Posts Tagged ‘tónlist’

Punk eða ekki punk

Posted: júlí 31, 2016 in Spjall, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég kíkti nýlega á upphitun fyrir punk hátíð.

Eins og svo oft áður þegar ég kíki á hljómsveitir sem kenna sig við punk þá fannst mér eiginlega ekkert rosalega gaman.

Jú, mikill kraftur, ekki vantaði hraðann, rosalega vel æft og spilamennskan var þétt og fumlaus. En… mér fannst bara samt ekkert gaman. Og mér finnst þetta eiginlega rauður þráður í því að mæta og hlusta á punk hljómsveitir. Nei, kannski ekki, það er fullt af skemmtilegum undantekningum – en allt of oft.

Ég hlustaði á tónlist sjöunda áratugarins þegar ég var krakki, aðallega voru það eldri systkini mín sem „fóðruðu“ mig á tónlist. Síðan kom ákveðinn öldudalur, að mér fannst, með svokölluðu „prog-rokki“ annars vegar – sem fyrir mér var uppfullt af tilgangslausum flækjum, sýndarmennsku og uppskrúfuðum tilraunum – og svo diskóinu hins vegar – sem var aftur dauðhreinsað, óspennandi, máttlaust og innihaldslaust.

Punkið heillaði mig, en eiginlega bara tónlistin og viðhorfið til hennar, alls ekki fatatískan og engan veginn ruglingsleg skilaboðin um breytt samfélag. Gott og vel, best að alhæfa ekki, það var langt frá því að öll tónlistin væri góð, stundum voru fötin skemmtileg og auðvitað kom fyrir að eitthvað væri til í skilaboðunum. En miklu oftar var það eiginlega fyrir utan mitt áhugasvið.

Tónlistin var hins vegar einhvers konar afturhvarf til sjöunda áratugarins, ekki endilega að allt hljómaði eins, heldur viðhorfið, tónlist átti að vera einföld, kraftmikil og skemmtileg, flutt af áhuga og ástríðu, en þurfti engan veginn að vera fullkomin í flutningi – kannski betra, en innan ákveðinna marka var það aukaatriði.

Í samanburði við það sem var alls ráðandi á þessum tíma þá kom punkið til sögunnar sem ofsalega „árásargjarnt“, því það var bæði hrátt og hratt og engan veginn dauðhreinsað af mistökum. Það var einfaldlega vegna þess að ráðandi tónlist var komin svo langt út í einhverja undarlegan jaðar að í samanburðinum virkaði þetta sem einkenni. Í framhaldinu urðu þessi einkenni svo einhverra hluta vegna aðaltriðið.. í stað þess að við fengjum meira að skemmtilegri tónlist þá fóru hljómsveitir sem vildu kenna sig við punk að ganga sífelld lengra í að vera harðari og hraðari – en steingleymdu upphaflegri nálgun – eða voru kannski aldrei að skilja.

Ég nefni sem dæmi, af handahófi, Ramones, Clash, Stranglers, Sex Pistols, Jam og Stiff Little Fingers. Ekkert af því sem ég heyri í dag og er kennt við punk, á nokkuð skylt við tónlist þessara hljómsveita.

Best að taka vonda líkingu…

Það má kannski líkja þessu við að mæta í húsnæði sem er illa þrifið og koldrullugt. Einhver nefnir að það megi nú kannski sópa, mæta með sápu og skúra og þrífa – sem er gert. Í framhaldinu er svo farið út fyrir öll mörk í sápu og húsnæðið er óhæft vegna þess að þar flýtur allt í sápu! [kannski ekki svo vond líking!]

Punk (pönk) og ekki pönk

Posted: maí 25, 2014 in Tónlist
Efnisorð:, , , ,

Á fyrstu árum okkar Fræbbbla vorum við ansi mikið skammaðir, þóttum ekki par fínir og ég man eftir nokkuð mörgum tilefnislausum skotum frá fólki sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt.

Þarna er ég ekki að tala um fólk sem hafði engan áhuga á tónlist yfirleitt – og heldur ekki um fólk sem hafði engan áhuga á þeirri gerjun og/eða nálgun sem var í kringum 1980.

Ég er að tala um þá sem fylgdust með, mættu á hljómleika, keyptu plötur og fannst sú breyting frábær sem þarna varð á íslensku tónlistarlífi.

Við vorum einfaldlega ekki nógu „fínir“.

Fyrir það fyrsta þótti ég afskaplega vondur söngvari. Eflaust var eitthvað til í því enda hef mér aldrei dottið í hug að ég væri sérstaklega góður söngvari.. ég var að ekki að þessu vegna þess að ég héldi að ég væri næsti Björgvin Halldórsson eða Kristján Jóhannssonn – eða yfirleitt hefði eitthvað fram að færa sem hefðbundinn söngvari. Eflaust var þetta oft verra en það hefði þurft að vera, einfaldlega vegna þess að við vorum með litlar og lélegar græjur og heyrðum kannski lítið sem ekkert hvað við vorum að gera. Ég vildi hins vegar meina – og vil enn – að enginn annar hefði virkað sem söngvari Fræbbblanna, þeir hefður einfaldlega aldrei orðið neitt líkt því sem þeir voru annars.. og læt svo öðrum að meta hvort það er kostur eða ókostur. Nægilega margir gengu með það í maganum að taka við af mér en Stebbi, Steinþór og Tryggvi og Arnór blésu á allt svoleiðis.

En aðallega þóttum við ekki nógu sannir punkarar („gervipönk“ var frasi sem ég heyrði oft), ekki nógu pólitískir, ekki koma nægilega mikið úr verkalýðsstétt, ekki fylgja fatatískunni nógu vel og lífsstíllinn var ekki eins og gerð vara krafa um.

Mögulegt var að ákveðin lista-elíta (ef ég má nota svo vondan frasa) hafi engan veginn skilið hvað var í gangi, við áttum að vera ný hippakynslóð, hafa okkur eins og hipparnir, fara sem sömu frasana og hipparnir – og hvað sem tautaði og raulaði máttum við alls ekki stuða eða trufla þá sem voru heilagir í listasamfélaginu.

Ég man til að mynda eftir (ekkert sérstaklega diplómatískum) ummælum í Helgarpóstinum rétt fyrir komu The Clash á Listahátíð. Ég sagði eitthvað á þeim nótum að þeir væru sniðugir að græða á Marxistum. Hefði væntanlega betur haldið kjafti, en þetta var þá.. Það var búið að segja okkur að við myndum, ásamt Utangarðsmönnum, spila með Clash. Það var snögglega dregið til baka og látið vita að menn sem létu svona út úr sér ættu ekki heima þarna.

Einhverra hluta vegna voru sömu mælikvarðar ekki settir á aðrar hljómsveitir þessa tíma – sem betur fer – og enginn gerði rellu yfir fatnaði, uppruna, sönghæfileikum eða stjórnmálaskoðunum annarra en okkar. Gott mál.

En það var sérstaklega gaman að hitta Glen Matlock, stofnanda, lagahöfund, upphafsmann og bassaleikara The Sex Pistols í góðu tómi.

 

Ósamræmi í málflutningi

Posted: febrúar 6, 2014 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég á marga góða vini, kunningja, spjallfélaga og þess vegna fólk sem líkar ekkert sérstaklega vel við mig.. sem mér finnst hafa ansi undarlegar og, í rauninni, ósamrýmanlegar skoðanir á tveimur málum.. sem eru í rauninni náskyld.

Þá er ég annars vegar að tala um ólöglega dreifingu á höfundarréttarvörðu efni… sem mörgum finnst í góðu lagi vegna þess að ekki sé hægt að koma í vef fyrir dreifingu – og gefa lítið fyrir það hversu siðferðilega rangt það er að taka efni höfunda og dreifa í leyfisleysi. „það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta“, „fólk verður að aðlaga sig að raunveruleikanum“, „höfundarnir verða svo vinsælir að þeir mega bara þakka fyrir“, summera nokkurn veginn upp flest rökin.

Hins vegar er mjög algengt að þessir sömu einstaklingar bregðist heiftarlega illa við því þegar tölvupóstur og önnur trúnaðar gögn einstaklinga eru tekin ófrjálsri hendi og þeim dreift án leyfis viðkomandi. Þá bregður svo við að engu máli skiptir hversu erfitt er að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu, raunveruleikinn er aukaatriði og ekki skiptir máli hvort eigandi fær mikla athygli. Nú skiptir allt í einu öllu máli að taka siðferðilega afstöðu.

Er alveg nógu gott samræmi í þessu?

Ég hef aðeins verið að hugsa… kannski á svipuðum nótum og stundum áður þegar ég hef heyrt að tónlistarmenn sem ég hef haldið mikið upp á hafi kannski ekki verið neitt sérstaklega aðlaðandi einstaklingar.

Ég fór að velta þessu aftur fyrir mér eftir að ég sá bréf Dylan Farrow um Woody Allen.

Woody Allen hefur gert margar af kvikmyndir sem eiga heima á topp tuttugu listanum mínum. Vissulega á hann líka nokkrar frekar vondar kvikmyndir – og svo allt þar á milli.

Ég hef engar forsendur til að efast um frásögn Dylan, frekar en ég hef forsendur til að efast um svör Allen, ég get auðvitað ekkert fullyrt, en það er ekki punkturinn með þessari færslu… og fyrir alla muni höldum þeirri umræðu annars staðar.

En ég velti fyrir mér hvort myndirnar hans séu minna virði?

Og í framhaldinu, svona almennt séð, geta glæpamenn og drullusokkar búið til listaverk?

Við Fræbbblar tókum þátt í opnunarhátíð Rokkbarsins í Hafnarfirði í gær.

Óska þeim aftur til hamingju með frábært framtak og vona að þetta gangi vel hjá þeim.

Ég missti, því miður, af fyrstu hljómsveitunum, en PungSig voru flottir, eins og áður, mikill kraftur og þétt keyrsla. The Wicked Strangers er líka mjög flott hljómsveit, ég veit ekki hvar ég ætti að staðsetja þá – enda fullkomlega tilgangslaust – mjög þétt, skemmtilegar lagasmíðar og flott sviðsframkoma. Elín Helena er hins vegar hljómsveit sem ég hef ekki séð áður – og komu all hressilega á óvart, einhver sérstæðasta hljómsveit sem ég hef lengi séð. Ótrúlegur kraftur, tveir söngvarar, sem báðum var meira niðri fyrir en Einar Erni á upphafsárum Purrksins.

Umræðan um ólöglega dreifingu og afritun tónlistar dúkkar alltaf öðru hverju upp. Þetta á auðvitað við um sjónvarpsefni, kvikmyndir og hugbúnað, en höldum okkur við tónlistina.

Það er nefnilega alltaf verið að reyna að sannfæra okkur um þetta sé nú ekki svo slæmt. Tónlistarmenn græði nú bara á endanum á að það sé verið að stela frá þeim.

Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hvers vegna heiðarlegt og skynsamt fólk leyfir sér að stela tónlist.

Þetta sama fólk stelur ekki hjóli nágrannans, labbar ekki út í næsta bakarí og grípur næsta kleinuhring eða tekur bók án endurgjalds, ekki einu sinni ljósrit.

En einhverra hluta vegna finnst mörgum allt í lagi að stela tónlist.

Og svo upphefst einhver sjálfsréttlætingarkór með hverja rökleysuna á fætur annarri.

Jú, það er auðvelt að afrita tónlist og nýtt eintak af tölvuskrá kostar (nánast) ekkert. En sömu hundalógík mætti færa yfirfæra á bakarann, „hann hendir hvort sem er svo miklu“ eða „ég skil tíkall eftir fyrir hráefninu“.

Nei, þarna virðir fólk það að framleiðslan kostar vinnu og gerir sér grein fyrir að það væru ekki margir bakarar í bænum ef það væri stolið jafnt grimmt frá þeim og tónlistarmönnum.

Það heyrist heldur ekki „ja, bakarinn verður nú svo vinsæll ef ég stel frá honum að þetta er allt í lagi“.

Ég sé í dag frétt hjá Rúv um rannsókn sem bendi til að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu á tónlist, sjá http://www.scribd.com/doc/131005609/JRC79605

Ef „rannsóknin“ er skoðuð nánar kemur fram að lítið sem ekkert styður þessar fullyrðingar. Meira að segja er tekið skýrt fram að tekjur af sölu tónlistar hafi minnkað verulega („revenues decrease drastically“). Þá kemur fram að hegðun notenda er mjög mismunandi eftir löndum. 

Þeir segjast reyndar ekki finna nein merki þess að ólöglegt niðurhal hafi áhrif á sölu tónlistar, en það gefur ekki leyfi til að álykta að það sé ekki til staðar. Enda er aðferðin sem þeir beita til að gefa sér að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu beinlínis fráleit.

Í rauninni er þetta frekar einfalt.

Það er engin leið að gefa sér að fólk sem sækir tónlist án þess að greiða fyrir myndi ekki kaupa ef ekki væri hægt að sækja hana ólöglega. Það eru fleiri milljónir eða milljónatugir sem sækja sér tónlist ólöglega. Að gefa sér að enginn þeirra myndi í nokkru tilfelli kaupa þá tónlist sem viðkomandi hefur sótt er eiginlega fráleitt.

Að horfa á lækkandi sölutölur á sama tíma og ólöglegt niðurhal fer sívaxandi og halda því fram að engin tengsl séu þarna á milli er galið.

Ef eitthvað er þá fer „neysla“ á afþreyingarefni vaxandi og því ættu tekjur af tónlist að hafa vaxið gríðarlega ef eitthvað er.

Ég geri ekki lítið úr því að netið hefur opnað dyrnar fyrir óteljandi tónlistarmenn. En það er með þeirra vilja og samþykki.

Þá er líka rétt að hafa í huga að sú aðferð að dreifa tónlist á vefnum, td. í gegnum YouTube, hentar ekki öllum tónlistarmönnum og alls ekki allri tegund af tónlist. Mér sýnist (og hef ég engar rannsóknir til að styðja, heldur er þetta órökstudd tilfinning) að tónlist sé sífellt að verða einhæfari og einsleitari.

Jú, og svo enginn misskilningur sé á ferð… ég vil gjarnan sjá breyttar reglur um höfundarrétt og breytt umhverfi. En ekki bulla í mér með forsendurnar…