Archive for the ‘Tónlist’ Category

Halldór Ingi

Posted: júní 11, 2021 in Minningar, Tónlist

Við fengum þær sorgarfréttir um síðustu helgi að gamall félagi, Halldór Ingi Andrésson væri látinn.

Það kunna margir sögu hans betur, en það rifjuðust upp nokkrar góðar minningar.

Hann hafði reyndar skapað sér nafn sem „alvöru“ tónlistargagnrýnandi áður en leiðir okkar lágu saman.

En ég áttaði mig á hversu alvarlega hann tók hlutverkið og hversu áhugasamur hann var þegar hann skrifaði plötudóm um fyrstu plötu okkar Fræbbbla. Það kom ekki bara skemmtilega á óvart hversu jákvæður hann var heldur var skemmtileg nýbreytni að hann tók þessari frumraun okkar af fullkomnu fordómaleysi, fann jákvæðar hliðar og kveikti á tengingum sem fæstir voru að eltast við að skilja. Hann hafði sem sagt hlustað, skilið og sett í samhengi.

Við kynntumst betur og þegar hann var útgáfustjóri Fálkans og sá um útgáfu á annarri stóru plötu okkar. Það var svo sem ekki gefið að taka þá áhættu að gefa út aðra plötu, því sú fyrsta hafði nú ekki selst mikið, þrátt fyrir að vekja nokkra athygli. En hann lagði sig ekki bara allan fram um að við fengjum allt sem til þurfti til að gera góða plötu, hann var alltaf til í að hlusta og gefa góð ráð – en aldrei að taka fram fyrir hendurnar á okkur.

Útkoman fékk nú ekki sömu athygli og er sennilega flestum gleymd, en það var staðið vel að öllu og hún seldist betur en nokkur önnur plata okkar.

Seinna, þegar hann fór að selja plötur, var alltaf ómetanlegt að kíkja við – þó það væri nú óneitanlega allt of sjaldan. En Halldór Ingi var hafsjór af fróðleik um tónlist og það var alltaf gaman að hitta á hann og spjalla.

Önnur seinni tími minning var þegar við hittumst á hljómleikum í Listasafninu, ætli við höfum ekki talað um tónlistarheima og geima megnið af hljómleikunum.

Samúðarkveðjur frá okkur Iðunni til fjölskyldu og vina.

Enski tónlistarmaðurinn Martin Stephenson kemur til landsins í vor og heldur hljómleika á Dillon, sumardaginn fyrsta, 25. apríl.

Við fórum að hlusta á tónlistarmanninn Martin Stephenson í kringum 1990, held að það hafi nú komið ábendingar úr nokkrum áttum, kannski Orri, Kjartan…

Ætli það hafi ekki verið platan Gladsome, Humour & Blue sem varð til þess að við Iðunn féllum fyrir tónlistinni. Boat to Bolivia er fín, báðar gerðar með hljómsveitinni The Daintees. Og svo er fullt af lögum af Sweet Misdemeanour (sem hann gerði með Joe Guillen) stöðugt í spilun hjá okkur. Og svo auðvitað lög af hinum og þessum plötum. Mörg uppáhaldslög, en ætli There Comes A Time (má finna á YouTube: There Comes A Time) sé það sem hvað dettur hvað oftast inn..

Lögin hafa sem sagt stöðugt verið í spilun hjá okkur, ekki síst á ferðalögum.

Fyrir nokkrum árum vorum við á leiðinni á Einifell og Iðunn segir (eitthvað á þessa leið), sennilega undir Nancy, „rosalega á hann mikið af góðum lögum, synd að við skyldum ekki ná að sjá hann áður en hann dó“.. ég hafði ekki heyrt að hann hefði dáið, en ákváðum að ef hann væri nú enn á lífi, þá væri komið á dagskrá að sjá hann á hljómleikum.

Ég fann enga hljómleika í boði og í framhaldinu fór ég að athuga hvort það væri mögulegt að fá hann til Íslands. Jú, jú, það gekk vel og hann var til í að koma og fór ekki fram á mikið. En eftir stutta könnun kom í ljós að það voru ekkert sérstaklega margir sem þekktu tónlistina. Þeir sem þekktu voru allir mjög hrifnir. En bara ekki nógu margir. Það var fljótt ljóst að það yrði einfaldara og ódýrara að fara út og sjá hann spila en að standa í „innflutningi“.

En eitthvað gekk illa að púsla saman að sjá hann við ferðir, fann einfaldlega ekki mikið af hljómleikum. En Siggi sagði okkur síðasta haust frá því að hann væri að halda upp á 30 ára afmæli Gladsome.. og væri að spila víða á Bretlandi. Við stilltum upp smá hópferð til Edinborgar fyrir jólin, en þrátt fyrir nokkurn áhuga í upphafi, kvarnaðist fljótt úr hópnum og við fórum bara fjögur, við Iðunn, Halli Reynis & Steinunn.

Hljómleikarnir stóðu heldur betur undir væntingum og vel það. Emma Flowers spilaði á undan og kom skemmtilega á óvart, fullt af fínum lögum. Svo var platan Gladsome…  spiluð í heilu lagi og nokkur aukalög fylgdu. Það kom kannski mest á óvart hvað hann var að njóta þess að spila, lögin eru nú sum hver svona, hvað-skal-segja, frekar dapurleg og við bjuggumst svona hálft í hvoru við að hann myndi fela sig á bak við hátalarana og renna yfir efnið.

En heldur betur ekki, það kjaftaði á honum hver tuska, og greinilega hvað bæði honum og frábærri hljómsveit, The Daintees, fannst gaman að spila. Með bestu hljómleikum sem við höfum séð.

Við náðum honum aðeins eftir hljómleikana og í framhaldinu kom upp að fá hann til Íslands. Við sögðum að það væru nú kannski ekki nema 30 manns sem myndu mæta, en hann sagði það í góðu lagi, hann myndi glaður spila fyrir 30 manns. Vildi helst fara hring um Ísland.

Eftir smá vangaveltur var ákveðið að hann kæmi einn og spilaði á Dillon. Vonandi gengur nægilega vel til að það verði hægt að fá hljómsveitina, The Daintees, með fljótlega.

Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa tónlistinni. Þegar við vorum komin af hljómleikunum í Edinborg hittum við nokkra Íslendinga og eftir smá spjall, þar sem við sögðum frá því hvar við hefðum verið, spurðu þau hvernig tónlist þetta væri. Ég hafði eiginlega engin svör. Þjóðlagatónlist, reggae… minnir kannski að einhverju leyti á Elvis Costello, en er samt ekkert líkur Costello! Skemmtilegar og óvenjulegar hljómasamsetningar, samt „áreynslulaust“ og frábærar sönglínur.

En, hlakka til að sjá hann á Dillon.

City Hall Martin Best

Fræbbblar í fjörutíu ár

Posted: nóvember 23, 2018 in Tónlist
Efnisorð:

Úff!

Það er víst liðin fjörutíu ár frá því að við Fræbbblar spiluðum í fyrsta skipti, á Myrkramessu Menntaskólans í Kópavogi, 25. nóvember 1978.

Við Stebbi höfðum fylgst með spennandi hreyfingu á tónlist, aðallega á Bretlandi, en eitthvað í Bandaríkjum Norður Ameríku og jafnvel víðar. Vinirnir gáfu nú ekki mikið fyrir þetta og voru mest að hlusta á Genesis, Yes, ELP, Pink Floyd og hvað þær hétu allar…

En svo kom tilefni til að láta heyra í okkur, við vorum ósáttir við skólameistara MK, Ingólf Þorkelsson, fannst hann látið einn félaganna sitja eftir að óþörfu. Þá var um að gera að fá að spila á Myrkramessu skólans og láta meistara heyra hvað okkur fannst.

Við Stebbi vorum sjálfkjörnir, Barði – sem var ósáttur við skólameistara – þurfti nauðsynlega að vera með. Haddi vinur okkar Barða var nauðsynlegur svona tónlistarinnar vegna. Og einhvern veginn kynntumst við Steina, að sama skapi nauðsynlegur á bassa. Stebbi var fljótur að læra á trommur og við Barði skiptum söngnum á milli okkar. Með Steina kynntumst við Assa og Rikka sem aðstoðuðu okkur við græjur og æfingar, Ísberg bræðurnir Árni og Jóhann lánuðu okkur græjur.

Það var nú ekki hlaupið að því að fá að spila. Nefndin sem sá um að halda hátíðina var engan veginn sannfærð um að við ættum erindi á svona hátíð, kannski réttilega, en við áttum einhverja hauka í horni í nefndinni, ma. Kristján Gíslason, sem á rúman hálftíma sem trommari í Klúbbnum.

Það hafðist nú samt að fá að spila og ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að „betri borgurum“ bæjarins hafi brugði nokkuð við djöfulganginn. Skólameistari var nú ekki beinlínis sáttur en við Bjarni, ljósamaðurinn okkar, var ljósamaður á hátíðinni og slökkti ljósin þegar skólameistari hélt sína ræðu!

Ég var svo sem kallaður á fund skólameistara eftir þetta og hann var engan veginn sáttur, en eftirmálar innan skólans urðu svo sem ekki meiri.

Við hittumst auðvitað seinna og vorum sáttir, er nokkuð viss um að hann var eiginlega nokkuð stoltur af því að upphaf punksins á Íslandi hafi verið í MK.

Þetta átti svo sem bara að vera eins dags fyrirbæri, gott ef við spiluðum samt ekki á Myrkramessuballinu um kvöldið.

En þarna voru líka ungir menn að leita að efni í sjónvarpsþætti um félagslíf í menntaskólum landsins, þeir Eiríkur og Jakob. Þeim fannst þetta smellpassa í þættina. Þá var ekki annað í boði en að halda okkur gangandi með spilamennsku þar til kæmi að upptökum. Atriðið var tekið upp í sjónvarpssal í byrjun febrúar (muni ég rétt) 1979, en aldrei sýnt, ég held að ekkert hafi orðið úr gerð þáttanna yfirleitt. Og á endanum var tekið yfir þetta, enda spólur rándýrt hráefni á þessum árum.

Því miður.

Eiríkur og Jakob bera þannig talsverða ábyrgð á að hljómsveitin hélt áfram.

Helgi Briem á einnig nokkra sök á þessu…

Á meðan við vorum að halda okkur gangandi sá hann okkur spila, skrifaði lesandabréf í DV og hrósaði okkur í hástert.

Við áttum sem sagt aðdáanda. Það var næsta afsökun fyrir að halda áfram.

En það var einhver neisti kveiktur og þetta var einfaldlega of gaman til að hætta.

Eflaust hefðu leiðir okkar legið í hljómsveitir hvort sem er, svona á endanum, en sú saga orðið allt öðru vísi.

Ég, Assi og Rikki erum enn meðlimir, Steini er enn með, en svona meira sem vara bassaleikari. Gummi er kominn á trommur, Helgi á bassa og Iðunn hefur sungið með okkur.

Ekki má samt gleyma Tryggva og Steinþóri, sem ásamt okkur Stebba mynduðu kjarnann sem þegar við unnum stóru plöturnar fyrstu árin. Dagný, Óskar, Kiddi, Hjörtur, Ellert, Brynja og Kristín komu öll þó nokkuð við sögu, Ari æfði með okkur og samdi lög en spilaði aldrei, Sigurgrímur æfði en spilaði ekki, Siggi og Snorri komu inn í hljómsveitina á lokametrunum fyrir hlé 1983. Jú og Mikki Pollock spilaði stundum með okkur og samdi lög fyrir okkur. Bjarni var meðlimur 1980 sem ljósamaður og Gunnþór sem rótari.

En, já, úff. Fjörutíu ár.

Við ætlum að halda upp á þetta á Gauknum, laugardagskvöldið 24. nóvember, opið hús, frítt inn, nýr bjór, Bjór! kynntur til sögunnar, einhver dagskrá, en aðallega gamaldags „partý“.

Tómas

Posted: janúar 27, 2018 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:

Það eru sennilega ekki margir sem hafa komið jafn víða við íslenska tónlistarsögu og Tómas Tómasson, bassaleikari. Við þekktumst svo sem ekki mikið og aðrir kunna betur að gera hans sögu skil.

En… Tommi tók, ásamt Georg, upp plötu okkar Fræbbbla, „Dásamleg sönnun um framhaldslíf“ árið 2000 – við tókum upp nokkra hljómleika á Grand Rokk og fórum með efnið í stúdíó og kláruðum. Ekki bara vissi hann nákvæmlega hvað hann var að gera, heldur voru engin vandamál, öllu tekið með jafnaðargeði og húmor.

En einhverra hluta vegna kemur eitt andartak upp í hugann, við vorum að vandræðast með nafn á plötuna, en Tommi var alveg viss, „Gamlir og gramir“.

Einu sinni eða tvisvar forfölluðust hljóðmenn á hljómleikum þegar við vorum að kynna plötuna og það var sjálfsagt að mæta og hjálpa okkur með hljóðið. Í eitt skiptið spiluðu 3G’s (Guðjón sonur okkar og félagar hans) með okkur, og Tommi (og Georg) hrifust af þeim og gáfu þeim tíma í stúdíói… sem þeir nýttu til að taka upp plötu, plötu sem gekk vel í þeirra kynslóð og tveir þeirra hafa fundið sinn flöt í tónlistinni.

En, samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina..

Eitt mesta stemmingslag frá upphafsárum punk-tímabilsins var lagið If The Kids Are United með Sham 69.

Ég man eftir að fara í fyrsta skipti til London haustið 1978 með Hálfdáni, Hákoni og Stebba. Fyrsta lagið sem við heyrðum þegar við kveiktum á útvarpinu á hótelinu okkar, YMCA við enda Oxford Street, var Sunday Morning Nightmare – Stebbi orðaði það eitthvað á þá leið að nú væri heldur betur búið að „hringja til messu“. Frábært lag, en þetta var bara B-hliðin á lítilli plötu – á hinni hliðinni var aðallagið, If The Kids Are United.

Við hlustuðum talsvert á Sham 69, reyndar aðallega litlar plötur, og við Fræbbblar spiluðum lagið Hurry Up Harry á fyrstu mánuðum ferilsins.

Þegar við tókum svo upp á því fyrir nokkrum árum að minnast upphafsára punksins – meðlimir Fræbbblanna og margra annarra hljómsveita sem voru að spila á þessum árum – þá var If The Kids Are United lokalagið (Fivebellies tóku líka Borstal Breakout).

Sham 69 spila á Gauknum næsta föstudagskvöld, 17. nóvember… við Fræbbblar verðum með, líka Leiksvið Fáránleikans og Roð…

Frábært!

Sham69B

Mig langar að beina þessari færslu til tónlistarmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta vegna höfundarréttar.

Ég efast um að margir hafi þrasað eins mikið við Pírata um höfundarréttarmál og ég hef verið að gera síðustu árin.

Samt ætla ég að kjósa Pírata í komandi kosningum.

Að miklu leyti vegna þess að það hefur orðið talsverð hugarfarsbreyting hjá þeim flestum, ef ekki öllum sem eru nálægt því að komast inn. Ný stefna í höfundarréttarmálum er langt frá því að vera gallalaus en hún er mikil framför frá fyrri yfirlýsingum.

En aðallega vegna þess að það er hægt að ræða málin og þau taka upplýsingum og þau taka rökum.

Þá má ekki gleyma að þau standa fyrir mjög mikilvæg málefni, þar sem stjórnarskráin er efst á blaði. Næsta þing á hvort sem er ekki eftir að skipta sköpum í höfundarréttarmálum, en það gæti skipt sköpum í mörgum lykilatriðum.

Nú veit ég ekkert hvort ykkur (sem ég nefndi í upphafi) hugnast yfirleitt að kjósa Pírata í næstu kosningum. En að minnsta kosti ef þetta er eina atriðið sem stóð í veginum, þá er það ekki lengur tilefni til að neita að kjósa Pírata. [nei, ekki heldur hallærislegt nafn, eða sagan á bak við það]

Punk eða ekki punk

Posted: júlí 31, 2016 in Spjall, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég kíkti nýlega á upphitun fyrir punk hátíð.

Eins og svo oft áður þegar ég kíki á hljómsveitir sem kenna sig við punk þá fannst mér eiginlega ekkert rosalega gaman.

Jú, mikill kraftur, ekki vantaði hraðann, rosalega vel æft og spilamennskan var þétt og fumlaus. En… mér fannst bara samt ekkert gaman. Og mér finnst þetta eiginlega rauður þráður í því að mæta og hlusta á punk hljómsveitir. Nei, kannski ekki, það er fullt af skemmtilegum undantekningum – en allt of oft.

Ég hlustaði á tónlist sjöunda áratugarins þegar ég var krakki, aðallega voru það eldri systkini mín sem „fóðruðu“ mig á tónlist. Síðan kom ákveðinn öldudalur, að mér fannst, með svokölluðu „prog-rokki“ annars vegar – sem fyrir mér var uppfullt af tilgangslausum flækjum, sýndarmennsku og uppskrúfuðum tilraunum – og svo diskóinu hins vegar – sem var aftur dauðhreinsað, óspennandi, máttlaust og innihaldslaust.

Punkið heillaði mig, en eiginlega bara tónlistin og viðhorfið til hennar, alls ekki fatatískan og engan veginn ruglingsleg skilaboðin um breytt samfélag. Gott og vel, best að alhæfa ekki, það var langt frá því að öll tónlistin væri góð, stundum voru fötin skemmtileg og auðvitað kom fyrir að eitthvað væri til í skilaboðunum. En miklu oftar var það eiginlega fyrir utan mitt áhugasvið.

Tónlistin var hins vegar einhvers konar afturhvarf til sjöunda áratugarins, ekki endilega að allt hljómaði eins, heldur viðhorfið, tónlist átti að vera einföld, kraftmikil og skemmtileg, flutt af áhuga og ástríðu, en þurfti engan veginn að vera fullkomin í flutningi – kannski betra, en innan ákveðinna marka var það aukaatriði.

Í samanburði við það sem var alls ráðandi á þessum tíma þá kom punkið til sögunnar sem ofsalega „árásargjarnt“, því það var bæði hrátt og hratt og engan veginn dauðhreinsað af mistökum. Það var einfaldlega vegna þess að ráðandi tónlist var komin svo langt út í einhverja undarlegan jaðar að í samanburðinum virkaði þetta sem einkenni. Í framhaldinu urðu þessi einkenni svo einhverra hluta vegna aðaltriðið.. í stað þess að við fengjum meira að skemmtilegri tónlist þá fóru hljómsveitir sem vildu kenna sig við punk að ganga sífelld lengra í að vera harðari og hraðari – en steingleymdu upphaflegri nálgun – eða voru kannski aldrei að skilja.

Ég nefni sem dæmi, af handahófi, Ramones, Clash, Stranglers, Sex Pistols, Jam og Stiff Little Fingers. Ekkert af því sem ég heyri í dag og er kennt við punk, á nokkuð skylt við tónlist þessara hljómsveita.

Best að taka vonda líkingu…

Það má kannski líkja þessu við að mæta í húsnæði sem er illa þrifið og koldrullugt. Einhver nefnir að það megi nú kannski sópa, mæta með sápu og skúra og þrífa – sem er gert. Í framhaldinu er svo farið út fyrir öll mörk í sápu og húsnæðið er óhæft vegna þess að þar flýtur allt í sápu! [kannski ekki svo vond líking!]

Ég er löngu búinn að fá mig fullsaddan af kjaftæðinu um að það sé allt í lagi að stela tónlist, tónlistarmenn eigi bara að sætta sig við að öllum finnist í lagi hirða það sem þeir framleiða, þeir verða svo voðalega frægir af þessu að þeir geta bara sætt sig við að fá ekki krónu fyrir sinn snúð.

Það er rétt að tæknilega er erfitt að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal. Siðferðilega er þetta hins vegar ekki svo flókið, eiginlega sáraeinfalt. Það sem verra er, fólk sem telur sig boðbera réttlætis og siðferðis hefur hæst þegar kemur að því að hunsa siðferðið þegar kemur að tónlist.

Ein rök fyrir að stela tónlist hafa verið þau að tekjurnar hafi gegnum tíðina farið til einhvers konar „afætna“ í tónlistarheiminum – þeas. útgefenda og þeirra sem hafa keypt höfundarrétt. Það eru (stundum réttilega) tekin dæmi um að tónlistarmenn hafi verið hlunnfarnir. En þetta er mikil einföldun, útgefendur sinntu oft þörfu hlutverki, þetta var einfaldlega sérhæfð vinna, oft veðjuðu þeir á óþekkta listamenn sem annars hefðu aldrei náð athygli en náðu að lifa af tónlistinni. Og það gleymist líka að oftar en ekki veðjuðu útgefendur á tónlistarmenn sem engu skiluðu – og töpuðu.

En útgefendur voru ljótu-kallarnir og allt í lagi að stela tónlist þess vegna, að minnsta kosta ef marka má málflutningi þeirra sem verja þjófnaðinn.

Svo eru komnar veitur sem lifa af því að leyfa neytendum að streyma tónlist og jafnvel kaupa rafrænt. Í sjálfu sér ekki slæmt, en greiðslurnar eru út úr korti (kannski ekki heppilegt að tala um „kort“). Það sem verra er, það er ekki lengur svo sjálfgefið að setja tónlist í sölu.. það hafa sprottið upp alls kyns þjónustufyrirtæki til að hjálpa tónlistarmönnum að gefa tónlistina eða selja fyrir smáaura. Þeirra þjónusta kostar auðvitað sitt. Og hverjir borga?

Nú eru það ekki mín orð að kalla þetta „afætur“. Þvert á móti. Þetta er einfaldlega fólk / fyrirtæki sem leggur fram þjónustu og vinnur vinnu sem eftirspurn er eftir. Eins og útgefendur gerðu hér áður fyrr. Sumir gera þetta af hugsjón, eins og sumir útgefendur gerðu hér áður fyrr.. aðrir þurfa að lifa af vinnunni sinni, eins og (já, einmitt).

En þeir sem hafa notað afæturökin og halda að við búum í Doddabókunum í dag, þar sem tónlistarmenn lifa á loftinu og enginn annar fái tekjur af tónlistinni – þeir eru eiginlega mát.

Fræbbblar, næsta plata

Posted: mars 12, 2016 in Tónlist
Efnisorð:

Við Fræbbblar gáfum út plötuna „Í hnotskurn“ í fyrra. Platan fékk afbragðs umsagnir, einhverja spilun í stuttan tíma á Rás2, aðrar útvarpsstöðvar voru ekki heima, streymið alveg þokkalegt en plötusala hverfandi. Okkur grunaði það svo sem fyrirfram og ekki höfðum við gert ráð fyrir að geta hætt í vinnunni.

Við spiluðum nokkrum sinnum til að kynna plötuna, á Akureyri, tvisvar í Hafnarfirði, á Bifröst og að lokum í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að það hafi tekist nokkuð vel til, kannski skemmtilegast að sjá ánægða óvænta gesti.. ungt fólk, innlent sem erlent, sem datt inn fyrir tilviljun.

Þannig að við erum að loka þessum kafla á ferlinum. Einhver laganna af plötunni lifa eflaust áfram en önnur detta „í salt“. Sama gildir um megnið af lögunum sem við höfðum æft upp fyrir „punk“ kvöldin, þeas. annarra manna efni frá árdögum „punksins“, við leggjum þau til hliðar.

Og næsta verkefni er löngu tímabært.. Sem er að fara að semja nýtt efni, efni á næstu plötu. Á meðan gamla efnið var óafgreitt þá var einhverra hluta vegna vonlaust að vera að bæta við safnið, ég kom mér amk. ekki að verki.

En það er fullt af hugmyndum og ég get ekki beðið eftir að fara að vinna úr þeim.

Þetta þýðir auðvitað minni spilamennsku næstu mánuði – en það gerir svo sem ekki mikið til, það er ekki eins og við höfum verið að spila mjög reglulega. Við getum auðvitað mætt ef sérstakt tilefni er til og við myndum eins og alltaf taka jákvætt í að vera með í að styrkja góð málefni. En við látum stærri hljómleika og eigin hljómleika liggja á milli hluta.

Þá tekur Arnór, gítarleikari, sér frí seinni hluta ársins.. flytur til Noregs í allt of marga mánuði.

Steini, sem hefur verið svona annar bassaleikari, ætlar líka að segja þetta gott í bili.. líklega kemur Ellert, sem var með okkur til 2000, til með að taka það hlutverk.

 

Plötuútgáfa

Posted: janúar 4, 2016 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:, , ,

Upptaka og útgáfa nýrrar Fræbbblaplötu tók góðan hluta af seinni hluta ársins 2015 hjá okkur. Eftir að hafa verið að basla við upptökur í nokkur ár og látið eitt og eitt lag „leka“ í útgáfu þá ákváðum við að fara í gott stúdíó með topp hljóðmanni og gera loka tilraun til að taka upp. Fyrir valinu varð Sýrland og Sveinn Kjartansson, topp aðstaða, topp maður og átti lausan tíma sem okkur hentaði.

Við vildum hafa plötuna „lifandi“ að mestu leyti, ekki dauðhreinsaða, en láta samt ekki slæm mistök fylgja, mistök sem hreinlega skemma fyrir lögum. Grunnar og gítarar runnu inn á nokkrum klukkutímum. Ríkharður, gítarleikari, tók svo að sér að for-hljóðblanda, spila inn nokkra aukagítara og taka upp söng í eigin stúdíói. Hann notaði óhemju tíma í að fá réttan hljóm í hvert lag og að lokum fórum við aftur til Sveins í Sýrland til að ganga frá.

Það gekk hratt og vel, mikilvægt að fá fersk eyru, góðar ábendingar og fullkomnari tækni. Við Rikki sátum yfir þessum frágangi með Sveini og tókst að klára í 2-3 atrennum.

Eftir miklar vangaveltur og hátt á annað hundrað tillögur varð nafnið „Í hnotskurn“ fyrir valinu.

Okkur grunaði að ekki væri nægileg eftirspurn eftir vinyl en ákváðum að framleiða nokkur eintök af geisladiskum. Við áttum ekki von á sérstaklega mikilli eftirspurn og fórum þá leið að hanna umslag sjálf, Iðunn teiknaði mynd og ég hannaði að öðru leyti. Leturprent prentaði vasa fyrir diskana og Sýrland sá um að skrifa diska.

Það var svo ánægjulegt að platan fékk strax stórfínar móttökur, nánast allar umsagnir um plötuna voru frá því að vera mjög jákvæðar upp í hæstu hæðir, „ein af plötum ársins“, „plata ársins“, „framúrskarandi“, „skemmtilegasta plata Fræbbblanna“, „besta plata Fræbbblanna frá ‘Viltu nammi væna?'“ svo ég nefni nú eitthvað.

Rás 2 var svo aftur eina útvarpsstöðin sem gaf plötunni tækifæri, enda hafa Óli Palli og félagar alltaf stutt vel við íslenska tónlist. „Í hnotskurn“ var plata vikunnar og var kynnt vel og vandlega þá viku, eitt lag datt inn á vinsældalista í 2 vikur og Óli Palli bauð okkur að spila í beinni á föstudegi. En þar við sat og hún datt strax úr spilun.

Við buðum dagblöðunum (og hálf-dagblöðum) eintök, enginn þáði og enginn fjallaði um plötuna (mér vitanlega). En Halldór Ingi og Arnar Eggert voru báðir mjög jákvæðir á vefsíðum sínum eins og Grapevine – og gott ef greinar Halldórs Inga birtast ekki líka í tímaritum sem fylgja flugi.

Kannski þurftum við að vera duglegri að koma okkur á framfæri, en gerð plötunnar hafði tekið toll í vinnu og sem áhugamál var á mörkunum að það væri réttlætanlegt að leggja meiri vinnu (og þess vegna kostnað) í kynningu sem óvíst var að myndi skila nokkru. Það litla sem við reyndum nú samt til að koma okkur á framfæri var pent afþakkað og ekki beinlínis hvatning til að reyna meira.

Halldór Ingi valdi hana bestu plötu ársins, hjá Dr. Gunna var hún í fimmta sæti og hún sást á nokkrum öðrum samantektum þó ekki eins hátt skrifuð – og auðvitað gæti ég hafa misst af einhverju.

Nú fórum við af stað vitandi það að þetta myndi aldrei standa undir sér fjárhagslega, vorum sátt við að borga með okkur og vildum einfaldlega gera góða plötu. Fólk eyðir væntanlega öðru eins í áhugamál eins og að gera eina svona plötu á nokkurra ára fresti. Ætli beinn útlagður kostnaður hafi ekki verið um 600.000, kannski er rangt að reikna okkur laun fyrir vinnuna, en á lágmarkstaxta hefðu þau laun varla verið undir 400.000 – og eitthvað meira ef við hefðum verið á okkar launum.

Við þurftum að gefa nokkuð af eintökum en ætli plötusala skili ekki í kringum 100.000 á endanum, sennilega eitthvað minna. Tónlistarveitur hafa skilað 66 krónum!

Auðvitað hefði verið gaman að fleiri gæfu henni tækifæri. Ég er enn sannfærður um að mikill fjöldi fólks hefði haft mjög gaman af þessu efni, ef það hefði einfaldlega vitað af plötunni og gefið henni tækifæri. Einhver sagði við mig að þetta væri sú plata ársins sem fæstir vissu af sem myndu hafa gaman af (eða eitthvað í þá áttina). Mögulega er „punk“ stimpillinn að fæla einhverja frá, mögulega hefur fólk enga trú á að við getum enn gert góða plötu en líklega eru hreinlega of fáir sem vita af henni.

Þannig hefði verið gaman að fá þau skilaboð í verki að einhverjir vildu fá aðra plötu frá okkur. En við skiluðum verki sem erum stolt af, verki við höfðum gaman af að vinna. Og við vissum fullvel að við myndum seint fá upp í kostnað.

Á hinn bóginn hef ég verulegar áhyggjur af framtíð tónlistar og þykist sjá þróun sem er varhugaverð, þó hún birtist okkur í mýflugumynd. Jú, ég veit að allir eiga að vera voðalega þakklátir fyrir að vera voðalega vinsælir þegar tónlistinni þeirra er dreift og stolið án þess að þeir fái túkall fyrir viðvikið. En þetta er grundvallar misskilningur, það eru bara örfáir sem ná í gegn á þeim forsendum, fjölbreytnin fer smátt og smátt hverfandi og flestir virðast elta sömu kerruna. Við getum leyft okkur að gefa út og tapa á því, en mér finnst sorglegt að hugsa til þess að ungt og efnilegt tónlistarfólk geti ekki lifað af því að semja og gefa út tónlist.