Posts Tagged ‘ólögleg dreifing’

Umræðan um ólöglega dreifingu og afritun tónlistar dúkkar alltaf öðru hverju upp. Þetta á auðvitað við um sjónvarpsefni, kvikmyndir og hugbúnað, en höldum okkur við tónlistina.

Það er nefnilega alltaf verið að reyna að sannfæra okkur um þetta sé nú ekki svo slæmt. Tónlistarmenn græði nú bara á endanum á að það sé verið að stela frá þeim.

Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hvers vegna heiðarlegt og skynsamt fólk leyfir sér að stela tónlist.

Þetta sama fólk stelur ekki hjóli nágrannans, labbar ekki út í næsta bakarí og grípur næsta kleinuhring eða tekur bók án endurgjalds, ekki einu sinni ljósrit.

En einhverra hluta vegna finnst mörgum allt í lagi að stela tónlist.

Og svo upphefst einhver sjálfsréttlætingarkór með hverja rökleysuna á fætur annarri.

Jú, það er auðvelt að afrita tónlist og nýtt eintak af tölvuskrá kostar (nánast) ekkert. En sömu hundalógík mætti færa yfirfæra á bakarann, „hann hendir hvort sem er svo miklu“ eða „ég skil tíkall eftir fyrir hráefninu“.

Nei, þarna virðir fólk það að framleiðslan kostar vinnu og gerir sér grein fyrir að það væru ekki margir bakarar í bænum ef það væri stolið jafnt grimmt frá þeim og tónlistarmönnum.

Það heyrist heldur ekki „ja, bakarinn verður nú svo vinsæll ef ég stel frá honum að þetta er allt í lagi“.