Posts Tagged ‘Punk’

Punk eða ekki punk

Posted: júlí 31, 2016 in Spjall, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég kíkti nýlega á upphitun fyrir punk hátíð.

Eins og svo oft áður þegar ég kíki á hljómsveitir sem kenna sig við punk þá fannst mér eiginlega ekkert rosalega gaman.

Jú, mikill kraftur, ekki vantaði hraðann, rosalega vel æft og spilamennskan var þétt og fumlaus. En… mér fannst bara samt ekkert gaman. Og mér finnst þetta eiginlega rauður þráður í því að mæta og hlusta á punk hljómsveitir. Nei, kannski ekki, það er fullt af skemmtilegum undantekningum – en allt of oft.

Ég hlustaði á tónlist sjöunda áratugarins þegar ég var krakki, aðallega voru það eldri systkini mín sem „fóðruðu“ mig á tónlist. Síðan kom ákveðinn öldudalur, að mér fannst, með svokölluðu „prog-rokki“ annars vegar – sem fyrir mér var uppfullt af tilgangslausum flækjum, sýndarmennsku og uppskrúfuðum tilraunum – og svo diskóinu hins vegar – sem var aftur dauðhreinsað, óspennandi, máttlaust og innihaldslaust.

Punkið heillaði mig, en eiginlega bara tónlistin og viðhorfið til hennar, alls ekki fatatískan og engan veginn ruglingsleg skilaboðin um breytt samfélag. Gott og vel, best að alhæfa ekki, það var langt frá því að öll tónlistin væri góð, stundum voru fötin skemmtileg og auðvitað kom fyrir að eitthvað væri til í skilaboðunum. En miklu oftar var það eiginlega fyrir utan mitt áhugasvið.

Tónlistin var hins vegar einhvers konar afturhvarf til sjöunda áratugarins, ekki endilega að allt hljómaði eins, heldur viðhorfið, tónlist átti að vera einföld, kraftmikil og skemmtileg, flutt af áhuga og ástríðu, en þurfti engan veginn að vera fullkomin í flutningi – kannski betra, en innan ákveðinna marka var það aukaatriði.

Í samanburði við það sem var alls ráðandi á þessum tíma þá kom punkið til sögunnar sem ofsalega „árásargjarnt“, því það var bæði hrátt og hratt og engan veginn dauðhreinsað af mistökum. Það var einfaldlega vegna þess að ráðandi tónlist var komin svo langt út í einhverja undarlegan jaðar að í samanburðinum virkaði þetta sem einkenni. Í framhaldinu urðu þessi einkenni svo einhverra hluta vegna aðaltriðið.. í stað þess að við fengjum meira að skemmtilegri tónlist þá fóru hljómsveitir sem vildu kenna sig við punk að ganga sífelld lengra í að vera harðari og hraðari – en steingleymdu upphaflegri nálgun – eða voru kannski aldrei að skilja.

Ég nefni sem dæmi, af handahófi, Ramones, Clash, Stranglers, Sex Pistols, Jam og Stiff Little Fingers. Ekkert af því sem ég heyri í dag og er kennt við punk, á nokkuð skylt við tónlist þessara hljómsveita.

Best að taka vonda líkingu…

Það má kannski líkja þessu við að mæta í húsnæði sem er illa þrifið og koldrullugt. Einhver nefnir að það megi nú kannski sópa, mæta með sápu og skúra og þrífa – sem er gert. Í framhaldinu er svo farið út fyrir öll mörk í sápu og húsnæðið er óhæft vegna þess að þar flýtur allt í sápu! [kannski ekki svo vond líking!]

Punk (pönk) og ekki pönk

Posted: maí 25, 2014 in Tónlist
Efnisorð:, , , ,

Á fyrstu árum okkar Fræbbbla vorum við ansi mikið skammaðir, þóttum ekki par fínir og ég man eftir nokkuð mörgum tilefnislausum skotum frá fólki sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt.

Þarna er ég ekki að tala um fólk sem hafði engan áhuga á tónlist yfirleitt – og heldur ekki um fólk sem hafði engan áhuga á þeirri gerjun og/eða nálgun sem var í kringum 1980.

Ég er að tala um þá sem fylgdust með, mættu á hljómleika, keyptu plötur og fannst sú breyting frábær sem þarna varð á íslensku tónlistarlífi.

Við vorum einfaldlega ekki nógu „fínir“.

Fyrir það fyrsta þótti ég afskaplega vondur söngvari. Eflaust var eitthvað til í því enda hef mér aldrei dottið í hug að ég væri sérstaklega góður söngvari.. ég var að ekki að þessu vegna þess að ég héldi að ég væri næsti Björgvin Halldórsson eða Kristján Jóhannssonn – eða yfirleitt hefði eitthvað fram að færa sem hefðbundinn söngvari. Eflaust var þetta oft verra en það hefði þurft að vera, einfaldlega vegna þess að við vorum með litlar og lélegar græjur og heyrðum kannski lítið sem ekkert hvað við vorum að gera. Ég vildi hins vegar meina – og vil enn – að enginn annar hefði virkað sem söngvari Fræbbblanna, þeir hefður einfaldlega aldrei orðið neitt líkt því sem þeir voru annars.. og læt svo öðrum að meta hvort það er kostur eða ókostur. Nægilega margir gengu með það í maganum að taka við af mér en Stebbi, Steinþór og Tryggvi og Arnór blésu á allt svoleiðis.

En aðallega þóttum við ekki nógu sannir punkarar („gervipönk“ var frasi sem ég heyrði oft), ekki nógu pólitískir, ekki koma nægilega mikið úr verkalýðsstétt, ekki fylgja fatatískunni nógu vel og lífsstíllinn var ekki eins og gerð vara krafa um.

Mögulegt var að ákveðin lista-elíta (ef ég má nota svo vondan frasa) hafi engan veginn skilið hvað var í gangi, við áttum að vera ný hippakynslóð, hafa okkur eins og hipparnir, fara sem sömu frasana og hipparnir – og hvað sem tautaði og raulaði máttum við alls ekki stuða eða trufla þá sem voru heilagir í listasamfélaginu.

Ég man til að mynda eftir (ekkert sérstaklega diplómatískum) ummælum í Helgarpóstinum rétt fyrir komu The Clash á Listahátíð. Ég sagði eitthvað á þeim nótum að þeir væru sniðugir að græða á Marxistum. Hefði væntanlega betur haldið kjafti, en þetta var þá.. Það var búið að segja okkur að við myndum, ásamt Utangarðsmönnum, spila með Clash. Það var snögglega dregið til baka og látið vita að menn sem létu svona út úr sér ættu ekki heima þarna.

Einhverra hluta vegna voru sömu mælikvarðar ekki settir á aðrar hljómsveitir þessa tíma – sem betur fer – og enginn gerði rellu yfir fatnaði, uppruna, sönghæfileikum eða stjórnmálaskoðunum annarra en okkar. Gott mál.

En það var sérstaklega gaman að hitta Glen Matlock, stofnanda, lagahöfund, upphafsmann og bassaleikara The Sex Pistols í góðu tómi.

 

Að „pönkast“ í einhverjum…

Posted: september 19, 2012 in Spjall
Efnisorð:,

Ég er alltaf jafn áttavilltur þegar ég heyri fólk tala um að „pönkast“ í einhverjum. Fyrir mér væri þetta spila skemmtilega rokktónlist fyrir viðkomand. Sem er auðvitað mjög jákvætt.

En einhverra hluta vegna virðist þetta vera farið að hafa merkinguna að ónáða einhvern stöðugt og gera honum lífið leitt.

Kannski er þetta komið frá einhverjum sem hefur misheyrt að „bögga“ einhvern.