?

Umræður fara auðvitað líka fram nafnlaust, sem og atkvæðagreiðslur.

Fáránlegt??

Já, kannski. En þetta myndi að minnsta kosti útrýma þessum sandkassa- smábarnaskap sem einkennir Alþingi.

Þannig að, nei, ekki svo fáránlegt.

Rangfærslur eða skoðanir

Posted: apríl 4, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Það er, því miður, allt of oft sem skoðunum er ruglað saman við rangfærslur.

Hvort tveggja getur verið gagnrýnivert, en á sitt hvorum forsendunum.

Tökum dæmi.

„Ég greidd fyrir matinn með níu þúsund króna seðli“.

Hér er klárlega rangfærsla á ferð, sem er augljóst vegna þess að það er enginn níu þúsund króna seðill til. Það er ekkert að því að benda á að þetta er rangt, það er verið að leiðrétta fullyrðingu sem stenst ekki. Viðkomandi getur ekki mögulega staðið á því að upphafleg fullyrðing sé rétt (amk. ekki þar til gefinn hefur verið út níu þúsund króna seðill).

„Það er hollt að reykja“.

Þetta er klárlega skoðun sem ekki samrýmist niðurstöðum rannsókna og gengur þvert á þekktar upplýsingar. Það er því auðvelt að benda viðkomandi á rannsóknir sem staðfesta að það er ekkert sérstaklega hollt. Viðkomandi getur eftir sem áður haldið sig við að hann haldi að þetta sé nú samt hollt, hann kannski skilgreinir „hollustu“ fyrir sjálfan sig.

En þegar við gagnrýnum þessar fullyrðingar, þá erum við að gagnrýna fullyrðingarnar. Ekki ráðast á þann sem heldur þeim fram.

Ef við gerum mikið að því að gagnrýna fullyrðingar frá ákveðnum aðila, þá er það ekki merki þess að við séum að leggja viðkomandi í „einelti“, ekki merki þess að einhver herferð sé í gangi – hvað þá að við höfum eitthvað á móti viðkomandi sem persónu.

Við erum einfaldlega að benda á að hann fari ýmist með rangt mál – eða að sé að kynna skoðanir sem standast ekki skoðun (!). Á meðan sú gagnrýni er málefnaleg þá á hún fullan rétt á sér. Jafnvel þó hún komi nokkuð oft fyrir.

Það að ummæli ákveðinna aðila verði oft fyrir gagnrýni er þannig ekki merki um herferð eða einelti, heldur getur það allt eins (og líklega) verið merki um að viðkomandi sé gefinn fyrir að gaspra mikið og fari oft með fleipur.

Og það er frekar aumt að sjá fólk kvarta og bera sig aumlega yfir málefnalegri gagnrýni. Vænisýki virkar einfaldlega ekki. Það er miklu nær að reyna að svara málefnalega. Eða viðurkenna að fullyrðingin sem verið er að gagnrýni sé nú einfaldlega röng.

Svo má líka hugsa aðeins áður en farið er að tala.

Við vorum að fá það endanlega staðfesta að bassaleikari (upphaflegur, núverandi og sá sem spilaði á Never Mind The Bollocks) kemur á Punk 2014 hátíðina í vor. Glen samdi í raun megnið af lögunum á einu (alvöru) plötu Sex Pistols.

Þetta verður hluti af menningardögum Kópavogs á Spot fimmtudagskvöldið 8. maí og auk Glen spila Fræbbblarnir og Q4U.

Ég er amk. farinn að hlakka til.