Það var stundum atriði í spurningaleikjum, aðallega í „gamla daga“, að fá leynigest. Þá var einhver fenginn til að fela sig á bak við tjald og svara spurningum. Keppendur spreyttu sig á að þekkja gestinn með því að spyrja spurninga og það eitt skipti máli *hvað* gesturinn sagði.
Er þetta ekki kjörið fyrirkomulag á Alþingi?
Með þessu fyrirkomulagi leggja þingmenn fram fyrirspurnir án þess að nokkur viti hver er að tala. Þá er ekki hægt að svara með hefðbundnu skítkasti eins og „þessi þingmaður er nú alltaf svona og svona…“. Það er einfaldlega ekki hægt að vera með persónulegar pillur ef viðkomandi veit ekki hver er að tala. Það er ekki einu sinni hægt að hrauna yfir „stjórnarandstöðu“ eða „stjórn“… því sá sem spyr gæti allt eins verið „samherji“.
Sama gildir um frumvörp, er ekki einfaldast að þingmenn leggi þau fram nafnlaust?
Umræður fara auðvitað líka fram nafnlaust, sem og atkvæðagreiðslur.
Fáránlegt??
Já, kannski. En þetta myndi að minnsta kosti útrýma þessum sandkassa- smábarnaskap sem einkennir Alþingi.
Þannig að, nei, ekki svo fáránlegt.