Sarpur fyrir mars, 2015

Ég get alveg haft (amk.) tvær skoðanir á Pírötum.

Á jákvæðu nótunum þá er þarna er ferskur blær og ný nálgun – heiðarlegt fólk sem virðist hafa kraft til að taka til í mörgum þjóðþrifamálum – og gefur ekkert eftir af „prinsip“ málum. Það eru samt atriði sem trufla mig.

Fyrir það fyrsta er í rauninni grunnur framboðsins, þeas. viðhorfið til höfundarréttar, að svo miklu leyti sem hægt er að festa hönd á þau viðhorf… Mér finnst þetta stórmál og mér finnst afstaða þeirra ekki bara beinlínis röng, heldur óttast ég að (td) tónlistarheimurinn líði mikið fyrir að þeirra viðhorf eru stöðugt algengari.

Að svo miklu leyti sem hönd á festir segi ég… vegna þess að mér finnst ég oft fá full loðin svör, réttmæt gagnrýni á núverandi kerfi en engar raunhæfar lausnir eða tillögur. Og það gildir ekki bara um höfundarrétt.

Það sem truflar mig kannski mest – en er kannski um leið skiljanlegt í ljósi þess hvert hratt það gekk fyrir sig í aðdraganda kosninga – að þau eru (hvað skal segja) mismikið heppin með samstarfsfólk. Þess vegna eru þarna einstaklingar sem daðra við kukl og „óhefðbundnar lækningar“, jafnvel galnar samsæriskenningar um geimverur – og finnst allt í lagi að ræða það að sleppa því að bólusetja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum. Þetta lýsir ekki bara vanþekkingu, heldur eru þetta skýrar vísbendingar um getuleysi til að afla upplýsinga og vinna úr þeim. Það er afar vont að vera í stjórnmálum og geta ekki tekið rökum og upplýsingum og skipt um skoðun ef svo ber undir. Og svo því sé haldið til haga þá er fjarri því að þetta eigi við um alla Pírata.

Þannig að kannski vantar annan flokk (eða aðra flokka) með því jákvæða sem finnst hjá Pírötum en hefur jafnframt heilbrigða skynsemi í forgangi og þá nálgun í forsæti að hugsa rökrétt.. En sennilega er ég að biðja um of mikið.

Staðfesting á trúleysi

Posted: mars 22, 2015 in Trú

Mig langar að útskýra hvers vegna ég er trúlaus – staðfesta endanlega og afgreiða málið svo enginn vafi leiki lengur á og enginn þurfi lengur að þrasa við um hvort ég er trúlaus eða ekki.

Það eru margar aðferðir til að vega og meta hvað við höfum fyrir satt og hvað ekki. Ég hef það fyrir satt sem ýmist búið er að sanna eða leiða sterk rök til að standist skoðun. Upplýsingar og kenningar sem standast skoðun og/eða tilraunir og hafa ekki verið afsannaðar.

Þetta er kannski lykilatriði að kenningar séu „afsannanlegar“. Ef og þegar til þess kemur að kenning er afsönnuð þá skipti ég um skoðun og fagna nýjum upplýsingum.

Þeir sem eru trúaðir hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á og ekki er hægt að leiða líkur til að því að sé rétt. Þess vegna köllum við þetta trú. Skoðanir trúaðra eru ekki „afsannanlegar“ og þess vegna kemur aldrei til að þurfa að skipta um skoðun vegna nýrra upplýsinga. Það eru engar upplýsingar til staðar til að byrja með og þess vegna falla þær aldrei á neinu prófi – og aldrei koma neinar gagn-upplýsingar.

Í þessu liggur grundvallarmunur á trúuðum og trúlausum. Við trúlausir erum tilbúnir til að skipta um skoðun þegar nýjar upplýsingar koma fram. Það eru trúaðir ekki. Ef fram kæmi endanleg sönnun þess að einhver guðleg vera hefði skapað heiminn fyrir svo og svo mörgum árum, hlustaði á bænir og svo framvegis… þá tæki ég það gott og gilt. Enda væri skoðunin byggð á staðreyndum en ekki trú.

Það eru engar upplýsingar sem fá trúaðan einstakling til að skipta um skoðun. Stundum kemur fyrir að þeir fara að hugsa sjálfir og taka sjálfstæða afstöðu, en ekki vegna nýrra gagna eða upplýsinga. Sá trúaði byggir lífsskoðun sína ekki á staðreyndum eða upplýsingum og þess vegna geta nýjar upplýsingar ekki mögulega orðið til að hann/hún skipti um skoðun.

Í þessu liggur munurinn. Ég er trúlaus. Vegna þess að ég byggi á staðreyndum en ekki ágiskunum eða vangaveltum án nokkurra forsendna.

PS. Ég nenni ekki að fá athugasemdir á þeim nótum að ég viti ekkert hvað mér finnst og læt vera að bjóða upp á athugasemdir.

Rökleysuþrasararnir…

Posted: mars 21, 2015 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Einhver sérkennilegasta, minnst gefandi, mest þreytandi og fáránlegasta rökræða sem ég lendi (ótrúlega oft) í er þras við fólk hefur hefur einhverja undarlega þörf fyrir að halda því fram við mig að ég hafi skoðun sem ég hef ekki.. hversu oft og mikið sem ég reyni að segja viðkomandi að ég hafi ekki ætlaða skoðun. Að frátöldu virðingarleysinu, segjum hreinlega tuddaskapnum, þá er þetta alveg galin umræða.

Þetta er að einhverju leyti eins og einhver sé stöðugt að segja mér að ég sé svartur eða að það vanti á mig aðra hendina. Ekkert hef ég á móti svörtu fólki eða fólki sem hefur orðið fyrir því að missa hendi.. en ég er einfaldlega ekki svartur og ég hef sem betur fer báðar hendur.

Það skiptir engu hversu oft ég reyni að leiðrétta eða útskýra, viðkomandi setja „hausinn undir sig“ og böðlast ótrauðir áfram.

Lengi vel hélt ég að þetta væri vísvitandi áreiti til að fara í taugarnar á mér og láta mig eyða tíma í svör. Upp á síðkastið hallast ég að því að viðkomandi séu einfaldlega ekki „betur gefnir“ en þetta.

Það hjálpar ekki að rökin sem færð erum fram eru í besta falli hjákátleg. Viðkomandi gefa sér forsendur [sem eru ýmist út úr kú eða svo almennar að eiga við alla], gefa sér að ég falli undir þessar sömu forsendur og draga svo ályktun af þessu öllu saman. „Svartir menn hafa nef“ – „þú ert með nef“ -> „þú ert svartur “ er ein tegund af rökleysu. „Ef þú hefur meira en enga hendi þá hefur þú eina hendi“ -> „ef þú hefur eina hendi þá hefur þú ekki tvær hendur“ -> „þú ert einhentur“.

Til að kóróna vitleysuna er svo gjarnan vísað í hina og þessa spekinga [sem viðkomandi þekkja ekki og/eða rugla saman] og hugmyndir [sem viðkomandi skilja ekki] eða bara einhverja vefsíðu ef ekki vill betur til. Sennilega er ætlunin að gefa málflutningnum virðulegan blæ með því að sletta um sig með nöfnum og hugmyndum – svona ef ske kynni að einhver sem les haldi að einhver þekking liggi að baki.

Ég er að tala um þörf fólks til að halda því fram að ég sé trúaður. Sem ég er ekki. Nýlega var prestur þjóðkirkjunnar að reyna að troða þessu á mig. En það er bara nýjasta dæmið af allt of mörgum.

Ég ætla ekki að gera þessum einstaklingum það til geðs að halda þessu þrasi áfram. Og ekki leyfi ég athugasemdir við þessa færslu.

Ég skýri í næstu færslu hvers vegna ég er trúlaus. Þeir sem hafa heiðarlegan áhuga á að vita hvort ég er trúaður eða ekki láta sér það nægja.

ESB umræðan á sama plain og kukl

Posted: mars 19, 2015 in Umræða
Efnisorð:

Félagi minn sagði einu inni að honum hafi fundist hann vera að verða veikur og hafi gripið til þess ráðs að setja matarlím í eyrun.. og viti menn, hann varð bara ekkert veikur. Fyrir honum var þetta sönnun þess að það að setja matarlím í eyrun kæmi í veg fyrir flensu. Annars sagðist hafa gleymt að setja sítrónu í rassinn eitt kvöldið og bara orðið svona fárveikur daginn eftir. Auðvitað staðfesti þetta fyrir honum að sítrónur væru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir veikindi.

Auðvitað er þetta tómt rugl og sannar nákvæmlega ekki neitt – og afsannar ekki heldur.

Mér er oft hugsað til þeirra þegar ég er að lesa rökin með og á móti aðild að ESB.

Sumir nefna Grikki sem endanlega sönnun þess að allt geti farið til fjandans hjá aðilidarríkjum ESB.

Aðrir nefna td. Eistland til sönnunar um hversu mikils virði það sé að vera aðili að ESB.

Í hvorugu tilfellinu vitum við hvað hefði gerst að öðrum kosti. Það er ekkert sem segir okkur að Grikkir væru betur settir utan ESB, jafnvel eru mjög sterkar vísbendingar um að þeir væru enn verr settir.

Það er heldur ekkert sem segir okkur að Eistar séu betur settir innan ESB en utan, það er alveg eins líklegt að þarna sé duglegt fólk sem hefur náð tökum á efnahagnum og hefði gert hvort sem er.

Þá hjálpar heldur ekkert að segja að krónan hafi kostað okkur svo og svo mikið í hruninu eða bjargað svo og svo miklu eftir hrun. Við vitum einfaldlega ekkert um það hvernig hefði farið að öðrum kosti.

Það eina sem skiptir máli er hvort okkur farnast betur innan eða utan ESB í framtíðinni. Og það má heldur betur deila um hvernig má skilgreina að „farnast betur“.

Aðalatriðið er að þetta verður alltaf mat, það þarf að vega og meta kosti og galla og taka afstöðu út frá því.

Og sama hvor leiðin er farin, við fáum aldrei svarið við hvað hefði gerst ef hin leiðin hefði verið farin. Svona óbærilegur léttleiki…

Vísvitandi ósannindi?

Posted: mars 17, 2015 in Umræða
Efnisorð:

Ég heyrði viðtal við forsætisráðherra í sjónvarpsfréttum þar sem hann hélt því ítrekað fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að reyna að ljúka aðildarviðræðum við ESB væru tilraun til að ljúka málinu „í góðu“.

Nú stóð til að þingið ræddi málið í fyrra og það kallaði á hörð mótmæli að verið væri að ræða að draga umsókn Íslands til baka. Sérstaklega fór illa í fólk að fullyrðingar beggja stjórnarflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu væru allt í einu gleymdar og grafnar – marklaus kosningaloforð.

Þannig veit forsætisráðherra fullvel að það að draga umsókninga án þjóðaratkvæðagreiðslu – og þar fyrir utan án nokkurrar umræðu – gat aldrei orðið til þess að ljúka málinu „í góðu“.

Ég velti fyrir mér hvers vegna hann er að fullyrða svona.

Honum var full ljóst að þetta myndi kalla á hörð viðbrögð. Nú er ég gjarnan ósammála forsætisráðherra og finnst sérstaklega hvimleiður ávani hans að snúa umræðum á hvolf. En það hvarflar ekki að mér að hann sé eitthvað sérstaklega tregur eða hafi greind á við [fyllist að eigin vali].

Ekki var hann mögulega að vísa til að þetta „í góðu“ ætti við ESB, þar er engin ástæða til að ætla að það kostaði illindi frá ESB þó þingið fengið að ræða málið eða að staðið yrði við fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá sé ég ekki betur en að það sé bara ein möguleg skýring eftir. Hann sagði vísvitandi ósatt.

Eða hvað?

Að reka ráðherra

Posted: mars 15, 2015 in Uncategorized
Efnisorð:,

Gefum okkur að við séum að reka stofnun/fyrirtæki og/eða sjáum um að ráða fólk til starfa.

Við viljum væntanlega standa okkur vel og ráða besta fólkið sem völ er á.. við könnum væntanlega fyrri störf, jafnvel menntun og ræðum við þær/þá sem koma til greina um hvernig þær/þeir vilji sinna starfinu.

Gefum okkur að tilvonandi starfsmaður sem okkur líst vel á gefi okkur ákveðin fyrirheit um hvernig hann/hún ætli að sinna starfinu, hvaða stefnu hún/hann ætli að taka og hvaða verkefnum hann/hún ætli að sinna.

Gefum okkur svo að viðkomandi sér ráðin(n) og vinni svo þvert gegn gefnum fyrirheitum.

Ég ímynda mér að við segjum viðkomandi upp störfum og leitum að öðrum.

Ég velti þessu fyrir mér í framhaldi af framgöngu ráðherra í samskiptum við ESB:

Nú má vera – og er líkast til rétt – að aðgerð ráðherra er vita marklaus og ber kannski annað hvort frekar vott um ekkert sérstaka greind – nú, eða þá sjúklega þörf til að vekja á sér athygli.

Það breytir því ekki að hann er ráðinn til að gegna ákveðnu starfi. Hann gaf vinnuveitendum ákveðin fyrirheit áður en hann var ráðinn til starfsins. Og nú hefur hann að minnsta kosti gert sitt besta til að ganga þvert gegn þeim sömu fyrirheitum. Ég er nokkuð viss um að almennum starfsmanni í flestum stofnunum/fyrirtækjum biði einfaldlega uppsagnarbréf.

Af hverju ætti starf ráðherra að vera eitthvað öðru vísi? Eru einhver rök fyrir því að það sé sérstaklega verndað?

Ég mætti í Hörpuna í dag og tók stutta skák við Hrafn Jökulsson.

Hrafn var á seinni degi í skákmaraþoni sem haldið var til styrkar sýrlenskum flóttabörnum – allt fé fer í söfnun sem Fatímasjóðurinn og Unicef standa að.

Hrafn hefur verið ótrúlega kraftmikill við að kynna skákina og tilefni maraþonsins um helgina var vel við hæfi enda einkunnarorð FIDE, sem hljómuðu undir einvígis Fischers og Spassky, „Gens Una Sumus“ eða „við erum ein fjölskylda“.

Tveimur skákum á undan mér mætti fimm ára drengur til leiks. Það var gaman að fylgjast með þolinmæði Hrafns að leiðbeina mótherjanum, hrósa honum fyrir góða leiki og skýra hina fyrir honum. Þegar Hrafn var svo kominn með óverjandi mát.. þá sneri hann taflinu við – „bókstaflega“ – og leyfði nemandanum að vinna!

En fyrir þá sem vilja styrkja söfnunina þá má leggja inn á reikn­ing Fatimu­sjóðsins, 0512-04-250461, kennitala 680808-0580.

2015-03-07 15.13.34

Já og skákinni okkar lauk með tilþrifalitlu jafntefli, frekar óvenjulegt hjá okkur báðum held ég…

Það er eins og umburðarlyndi gagnvart bæði hegðun og skoðunum falli í tvo ólíka flokka.

Nýlega kom kona í sjónvarpsfréttum og sagðist ekki hafa látið bólusetja barnið sitt vegna (órökstudds) ótta við einhverfu. Konan var (eðlilega) gagnrýnd harðlega, ekki bara fyrir órökstudda skoðun heldur fyrir stórhættulega hegðun.

Í langflestum tilfellum var sú gagnrýni málefnaleg og hófstillt – gekk út á að benda á hversu hættulegt þetta getur verið og hversu lítill fótur er fyrir afstöðu konunnar.. það má eflaust finna dæmi um að einhver hafi notað harkaleg lýsingarorð en það voru undantekningar og skipta litlu.

Samt tók þingmaður Pírata til máls á þingi og gagnrýndi umræðuna.. líkti umræðunni við viðbrögðin við ellefta-september. Hvernig viðkomandi þingmaður gat mögulega tengt ofsafengin viðbrögð ríkisstjórna út um allan heim við örfáar athugasemdir á Facebook og bloggfærslum er mér enn hulin ráðgáta.. en þetta er svona dæmigerð „guilt-by-association“ rökleysa. Nefna eitthvað ógeðfellt í sama orðinu og reyna að búa til einhvers konar tengsl.

Gefum okkur að konan hefði hagað sér jafn hættulega.. en sú hegðun hefði ekki verið byggð á einhvers kuklara speki. Segjum að konan hefði leyft ungum börnum sínum að leika sér með hlaðna skammbyssu (reykja sígarettur, keyra bíl, leika sér að eldi…) og réttlætt hegðun sína í sjónvarpsviðtali – hegðun sem stofnar börnum hennar og börnum annarra í hættu.

Gefum okkur að konan hefði fengið nákvæmlega sömu gagnrýni.

Ég velti fyrir mér hvort einhver þingmaður hefði tekið til máls og gagnrýnt umræðuna með tilvísun í ellefta-september?

Nei, ég þarf ekkkert að velta því fyrir mér.. ég er viss um að það hefði ekki gerst.

Heimtið skaðabætur

Posted: mars 5, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:,

En það hefur verið allt of mikill sofandaháttur gagnvart sölumennsku á hvers kyns kukli – enn eru allt of margir sem vilja hafa „opinn huga“ – eða halda að eitthvað af þessu „gæti nú virkað“. Vonandi verður umfjöllun síðustu daga til að fólk taki þessari sölumennsku með gagnrýnum huga.

Ég velti samt fyrir mér…

Sá sem selur gallaða vöru er ábyrgur fyrir því sem hann er að selja.. kaupandi á skilyrðislaust rétt á skaðabótum. Sama gildir til dæms í fasteignaviðskiptum, sá sem selur fasteign með leyndum göllum – jafnvel í góðri trú – getur átt von á kröfu um bætur. Bílar eru skoðaðir fyrir sölu og sama gildir oft um fasteignir.

Nú þekki ég ekki alla lagakróka, sumir sölumenn heilsuvörunnar virðast taka stundum fram að þeir lofi ekki lækningu. En þeir virðast flestir gefa villandi upplýsingar.. í þeim tilgangi einum að pranga einhverju rusli inn á fólk sem ekki hefur næga þekkingu eða er einfaldlega nægilega örvæntingarfull til að reyna hvað sem er:

  • reynslusögur sem ekki eru staðfestar og sanna hvort eð er ekki neitt
  • fullyrðingar um eðli- og eða efnafræði sem stangast jafnvel á við náttúrulögmál
  • fullyrðingar um samsæri gegn stórsnjöllum uppfinningamönnum sem geta læknað hvað sem er

Þetta er svo auðvitað sérstaklega lúalegt þegar verið er að spila á neyð og örvæntingu langveikra og jafnvel dauðvona einstaklinga og hafa þannig af þeim fé og tíma, koma í veg fyrir mögulega lækningu og/eða takmarka lífsgæði enn frekar.

Þannig vil ég skora á þá (eða ættingja þeirra) sem hafa orðið fyrir barðinu á óprúttnum sölumönnum að einfaldlega í mál við þá sem seldu þeim draslið. Heimtið skaðabætur, farið í mál, sækið rétt ykkar.

Ef lögin eru ekki nægilega skýr til að hægt sé að dæma skaðabætur, þá þarf að drífa í að breyta lögunum.