Fleiri gerðir „pírata“

Posted: mars 29, 2015 in Stjórnmál, Umræða, Uncategorized
Efnisorð:

Ég get alveg haft (amk.) tvær skoðanir á Pírötum.

Á jákvæðu nótunum þá er þarna er ferskur blær og ný nálgun – heiðarlegt fólk sem virðist hafa kraft til að taka til í mörgum þjóðþrifamálum – og gefur ekkert eftir af „prinsip“ málum. Það eru samt atriði sem trufla mig.

Fyrir það fyrsta er í rauninni grunnur framboðsins, þeas. viðhorfið til höfundarréttar, að svo miklu leyti sem hægt er að festa hönd á þau viðhorf… Mér finnst þetta stórmál og mér finnst afstaða þeirra ekki bara beinlínis röng, heldur óttast ég að (td) tónlistarheimurinn líði mikið fyrir að þeirra viðhorf eru stöðugt algengari.

Að svo miklu leyti sem hönd á festir segi ég… vegna þess að mér finnst ég oft fá full loðin svör, réttmæt gagnrýni á núverandi kerfi en engar raunhæfar lausnir eða tillögur. Og það gildir ekki bara um höfundarrétt.

Það sem truflar mig kannski mest – en er kannski um leið skiljanlegt í ljósi þess hvert hratt það gekk fyrir sig í aðdraganda kosninga – að þau eru (hvað skal segja) mismikið heppin með samstarfsfólk. Þess vegna eru þarna einstaklingar sem daðra við kukl og „óhefðbundnar lækningar“, jafnvel galnar samsæriskenningar um geimverur – og finnst allt í lagi að ræða það að sleppa því að bólusetja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum. Þetta lýsir ekki bara vanþekkingu, heldur eru þetta skýrar vísbendingar um getuleysi til að afla upplýsinga og vinna úr þeim. Það er afar vont að vera í stjórnmálum og geta ekki tekið rökum og upplýsingum og skipt um skoðun ef svo ber undir. Og svo því sé haldið til haga þá er fjarri því að þetta eigi við um alla Pírata.

Þannig að kannski vantar annan flokk (eða aðra flokka) með því jákvæða sem finnst hjá Pírötum en hefur jafnframt heilbrigða skynsemi í forgangi og þá nálgun í forsæti að hugsa rökrétt.. En sennilega er ég að biðja um of mikið.

Lokað er á athugasemdir.