Sarpur fyrir október, 2016

Takk fyrir stuðninginn

Posted: október 30, 2016 in Umræða
Til þeirra ykkar sem mættuð á kjörstað og kusu Pírata (og þar með Viktor Orra)..
 
Takk!
 
Það munaði grátlega litlu að Viktor Orri næði kjöri – en það er eins og það er… ég sannfærður um að hann hefði nýst þinginu vel á næsta kjörtímabili, en hann á heldur betur framtíðina fyrir sér, við þurfum hann (og hans líka) á þing til að ná fram breytingum.

Að melta kosningaúrslitin

Posted: október 30, 2016 in Umræða

Það er kannski full snemmt að melta kosningaúrslitin.

Nokkur atriði koma samt strax upp í hugann.

Ríkisstjórnarflokkarnir voru aldrei að fara að tapa eins miklu og leit út fyrir í sumum könnunum – og Píratar voru aldrei að fara að fá um, hvað þá yfir, 25%.

Ég hef fylgst með kosningum í næstum fimmtíu ár, ég hef oft séð kannanir gefa miklar breytingar til kynna en þegar nær dregur dettur fylgið nær fyrri kosningum. Besti flokkurinn er reyndar að einhverju leyti undantekning.

En það kemur margt til, margir eru óánægðir og vilja ekki svara – enda yfirleitt margir óákveðnir. Aðrir nota kannanir til að sýna óánægju en eru í rauninni alltaf að fara kjósa gamla góða flokkinn.

Kosningamaskínur gömlu flokkanna ná líka til nægilegra marga á endanum sem eru að velta fyrir sér að breyta til.

Þannig er í besta falli skondið að sjá rassskelltan Framsóknarflokkinn stæra sig af því að hafa ekki fengið eins hrikalega útreið og kannanir sýndu þegar fylgið var minnst. Jú, eflaust hefur eitthvað hjálpað að skipta um formann, en flokkurinn á of sterkar rætur til að fara mikið meira niður í einni atrennu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur eflaust fengið eitthvert fylgi frá Framsóknarflokknum, þeir sem gleyptu hræðsluáróðurinn, þeir sem telja gott efnahagsástand fyrri ríkisstjórn að þakka en gátu ekki hugsað sér að kjósa flokkinn eftir klúður fyrri formanns.

Það voru heldur aldrei nægilega margir að fara að vera tilbúnir í breytt viðhorf Pírata. En Píratar hefðu sennilega verið nær 20% ef ekki hefði komið tvennt til. Óskiljanlegt klúður í atkvæðagreiðslu um búvörusamninginn sló þau út af borðinu hjá mörgum. Og hitt er, að það fer ekki vel fyrir flokk sem boðar beint og virkt lýðræði að hafa sterkan leiðtoga, sama hversu öflugur sá leiðtogi er. Og reyndar sérstaklega ekki ef sá leiðtogi er með stórkarlalegar, klaufalegar yfirlýsingar sem ganga þvert á vilja flokksmanna – sama hversu ómerkilegt málið er, þetta fældi marga frá.

Viðreisn var alltaf góður kostur fyrir þá sem ættu kannski heima í Sjálfstæðisflokki en hefur blöskrað framkoma forystumanna flokksins – og eflaust hafa einhverjir fyrrum stuðningsmenn Samfylkingar fundið þetta sem góðan valkost. Í rauninni hefði ekki komið á óvart þó þau hefðu náð enn betri kosningu – og ef þau klúðra ekki stjórnarmyndun þá ættu þau að geta bætt við sig fylgi í framtíðinni.

Ég skil ekki hvers vegna Vinstri græn auka fylgi sitt (væntanlega) á kostnað Samfylkingarinnar. Jú, viðkunnanlegur leiðtogi, en það sem í rauninni skilur flokkana að þegar á reynir er ákveðin forpokun og forsjárhyggja VG, nokkuð sem er skrýtið að heyra á tuttugustu og fyrstu öldinni. Ég skil heldur ekki hvers vegna Björt framtíð er yfirleitt með sérstakt framboð.. jú, fínn formaður en það er örugglega meiri ágreiningur innan td. Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks, en á milli Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og jafnvel Vinstri grænna.

En aðallega er ég verulega fúll út í þá sem skiluðu sér ekki á kjörstað og hefðu getað komið Viktori inn á þing, það vantaði svo grátlega lítið upp á..

Eitt að lokum á kjördag…

Þetta snýst ekki lengur um að halla mismunandi mikið til hægri eða vinstri né blæbrigði tóna í bláa/græna/rauða litrófinu.

Þetta snýst ekki um hræðsluáróður, kökubakstur, klisjur, fljótfærni, drullumallsdreifingu, minni háttar mistök eða allt-í-einu-viðkunnanlega gæja í auglýsingum.

Þetta snýst um nýja nálgun, ný viðhorf, nýjar aðferðir og breytt hugarfar. Þetta snýst um fólk sem hlustar jafn mikið og það talar – og er fært um að ræða málin, taka rökum og jafnvel viðurkenna mistök ef svo ber undir.

Þess vegna kýs ég Pírata… þó ég sé ekki sammála þeim í einu og öllu.

Ég hendi sem sagt gráðuboganum og kveiki ljósin.

Góð kosningaráð

Posted: október 28, 2016 in Umræða

Nokkur af bestu ráðum sem ég á fyrir kjósendur á morgun.

Kjóstu!

Það þýðir reyndar ekki að þú eigir að fara á kjörstað og krossa við einhvern flokk af gömlum vana.

Að kjósa krefst þess að kynna sér hvaða valkostir eru í boði og velja. Ef þú nennir því ekki, sittu heima og leyfðu okkur sem nennum að hugsa að ráða.

Atkvæðið þitt skiptir máli. Það er reyndar sjaldgæft að eitt einasta atkvæði skipti máli, en það hefur komið fyrir – og um leið og fleiri en einn byrja að hugsa á þá leið að atkvæðið skipti ekki máli, þá fara þau að skipta verulega miklu máli.

Þannig að, kjóstu!

Ekki gera ráð fyrir að þú finnir eitthvert framboð þar sem þú ert sammála hverjum einasta frambjóðanda í hverju einasta máli – og líka um forgangsröðunina.

Veldu frekar framboð sem hefur skynsama stefnu í sem flestum málum og umfram allt, hlustar á rök og tekur mark á upplýsingum, hvort sem þær henta upphaflegri skoðun eða ekki.

Hafðu vara á ódýrum kosningaloforðum. Farðu varlega í að treysta framboðum sem hafa verið í stjórn og ætla allt í einu að fara að skipta um stefnu. Hafðu líka fyrirvara á vel meinandi áherslum og loforðum ef ekki fylgir trúverðug leið til að ná markmiðunum.

Láttu hvers kyns hræðsluáróður sem vind um eyru þjóta, framboð sem hefur ekki annað fram að færa en að reyna að hræða þig er ekki mikils virði.

Það er allt í lagi að hafa varann á frambjóðendum sem eru ekki trúverðugir og hafa langa sögu af vafasamri hegðun.. en ekki falla í að hengja þig á einhver smáatriði sem drullumallarar andstæðinganna hafa verið að slengja fram. Það er enginn svo fullkominn.

Á sama hátt borgar sig kannski að gefa lítið fyrir „sauðargærur“ auglýsingastofanna. Frambjóðandi sem lítið hefur sést nema sem yfirlætisfullur og hrokafullur valdamaður er allt í einu farinn að birtast á skjánum sem vingjarnlegur og heimilislegur einstaklingur… tja, það er kannski ekki endilega heiðarleg ímynd sem er verið að kynna.

Það er líka allt í lagi að kjósa framboð þó þér líki ekki við einhvern frambjóðanda. Það er einfalt að strika út eða breyta röð.

Ekki trúa klisjunni um að útstrikanir breyti engu, þær telja nákvæmlega jafn mikið og atkvæðið þitt.. geta jafnvel haft meira vægi.

Það er ömurlegt að kosningakerfið skuli gera smá framboðum erfitt fyrir. En það er staðreynd, ömurleg staðreynd, en staðreynd. Atkvæði til framboðs sem á ekki möguleika getur hæglega verið atkvæði sem er kastað í ruslið. Sennilega myndu þeir flokkar, sem eru langt frá því að ná inn þingmanni, gera best með því að styðja framboð sem vill laga þennan galla kosningalaganna og gera öllum framboðum jafnt hátt undir höfði.

Því miður, en staðreynd.

Þannig að kjóstu, en gerðu það með hausnum.. og vertu tilbúin(n) að taka því sem þú færð.

Stjórnmálaflokkabullur

Posted: október 26, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég hef illa fundið mig í pólitík sem sést kannski best á því að heitustu stuðningsmenn svokallaðra hægri flokka úthrópa mig sem vinstri mann og afgreiða allar mínar skoðanir á þeim forsendum. Á sama hátt eru þeir sem kenna sig til vinstri í stjórnmálum löngu búnir að stimpla mig sem einn af hægri sinnuðu „óvinunum“.

Þetta er fínt, ég vil ekki vera tjóðraður á einhverja flokkslínu til eilífðar og þurfa að verja hvaða vitleysu sem er þar til ég verð blár í framan (eða marinn á fingurgómum).

Það sem ég get svo ekki fyrir mitt líf skilið er að skynsamasta fólk virðist hengja sig og sína sjálfsvirðingu á ákveðinn stjórnmálaflokk – svona eins og aðdáendur fótboltaliðs.. og haga sér eins og verstu fótboltabullur.

Gott dæmi er moldviðrið sem þyrlað var upp yfir ætluðum blekkingum eins frambjóðanda um menntun. Við nánari skoðun kom í ljós að lykilatriði hafði verið klippt úr skjáskoti að því er virðist eingöngu til að blekkja, þetta var tíu ára gömul skráning á vefsíðu sem bauð upp á takmarkaða möguleika og auðvelt að sjá af samhenginu hver rétt staða var.

Fullt af fólki hefur verið að fara hamförum á samskiptamiðlum yfir þessu.

Ég man ekki til að þeir hinir sömu hafi haft sig mikið í frammi við að gagnrýna það að forystumenn ríkistjórnarflokkanna létu vera að upplýsa að þeir og/eða makar áttu stórar eignir í skattaskjólum og verið í hópi kröfuhafa á bankana. Það er svona frekar að viðkomandi hafi vorkennt mönnum að upp um þá komst og séð samsæri í hverju horni. Ekki man ég til að viðkomandi hafi heldur haft orð á vafasamri skráningu á menntun „þeirra“ manna.

Mér þykir menntunarskráning frambjóðenda á LinkedIn ómerkilegt atriði og hefði varið hvern þann frambjóðanda í hvaða flokki sem er í sömu stöðu.

Mér þykir óboðlegt að frambjóðendur geri ekki grein fyrir eigum í skattaskjólum [hvort sem þeir segjast hafa greitt skatt eða ekki og hvort sem þeir segjast hafa fylgst vel með] og mér finnst óverjandi að gera ekki grein fyrir hagsmunatengslum við kröfuhafa bankanna. Og ég hefði tekið heilshugar undir gagnrýni á frambjóðendur hvar í flokki sem þeir væru.

Allt annað er óboðlegur pólitískur bullugangur. Og mig langar að biðja þá sem eru í þeim leik að láta mig í friði fram yfir kosningar… og eiginlega að sleppa því að ræða við mig um stjórnmál yfirleitt.

Mig langar að beina þessari færslu til tónlistarmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta vegna höfundarréttar.

Ég efast um að margir hafi þrasað eins mikið við Pírata um höfundarréttarmál og ég hef verið að gera síðustu árin.

Samt ætla ég að kjósa Pírata í komandi kosningum.

Að miklu leyti vegna þess að það hefur orðið talsverð hugarfarsbreyting hjá þeim flestum, ef ekki öllum sem eru nálægt því að komast inn. Ný stefna í höfundarréttarmálum er langt frá því að vera gallalaus en hún er mikil framför frá fyrri yfirlýsingum.

En aðallega vegna þess að það er hægt að ræða málin og þau taka upplýsingum og þau taka rökum.

Þá má ekki gleyma að þau standa fyrir mjög mikilvæg málefni, þar sem stjórnarskráin er efst á blaði. Næsta þing á hvort sem er ekki eftir að skipta sköpum í höfundarréttarmálum, en það gæti skipt sköpum í mörgum lykilatriðum.

Nú veit ég ekkert hvort ykkur (sem ég nefndi í upphafi) hugnast yfirleitt að kjósa Pírata í næstu kosningum. En að minnsta kosti ef þetta er eina atriðið sem stóð í veginum, þá er það ekki lengur tilefni til að neita að kjósa Pírata. [nei, ekki heldur hallærislegt nafn, eða sagan á bak við það]

sitja í bát sem er að sigla í strand og nenni ekki að grípa í stýrið vegna þess að það sé ekki alveg öruggt að það breyti neinu.

Klisjur eins og

.. að eitt atkvæði breyti ekki neinu ganga ekki upp því að um leið og tuttugu kjósendur hugsa (og haga sér) þannig getur það breytt öllu, munað því hvort framboð komist yfirleitt inn á þing.

.. að það sé sami rassinn undir þeim öllum stóðst ekki skoðun þegar lítið annað var í boði en svokallaður fjórflokkur, og er hreint og klárt kjaftæði í komandi kosningum þegar mikið úrval er af framboðum sem bjóða allt aðra sýn á stjórnmálin og allt aðra nálgun við framkvæmd fyrirliggjandi verkefna.

Þetta eru einfaldlega lélegar afsakanir fyrir leti og framtaksleysi.

 

Núverandi ríkisstjórn eyddi talsverðu púðri í að hrósa sér fyrir „svokallaða“ skuldaleiðréttingu, kannski hefði mátt nota meiri orku í að vinna leiðréttinguna betur.

Þess vegna langar mig til að biðja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að svara nokkrum lykilspurningum um tölfræði vegna þessarar aðgerðar – og já takk, fá nákvæmar tölur, studdar af gögnum.

  1. hversu margir urðu fyrir „forsendubresti“ vegna lána þegar lánskjaravísitalan snarhækkaði eftir hrun? [hér á ég við alla, ekki eingöngu þá sem keyptu húsnæði]
  2. hversu margir þeirra fengu leiðréttingu?
  3. hversu margir þeirra eru betur settir eftir leiðréttingu, þeas. þegar tekið hefur verið tillit til annarra breytinga, svo sem vaxtabóta?
  4. hversu margir fengu „leiðréttingu“ þrátt fyrir að laun þeirra hafi haldið í við vísitölu frá því að lán var tekið?
    1. til þess tíma sem leiðréttingin var afgreidd
    2. til dagsins í dag
  5. hversu margir fengu „leiðréttingu“ þrátt fyrir að eignir þeirra hafi haldið í við vísitölu frá kaupum?
    1. til þess tíma sem leiðréttingin var afgreidd
    2. til dagsins í dag

Það eru (næstum því) allir að bjóða upp á einhvers konar kosningaáttavita fyrir komandi kosningar. Þeir geta svo sem verið skemmtilegir en það er alltaf þess sem stillir upp að ákveða spurningarnar og svo geta svör og vægi þeirra ekki alltaf gefið nákvæma mynd.

Þannig að ég ætla að láta miklu einfaldari og öruggari – enda mín flokkun miklu betri en hinna!

Fyrir það fyrsta, ertu fordómafull(ur), kannt illa að vinna úr upplýsingum, raisisti, er auðvelt að spila með þig með hræðsluáróðri, hrædd(ur) [að ástæðulausu] við fólk af öðrum uppruna, tekur ekki sönsum þegar þér er bent á rökleysur, telur þig þjóðrækna/rækinn (þó þú getir ekki skrifað heila setningu óbrenglaða á íslensku) og hafnar öllum upplýsingum sem falla ekki að fyrirfram gefinni skoðun?

Ef svarið er „já“

  • þá er einhver flokkur sem reynir að kenna sig við þjóðfylkingu sem þú ættir kannski að kjósa.. og já, eiginlega endilega kasta atkvæðinu þínu á glæ þar, frekar en að styðja einhvern hálfvolgan stuðningsmanna útlendingafodóma.

En svarið er væntanlega „nei“ (amk. ef þú ert að lesa færslu frá mér).

Þá er næsta spurning hvort þú sért ánægð(ur) með núverandi ríkisstjórnarflokka, finnst kjörið að lækka gjöld fyrir notkun auðlinda, sjálfsagt að svíkja kýrskýr kosningaloforð, finnst fín mótþróaröskun þeirra varðandi nýja stjórnarskrá í stað bráðabirgða plaggsins frá 1944, telur gott mál að ríkissjóður styrki fólk vegna „forsendubrests“ lána sem ekki hefur orðið fyrir neinum forsendubresti en skilji þá sem raunverulega urðu fyrir forsendubresti úti á köldum klaka, finnst sjálfsagt að þingmenn skerði kjör öryrkja og aldraðra á meðan þeir þiggja sjálfir hærri laun, finnst ekkert að því að einn milljarður sé talinn „ekki-svo-mikill“ peningur þegar verið að er að lækka gjöld á þá sem nýta sameiginlegar auðlindir en hefur ekki hugmynd um hvert á að sækja fé í heilbrigðiskerfið, ert sátt(ur) við síhækkandi greiðslur til ríkisrekinnar kirkju og daðrar við útlendingahatur og kynþáttaforóma?

Ef svarið er „já“, þá er þetta væntanlega spurning um annan ríkisstjórnarflokkanna.

Ef þér finnst ekkert að því að stjórnmálamenn séu ítrekað staðnir að hreinum og klárum ósannindum, hafi lítið fram að færa annað en að velta sér upp úr vænisýki og standi í stöðugu stríði við alla fjölmiðla (aðra en þá sem þeir eiga), séu ítrekað staðnir að fáfræði og umfram allt duglausir þegar kemur að því að koma einhverju í verk

Ef svarið er „já“

þá er um að gera að kjósa Framsóknarflokkinn – en ekki telja þér trú um að þú sért að kjósa „hina“ frambjóðendur flokksins (sem vissulega eru margir hverjir ágætir) því þeir njóta allir atkvæða á landsvísu.

Ef svarið er „nei“, þá áttu sennilega ekki aðra valkosti en Sjálfstæðisflokkinn.

En ef svarið er „nei“ (við stuðningi við núverandi ríkisstjórnarflokka), þá vandast málið eitthvað.

Ef þú þekkir einhvern, eða ert sjálf(ur) í framboði fyrir einhvern smáflokkanna sem lítur ekki út fyrir að sé nálægt því að ná kjöri, nú eða telur það framboð standa nákvæmlega fyrir þín gildi,  þá er bara að kjósa þann flokk. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um stóran mun á þeim, svona almennt séð virðist þetta ágætis fólk og vel meinandi en með mismunandi raunhæfar hugmyndir og áherslur. En þeir eiga það sameiginlegt að eiga ekki alvöru möguleika á að ná manni á þing. Það er ósanngjarnt, ömurlegt og ólýðræðislegt. En það er staðreynd. Ef þú vilt gefa út stuðningsyfirlýsingu við eitthvert þessara framboð, þá verður að hafa það.. en þú ert um leið búin(n) að fyrirgera rétti til að kvarta og kveina yfir vondum stjórnvöldum næsta kjörtímabil.

En ef ekki, þá eru enn nokkrir kostir í stöðunni.

Ef þú ert gamaldags (já, ég nota þetta vísvitandi í neikvæðri merkingu) vinstri kona/maður höll/hallur undir verulega ríkisforsjá, finnst ekkert að því að velta upp hugmyndum um netlögreglu, gerir sjálfkrafa ráð fyrir að flest fyrirtæki séu rekin af ljótu-köllunum og trúir hverju sem er gagnrýnislaust þegar að þeim kemur, treystir frambjóðendum VG betur en sjálfum/sjálfri þér til að ákveða hvað þú mátt kaupa hvar og hvenær – og/eða ef þú ert ákafur umhverfisverndarsinni, nema auðvitað það þurfi að koma peningum heim í kjördæmi… ja, þá eru Vinstri grænir nokkuð augljós kostur.

Ef þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en ert búin(n) að missa allt traust til þeirra, þolir ekki forpokaða Evrópustefnu og fékkst nóg þegar flokkurinn sveik kosningaloforðin eftir síðustu kosningar, tja, þá liggur Viðreisn nokkuð vel við „x-i“. Reyndar gæti viðreisn hentað mörgum, hafa til að mynda gefið upp að þeir vilji fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Ef þér finnst mikilvægt að staðfesta nýja stjórnarskrá, bæði vegna þess að það er táknræn aðgerð um vilja til að breyta og koma í veg fyrir mistök.. og ekki síður vegna þess að sú gamla er stagbætt bráðabirgðaplagg frá 1944 sem stenst ekki innbyrðis skoðun og er illa götótt þegar kemur að mörgum lykilatriðum, finnst skipta töluverðu máli að stjórnarskráin sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu taki gildi, ef þér finnst mikilvægt að fá nýja nálgun í stjórnmál, ef það er ekki sjálfsagt að ríkissjóður reki trúfélag, ef þér finnst mikilvægt að þingmenn taki gagnrýni þannig að hún sé til að læra af, ef heilbrigðismálin skipta einhverju, ef aðgangur að sameiginlegum auðlindum er einhvers virði, hugmyndir um aukið beint lýðræði hljóma vel og talsvert bætt stefna í höfundarréttarmálum truflar ekki of mikið.. ja, þá held ég að Píratar séu augljós valkostur, þau eru það að minnsta kosti fyrir mig.

Nú, ef ekki, þá eru einn eða tveir valkostir eftir, því sennilega er ekki rétt að telja Bjarta framtíð með smáflokkunum. Ég kann hins vegar í alvöru ekki nægilega góða skýringu á því hvar munurinn liggur milli, kannski myndu frambjóðendur Samfylkingarinnar ekki bulla svona þegar kemur að stóriðju og hafa eitthvað meiri þekkingu á sögunni.

Ekki svo að skilja að það megi ekki taka tillit til þess að flest framboðin eru með einhvers konar blöndu af annars vegar öflugu og heiðarlegu fólki sem bæði vill gera vel og getur gert vel og hins vegar fólki sem kann ekki að vinna úr upplýsingum, er fordómafullt og lítur á stjórnmálin sem stanslaus átök og baráttu. Hlutföllin virðast óneitanlega mismunandi milli framboða, en ræður varla úrslitum, nema mögulega í einu tilfelli.

Deilur um hversu mikið af almannafé á að setja til heilbrigðismála eru í rauninni óþarfar.

Annars vegar virðist vera það sjónarmið að það sé á ábyrgð okkar allra að tryggja öllum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Hins vegar heyrist að það þurfi að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og fara sparlega með almannafé.

Ég get alveg tekið undir fyrra sjónarmiðið, þetta er að mínu viti eitt af örfáum hlutverkum sameiginlegra sjóða.

Hitt er… að jafnvel ef við viljum hugsa um stöðu ríkissjóðs, þá er heilmikil skynsemi í því að hafa heilbrigðiskerfið eins gott og nokkur kostur er. Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt til lengdar að hafa þetta í lagi. Það er nefnilega rándýrt að hafa fólk óvinnufært á biðlistum og það kostar sitt að ná ekki að meðhöndla sjúkdóma strax.

Þannig að það skiptir í rauninni ekki máli hvort við lítum á þetta sem samfélagslega ábyrgð eða hvort við metum fjárhag samfélagssins í heild meira.. niðurstaðan er alltaf sú sama.