Rangfærslur eða skoðanir

Posted: apríl 4, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Það er, því miður, allt of oft sem skoðunum er ruglað saman við rangfærslur.

Hvort tveggja getur verið gagnrýnivert, en á sitt hvorum forsendunum.

Tökum dæmi.

„Ég greidd fyrir matinn með níu þúsund króna seðli“.

Hér er klárlega rangfærsla á ferð, sem er augljóst vegna þess að það er enginn níu þúsund króna seðill til. Það er ekkert að því að benda á að þetta er rangt, það er verið að leiðrétta fullyrðingu sem stenst ekki. Viðkomandi getur ekki mögulega staðið á því að upphafleg fullyrðing sé rétt (amk. ekki þar til gefinn hefur verið út níu þúsund króna seðill).

„Það er hollt að reykja“.

Þetta er klárlega skoðun sem ekki samrýmist niðurstöðum rannsókna og gengur þvert á þekktar upplýsingar. Það er því auðvelt að benda viðkomandi á rannsóknir sem staðfesta að það er ekkert sérstaklega hollt. Viðkomandi getur eftir sem áður haldið sig við að hann haldi að þetta sé nú samt hollt, hann kannski skilgreinir „hollustu“ fyrir sjálfan sig.

En þegar við gagnrýnum þessar fullyrðingar, þá erum við að gagnrýna fullyrðingarnar. Ekki ráðast á þann sem heldur þeim fram.

Ef við gerum mikið að því að gagnrýna fullyrðingar frá ákveðnum aðila, þá er það ekki merki þess að við séum að leggja viðkomandi í „einelti“, ekki merki þess að einhver herferð sé í gangi – hvað þá að við höfum eitthvað á móti viðkomandi sem persónu.

Við erum einfaldlega að benda á að hann fari ýmist með rangt mál – eða að sé að kynna skoðanir sem standast ekki skoðun (!). Á meðan sú gagnrýni er málefnaleg þá á hún fullan rétt á sér. Jafnvel þó hún komi nokkuð oft fyrir.

Það að ummæli ákveðinna aðila verði oft fyrir gagnrýni er þannig ekki merki um herferð eða einelti, heldur getur það allt eins (og líklega) verið merki um að viðkomandi sé gefinn fyrir að gaspra mikið og fari oft með fleipur.

Og það er frekar aumt að sjá fólk kvarta og bera sig aumlega yfir málefnalegri gagnrýni. Vænisýki virkar einfaldlega ekki. Það er miklu nær að reyna að svara málefnalega. Eða viðurkenna að fullyrðingin sem verið er að gagnrýni sé nú einfaldlega röng.

Svo má líka hugsa aðeins áður en farið er að tala.

Lokað er á athugasemdir.