Posts Tagged ‘Píratar’

Píratar og sóttvarnarlög

Posted: apríl 26, 2021 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það er ekkert leyndarmál að ég er verulega ósáttur við framgöngu sumra þingmanna Pírata á Alþingi.

Ég hef kosið Pírata í síðustu kosningum.

Ég hef svo sem líka kannski rifist hvað mest við Pírata… ruglið sem flokkurinn var stofnaður í kringum byggir að mínu viti á vanþekkingu og skammsýni. En þeim til hróss hafa þau verið tilbúin í rökræður og það fer lekki lengur mikið fyrir þessum upphaflegu hugmyndum.

Þau hafa staðið sig mjög vel, verið ferskt afl á Alþingi og spurt erfiðra spurninga.

En mér finnst framganga sumra þingmanna í umræðum um sóttvarnarlög einfaldlega ekki verjandi.

 • Þau tala um „geðþóttaákvarðanir“, það er ekki geðþóttaákvörðun að fylgja ráðum vísindamanna.
 • Þau tala um að það hefði átt að reyna vægari aðgerðir, vitandi (eða amk. höfðu alla möguleika á að vita) að það að búið að reyna og einfaldlega ekki að virka.
 • Þau tala um að frumvarp hafi verið illa undirbúið og unnið á skömmum tíma. Fyrir það fyrsta, þá var nú ekki mikill tími til stefnu. Þá þarf ekki að hafa fylgst mikið með til að vita að búið er að ræða málið fram og til baka og bókstaflega fráleitt að gefa í skyn að hér sé einhver flumbrugangur á ferð.
 • Að tala um að frumvarpið hafi verið samið á einum degi er svo dæmi um fullkomlega marklausar athugasemdir. Það er ólíklegt að frumvarpið hafi verið samið á einum degi þó frágangur hafi mögulega verið unninn í flýti. En það skiptir bara ekki nokkru einasta [hér má velja kjarnyrt blótsyrði] máli hversu langan tíma tók að skrifa frumvarpið.. það sem skipti máli er hvort það var nógu gott eða ekki.
 • Píratar kvarta undan að breytingatillaga þeirra hafi ekki verið samþykkt, mögulega, sennilega, líklega hefði frumvarpið verið betra þannig, en það þýðir ekki að ekki megi samþykkja það.
 • Þá er gjarnan gripið í að snúa þessu upp í mannréttindamál. Mannréttindi eru mikilvæg, en ég gef einfaldlega ekkert fyrir baráttu fólks fyrir mannréttindum ef það lítur svo á að mannréttindi felist í að fólk hafi rétt til að leggja aðra í lífshættu að nauðsynjalausu.
 • Og svo virðist „háll-halli-rökleysan“ (slippery-slope fallacy) stöðugt dúkka upp í réttlætingu á afstöðu sumra þingmanna.

Þetta er alvarlegt mál. Ef fólk er situr á Alþingi og er að greiða atkvæði þá er lágmarkskrafa að vinna heimavinnuna og halda þræði í hugsun og rökfærslu – sleppa klisjum og innantómum frösum.

Ef ekki verður breyting á þessu þá er líklegt að mitt atkvæði fari annað í Alþingiskosningunum í haust.

Ég styð Pírata áfram í borgarstjórn og öðrum sveitarstjórnum þar sem þau eru að vinna gott verk.

Ég styð dótturina, Alexöndru Briem, (að sjálfsögðu) í prófkjöri Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ekki bara vegna þess að hún er dóttir mín, heldur einfaldlega vegna þess að hún á fullt erindi í borgarstjórn.

Þetta er ekki flókið, hún er málefnaleg, sem þýðir að hún kynnir sér málefni áður en hún tekur afstöðu og hlustar á rök með og á móti.

Hún er dugleg, hefur unnið gríðarlega gott starf fyrir Pírata, störfin þar eru gott dæmi um að hún kemur hlutum í verk og klárar þau verkefni sem þar að vinna.

Heiðarleg og vill leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag.

Sem sagt, allt sem við þurfum á að halda hjá þeim sem við viljum að vinni fyrir okkur.

Nú er það reyndar þannig að það er mikið úrval af góðu fólki í framboði í prófkjörinu og ég hvet alla til að kynna sér frambjóðendur og taka þátt.

Mig langar að beina þessari færslu til tónlistarmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta vegna höfundarréttar.

Ég efast um að margir hafi þrasað eins mikið við Pírata um höfundarréttarmál og ég hef verið að gera síðustu árin.

Samt ætla ég að kjósa Pírata í komandi kosningum.

Að miklu leyti vegna þess að það hefur orðið talsverð hugarfarsbreyting hjá þeim flestum, ef ekki öllum sem eru nálægt því að komast inn. Ný stefna í höfundarréttarmálum er langt frá því að vera gallalaus en hún er mikil framför frá fyrri yfirlýsingum.

En aðallega vegna þess að það er hægt að ræða málin og þau taka upplýsingum og þau taka rökum.

Þá má ekki gleyma að þau standa fyrir mjög mikilvæg málefni, þar sem stjórnarskráin er efst á blaði. Næsta þing á hvort sem er ekki eftir að skipta sköpum í höfundarréttarmálum, en það gæti skipt sköpum í mörgum lykilatriðum.

Nú veit ég ekkert hvort ykkur (sem ég nefndi í upphafi) hugnast yfirleitt að kjósa Pírata í næstu kosningum. En að minnsta kosti ef þetta er eina atriðið sem stóð í veginum, þá er það ekki lengur tilefni til að neita að kjósa Pírata. [nei, ekki heldur hallærislegt nafn, eða sagan á bak við það]

Ég þarf að fara að ákveða hverjum ég greiði atkvæði í prófkjöri Pírata á Stór-Kópavogssvæðinu.

Það er ákveðið „lúxusvandamál“ að mér líst mjög vel á mjög marga frambjóðendur og á eiginlega frekar erfitt með að gera upp á milli.

En nokkur atriði telja mikið fyrir mér og ég er ekki alveg klár á afstöðu allra frambjóðenda til þeirra.

Þannig að mig langar til að setja fram nokkrar spurningar um nokkur atriði sem skipta mig máli.

 1. Ertu fylgjandi því stjórnarskrá stjórnlagaráðs verði samþykkt á næsta þingi?
 2. Ertu fylgjandi því að afnema verðtryggingu?
 3. Ertu fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?
 4. Finnst þér siðferðilega rétt að deila og sækja efni (svo sem tónlist, sjónvarpsþætti, hugbúnað, bíómyndir) í óþökk þeirra sem eiga höfundarrétt þegar hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð og sækja efnið á einfaldan og löglegan hátt? [ég er ekki að spyrja um hvort ykkur finnist að höfundar eigi að bjóða efnið aðgengilegt frítt, ég er ekki að spyrja um hvort / hvernig ætti að framfylgja einhverju hugsanlegu eftirliti og ég er ekki að spyrja um skoðanir á refsingum við brotum] – en þið megið sjálf ákveða hvað er „sanngjarnt verð“ og „einfaldur háttur“

Ég get alveg haft (amk.) tvær skoðanir á Pírötum.

Á jákvæðu nótunum þá er þarna er ferskur blær og ný nálgun – heiðarlegt fólk sem virðist hafa kraft til að taka til í mörgum þjóðþrifamálum – og gefur ekkert eftir af „prinsip“ málum. Það eru samt atriði sem trufla mig.

Fyrir það fyrsta er í rauninni grunnur framboðsins, þeas. viðhorfið til höfundarréttar, að svo miklu leyti sem hægt er að festa hönd á þau viðhorf… Mér finnst þetta stórmál og mér finnst afstaða þeirra ekki bara beinlínis röng, heldur óttast ég að (td) tónlistarheimurinn líði mikið fyrir að þeirra viðhorf eru stöðugt algengari.

Að svo miklu leyti sem hönd á festir segi ég… vegna þess að mér finnst ég oft fá full loðin svör, réttmæt gagnrýni á núverandi kerfi en engar raunhæfar lausnir eða tillögur. Og það gildir ekki bara um höfundarrétt.

Það sem truflar mig kannski mest – en er kannski um leið skiljanlegt í ljósi þess hvert hratt það gekk fyrir sig í aðdraganda kosninga – að þau eru (hvað skal segja) mismikið heppin með samstarfsfólk. Þess vegna eru þarna einstaklingar sem daðra við kukl og „óhefðbundnar lækningar“, jafnvel galnar samsæriskenningar um geimverur – og finnst allt í lagi að ræða það að sleppa því að bólusetja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum. Þetta lýsir ekki bara vanþekkingu, heldur eru þetta skýrar vísbendingar um getuleysi til að afla upplýsinga og vinna úr þeim. Það er afar vont að vera í stjórnmálum og geta ekki tekið rökum og upplýsingum og skipt um skoðun ef svo ber undir. Og svo því sé haldið til haga þá er fjarri því að þetta eigi við um alla Pírata.

Þannig að kannski vantar annan flokk (eða aðra flokka) með því jákvæða sem finnst hjá Pírötum en hefur jafnframt heilbrigða skynsemi í forgangi og þá nálgun í forsæti að hugsa rökrétt.. En sennilega er ég að biðja um of mikið.

Það er eins og umburðarlyndi gagnvart bæði hegðun og skoðunum falli í tvo ólíka flokka.

Nýlega kom kona í sjónvarpsfréttum og sagðist ekki hafa látið bólusetja barnið sitt vegna (órökstudds) ótta við einhverfu. Konan var (eðlilega) gagnrýnd harðlega, ekki bara fyrir órökstudda skoðun heldur fyrir stórhættulega hegðun.

Í langflestum tilfellum var sú gagnrýni málefnaleg og hófstillt – gekk út á að benda á hversu hættulegt þetta getur verið og hversu lítill fótur er fyrir afstöðu konunnar.. það má eflaust finna dæmi um að einhver hafi notað harkaleg lýsingarorð en það voru undantekningar og skipta litlu.

Samt tók þingmaður Pírata til máls á þingi og gagnrýndi umræðuna.. líkti umræðunni við viðbrögðin við ellefta-september. Hvernig viðkomandi þingmaður gat mögulega tengt ofsafengin viðbrögð ríkisstjórna út um allan heim við örfáar athugasemdir á Facebook og bloggfærslum er mér enn hulin ráðgáta.. en þetta er svona dæmigerð „guilt-by-association“ rökleysa. Nefna eitthvað ógeðfellt í sama orðinu og reyna að búa til einhvers konar tengsl.

Gefum okkur að konan hefði hagað sér jafn hættulega.. en sú hegðun hefði ekki verið byggð á einhvers kuklara speki. Segjum að konan hefði leyft ungum börnum sínum að leika sér með hlaðna skammbyssu (reykja sígarettur, keyra bíl, leika sér að eldi…) og réttlætt hegðun sína í sjónvarpsviðtali – hegðun sem stofnar börnum hennar og börnum annarra í hættu.

Gefum okkur að konan hefði fengið nákvæmlega sömu gagnrýni.

Ég velti fyrir mér hvort einhver þingmaður hefði tekið til máls og gagnrýnt umræðuna með tilvísun í ellefta-september?

Nei, ég þarf ekkkert að velta því fyrir mér.. ég er viss um að það hefði ekki gerst.

Eitt enn, Píratar…

Posted: september 7, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Alls ekki misskilja mig, Píratar, sem svo að ég sé í einhverri herferð gegn ykkur. Alls ekki. Það kom vel til greina að kjósa ykkur í vor, nokkur atriði trufluðu mig – og eiginlega gerðu þumbaraleg svörin við vangaveltum mínum endanlega út um þann möguleika. En ég fagnaði því að þið náðuð á endanum inn á þing, þetta er góð og nauðsynleg viðbót. Ég er ykkur sammála í mörgum atriðum, þið hafið staðið ykkur vel í að styðja við persónufrelsi og rétti til að upplýsa um hegðun stjórnvalda. Þið hefðuð mátt gera meira, en ég treysti því að það komi. Önnur stefnumál voru svo fráleit, en kannski má kenna fljótfærni um..

Ég hef sett hér færslur um höfundarrétt og dreifingu efnis vegna þess að ég er ekki sammála stefnu ykkar eins og ég skil hana, en kannski líka vegna þess að ég hef ekki skilið hana nægilega vel. Og geri eiginlega ekki enn. Líka vegna þess að ég hef áhuga á málinu. Og ég hef gaman af málefnalegum rökræðum.. þær hafa reyndar verið mis mikið málefnalegar, Björn Leví og fleiri hafa komið með góðar athugasemdir, þó ég hafi kannski verið óþarflega pirraður þegar mér fundust umræðurnar fara í hringi og út fyrir kjarna málsins. Svo hafa auðvitað komið minna málefnalegar athugasemdir.

Mér varð hugsað til þessarar umræðu þegar það kom aftur upp umræða um tilfelli þar sem trúnaðargögnum var stolið af lokuðu spjalli áhugahóps. Er þetta í lagi að ykkar mati? Þetta eru jú rafræn gögn. Eigandi þeirra vill alls ekki að þau fari til annarra en hann samþykkir. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir dreifingu nema með talsverðum tilkostnaði og takmörkun á frelsi. Kannski eiga viðkomandi eigendur bara að vera fegnir því að þessu sé dreift í heimildarleysi, þeir verði bara vinsælli fyrir vikið. Svo því sé haldið til haga þá truflaði mig meira að sá sem tók gögnin í heimildarleysi birti þau ekki, heldur sagðist hafa þau undir höndum og fullyrti að þar kæmi allt annað fram en raunverulega var í gögnunum.

Ef ég skil rétt þá er að ykkar mati í lagi að birta trúnaðargögn stjórnvalda, að minnsta kosti þegar sá sem hefur þau undir höndum telur að um ólöglegt athæfi sé að ræða. En á hinn bógin er ekki í lagi að birta, til dæmis, persónuleg tölvupóst samskipti einstaklinga.

En þá vefst málið fyrir mér, hvað með svona spjallborð á netinu, td. vefsíðum og samfélagsmiðlum ?

Er það t.d. heimilt ef um opinbera aðila er að ræða? Hvað með, til dæmis, ef ég hefði dottið inn á spjallborð stjórnmálaflokks og séð umræður sem gæfu til kynna að forsendur tiltekinnar stefnu flokksins væru allt aðrar en haldið væri fram opinberlega? Eða ef forsprakkar flokksins væru t.d. opinskáttað ræða einstakling, segjum þingmann annars flokks sem færi sérstaklega í taugarnar á þeim og hefði ítrekað sakað gagnrýnendur sína um rógsherferð gegn sér, og þær umræður væru kannski misjafnlega málefnalegar? Væri eðlilegt að birta þær umræður opinberlega?

Svo get ég snúið dæminu við… ef ég gef út lag eða myndband á lokuðu spjallborði og það er öllum ljóst að lagið er bara ætlað þeim sem þar hafa aðgang. Má samt dreifa því? Það gilda jú sömu rök, það er ekki hægt að koma í veg fyrir drefinguna, ég verð örugglega rosalega vinsæll ef þessu er dreift í minni óþökk.

Þess vegna spyr ég… hvar liggja mörkin á því hvenær þessi rök eiga við og hvenær ekki? Ég hef sjálfur ekki afdráttarlaust svar, en hef áhuga á að heyra ykkar.

Og ég er ekki að fiska eftir því hvað er hægt og hvað er ekki hægt, ég þekki það ágætlega. Mín forvitni liggur í því að fá að vita hvað ykkur finnst rétt og hvað ykkur finnst rangt.

Píratar og brauð

Posted: ágúst 25, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég setti nýlega inn færslu þar sem ég spurði Pírata um hvernig þeir vildu nálgast höfundarréttarmál. Það spruttu talsverðar umræður af þessu… fóru að hluta til út um víðan völl en ég held að ég sé einhverju nær.. kannski meira sammála þeim en ég átti von á fyrirfram – og veit að minnsta kosti meira um hvar ég er þeim ósammála. Aðallega sakna ég þó að fá ekki skýrari tillögur.. margar eru vel meintar en til þess að gera óljósar. Jú, og málið er vissulega flókið og umræðan er af hinu góða.

En mig dreymdi í framhaldi langrar umræðu.. Baldur bakari að spjalla við talsmann Pírata, Pétur. Ég veit að þetta á ekki nákvæmlega við um höfundarrétt, en…

Baldur: Ertu sem sagt að segja að það sé í góðu lagi að fólk steli brauði af mér? Tekur maður númer hér?

Pírati: Já, já, þú verður að gera þér grein fyrir að það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta. Þú þarft bara að fylgja straumnum leyfa fólki að taka þetta án þess að borga fyrir. Þannig græða allir.

Baldur: Ég gef stundum brauð og sýnishorn til að kynna bakaríið, en það þýðir ekki að allir megi taka brauð frá mér í leyfisleysi. Ég hlýt að mega ráða hvenær ég gef brauðið sem ég baka.

Pétur: Já, en það er bara vonlaust að fylgjast með þessu.

Baldur: Ertu að segja að þetta sé í lagi bara af því að það er erfitt að koma í veg fyrir þetta?

Pétur: Mér finnst allt í lagi að fólk taki brauð frá þér ef það er ekki í fjárhagsskyni?

Baldur: Er það ekki í fjárhagsskyni að taka brauð og sleppa því að borga??

Pétur: Sjáðu til, ef einhver stelur brauði frá þér þá eru hann að efna til viðskipta með brauðið þitt og…

Baldur: Ég er ekki viss um að ég kalli það viðskipti ef ég fæ ekkert fyrir. Ég er eiginlega viss um að ég kalla það ekki viðskipti.

Pétur: og þú verður svo vinsæll og brauðið þitt svo eftirsótt að þú græðir á endanum.

Baldur: Bíddu, myndi ég ekki græða meira ef fólk sem vill borða brauðið mitt myndi einfaldlega borga fyrir það? Er allt þetta fólk á undan mér?

Pétur: Nei, nei, oftast er þetta fólk sem myndi hvort sem er ekki kaupa brauð af þér. Þú myndir örugglega henda þessu hvort sem er.

Baldur: Ef fólk vill ekki borga fyrir þetta, hvers vegna er það að taka?

Pétur: Og svo eru nú mörg dæmi um stórfyrirtæki sem ráða til sín bakara á lúsarlaunum og stórgræða.

Baldur: Hvernig réttlætir það að stela af mér? Ég er enn að ekki að skilja hvernig ég á að lifa af þessu.

Pétur: Jú, jú, sjáðu til öll tölfræði segir að eftir að fólk fór að ná sér í ókeypis brauð þá hafi sala á brauði aukist.

Baldur: Já, en ekki hjá mér… bara ódýru brauðin í stórmörkuðunum og þeir sem baka lítil og einföld brauð úr lélegu hráefni. Neysla á brauði hefur aukist með breyttum neysluháttum. Veit nokkur hvað þetta er löng bið?

Pétur: Nei, nei, þú misskilur, það er búið að sýna fram á að þeir sem stela brauði þeir koma líka við hjá þér.

Baldur: Ég veit að þeir líta við, þeir kaupa bara ekki neitt… þeir skoða bara hvað ég er að baka.

Pétur: Það má alveg gera ráð fyrir að þeir kaupi.

Baldur: Hvernig færðu það út? Svo eru menn sem stela frá mér í stórum stíl og gefa öðrum.

Pétur: Já, já, þetta er allt gert fyrir þig svo þú verðir vinsæll.

Baldur: Mig langar ekkert sérstaklega til að verða vinsæll, ég vil bara geta lifað af því að baka góð brauð.

Pétur: Já, en heimurinn er bara ekki svona í dag.. nú fá allir frítt brauð sem vilja. Þú verður frægur og getur til dæmis farið að kenna fólki að baka brauð og grætt milljónir þannig.

Baldur: Mig langar ekkert að kenna. Ég er hræðilegur kennari og það er það leiðinlegasta sem ég geri. Ég vil baka brauð.

Pétur: Já, en sjáðu bara bakarann í Perufirði, hann er orðinn moldríkur af að kenna fólki að baka.

Baldur: Já, þetta hentar sumum, aðallega þeim sem kunna að auglýsa sig. Frændi minn var með bakarí í litlu þorpi og þegar enginn vildi kaupa brauðið fór hann að kenna. Það gekk ágætlega í byrjun. En svo vildi fólk fara að fá kennsluna ókeypis líka. Hann er á atvinnuleysisbótum í dag.

Pétur: Hvaða vitleysa, líttu bara á tölurnar, það selst miklu meira af brauði en áður.

Baldur: Já, en ekki mínu. Bara fjöldaframleiddu brauði úr lélegu hráefni.

Pétur: Þú verður bara að nýta þér breytt umhverfi.

Baldur: Ætli það sé ekki einfaldara að skrá sig atvinnulausan. Ég kom einmitt hingað til þess. Já ég er númer níutíu og átta.

Pétur: Þetta er nú óþarfa svartsýni.. þú verður að skilja að einkaréttur og jafnvel eignaréttur eru bara úrelt fyrirbæri. Hey, bíddu, skilaðu tölvunni MINNI!

En hvað Píratar?

Posted: ágúst 16, 2013 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Umræða um höfundarrétt og ólöglega dreifingu efnis er orðin ansi ruglingsleg.

Fyrr í vikunni birtist grein í Fréttablaðinu (muni ég rétt) sem var eflaust vel meint til varnar þeim sem eiga efni sem verið er að dreifa ólöglega. Greinin var því miður ruglingsleg og talsvert af misskilningi og jafnvel rangfærslum.. sem gerði þeim hálfgerðan bjarnargreiða sem ætlunin var væntanlega að styðja.

Talsmaður Pírata svaraði svo eitthvað á þeim nótum að þeir væru ekki bófaflokkur og það þyrfti að ræða málið. Ágætt svar, en kannski frekar efnislítið.

Ég hef rætt þetta og skrifast á við marga Pírata og aðra sem áhuga hafa – og satt best að segja fengið lítið um nothæf svör – langlokur um sögulega hluti sem leysa ekkert og svara engu, sumir tala um að ólögleg dreifing sé nú bara allt í lagi og aðrir hafa hugmyndir sem eru kannski ágætar út af fyrir sig (eins og að stytta tíma eftir lát höfundar).. en breyta engu um eðli málsins.

Þannig að mig langar að ítreka spurningu til Pírata.. og fara fram á skýr svör, í texta, ekki á YouTube, ekki með tilvísun í YouTube efni eða greinar eða hugmyndir annarra. Heldur ykkar eigin svör í læsilegum texta, ef ég má vera svo frekur.

1. Finnst ykkur í lagi að dreifa efni í óþökk höfundar?

(já, ég veit að sumir njóta þess að efni er dreift og já ég veit að það er erfitt að stöðva þetta, en það er ekki spurningin, heldur hvort ykkur finnist þetta í lagi?)

2. Finnst ykkur í lagi að sækja efni sem boðið er upp á ókeypis í óþökk höfundar?

Ég veit að þið hafið talað um að það þurfi að ræða þetta og finna lausnir. Sem er gott, en þið hljótið að hafa einhverjar hugmyndir. Nafnið Píratar vísar (amk. sögulega, ef ég hef skilið rétt) í að vera á móti löggjöf („anti piracy) sem var umdeild, þannig að ef ég skil rétt eruð þið „anti – anti – Piracy“.

Það er í góðu lagi að vera á móti.. en það kostar líka kröfu (frá mér amk.) um að koma með betri hugmyndir.

Hverjar eru ykkur hugmyndir? Ekki niðurnegldar, heldur til umræðu. Í hvað vísar Pírata nafnið?

PS. Og að fenginni reynslu verð ég að ítreka ósk um skýr svör og ekki einhverju spjalli út um víðan völl

[fyrir áhugasama, þá er viðbót neðst í færslunni á því hvers vegna titillinn breyttist úr „varla“ í „ekki“]

Mér hafa fundist Píratar að mörgu leyti áhugaverður kostur. Þarna kemur ný nálgun, þarna eru ferskar hugmyndir og umfram allt mikill vilji til að efla lýðræði og rétt einstaklingsins. Áhersla er lögð á að upplýsingar séu forsenda ákvörðunar, að mál séu rökrædd málefnalega áður en afstaða er tekin. Afdráttarlaus stuðningur við nýja stjórnarskrá vegur þungt. Þarna er svo mikið af „góðu fólki“, greindu og heiðarlegu með skýran vilja til að vinna að breyttu og betra þjóðfélagi, fólki sem ég vil gjarnan sjá á þingi. Eiginlega mætti halda að þetta væri skothelt.

En það hafa runnið á mig tvær, jafnvel þrjár, fjórar grímur síðustu vikur.

Ýmsar fullyrðingar á síðu Pírata eru frekar undarlegar og þarna er fólk ofarlega sem sem mér finnst ekki eiga meira erindi á þing en „vírherðatré“. Það læðist óneitanlega að mér grunur við frekari lestur á síðu Pírata að stefna þeirra sé ekki mjög vel ígrunduð, jafnvel skrifuð af fámennum hóp og mögulega hent upp á hlaupum án mikilla umræðna, sem væntanlega er ekki alveg í anda flokksins.

Og ég fór líka að velta fyrir mér hvort þeir væru nægilega samkvæm sjálfum sér þegar málið er skoðað betur.

Eitt af því sem mér finnst heillandi við Pírata er að þeir hafa svarað spurningum um stefnumál, td. í efnahagsmálum, þannig að það sé ekki kannski þeirra að taka endanlega ákvörðun, heldur eigi að ræða málin, koma með upplýsingar og röksemdir og leyfa fólki að velja. Mér finnst þetta góð og virðingarverð nálgun. En svo er flokkurinn á sama tíma að kynna mjög einstrengingslegar og undarlegar skoðanir á smáatriðum sem fullkomlega mætti afgreiða á sama hátt. Er þetta ekki ákveðin mótsögn, innbyrðis ósamræmi?

Þar fyrir utan, ef ég gríp nokkrar af handahófskenndu flakki:

 • „Internetið er grunnþáttur hagvaxtar sem þarf að virkja markvisst til að auka fjárfestingu, styrkja fyrirtæki og skapa störf.“ Hmmm, netið er mikilvægt og býður upp á fjölmörg tækifæri, ekki spurning, en þetta er kannski full „hlaðin“ fullyrðing fyrir minn smekk.
 • „Endurskipuleggja þarf hagkerfið til að tryggja stöðugleika þess þegar áframhaldandi vöxtur er útilokaður“, Fyrir það fyrsta efast ég nú um að áframhaldandi vöxtur sé útilokaður, að minnsta kosti ekki í sjáanlegri framtíð – og gæti meira að segja rifjað upp fullyrðinguna sem ég vísa til hér á undan, en gott og vel, aðallega er ég engu nær um hvernig hvað þetta þýðir eða hvernig endurskipulagningu er verið að tala um.
 • „Óhefðbundnar lækningar fái sama vægi í kerfinu og hefðbundnar, takist að sýna fram á jákvæða virkni þeirra með vísindalegum hætti“. Ég veit ekki hvort þetta er tilraun til að vera með marklaust hjal til að friða einhverja rugludalla í flokknum. En þetta er fullkomlega merkingarlaus setning. Ef hægt er að sýna fram á jákvæða virkni meðferðar með vísindalegum hætti þá kallast það „hefðbundnar lækningar“. Þar fyrir utan sé ég ekki hvernig það samrýmist hugmyndafræði flokksins að vera með málamiðlanir á milli staðreynda og hindurvitna.
 • „En þegar það kemur að því að setja hömlur á internetið, njósna um borgara og takmarka aðgengi þeirra að upplýsingum, þá er það undantekningalítið í nafni höfundarréttar“. Fyrirgefið, en hvaða rugl er þetta? Á hvaða upplýsingum byggja svona fullyrðingar? Er takmarkað aðgengi í Kína vegna höfundarréttar? Ég man líka eftir langri og hallærislegri og arfavitlausri umræðu um klám nýlega sem hafði ekkert með höfundarrétt að gera. Í þeirri umræðu stóðu forsvarsmenn eins flokks sig mjög vel, flokks sem kallar sig „Pírata“.

Höfundarréttur er eitt af mest áberandi atriðum hjá Pírötum. Ég er mjög ósáttur við ólöglegt niðurhal efnis. Hitt er staðreynd að þetta er eitthvað sem er vonlaust að koma í veg fyrir. Breytingar á höfundarréttarlögum eru nauðsynlegar.. en út frá réttum forsendum. Nafnið, sem við skulum koma að síðar, vísar í forsendur sem ég er ekki sáttur við. Og ætti ekki leyfa fólki að greiða atkvæði um lög um höfundarrétt?

Tjáningarfrelsi, frelsi einstaklingsins eru stórmál hjá Pírötum. Sem er gott. En ég sakna aðgerða, td. varðandi tjáningarfrelsi. Hitt er að þeir virðast vera nánast alfarið á móti heimildum lögreglu til að rannsaka mál. Ekki misskilja, þeim heimildum þurfa að vera settar strangar skorður og um þær eiga að gilda stífar reglur. En þær þurfa að vera til staðar. Því, eins og dæmin sanna, þá hafa ofbeldismenn og glæpahópar svipt fólk frelsi í skjóli þess að heimildir til rannsókna eru takmarkaðar. Ég er til dæmis ekki á móti vændi í sjálfu sér, en mér finnst sjálfsagt að meðhöndla þá sem stunda mansal (nánast) eins og morðingja. Heimildir lögreglu til rannsókna eru mikilvægar til að tryggja frelsi þeirra kvenna sem lenda í þessum glæpalýð.

Annað sem ég á hvað erfiðast með að komast yfir er að þrátt fyrir að mikið sé lagt upp úr að upplýsingar séu forsendur ákvarðana hafa margir forsvarsmenn Pírata talað fyrir skoðunum sem stangast á við þekktar upplýsingar.

Það er ekki undarlegar skoðanir sem stangast á við upplýsingar sem trufla mig. Jú, auðvitað talsvert, en það er ekki það versta. Það sem truflar mig er að flokkur sem leggur þá grunnlínu að upplýsingar séu bestu forsendur skuli flagga svo mörgum talsmönnum sem virðist fullkomlega ófærir um að vinna úr upplýsingum, styðja þess í stað hindurvitni, órökstuddar hugmyndir og það sem einu sinni var kallað „kellingabækur“ (og er ekki hugsað hér í einhverri kynja merkingu).

Þannig að áður en ég get mögulega kosið Pírata vildi ég gjarnan fá hvort einhver frambjóðandi, amk. sem er ofarlega á lista og í þingsætis eða varaþingsætisfæri, talar fyrir

 • því að ekki skuli bólusetja börn
 • banni við ræktun á erfðabreyttum matvælum
 • kukli, svokölluðum „óhefðbundnum lækningum“
 • því að kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum séu samsæri
 • því að mögulega sé heiminum stjórnað af einhvers konar eðlufólki

Afsakið, en svona tal gengur ekki í flokki sem kennir sig við upplýsingar.

Og ég get einfaldlega ekki fjallað um Pírata án þess að koma að nafninu. Forsvarsmenn flokksins hafa vissulega svarað fyrir skelfilegt nafnið. En það truflar mig samt. Þetta virkar einfaldlega á mig svona eins og að kalla flokk „Þjófaflokkinn“ og bæta svo við, „en við erum reyndar hætt að stela“. Þetta vísar nefnilega til ólöglegs athæfis, hreinlega þjófnað á höfundarrétti. Þá er nafnið ofur hallærislegt – í rauninni miklu hallærislegra á íslensku en á öðrum tungumálum. Tilvísunin er skýrð með því að þetta vísi til „systurflokka“ erlendis en þetta eru einfaldlega nánast óþekktir flokkar hér á landi og tilvísunin sem slík því einskis virði. Þannig ber þetta val ekki vitni um góða dómgreind. Nafnið er vont, mjög vont, en gott og vel.. þetta er kannski ekki aðalatriðið, ég skal ekki láta þetta vera úrslitaatriði.

Já, og ég skal heldur ekki tala um kjánahrollinn sem ég fæ þegar þau tala um „kapteina“.

En þrátt fyrir öll þessi neikvæðu atriði, þá er ég ekki alveg viss – mögulega eru þetta „byrjunarörðugleikar“ – þeas. reynsluleysi – og kannski er gott að fá nýja og ferska hugsun.

[smá uppfærsla]

Eftir smá umhugsun og að skoða umræður þá fer atkvæði mitt annað að þessu sinni. Ég var reyndar mjög ánægður með mörg svaranna, Björn Leví, Jón Þór, Tómas og fleiri – Helgi að mestu leyti þó mig vanti nú eiginlega eitt svar. Þannig var ég nú kominn á það að kannski ætti atkvæði mitt heima hjá Pírötum eftir allt saman.

Á móti kom að ég fékk videó svar frá tveimur frambjóðendum sem var ekki bara byggt á því að fara rangt með það sem ég sagði, heldur einnig einhvers konar útúrsnúningum á umræðunni, svara einu málefni með því að tala um annað… Og minnti mig óþægilega á taktík gamalla „ræðuhunda“ á þinginu.

Píratar eru vissulega áhugaverður kostur og nálgun þeirra verður góð viðbót og tilbreyting á komandi þingi. Það stefnir í að þeir fái nokkur þingsæti, sem er gott. Ég er hins vegar á því að þar séu of margir sem ekki eru færir um að vinna eftir hugmyndum flokksins og eiga ekkert erindi á Alþingi. Ég ætla því að styðja annan valkost.