Umburðarlyndi fyrir sumum skoðunum

Posted: mars 7, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, , ,

Það er eins og umburðarlyndi gagnvart bæði hegðun og skoðunum falli í tvo ólíka flokka.

Nýlega kom kona í sjónvarpsfréttum og sagðist ekki hafa látið bólusetja barnið sitt vegna (órökstudds) ótta við einhverfu. Konan var (eðlilega) gagnrýnd harðlega, ekki bara fyrir órökstudda skoðun heldur fyrir stórhættulega hegðun.

Í langflestum tilfellum var sú gagnrýni málefnaleg og hófstillt – gekk út á að benda á hversu hættulegt þetta getur verið og hversu lítill fótur er fyrir afstöðu konunnar.. það má eflaust finna dæmi um að einhver hafi notað harkaleg lýsingarorð en það voru undantekningar og skipta litlu.

Samt tók þingmaður Pírata til máls á þingi og gagnrýndi umræðuna.. líkti umræðunni við viðbrögðin við ellefta-september. Hvernig viðkomandi þingmaður gat mögulega tengt ofsafengin viðbrögð ríkisstjórna út um allan heim við örfáar athugasemdir á Facebook og bloggfærslum er mér enn hulin ráðgáta.. en þetta er svona dæmigerð „guilt-by-association“ rökleysa. Nefna eitthvað ógeðfellt í sama orðinu og reyna að búa til einhvers konar tengsl.

Gefum okkur að konan hefði hagað sér jafn hættulega.. en sú hegðun hefði ekki verið byggð á einhvers kuklara speki. Segjum að konan hefði leyft ungum börnum sínum að leika sér með hlaðna skammbyssu (reykja sígarettur, keyra bíl, leika sér að eldi…) og réttlætt hegðun sína í sjónvarpsviðtali – hegðun sem stofnar börnum hennar og börnum annarra í hættu.

Gefum okkur að konan hefði fengið nákvæmlega sömu gagnrýni.

Ég velti fyrir mér hvort einhver þingmaður hefði tekið til máls og gagnrýnt umræðuna með tilvísun í ellefta-september?

Nei, ég þarf ekkkert að velta því fyrir mér.. ég er viss um að það hefði ekki gerst.

Lokað er á athugasemdir.