Ég skal játa að ég get haft nokkuð margar skoðanir (!) á því hvernig á að bregðast við „vondum“ skoðunum.
Mál Snorra einu-sinni-Betel hefur vakið upp nokkrar erfiðar spurningar.
Það má segja að það gangi ekki upp að opinberar stofnanir brjóti lög. En mögulega eru ófullkomin lög samt vandamálið í þessu tilfelli.
Og það má segja að ekki sé verjandi að segja upp manni sem ekki hefur gerst brotlegur í starfi. Kannski eru kröfur til starfsins ekki nægilega skýrar.
Ég hef ekki mikla trú á því að banna skoðanir, hversu vondar eða vitlausar sem þær eru – oftast er betra að svara málefnalega og með upplýstri umræðu.
Og svo því sé haldið til haga þá gef ég ekkert fyrir að hatursáróður sé eitthvað skárri eða réttlætanlegri þó hann styðjist við trúarrit.
En hatursáróður gegn fólki vegna kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, háralitar – og í rauninni hvers kyns eiginleika – er oft ekkert skárri en ofbeldi. Og nóg er af dæmum þar sem svona kjaftæði leiðir einmitt til ofbeldis.
Það má vel vera að það sé erfitt að draga skýrar línur. En það þýðir ekki að það megi ekki reyna. Og það þýðir heldur ekki að við eigum að sætta okkur við hvað sem er.
Í þessu tilfelli er mitt svar einfaldlega „nei“, þeir sem stunda ofbeldi og/eða hatursáróður eiga ekki að vinna við uppeldisstörf. Það skiptir engu máli hversu vel þeir sinna starfinu.
Eva Hauksdóttir spurði nýlega í pistli Já, en hvað með börnin hvar mörkin ættu að vera og taldi sig ekki fá skýr eða heiðarleg svör í næsta pistli, Og auðvitað getur enginn svarað heiðarlega.
Eva er skemmtilegur pistlahöfundur, oft er ég henni sammála og oft ósammála, eins og gengur. Þessir tveir pistlar eru ágætir til umhugsunar, en falla í rauninni á „slippery slope“ rökvillunni. Það er allt í lagi að taka afstöðu til hvers máls fyrir sig.
Eva nefnir nokkur dæmi í upphaflegum pistli. Ég skal svara eins heiðarlega og ég get. Ég birti svörin í þeirri röð sem Eva setur spurningarnar fram.
– ekki hægt að svara, hér vantar einfaldlega betra dæmi, einstaklingur sem gerir lítið úr fötluðum eða langveikum börnum á ekki að sinna uppeldisstörfum en mögulega er viðkomandi að tala fyrir því að tilvonandi mæður eigi að hafa valkost, það þýðir ekki sjálfkrafa að verið sé að gera lítið úr fötluðum eða langveikum
– já, einstaklingur sem talar eitthvað óljóst um hvað ungar mæður gætu mögulega gert er ekki að gera lítið úr öllum ungum mæðrum
– já, einstaklingur sem telur slæðunotkun merki um kúgun er einfaldlega að benda á að tiltekið atriði hefur verið notað sem kúgunartæki og er ekki að fordæma múslima í heild, einungis tiltekna hegðun einstakra múslima
– ekki hægt að svara, fer eftir því hvernig viðkomandi einstaklingur hefur sett sína skoðun fram, hér þarf einfaldlega betra dæmi
– nei, ekki einstaklingur sem styður kúgun eftir kynþætti eða trúarbrögðum
– já, viðkomandi er einungis að lýsa skoðun á ákveðinni aðgerð, ekki að beina áróðri gegn öllum gyðingum, sem margir hverjir eru mótfallnir þessari stefnu
– já, það segir sig sjálft að Framsóknarflokkurinn er stórhættulegur
Líkar við:
Líka við Hleð...