Sarpur fyrir júní, 2018

Lýðskrumið um fundarsetulaun

Posted: júní 19, 2018 in Umræða

Ég læt gjarnan fara í taugarnar á mér þegar „pólitíkusar“ eru að ná sér í athygli út á ódýrara fullyrðingar, innihaldslausar ályktanir og/eða rjúka upp af hreinni og klárri vanþekkingu – einfaldir frasar eru settir fram, hljóma kannski vel í fyrstu, en standast ekki skoðun.

Nýjasta dæmið er umræðan um laun borgar- bæjarfulltrúa fyrir fundasetu. Þetta virðist fá mikinn hljómgrunn, amk. hjá mínum vinum á samfélagsmiðlum, en ég sé ekki betur en að þetta byggist á vanþekkingu og að hafa kannski ekki hugsað dæmið til enda.

Það má alveg deila um upphæðir, bæði grunnlaun og laun vegna fundasetu… það er góð og gild umræða – en það er önnur umræða.

Það er ekkert að þeirri aðferð að greiða sérstaklega fyrir fundasetu.

Það að sitja fund kallar ekki eingöngu á tímann sem fer í fundinn sjálfan. Það þarf að undirbúa fundi og það þarf líklega að fylgja fundi eftir. Þeir sem sitja fundi hjá nefndum þurfa að taka tíma í að fylgjast með viðkomandi málefni milli funda, jafnvel þó ekki sé um beinan undirbúning að ræða.

Bæjarfulltrúar geta verið í mismörgum nefndum jafnframt því að sitja í bæjarstjórn. Þess vegna getur einn bæjarfulltrúi hæglega þurft að leggja á sig mun meiri vinnu en annar, þeas. vinnuskyldan getur verið misjöfn. Þess vegna er ekkert að því að meta ólíkt vinnuframlag til mismunandi launa. Og aftur, upphæðirnar eru önnur umræða.

[reyndar minnir mig að ákveðin fundarseta sé inni í launum, aðeins sé greitt ef fundarseta fer umfram ákveðið lágmark, getur verið mismunandi milli sveitarfélaga, hvort sem er ekki aðalatriðið] 

Sósíalismi á Íslandi 2018??

Posted: júní 2, 2018 in Umræða

Með þennan vinahóp minn á Facebook þá hefur ekki farið fram hjá mér stutt saga svokallaðs „sósíalista“flokks síðustu mánuði.

Mér má svo sem alveg vera sama, ekki tel ég mig vera sósíalista. En einhverra hluta vegna er mér ekki alveg sama.

Að einhverju leyti þykir mér frekar lítið skemmtilegt að horfa á gamla félaga sem telja sig til sósíalista (og þeir eru nokkrir) detta inn í þetta leikrit… því það er varla hægt að kalla þetta annað, ég myndi nota „skuespil“ ef mér væri ekki illa við að sletta á útlensku.

Þrennt kemur nú til..

Fyrir það fyrsta þá leyfi ég mér nú að efast um að helsti hvatamaður að stofnun flokksins hafi yfirleitt nokkurn áhuga á sósíalisma, hafi svona frekar verið uppiskroppa með hugmyndir til að halda sér í sviðsljósinu og dottið inn á þetta. En hvað veit ég, það er svo sem aukaatriði.

Þá er nú frekar lítið í málflutningi talsmanna flokksins sem á eitthvað skylt við sósíalisma, svona eins og sósíalisminn var skilgreindur á sínum tíma. Þetta virðist aðallega vera rómantískur stimpill án nokkurs innihalds og án nokkurrar tengingar.

En aðallega… og í alvöru.

Hvernig væri að fara aðeins að fullorðnast og vaxa upp úr þessari menntaskólarómantík um hægri, vinstri, sósíalisma, kommúnisma, frjálshyggju – nýrri eða gamalli?

Hvernig væri að hætta að afgreiða hugmyndir og málefni sem góð eða slæm með stimplum, langsóttum samlíkingum og innihaldslausum tengingum?

Næg eru verkefnin.

En það gerist ekkert ef fólk situr úti í horni og lætur sér nægja innantómt hjal og innihaldslausa frasana. Komið með hugmyndir um hvernig á að leysa þau vandamál sem þið talið um, komið með málefnaleg rök fyrir hvers vegna þær hugmyndir eru góðar og takið mark á málefnalegri gagnrýni. Og á hinn bóginn, gagnrýnið aðrar hugmyndir út frá málefnum ekki með hallærislegum og úr sér gengnum stimplum.