Staðfesting á trúleysi

Posted: mars 22, 2015 in Trú

Mig langar að útskýra hvers vegna ég er trúlaus – staðfesta endanlega og afgreiða málið svo enginn vafi leiki lengur á og enginn þurfi lengur að þrasa við um hvort ég er trúlaus eða ekki.

Það eru margar aðferðir til að vega og meta hvað við höfum fyrir satt og hvað ekki. Ég hef það fyrir satt sem ýmist búið er að sanna eða leiða sterk rök til að standist skoðun. Upplýsingar og kenningar sem standast skoðun og/eða tilraunir og hafa ekki verið afsannaðar.

Þetta er kannski lykilatriði að kenningar séu „afsannanlegar“. Ef og þegar til þess kemur að kenning er afsönnuð þá skipti ég um skoðun og fagna nýjum upplýsingum.

Þeir sem eru trúaðir hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á og ekki er hægt að leiða líkur til að því að sé rétt. Þess vegna köllum við þetta trú. Skoðanir trúaðra eru ekki „afsannanlegar“ og þess vegna kemur aldrei til að þurfa að skipta um skoðun vegna nýrra upplýsinga. Það eru engar upplýsingar til staðar til að byrja með og þess vegna falla þær aldrei á neinu prófi – og aldrei koma neinar gagn-upplýsingar.

Í þessu liggur grundvallarmunur á trúuðum og trúlausum. Við trúlausir erum tilbúnir til að skipta um skoðun þegar nýjar upplýsingar koma fram. Það eru trúaðir ekki. Ef fram kæmi endanleg sönnun þess að einhver guðleg vera hefði skapað heiminn fyrir svo og svo mörgum árum, hlustaði á bænir og svo framvegis… þá tæki ég það gott og gilt. Enda væri skoðunin byggð á staðreyndum en ekki trú.

Það eru engar upplýsingar sem fá trúaðan einstakling til að skipta um skoðun. Stundum kemur fyrir að þeir fara að hugsa sjálfir og taka sjálfstæða afstöðu, en ekki vegna nýrra gagna eða upplýsinga. Sá trúaði byggir lífsskoðun sína ekki á staðreyndum eða upplýsingum og þess vegna geta nýjar upplýsingar ekki mögulega orðið til að hann/hún skipti um skoðun.

Í þessu liggur munurinn. Ég er trúlaus. Vegna þess að ég byggi á staðreyndum en ekki ágiskunum eða vangaveltum án nokkurra forsendna.

PS. Ég nenni ekki að fá athugasemdir á þeim nótum að ég viti ekkert hvað mér finnst og læt vera að bjóða upp á athugasemdir.

Lokað er á athugasemdir.