Posts Tagged ‘Kukl’

Það er eins og umburðarlyndi gagnvart bæði hegðun og skoðunum falli í tvo ólíka flokka.

Nýlega kom kona í sjónvarpsfréttum og sagðist ekki hafa látið bólusetja barnið sitt vegna (órökstudds) ótta við einhverfu. Konan var (eðlilega) gagnrýnd harðlega, ekki bara fyrir órökstudda skoðun heldur fyrir stórhættulega hegðun.

Í langflestum tilfellum var sú gagnrýni málefnaleg og hófstillt – gekk út á að benda á hversu hættulegt þetta getur verið og hversu lítill fótur er fyrir afstöðu konunnar.. það má eflaust finna dæmi um að einhver hafi notað harkaleg lýsingarorð en það voru undantekningar og skipta litlu.

Samt tók þingmaður Pírata til máls á þingi og gagnrýndi umræðuna.. líkti umræðunni við viðbrögðin við ellefta-september. Hvernig viðkomandi þingmaður gat mögulega tengt ofsafengin viðbrögð ríkisstjórna út um allan heim við örfáar athugasemdir á Facebook og bloggfærslum er mér enn hulin ráðgáta.. en þetta er svona dæmigerð „guilt-by-association“ rökleysa. Nefna eitthvað ógeðfellt í sama orðinu og reyna að búa til einhvers konar tengsl.

Gefum okkur að konan hefði hagað sér jafn hættulega.. en sú hegðun hefði ekki verið byggð á einhvers kuklara speki. Segjum að konan hefði leyft ungum börnum sínum að leika sér með hlaðna skammbyssu (reykja sígarettur, keyra bíl, leika sér að eldi…) og réttlætt hegðun sína í sjónvarpsviðtali – hegðun sem stofnar börnum hennar og börnum annarra í hættu.

Gefum okkur að konan hefði fengið nákvæmlega sömu gagnrýni.

Ég velti fyrir mér hvort einhver þingmaður hefði tekið til máls og gagnrýnt umræðuna með tilvísun í ellefta-september?

Nei, ég þarf ekkkert að velta því fyrir mér.. ég er viss um að það hefði ekki gerst.

Heimtið skaðabætur

Posted: mars 5, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:,

En það hefur verið allt of mikill sofandaháttur gagnvart sölumennsku á hvers kyns kukli – enn eru allt of margir sem vilja hafa „opinn huga“ – eða halda að eitthvað af þessu „gæti nú virkað“. Vonandi verður umfjöllun síðustu daga til að fólk taki þessari sölumennsku með gagnrýnum huga.

Ég velti samt fyrir mér…

Sá sem selur gallaða vöru er ábyrgur fyrir því sem hann er að selja.. kaupandi á skilyrðislaust rétt á skaðabótum. Sama gildir til dæms í fasteignaviðskiptum, sá sem selur fasteign með leyndum göllum – jafnvel í góðri trú – getur átt von á kröfu um bætur. Bílar eru skoðaðir fyrir sölu og sama gildir oft um fasteignir.

Nú þekki ég ekki alla lagakróka, sumir sölumenn heilsuvörunnar virðast taka stundum fram að þeir lofi ekki lækningu. En þeir virðast flestir gefa villandi upplýsingar.. í þeim tilgangi einum að pranga einhverju rusli inn á fólk sem ekki hefur næga þekkingu eða er einfaldlega nægilega örvæntingarfull til að reyna hvað sem er:

  • reynslusögur sem ekki eru staðfestar og sanna hvort eð er ekki neitt
  • fullyrðingar um eðli- og eða efnafræði sem stangast jafnvel á við náttúrulögmál
  • fullyrðingar um samsæri gegn stórsnjöllum uppfinningamönnum sem geta læknað hvað sem er

Þetta er svo auðvitað sérstaklega lúalegt þegar verið er að spila á neyð og örvæntingu langveikra og jafnvel dauðvona einstaklinga og hafa þannig af þeim fé og tíma, koma í veg fyrir mögulega lækningu og/eða takmarka lífsgæði enn frekar.

Þannig vil ég skora á þá (eða ættingja þeirra) sem hafa orðið fyrir barðinu á óprúttnum sölumönnum að einfaldlega í mál við þá sem seldu þeim draslið. Heimtið skaðabætur, farið í mál, sækið rétt ykkar.

Ef lögin eru ekki nægilega skýr til að hægt sé að dæma skaðabætur, þá þarf að drífa í að breyta lögunum.

Kukl á ríkisspenann?

Posted: nóvember 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Nú liggur fyrir Alþingi tillaga um að kuklarar fái starfsemi sína niðurgreidda eins og um heilbrigðisþjónustu sé að ræða.

Ég óttast að þetta sé ekki svefngalsa brandari hjá þingmönnum heldur sé þarna verið að tala í fullri alvöru.

Nú geri ég mér grein fyrir að ríkið styður myndarlega starfsemi sem byggir á hindurvitnum og fyrirbærum sem engin leið er að sýna fram á – en þar eru notuð (vond) söguleg rök. Og líkast til líður ekki á löngu áður en það verður lagt af.

En að ríkið fari að styðja kukl er með ólíkindum.

Hvernig dettur fólki í hug að láta ómenntað fólk sem hvergi hefur sýnt fram á að aðferðir þess virki fara að stunda „lækningar“ á kostnað ríkisins?

Þetta er jafn galið og að fela ómenntuðu fólki að byggja mannvirki, stjórna samgöngutækjum eða sinna hvers konar annarri starfsemi án þess að hafa sýnt fram á nokkra færni eða árangur.

Ætli þetta fólk þori að fara upp í flugvél með einhverjum sem hefur aldrei tekið flugmannspróf en hefur lesið sér til um góðar reynslusögur af flugi?

Skyldu þau þora að fara yfir brú sem hefur verið byggð af fólki með reynslusögur?

Þetta er ekki bara heimskulegt. Þetta er lífshættulegt. Um leið og ríkissjóður fer að gefa svona vinnu „gæðastimpil“ er hætta á að fleiri hafni alvöru lækningum og leiti til kuklara.

En á hinn bóginn, kannski er þetta bara þróunarkenningin í verki…