Posts Tagged ‘höfundarréttur’

Mig langar að beina þessari færslu til tónlistarmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta vegna höfundarréttar.

Ég efast um að margir hafi þrasað eins mikið við Pírata um höfundarréttarmál og ég hef verið að gera síðustu árin.

Samt ætla ég að kjósa Pírata í komandi kosningum.

Að miklu leyti vegna þess að það hefur orðið talsverð hugarfarsbreyting hjá þeim flestum, ef ekki öllum sem eru nálægt því að komast inn. Ný stefna í höfundarréttarmálum er langt frá því að vera gallalaus en hún er mikil framför frá fyrri yfirlýsingum.

En aðallega vegna þess að það er hægt að ræða málin og þau taka upplýsingum og þau taka rökum.

Þá má ekki gleyma að þau standa fyrir mjög mikilvæg málefni, þar sem stjórnarskráin er efst á blaði. Næsta þing á hvort sem er ekki eftir að skipta sköpum í höfundarréttarmálum, en það gæti skipt sköpum í mörgum lykilatriðum.

Nú veit ég ekkert hvort ykkur (sem ég nefndi í upphafi) hugnast yfirleitt að kjósa Pírata í næstu kosningum. En að minnsta kosti ef þetta er eina atriðið sem stóð í veginum, þá er það ekki lengur tilefni til að neita að kjósa Pírata. [nei, ekki heldur hallærislegt nafn, eða sagan á bak við það]

Ég þarf að fara að ákveða hverjum ég greiði atkvæði í prófkjöri Pírata á Stór-Kópavogssvæðinu.

Það er ákveðið „lúxusvandamál“ að mér líst mjög vel á mjög marga frambjóðendur og á eiginlega frekar erfitt með að gera upp á milli.

En nokkur atriði telja mikið fyrir mér og ég er ekki alveg klár á afstöðu allra frambjóðenda til þeirra.

Þannig að mig langar til að setja fram nokkrar spurningar um nokkur atriði sem skipta mig máli.

  1. Ertu fylgjandi því stjórnarskrá stjórnlagaráðs verði samþykkt á næsta þingi?
  2. Ertu fylgjandi því að afnema verðtryggingu?
  3. Ertu fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?
  4. Finnst þér siðferðilega rétt að deila og sækja efni (svo sem tónlist, sjónvarpsþætti, hugbúnað, bíómyndir) í óþökk þeirra sem eiga höfundarrétt þegar hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð og sækja efnið á einfaldan og löglegan hátt? [ég er ekki að spyrja um hvort ykkur finnist að höfundar eigi að bjóða efnið aðgengilegt frítt, ég er ekki að spyrja um hvort / hvernig ætti að framfylgja einhverju hugsanlegu eftirliti og ég er ekki að spyrja um skoðanir á refsingum við brotum] – en þið megið sjálf ákveða hvað er „sanngjarnt verð“ og „einfaldur háttur“

Ósamræmi í málflutningi

Posted: febrúar 6, 2014 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég á marga góða vini, kunningja, spjallfélaga og þess vegna fólk sem líkar ekkert sérstaklega vel við mig.. sem mér finnst hafa ansi undarlegar og, í rauninni, ósamrýmanlegar skoðanir á tveimur málum.. sem eru í rauninni náskyld.

Þá er ég annars vegar að tala um ólöglega dreifingu á höfundarréttarvörðu efni… sem mörgum finnst í góðu lagi vegna þess að ekki sé hægt að koma í vef fyrir dreifingu – og gefa lítið fyrir það hversu siðferðilega rangt það er að taka efni höfunda og dreifa í leyfisleysi. „það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta“, „fólk verður að aðlaga sig að raunveruleikanum“, „höfundarnir verða svo vinsælir að þeir mega bara þakka fyrir“, summera nokkurn veginn upp flest rökin.

Hins vegar er mjög algengt að þessir sömu einstaklingar bregðist heiftarlega illa við því þegar tölvupóstur og önnur trúnaðar gögn einstaklinga eru tekin ófrjálsri hendi og þeim dreift án leyfis viðkomandi. Þá bregður svo við að engu máli skiptir hversu erfitt er að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu, raunveruleikinn er aukaatriði og ekki skiptir máli hvort eigandi fær mikla athygli. Nú skiptir allt í einu öllu máli að taka siðferðilega afstöðu.

Er alveg nógu gott samræmi í þessu?

En hvað Píratar?

Posted: ágúst 16, 2013 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Umræða um höfundarrétt og ólöglega dreifingu efnis er orðin ansi ruglingsleg.

Fyrr í vikunni birtist grein í Fréttablaðinu (muni ég rétt) sem var eflaust vel meint til varnar þeim sem eiga efni sem verið er að dreifa ólöglega. Greinin var því miður ruglingsleg og talsvert af misskilningi og jafnvel rangfærslum.. sem gerði þeim hálfgerðan bjarnargreiða sem ætlunin var væntanlega að styðja.

Talsmaður Pírata svaraði svo eitthvað á þeim nótum að þeir væru ekki bófaflokkur og það þyrfti að ræða málið. Ágætt svar, en kannski frekar efnislítið.

Ég hef rætt þetta og skrifast á við marga Pírata og aðra sem áhuga hafa – og satt best að segja fengið lítið um nothæf svör – langlokur um sögulega hluti sem leysa ekkert og svara engu, sumir tala um að ólögleg dreifing sé nú bara allt í lagi og aðrir hafa hugmyndir sem eru kannski ágætar út af fyrir sig (eins og að stytta tíma eftir lát höfundar).. en breyta engu um eðli málsins.

Þannig að mig langar að ítreka spurningu til Pírata.. og fara fram á skýr svör, í texta, ekki á YouTube, ekki með tilvísun í YouTube efni eða greinar eða hugmyndir annarra. Heldur ykkar eigin svör í læsilegum texta, ef ég má vera svo frekur.

1. Finnst ykkur í lagi að dreifa efni í óþökk höfundar?

(já, ég veit að sumir njóta þess að efni er dreift og já ég veit að það er erfitt að stöðva þetta, en það er ekki spurningin, heldur hvort ykkur finnist þetta í lagi?)

2. Finnst ykkur í lagi að sækja efni sem boðið er upp á ókeypis í óþökk höfundar?

Ég veit að þið hafið talað um að það þurfi að ræða þetta og finna lausnir. Sem er gott, en þið hljótið að hafa einhverjar hugmyndir. Nafnið Píratar vísar (amk. sögulega, ef ég hef skilið rétt) í að vera á móti löggjöf („anti piracy) sem var umdeild, þannig að ef ég skil rétt eruð þið „anti – anti – Piracy“.

Það er í góðu lagi að vera á móti.. en það kostar líka kröfu (frá mér amk.) um að koma með betri hugmyndir.

Hverjar eru ykkur hugmyndir? Ekki niðurnegldar, heldur til umræðu. Í hvað vísar Pírata nafnið?

PS. Og að fenginni reynslu verð ég að ítreka ósk um skýr svör og ekki einhverju spjalli út um víðan völl

Ég sé í dag frétt hjá Rúv um rannsókn sem bendi til að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu á tónlist, sjá http://www.scribd.com/doc/131005609/JRC79605

Ef „rannsóknin“ er skoðuð nánar kemur fram að lítið sem ekkert styður þessar fullyrðingar. Meira að segja er tekið skýrt fram að tekjur af sölu tónlistar hafi minnkað verulega („revenues decrease drastically“). Þá kemur fram að hegðun notenda er mjög mismunandi eftir löndum. 

Þeir segjast reyndar ekki finna nein merki þess að ólöglegt niðurhal hafi áhrif á sölu tónlistar, en það gefur ekki leyfi til að álykta að það sé ekki til staðar. Enda er aðferðin sem þeir beita til að gefa sér að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu beinlínis fráleit.

Í rauninni er þetta frekar einfalt.

Það er engin leið að gefa sér að fólk sem sækir tónlist án þess að greiða fyrir myndi ekki kaupa ef ekki væri hægt að sækja hana ólöglega. Það eru fleiri milljónir eða milljónatugir sem sækja sér tónlist ólöglega. Að gefa sér að enginn þeirra myndi í nokkru tilfelli kaupa þá tónlist sem viðkomandi hefur sótt er eiginlega fráleitt.

Að horfa á lækkandi sölutölur á sama tíma og ólöglegt niðurhal fer sívaxandi og halda því fram að engin tengsl séu þarna á milli er galið.

Ef eitthvað er þá fer „neysla“ á afþreyingarefni vaxandi og því ættu tekjur af tónlist að hafa vaxið gríðarlega ef eitthvað er.

Ég geri ekki lítið úr því að netið hefur opnað dyrnar fyrir óteljandi tónlistarmenn. En það er með þeirra vilja og samþykki.

Þá er líka rétt að hafa í huga að sú aðferð að dreifa tónlist á vefnum, td. í gegnum YouTube, hentar ekki öllum tónlistarmönnum og alls ekki allri tegund af tónlist. Mér sýnist (og hef ég engar rannsóknir til að styðja, heldur er þetta órökstudd tilfinning) að tónlist sé sífellt að verða einhæfari og einsleitari.

Jú, og svo enginn misskilningur sé á ferð… ég vil gjarnan sjá breyttar reglur um höfundarrétt og breytt umhverfi. En ekki bulla í mér með forsendurnar…